10.4.2010 | 16:56
Ótrúlegur harmleikur.
Orsök slyssins mikla við Smolensk er einhver algengasta orsök slysa í sögu flugsins, sem sé sú, að brjóta þá reglu flugsins að þótt flogið sé eftir fyrirfram ákveðinni áætlun, áætlun A, sé fyrir hendi að minnsta kosti ein önnur áætlun ef áætlun A gengur ekki upp, svo að hægt sé að skipta yfir í ætlun B eða C o. s. frv.
Ef aðeins áætlun A kemur til greina og engin önnur, er tekin óbærileg áhætta.
Áætlun B í þessu tilfelli hefði verið að hætta við lendingu og lenda á öðrum flugvelli.
Í blindflugi er skylt að hafa flugþol til 45 mínútna aukaflugs og flugs til lendingar á fyrirfram uppgefnum varaflugvelli.
Slys af þessu tagi eru fátíð hjá reyndum atvinnuflugmönnum og með hreinum ólíkindum að þetta slys skuli hafa átt sér stað.
"Kóngur vill sigla en byr verður að ráða" hefur verið þekkt íslenskt máltæki og átt við á mörgum sviðum, oft á nöturlegan hátt.
P. S. Svo virðist sem þeim flugmönnum, sem fengnir eru til að fljúga með hátt setta ráðamenn telji það stundum svo mikla upphefð við sig og hæfileika sína að þeir geti gengið lengra en aðrir.
Dæmi frá okkar landi er umdeild lending á Ísafirði fyrir um áratug og lending með Noregskonung í Vestmannaeyjum á áttunda áratugnum.
Flugmenn hunsuðu fyrirmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það kemur fram í frétinni að flugstjórinn hafi ekki farið að fyrirmælum flugumferðastjórnar.
Má ekki ætla að það spili stóra rullu í því hvernig fór?
Landfari, 10.4.2010 kl. 17:17
Slys af þessu tagi gerast oftar en halda mætti, því miður. Ég minnist tveggja slysa sem urðu við aðflug á flugvöllinn í Zürich. Air Italia (1990) og Crossair (2001) vélar brotlentu. Í bæði skiptin var skyggnið (visibility, ceiling) nægilegt, en samvinna flugmanna (cockpit management) ekki gott. Mér þykir ólíklegt að flugmenn Tu-154 hafi ekki farið eftir fyrirmælum turnsins, en það á eftir að koma í ljós. Mörgum flugmönnum er meinílla við „missed approached“ eða „alternate“og það kemur svo sjaldan fyrir að oft er þjálfun fyrir slíkt ekki nógu mikil.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 17:37
Flugumferðarstjórar stjórna umferð og gefa upplýsingar og heimildir til flugs í stjórnuðu rými þannig að umferðin gangi snurðulaust og aðskilnaður sé öruggur á milli loftfara.
Í þessu tilvitnaða tilfelli var pólska vélin áreiðanlega ein á ferð, miðað við það hvað flugskilyrði voru slæm, og því var ekki nauðsynlegt að viðhafa boð og bönn vegna aðskilnaðar.
Í aðflugi samkvæmt sjónflugsreglum gilda ákveðnar reglur um lágmarks skyggni og skýjahæð en hafi þetta verið blindaðflug, sem endar með sjónflugi í blálokin, er uppgefin lágmarkshæð og staður sem flugvélin má vera á þegar flugstjórinn sér völlinn framundan og fer úr blindflugi í sjónflug.
Ef hann fer niður fyrir þetta lágmark og nær velli án þess að sjá völlinn er hann kominn í rússneska rúllettu, "busting minimums" eins og það er orðað á erlendu flugmáli.
Dæmi eru vafalaust um að flugstjórar hafi gert þetta og sloppið með það og afar erfitt er í flestum tilfellum að sanna þá á þá ef þeir vilja ekki viðurkenna það.
Hverju flugfélagi og flugmanni er heimilt að setja sér hærra og varfærnara lágmark, að sjálfsögðu.
Flugstjórinn ber einn ábyrgð á þessu flugi eins og það var framkvæmt og galt fyrir þrjósku sína með lífi sínu.
Ómar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 17:42
Nú gerirðu mig forvitinn að vita hvaða tilfelli þetta eru þarna í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, sem þú nefnir. Segðu okkur frá.
Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 18:02
sammála Jóni
endilega segðu okkur sögu Ómar
maggi (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 18:21
Ég tek undir með Jóni Steinari, þessi viðbót þín Ómar kallar á nánari upplýsingar.
Landfari, 10.4.2010 kl. 18:22
Til að nefna dæmi um þennan mannlega þátt, sem réði örlögunum í Smolensk, má draga fram, hvernig íslensku bönkunum var flogið inn í hrunið 2008. Þá voru allar "aðflugsreglur" brotnar eins og fram hefur komið á síðustu dögum.
Það er nákvæmlega sami mannlegi veikleikinn, sem ræður ferðinni í báðum tilvikum.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.4.2010 kl. 21:12
Tel næsta víst að flugmennirnir hafi farið að fyrirmælum en boðin hafi verið loðin vegna þess hve háttsett vélin var. Þar kemur og inn ótti við eigið mat á þessu svæði.
Hrólfur Þ Hraundal, 10.4.2010 kl. 21:14
Í svissneskum blöðum má lesa að pólska vélin hafi brotlent í fjórða tilraun til lendingar.
Að vélin hafi sem sagt þrisvar sinnum hætt við lendingu (missed approach). Þegar vélin var yfir Úkraínu, hafi hún fengi upplýsingar um vont skyggni í Smolensk og verið boðið að fljúga til Minsk í Hvíta-Rússlandi eða til baka til Varsjá. Einnig hafi verið veitt leyfi til að fljúga áfram til Moskva. Áhöfnin hafi hinsvegar ekki viljað breyta áætluninni án þessa að reyna að lenda í Smolensk.
Allur tækjabúnaður á flugvellinum var í góðu lagi, en hver hann er, t.d. ILS, veit ég ekki.
Enn bendir ekkert til þess að vélin hafi bilað.Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 21:25
Félagi minn sem er Pólskur sagði, að velinvar fullt af VIPS (Very Important Persons) og þau hafi heimtað að lenda á Smolensk flugvellinum. Liðið mæti eitthvað seint á völlinn, þess vegna var vélin á eftir áætlun og menn vildu ekki missa af athöfninni.
Flugmaðurinn hefur ekki viljað missa starfið sitt og þess vegna reyndi hann að lenda vélin á Smolensk vellinum.
Og svo er annað sem lýsir kannski ástandið hjá Pólverjunum, er að sá sem var yfir ríkisflugavéla reksturinn í Pólland sagði sig frá störfum í fyrra eða hitti fyrra vegna þess hann vildi ekki bera ábyrgð, hann taldi öryggisþætir vera ófullnægjandi og slys væri yfirvonandi ef ekki væru unnar endurbætur á flugrekstrinum.
Rabbi (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 22:53
Ég skal segja ykkur eldri söguna og hef góð vitni, því að um borð í flugvél minni, TF-FRÚ, voru Eiður Guðnason, þá fréttamaður, og að mig minnir Þórarinn Guðnason, kvikmyndatökumaður RUV.
Vestmannaeyjaflotinn átti að sigla í hópsiglingu Noregskonungi til heiðurs og á leiðinni til lendingar í Vestmannaeyjum voru þrjár flugvélar á svipuðum tíma, FRÚin, vélin með hinn tigna gest og Flugfélagsfokker í áætlunarflugi.
Vindur hafði aukist af suðaustri, en í þeirri vindátt stendur vindurinn ofan af Sæfellinu og verður oft svo misvinda á brautinni að ófært er til lendingar.
Ég ákvað að bíða og sjá til hvernig hinum vélunum tveimur myndi ganga.
Flugumferðarstjórinn ráðlagði okkur að reyna ekki lendingu vegna misvindis.
Engu að síður flaug ríkisvélin inn til lendingar og ég man hvað okkur þótti lending hennar rosaleg þar sem við fylgdumst með úr lofti, vélin dansaði upp og niður og á alla kanta síðustu metrana fyrir lendingu.
Flugumferðarstjórinn kallaði þá í talstöð sína: "Þetta er ljótasta lending sem ég hef séð hér í Vestmannaeyjum."
Síðan spurði hann flugstjóra Flugfélagsfokkersins, hvað hann ætlaðist fyrir.
Svar flugstjórans var eftirminnilegt: "Ég ætla ekki að reyna. Er búinn að fljúga farsællega í 20 ár fyrir Flugfélagið og hafði hugsað mér að fljúga tuttugu ár í viðbót."
Það var freistandi fyrir mig að reyna að lenda alveg úti á vesturenda brautarinnar, því að ég þurfti ekki að fara eins langt inn á brautina eins og stóru vélarnar þar sem misvindið var mest.
En ég hætti við og eyðilagði þar með möguleika Sjónvarpsins á að taka .þær góði myndir og viðtöl í Eyjum og ætlunin var.
Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun.
Ómar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 22:58
@ Haukur
Flugmenn fara í flughermi á 6 mánaða fresti og þar er alltaf teknar æfingar sem ganga út á að hætt er við aðflug, jafnvel með mótorbilunum eða einhverri álíka skemmtun.
karl (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 15:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.