Útreiknuð áhætta?

"Calculated risk" eða "útreiknuð áhætta" er þekkt hugtak. Þegar stokkið er í fallhlíf er tekin útreiknuð áhætta. Allt flug byggist á útreiknaðri áhættu, raunar allt líf sérhvers manns. p1011348_979433.jpgp1011366.jpgp1011367_979427.jpg

Kenna ætti öllum börnum á grunnskólaaldri um útreiknaða áhættu og ýmsar niðurstöðu slíkra útreikninga. 

Þá myndu þau sjá að með því að byrja á að drekka áfengi eða reykja sígarettur tækju þau margfalt meiri áhættu en ef þau lærðu fallhlífarsökk og stykkju í fallhlíf.

Raunar ætti að skylda alla til að stökkva í fallhlíf einu sinni á ævinni til þess að læra þetta áþreifanlega og efla hugrekki til að gera það sem sýnist vera ógnarleg áhætta en er það ekki.

Þegar gaus í Skjólkvíum við Heklu sumarið 1970 voru engin boð eða bönn varðandi umferð gangandi fólks um svæðið og ekki er mér kunnugt um að alvarleg óhöpp yrðu.

Áreiðanlega brenndu sig einhverjir en báru harm sinn í hljóði. 

Tugir fólks muna áreiðanlega enn þegar Lúðvík heitinn Karlsson hljóp á neðri hluta bikini einum klæða berfættur á sandölum yfir glóandi hraunjaðarinn svo að sólarnir brenndust án þess að honum yrði meint af. 

Engum öðrum datt í hug að taka svona mikla og augljósa áhættu.

Þegar ég stóð kornungur á hæstu brún Látrabjargs naut ég þess að hafa unnið í meira en ár við það að ganga eftir steypumótum 12 hæða blokkar að Austurbrún 2 sem var í byggingu og leggja steypujárn ofan í mótin.

Sem járnamaður í þessari háu blokk vann ég bug á hræðilegri lofthræðslu sem hafði hrjáð mig fram að því.

Ekki mátti skeika nema nokkrum sentimetrum þegar gengið var svona eftir mótunum og athyglin varð að vera 100%. Brún mótanna, sem gengið var á, var aðeins tomma á breidd. 

Á hornum hússins þurfti að klofa yfir bil, þar sem maður horfði þráðbeint niður eftir húshorninu og engin fyrirstaða var ef maður steig óvart út fyrir. 

Á Látrabjargi flaug mér í hug að standa á brún þess, snúa mér í hálfhring og skíta fram af bjarginu. Gæti verið gaman að sjá morgunverðinn falla 450 metra lóðrétt fall niður í sjó.  

Þetta gerði ég en hefði ekki látið mér dettta í hug að gera það aðeins nokkrum árum seinna þegar ég hafði öðlast meiri lífsreynslu og vitkast eitthvað. 

Steingrímur Hermannsson heitinn sagði mér frá því að sem ungur maður hefði hann prófað að standa á hamrabrún Drangeyjar, snúa baki í hengiflugið og láta hælana standa út af brúninni. 

Hann sagði að síðar á ævinni hefði honum ekki látið sér detta í hug að gera þetta. 

Eldgleypar gleypa elda. Margir þeirra hafa áreiðanlega brennt sig einhvern tíma. Slæmt "fordæmi"? 

Vafalaust. Samt er þetta ekki bannað. 

Í 3ja bekk í Gaggó æfði ég mig í því að velta rakvélablöðum uppi í munni mér á alla kanta, bekkjarsystkinum mínum til mikillar skelfingar. 

"Slæmt fordæmi"? Já, og varla að maður þori að segja barnabörnum sínum frá þessu nema þá til þess að segja þeim, að þau þurfi ekki að sanna eitt eða neitt í þessu efni, afi hafi gert það þegar hann var ungur og vitlaus. 

Mér fannst það fráleitt nokkrum árum síðar að hafa tekið þessa áhættu og vissi þó, að kúnstin við að handleika beitta egg rakvélablaðanna fólst í því að ótrúlega miklum þrýstingi mátti beita með beru holdi á eggina, ef það hreyfðist ekki svo mikið sem brot úr millimetra á egginni. 

Þegar byrjað var að keppa í ralli á Íslandi töldu margir það forkastanlegt að taka slíka áhættu og sýna "slæmt fordæmi." 

Þegar við bræðurnir Jón og ég kepptum í heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1981 tókst okkur að komast yfir tölurnar um hina útreiknuðu áhættu sem tekin væri í ralli. 

Yfirfærðar á Ísland samsvaraði það í mesta lagi einu dauðsfalli að meðaltali á öld. 

Það var minni hlutfallsleg áhætta hvað snerti slysatíðni en í flestum öðrum íþróttagreinum.

Á að banna skíðastökk af því að það er "slæmt fordæmi"?   

Brennt barn forðast eldinn. Með árunum lærðist manni að það þarf ekki að sannreyna allar athafnir þótt þær séu mögulegir. 

Ég sé ekki ástæðu til að óttast að fólk taki upp á því í hrönnum að aka upp á glóandi hraun.

Þótt Top gear mennirnir hafi gert það þurfa ekki allir að sannreyna það líka. 

Fyrir rúmum áratug varð mikill hvellur vegna þess að nokkrir íslenskir flugmenn lentu landflugvélum á vatni í snertilendingum. Þeim tókst að sanna fyrir rétti með hjálp sérfræðings frá NASA að útreiknuð áhætta við þetta væri innan viðunanlegra marka. 

Sjálfum fannst mér óþarfi að sanna þetta persónulega á flugvélinni minni, - þótt aðrir kæmust að annarri niðurstöðu hvað þeirra flugvélar snerti. 

Niðurstaða: Engin leið er með ítrustu forsjárhyggju að koma í veg fyrir að fólk taki upp á einhverju óskynsamlega hættulegu.

Umræða í anda hinnar útreiknuðu áhættu er eina leiðin til að komast að skynsamlegri og viðunandi niðurstöðu nema í ljós komi að útreikningarnir sýni óyggjandi að viðkomandi athafnir valdi tjóni. Þá verður að grípa til boða og banna. 

 

 

 


mbl.is Top Gear ók upp á heitt hraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alli

"hljóp á neðri hluta bikini einum klæða"

Er þetta ekki það sem almennt er kallað sundskýla, Ómar?

Alli, 8.4.2010 kl. 10:42

2 Smámynd: Ævar Einarsson

Ætli að það sé til einhver rannsókn sem sanni að það leiði til meiri skaða hlutfallslega að taka fyrsta áfengissopann eða reykja fyrstu sígarettuna,  en að stökkva í fallhlíf?

(1000 fyrstu smókar á móti 1000 fyrstu fallhlífastökkum, og hvað það svo leiði af sér seinna í lífinu.)

Ég tek það fram að ég reyki ekki.... og stekk ekki í fallhlif heldur

Ævar Einarsson, 8.4.2010 kl. 10:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í fjandi miklu fuglagargi,
fimur Ómar skeit,
laglega þar af Látrabjargi,
lortur féll í beit.

Þorsteinn Briem, 8.4.2010 kl. 10:47

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Auðvita voru menn ekki að leggja sig í hættu svo nokkru nemur.

Þetta er snilldar auglýsing hjá Arctic Trucks.

ps á bloggi mínu er að finna þátt sem tekinn var upp 1994 og sýndir um allan heim árið 1995. Jeremy Clarkson er það í hlutverki kynnis.

Birgir Þór Bragason, 8.4.2010 kl. 10:48

5 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

nema þá að Ómar hafi verið í efri hlutanum - soddan "hetja" grín

Jón Snæbjörnsson, 8.4.2010 kl. 10:49

6 identicon

Fólki á að vera frjálst að leggja sig í þá hættu sem fólk telur sig vilja leggja sig í.  Svo lengi sem fólk hefur forráð yfir sér sjálft og er tilbúið til þess.

Í bandaríkjunum þegar rýma á hús vegna hættu þá þakkar fólk fyrir aðvörunina og drífur sig út.  Þeir sem ekki vilja rýma og vilja halda kyrru fyrir heima hjá sér hafa fullkomið frelsi til þess að gera svo.

Hérna heima þá er öllum skipað að rýma jökul útaf heimsinseðlilegasta hlut ?  þeas að heilt fjall hafi hlaðist ofan á gatið sem hraunið kemur uppum þannig að hraunið opnaði nýja og auðveldari leið.  Hver var hættan sem fólst í því sem var umfram hættuna sem fyrir var og hver er röksemdafærslan fyrir því að rýma þurfti heilan jökul ?

Þetta er frelsissvipting og færræðishyggja af verstu sort.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 12:20

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var ein af hinum óborganlegu sögum Lúðvíks Karlssonar á bak við það að hann var í raun á "neðri hluta bikini" og sandölum einum klæða þegar hann hljóp eftir glóandi hrauninu fyrir neðan Skjólkvíar.

Hann sagði okkur að áður en hann kom austur hefði hann hafa verið tekinn í bólinu hjá konu kokkálaðs eiginmanns og aðeins getað gripið neðri hluta bikinis í eigu konunnar til að skýla nek sinni þegar hann forðaði sér út um glugga á húsinu í miðborginni þar sem þetta átti að hafa átt sér stað. 

Ómar Ragnarsson, 8.4.2010 kl. 12:38

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

VIII. kafli. Valdheimildir á hættustundu.

23. gr. Almenn fyrirmæli á hættustundu.

Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk.

Fyrirmælum þessum er öllum skylt að hlíta."

Lög um almannavarnir nr. 82/2008

Þorsteinn Briem, 8.4.2010 kl. 12:54

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frumvarp sem varð að Lögum um almannavarnir nr. 82/2008 var lagt fram af þáverandi dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni.

Þorsteinn Briem, 8.4.2010 kl. 13:05

10 identicon

Steini, ég held að enginn hérna hafi dregið það í efa að lagalegar heimildir væru fyrir þessu.

Það sem málist snýst um er að þetta eru ekki góð lög að því leiti að þau skerða frelsi fólks.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 13:52

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Arnar Geir. Sendu Birni Bjarnasyni bara tölvupóst og segðu honum að hann sé kommúnisti sem skerði frelsi fólks að óþörfu.

Þorsteinn Briem, 8.4.2010 kl. 14:03

12 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

en Steini. þessar heimildir sem lagaklausan gefur lögreglustjóra byggja á einni grunnforsendu. „hættustundu.“

reyndar veit ég ekki hina lagalegu skilgreiningu á hugtakinu „hættustund,“ en held að allir geti verið sammála um að nú er engin hættustund. kannski þarna sé hættuslóð, en hættustundin er engin.

Brjánn Guðjónsson, 8.4.2010 kl. 14:18

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Brjánn.

Í kringum eldgosið er hættusvæði og hættuástand og lögreglan getur skilgreint hversu stórt hættusvæðið er.

Stund - tími, tímabil. Ástand - staða. (Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.)

Frá því hættuástand hefst þar til því lýkur (í þessu tilfelli eldgosinu) er þá hættustundin.

Þorsteinn Briem, 8.4.2010 kl. 15:36

14 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég vil benda ykkur á að fara inn á bloggið hjá Birgi Þór Bragasyni og skoða myndbandið, það er hrein snilld. Toppurinn er þó þegar Clarkson hittir Ómar við Litlu kaffistofuna.

Gunnar Heiðarsson, 8.4.2010 kl. 16:13

15 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Góð færsla, Ómar!

Ólafur Þórðarson, 8.4.2010 kl. 17:53

16 Smámynd: Einar Karl

Er nú ekki hrifinn af svona utanvegaakstri. Eins gott að 'Top Gear' menn voru ekki komnir með bílpróf þegar Surtsey reis úr hafi...

Einar Karl, 8.4.2010 kl. 21:38

17 Smámynd: Lárus Baldursson

Tölfræðileg áhætta þegar ég var 12 eða 13 ára þá var ég heima hjá frænda mínum í Asparfellinu í Breiðholtinu og við fórum upp á þak með kúluvarpara kúlu og létum hana falla niður í anddyrið á einni blokkinni, HVAÐ EF! ég fæ hroll enn í dag við tilhugsunina um þennan verknað.

Lárus Baldursson, 8.4.2010 kl. 22:56

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt of lengi hefur verið gefið veiðileyfi á íslensk hraun og jarðmyndanir, - að umturna þeim að vild.

Ósnortin hraun eins og hraun hinna einstæðu Kröfluelda eru ómetanlegar náttúrugersemar, sem ómögulegt er að ryðjast um á stórvirkum tækjum nema að valda þar óafturkræfu umhverfistjóni. 

Út um allt land má sjá hvernig að óþörfu hefur verið umturnað gígum, hrauntröðum og hraunmyndunum í stórum stíl og er mál að því linni. 

Gæti skrifað langan pistil um þetta efni. 

Ómar Ragnarsson, 8.4.2010 kl. 22:56

19 identicon

Ég hef komið nánlægt nánast öllu sem BBC Top Gear og Jeremy Clarkson hafa gert á Íslandi frá 1994 og veit því nákvæmlega hvernig þessir menn og BBC vinna.  Eins og Ómar man, þá var ég tengiliður þeirra hér þegar Motorworld þátturinn var gerður 1994 og þá voru sömu úrtöluraddirnar á ferðinni þegar  Ómar lenti prikinu við Litlu Kaffistofuna.  Það var talið glæfraverk og allir myndu fara að lenda flugvélum þarna.  Slíkt hefur ekki gerst ennþá og Ómar í fullu fjöri.  Útkoman var einhver besti landkynningarþáttur um Ísland sem gerður hefur verið, er enn sýndur og vitnað í.  Hann hefur þó aldrei verið sýndur í Íslensku sjónvarpi, sennilega vegna þess að hann innihélt bíla og eitthvað skemmtileg.

Sama átti sér stað við tökur á Top Gear 2006 og 2007.   Við fengum á okkur kærur fyrir landspjöll, sem engin voru, glæfra akstur og kallaðir fyrir hjá Umhverfisstofnun.  Fengum ekki leyfi til að mynda í Almannagjá, þar sem bílar og helgistaður þjóðarinnar eiga ekki saman og þannig má lengi telja.

BBC er með strangar reglur um öryggi og ég þurfti að skila inn skýrslum um alla öryggisþætti og hvernig  undirbúningur og öryggisviðbröggð væru ef eitthvað færi úrskeiðis.  Við keyrðum á vatni, fórum með vélknúinn kajak á Jökulsárlón, ókum í sjóinn, myndatökumenn héngu í þyrlum o.s.frv.  Allt var þræl undirbúið, björgunarsveitir, öryggisbelti, hjálmar, kafarar, dráttarbílar, leyfi landeigenda og allra yfirvalda sem vitað var um o.s.frv.  Að sjálfsögðu keyptar tryggingar á allt og alla. Ekkert af þessu sem ég nefni sást í Top Gear þáttunum, en allt var fyrir hendi.

Þess var vandlega gætt, að engin gróður, eða landsspjöll hlytust af því sem Top Gear og BBC gerðu hér á landi.  Hvergi ekið á grónu landi, allt rusl tekið og öll ummerki afmáð.  T.d. var eytt mörgum klukkutímum við Jökulsárlónið í að jafna för í sandi og möl, auk þess að svæðið sem ekið var á (með leyfi landeiganda) var slóðadregið á eftir.  Sandeyrin þar sem ekið var út í Kleyfarvatn var rökuð með hrífum.  Öll sú fjara var þó útspóluð eftir Íslendinga þegar við mættum þar og er svo enn. 

Þannig vinnur BBC og við dáums að þeirra framleiðslu í hverri viku, svo sem þáttum Peter Attenborough, Top Gear og heimildarþáttum af ýmsu tagi, þar sem menn eru að sýna okkur sjónvarpsáhorfendum hluti sem við myndum aldrei látta okkur detta í hug að gera sjálf.  Þar má nefna að synda með hákörlum, vera innanum ljón og flóðhesta o.s.frv.  Allt eru þetta sjónvarpstökur, þar sem atvinnumenn BBC framkvæma hluti sem venjulegt fólk gerir ekki, en þeim tekst að sýna okkur á frábærann hátt.

Ég held að það sé búið að hlægja nóg af okkur Íslendingum á breskri grund, þó við bætum þessu fári sem nú er varðandi Top Gear ekki í safnið.  Þeir flugu af landi brott fyrr í dag og ég er hand viss um að við fáum flott skot og háð frá þeim í Top Gear þættinum ef þessi vitleysa heldur áfram.  Opinber rannsókn á því að stinga framhjólum á bíl upp í hraunjaðar þangað til að rýkur úr þeim til að sýna fram á að maður á ekki að keyra á hrauni. Engin för, engar gróðurskemmdir, engin meiðsli, ekkert tjón.....  Bara flott sjónvarpsefni, sem kynnir okkar frábæra land, milljónum manna í heiminum til skemmtunar, fræðslu og ánægju.

Come on.........

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.4.2010 kl. 23:00

20 Smámynd: Einar Karl

Ólafur segir hér að það séu greinilega töluverðar ýkjur að Bretarnir knáu hafi ekið uppi á hrauninu, eins og skilja mætti frétt mbl, heldur aðeins stungið "framhjólum á bíl upp í hraunjaðar".

Þá er ég rórri!

Einar Karl, 9.4.2010 kl. 00:00

21 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Nákvæmlega Ólafur. Það væri skrýtið ástandið ef við ætluðum að herma eftir öllu því sem snillingarnir gerðu í Top Gear. Sumt þarfnast ekki skýringar. Hvernig tekst fólki að hneykslast á öllu sem hreyfist?

Guðmundur St Ragnarsson, 9.4.2010 kl. 00:00

22 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

„Frá því hættuástand hefst þar til því lýkur (í þessu tilfelli eldgosinu) er þá hættustundin.“

Steini. ég fellst á þessa rökremd.

Brjánn Guðjónsson, 9.4.2010 kl. 02:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband