19.1.2007 | 00:01
VANDI SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS OG ANDRI SNÆR
Ég hef frétt af hópi ungra frjálshyggjumanna sem vilja að Sjálfstæðisflokkurinn fái verðskuldaða refsingu í næstu kosningum. Það eitt geti komið honum á réttan kúrs í umhverfismálum. Fyrir hálfu ári hefði það líklega verið óhugsandi að þáverandi framkvæmdastjóri flokksins ásamt heiðbláum hægri ungliðum hampaði rithöfundi sem reis gegn stóriðju- og virkjanstefnu flokkksins. En verðlaun Kjartans Gunnarssonar og hans manna til Andra Snæs Magnasonar sýna að nýir straumar hafa myndast eftir að ægivalds Davíðs nýtur ekki lengur við.
Sumum hefur kannski þótt það misráðið hjá hinum óflokksbundna rithöfundi að taka á móti þessari verðskulduðu viðurkenningu fyrir frábæra bók. En ég held að með þessu hafi Andri Snær þvert á móti sýnt kjark og stórhug til að vinna umhverfisverndarhugsjóninni sem mest gagn með því að sýna fram á að hún er þverpólitísk og á vaxandi hljómgrunni í öllu pólitíska litrrófinu frá hægri til vinstri.
SLegið var það vopn úr hendi virkjanasinna að spyrða umhverfisverndarfólk ævinlega við vinstri stefnu. Þótt þingmenn VG, Katrín Fjeldsted og nokkrir Samfylkingarþingmenn stæðu vaktina vel í andófinu hefur stóriðjustefnan hingað til verið borin uppi af stjórnarflokkunum og meirihluta þingmanna Samfylkingar.
En nú eru stórir hópar fólks kjósenda í öllum flokkum á móti ríkjandi virkjanastefnu og 2002 var í skoðanakönnun tæpur helmingur þeirra sem vildu kjósa Sjálfstæðisflokkinn á móti Kárahnjúkavirkjun. Þessi hópur var þá tæp 20 prósent þjóðarinnar. Á sama tíma var samsvarandi hópur áhangenda VG um 12 prósent þjóðarinnar.
Það er ótrúleg mótsögn fólgin í því að flokkur frjálshyggju á Íslandi skuli hafa staðið á sovéskan hátt fyrir stærstu framkvæmd framkvæmd Íslandssögunnar, sem enginn einkarekinn aðili hefði getað farið út í vegna þess að arðsemin var of lítil og áhættan of mikil.
Vandi Sjálfstæðisflokksins felst í þeim klofningi í flokknum sem í raun ríkir um þessi mál. Ætlar hann að fara inn í Íslandssöguna með höfuðábyrgð á mestu hervirkjum á íslenskri náttúru sem framin hafa verið og verða framin?
Nú er skeggrætt um að þreifingar séu á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um stjórnarmyndun eftir kosningar og að í hinum stjórnarandstöðuflokkunum séu jafnvel þeir til sem slái ekki hendinni á móti samsvarandi bollalegginum af þeirra hálfu.
Samkvæmt þessu er það hugsanlegt að þeim stjórnarflokkanna sem ber höfuðábyrgð á virkjanafíkninni muni jafnvel eftir fylgistap i næstu kosningum og fall stjórnarinnar verða umbunað með því að gera honum kleift að framlengja 16 ára slímsetu sína í stjórn.
Það yrði dapurlegt fyrir lýðræðið í landinu. 1971, í eina skiptið sem stjórn hefur misst meirihluta sinn á lýðveldistímanum, þótti að sjálfsögðu eðlilegt að stjórnarandstaðan myndaði stjórn. Á þann hátt vita kjósendur að hverju þeir ganga þegar þeir greiða atkvæði með eða móti ríkisstjórn.
Enn eitt dæmi um mótsagnir í stjórnmálum: Í kosningabaráttunni fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var á stað einum úti á landi lagt fram plagg þar sem það var tíundað hvernig hugvit og einkaframtak náðí að skapa ný störf í á svæðinu í staðinn fyrir 120 störf sem lögðust niður þegar fyrirtæki, sem réði lögum og lofum í bænum í sovéskum stíl, varð gjaldþrota.
Eftir það gjaldþrot sýndist mönnum landauðn blasa við. En hugvit einkaframtaksins skapaði störf í staðinn af ýmsum toga, sem mörg hver hefðu ekki orðið til undir ægishjálmi hins staðnaða stórfyrirtækis.
Maður skyldi ætla að frjálshyggjusinnaðir hægrimenn í bæjarfélaginu hefðu lagt fram þennan dýrðaróð til einkaframtaksins í kosningabaráttunni. En það var öðru nær. Það voru vinstri grænir á Húsavík sem andmæltu með þessu plaggi draumsýn Sjálfstæðismannanna um nýtt stórfyrirtæki í samræmi við viljayfirlýsingu ríkisvaldsins og Alcoa!
Athugasemdir
Ómar: Ég hef verið í Sjálfstæðisflokknum í meira en fjóra áratugi, ekki bara sem almennur félagi og stuðningsmaður, heldur virkur starfsmaður í mörgum Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum - ritstjóri, kosningastjóri, bæði syðra og vestra. Núna á gamals aldri veit ég ekki hvaða flokk ég ætti helst að kjósa. Líklega sit ég heima.
Hlynur Þór Magnússon, 19.1.2007 kl. 00:36
Nafni, hvernig væri bara að kjósa alvöru umhverfisverndarflokk sem hefur hugsjónir? Semsagt: Vinstri græn. Ég veit um marga sem hafa hingað til kosið Sjálfstæðisflokkinn en ætla að kjósa VG í vor. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 19.1.2007 kl. 01:34
Ekki misnota orðið "umhverfisvernd" og hættum að draga fólk í dilka.
Sjálfur er ég umhverfisfræðingur og mér leiðist mikið sú tilhneiging ákveðinna manna til að einfalda umræðuna um of og draga fólk óviljugt í tvo dilka.
Það er ekki hægt að skipta þeim sem er með og á móti Kárahjúkum í umhverfissinna og virkjunarsinna. Loftslagsbreytingar af manna völsum eru klárlega langstærsta umhverfisógn jarðar og skyggir í raun á önnur vandamál. Með öðrum orðum þá leysum við lítið til langstíma nema leysa það fyrst. Út frá tæru umhverfissjónarhorni þá er það klárlega mjög umhverfisvænt að virkja Kárahnjúka til stóriðju. Það þýðir þó ekki að við verðum að gera það. Hinsvegar má ekki stimpla þá sem vilja það einhverja umhverfissóða. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er alheimsvandamál og það skiptir engu máli hvað útblásturinn kemur eða hvar hann er bundinn. Þess vegna næst skjótasti árangurinn með því að flytja orkufrekan iðnað á staði sem boðið geta upp á endurnýjanlega orku. Mestur heildargróði næst meira segja með því að hafa hann þar sem framleiðsla rafmagns er 100% endurnýjanleg. Þess vegna er ekki hægt að segja að það sé alveg hægt að hafa álver annarstaðar þar sem boðið er upp á endurnýjanlega orku. Því að ef hlutfall rafmagnsframleiðslu er ekki 100% þá verður heildarávinningurinn minni Það er ekki heldur hægt að segja að menn verði bara að endurnýja ál betur því þó svo að það myndi takast og svo ólíklega vildi til að eftirspurn eftir áli minnkaði þá myndu álframleiðendur fyrst loka álverum sem gengju fyrir jarðefnaeldsneyti. Það merkilegt að í þessari miklu umræðu um Kárhnjúka þá nái umhverfisumræðan aldrei þeim þroska að almenningi sé borin á borð sú staðreynd að Ef Reyðarál fengi orku frá kolaorkuveri þá yrði útblásturinn við slíka raforkuframleiðslu um 4,5 milljón tonn á ári. Til samanburðar þá var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2003 um 3 milljónir tonna.
Umræðan um Kárahnjúka snýst um Náttúruvernd og ósnortin svæði sem er allt annar handleggur. Þar mega hörðustu umhverfissóðar vera hlynntir verndun Kárahnjúkasvæðisins og harðkjarna umhverfissinnar verið fylgjandi virkjun án þess að þurfa skammast sín fyrir aðra hvora skoðunina.
Síðan er óþolandi tilhneiging svokallaðra virkjunarsinna og "umhverfissinna" að menn þurfi að gjöra svo vel að vera í öðru hvoru liðinu allt mótið. Með öðrum orðum er í fínu lagi að vera á móti Kárahnjúkavirkjun en með virkjun við Húsavík. Það er líka allt í lagi að berjast gegn virkjun á Reykjanesi en fagna virkjanahugmyndum í Skagafirði.
Íslendingar eru skynsamir upp til hópa og tilbúnir til að mynda sér sjálfstæða skoðun um hvert mál fyrir sig.
Þið sem eruð á móti Kárahnjúkavirkjun megið alveg vera fylgjandi öðrum virkjunum og þiðs em eruð fylgjandi megið alveg bera höfuðið jafn hátt og kalla ykkur umhverfisverndarsinna.
Sigurður (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 13:32
'Omar eg er og verð sjáfstæður Sjalfstæðismaður,er ekki mikill virkjannasinni,er reindar mikil náturverndarsinni,en eg vil berjast innan mins flokks i þessum málum og fleirum/en eg ber mikkla virðingu fyrir þinni baráttu fyrir Nátturu landsins,og gangi þer vel!!!!
Haraldur Haraldsson, 19.1.2007 kl. 15:22
Ég er alveg sammála Sigurði og þetta er allt hárrétt sem hann skrifar þarna og það er einmitt rétt að benda almenningi á að hugsa um náttúruvernd hnattrænt.
Þá er ég að meina t.d. samanburð á álveri sem gengur fyrir endurnýjanlegri orku og álveri sem gengur fyrir mengandi orku (t.d. kolum).
Ég vil meina það að allir íslendingar séu umhverfissinnar, en þeir skiptast síðan í "öfgaumhverfissinna" (Vinstri Grænir ofl.) sem vilja ekki láta snerta við einu strái ef það er úti á landi, og svo eðlilega umhverfissinna sem hugsa rökrétt um hag landsins og fólksins sem býr í landinu.
Stefán (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 15:23
Við skulum hætta þeim heimska tvískinnungshætti að réttlæta stóriðjustefnuna með predikunum um vistvæna orku. Það er deginum ljósara að þessi ásókn markaðshyggjunnar í vatnsaflsorku sem við stöndum frammi fyrir snýst ekki um skilning á umhverfisvernd og þar með framtið lífsins á jörðinni. Þessari orku frá okkur Íslendingum er einungis ætlað að bætast við gengdarlausa orkunotkun iðnríkjanna í þágu markaðsaflanna en er ekki ætlað að leysa aðra orku af hólmi. Verð á vistvænni orku mun á næstu árum lúta markaðslögmáli og allir gildandi orkusamningar okkar til stóriðju verða þá dæmi um snautlega skammsýni stjórnmálamanna okkar í dag. Þetta er fullyrðing en ekki spá. Þegar við stöndum frammi fyrir þessu, og þá fyrst eigum við að taka ákvarðanir um frekari fórnir á okkar dýrmæta landi. Aldrei hefur það verið jafn sárt að vera Íslendingur eins og þegar ráðherra okkar í umhverfismálum stóð upp á fundinum í Kyoto og lýsti því yfir að hún hefði þann metnað fyrir hönd þessa eyríkis að fá heimild fyrir stórauknum útblæstri mengandi eiturefna svo við gætum kallast þjóð meðal þjóða! Stjórmálaforingjar okkar hafa nefnilega flokkað það undir sjálfstæðisbaráttu Íslands að loka eyrunum fyrir öllum kröfum um heilbrigða framtíð og bjartsýna til handa afkomendum okkar. Engin trúarbrögð eru svo umburðarlynd að þau fyrirgefi þá þeim óhappa-og ógæfumönnum sem við það lögðu nöfn sín.
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 15:31
Flottur pistill Ómar og orð í tíma töluð!
Vandi sjálfstæðisflokksins - sem hingað til hefur á kostulegan hátt haft lag á að láta hækju sína í ríkisstjórn taka höggin vegna ofsatrúar á stóriðjustefnu, dreginn upp á yfirboðið á mannamáli. Auðvitað mun þetta allt saman verða það krabbamein sem tærir flokkinn upp innanfrá og kemur honum með þeim hætti frá völdum.
Ótrúlegt að flokkur sem kennir sig við "frelsi einstaklingsins", "frelsi til athafna" og "stétt með stétt", skuli ennþá árið 2007 láta það viðgangast að eftir að hafa samþykkt með ofbeldi og í gríðarlegri ósátt við fólkið í landinu, sé reynt að hafa eignarréttinn af landeigendum við Kárahnjúkaframkvæmdirnar fyrir smápeninga, án þess að raunverulegir fjárhagslegir hagmunir (orkuverðið) sé uppi á borðinu. Þetta er í raun ofbeldi af bestu sort og menn verða að sæta því að með svona framgöngu þá bæta menn eldsneyti á umræðu um spillingu og baktjaldamakk ráðamanna í þessu landi; "Hvað þarf eiginlega að borga mönnum til að koma fram af slíku virðingarleysi við fólkið í landinu og þá sem eiga lögvarinn eignarrétt að vatnsaflinu sem selt er til álframleiðslu til að styðja við ofurgróða erlendra stórfyrirtækja?"
Björn (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 16:03
Eitt flottasta svarið við frábærum pistli Ómars finnst mér vera svar Árna Gunnarssonar hér að ofan. Ég vil bæta því reyndar við umræðuna að ég fagna því að Framsóknarflokknum sé refsað fyrir fáranlega skemmsýni í umræðu um lansins gagn og nausynjar. Megi Sjálfstæðisfloknum vera refsað á sama hátt. Ómar þú átt mitt atkvæði.
Stefán Sturla (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 16:20
Það er hlálegt að heyra að þeir sem voru fylgjandi Kárahnjúkavirkjun skuli telja sig hafa verið það vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Í Afríku einni er að finna þrjátíu sinnum meiri vatnsorku á Íslandi. Út í hött er því að miða allt út frá því að valið standi milli kolaorkuvera og vatnsorkuvera. Í Noregi er nú meiri óvirkjuð vatnsorka að magni til en á Íslandi en samt látin ósnert. Hvers vegna? Í þjóðgörðum Bandaríkjanna og nágrenni þeirra er að finna jafnvel meiri orku en á Íslandi öllu. Af hverju er hún ekki virkjuð? Af því að þessar þjóðir, sem sækjast nú eftir íslenskri orku, sjá að við erum tilbúnir til að fórna jafnvel dýrmætari náttúrugersemum í okkar landi til þess að þær geti varðveitt gersemarnar í sínum löndum. Samspil íss og elds á Íslandi er nú talið vera eitt af sjö undrum heims af tilkvöddum erlendum sérfræðingum. Jafnvel Yellowstone fær ekki slíkan stimpil. Öll vatnsorka veraldar gæti aðeins annað 6%af orkuþörf heimsins. Öll orka Íslands myndi anna aðeins innan einu prósenti af orkuþörf Evrópu einnar! Að ráðast að íslenskri náttúru til orkuöflunar til málmbræðslna er líkt og að bræða fyrst merkustu myndastyttur heims ef skortur væri á góðmálmum.
Ómar Ragnarsson, 19.1.2007 kl. 20:33
Eitthvað fannst mér ég heyra í órólegum Sjálfstæðismanní í rúv fréttum í gær, n.t.t. Árna Matt. gaflara og fjármálaráðherra. Hann sagðist finna fyrir "miklum andbyr gegn stækkunaráformum Alcan." Óstaðfestar fréttir herma að Hafnirðingar hafi með miklum meirihluta "fellt" stækkunina í skoðanakönnun Capacent. Árni þarf náttúrulega á stuðningi Hafnirðinga að halda í næstu kosningum. Gæti það hugsast að fleiri en Samfylkingarmenn fari að snúa sér eftir skoðanakönnunum?
Þórdís (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 20:47
Tek heilshugar undir athugasemdir Árna Gunnarssonar og Ómars en sýnist að umhverfisfræðingurinn Sigurður sé ekki að skilja grundavallarhugsunina í þessari umræðu. Bendi honum á að lesa Draumalandið og þá ekki síst kaflann um hvort sauðskinnskórnir séu framtíðin. Þar segir Andra Snær m.a. þetta: "Stjórnmálamenn hafa ... ítrekað talað niður verðmæti og gildi Íslands en í staðinn haldið að þjóðinni brenglaðri heimsmynd og langsóttum siðferðilegum skyldum." (bls. 205) Eða "eins og forstjóri Landsvirkjunar setur þetta fram erum við í skuld við heiminn: Annaðhvort bræðum við ál eða vð verðum rekin úr nútímanum. Vísað aftur í sauðskinnsskóna." (bls. 206-7). Stjórnmálamenn og aðrir þeir sem farið hafa hvað harðast fram í sínum virkjana- og álversöfgum ættu að kynna sér hvað báxítnám- og vinnsla gerir umhverfinu í þeim löndum þar sem það er unnið. "Fallega hvítt" súrálið er ekki ræktað á hveitiökrum...
Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 23:22
Tek undir margt af því sem hér hefur komið fram en bendi hins vegar á það að ,,vinstri-hægri" skilgreiningar yfirleitt eru yfirborðslegar og gamaldags. ÉG lít á stjórnmálin í sinni einföldustu mynd sem hring en ekki línulega. Þegar ,,vinstri" og ,,hægri" öfgastefnur mætast ,,hinummegin" á hringnum gerist það sama, sá sem er ekki með ,,rétt" flokksskírteini er troðinn undir, fangelsaður eða drepinn, munurinn á starfsaðferðum ,,vinstri" eða ,,hægri" öfgastjórnvalda er nefnilega nákvæmlega enginn. Þess vegna er rétt að fara að koma sér úr þessu gamaldags umræðufari og horfa á heiminn í fleiri en tveim víddum, það er nefnilega þannig, línulega sem ,,vinstri-hægri" skilgreiningin virkar. Þegar Galileio nokkur hélt því fram að jörðin væri hnöttótt var það rétt en margir sáu það ekki og gátu ekki skilið það, þannig er líka með pólitíkina, þar er sveigjan á hringferlinum ekki alltaf svo auðsýnileg, hún er samt þarna til staðar. Þessi viðhorf hef ég verið að kynna svolítið og meðal annars tengist þetta greinum sem ég hef skrifað í blaðið Heilsuhringinn, það er ekki alltaf allt sem sýnist á yfirborðinu. En nóg um þetta, ég spái því að nú á næstu missirum eða árum muni finnast aðrir orkugjafar tengdir hlutum sem ekki eru komnir í umræðuna ennþá og það muni e ftil vill verða til þess að losa okkur við þessar landsdrekkingar sem gömlum bónda eins og mér finnst erfitt að horfa á þó svo mér finnist ég skynja og geta skilið að einhverju leyti ástæður þess að þessar stórvirkjanir eru reistar. Mér finnst við ekki þurfa endalaust þessar póluðu skiptingar í lið eftir málstað, fannst það leiðinlegt meðan ég bjó á Austurlandi að finna það að þeir sem voru ekki tilbúnir að gleypa allt hrátt varðandi stórframkvæmdirnar eystra voru allt of oft umsvifalaust stimplaðir ,,andstæðingar" framfara og svo framvegis.
Sigurður Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 08:42
Merkilegt alveg hreint
Mér sýnist pistill minn hafa haft lítil áhrif og ljóst að ég hef strax verið dregin í dilk þó að þið hafið í raun enga hugmynd um hvaða skoðun ég hef á virkjunarframkvæmdum. Þetta er nákvæmkvæmlega það barnalega og hallærislega við þessa umræðu. Þó að það sé nægt vatnsafl í Afríku breytir ekkert því að í hreinu modeldæmi er öflugast að færa orkufrekan iðnað þar sem orkuframleiðsla er 100% endurnýjnaleg. Síðan bætti ég við "EN ÞAÐ ÞÝÐIR EKKI AÐ VIÐ ÞURFUM AÐ GERA ÞAÐ" en svona textabrot fer auðvitað framhjá fólki sem snýr sjónaukanum ávalt öfugt og skortir því víðsýni.
Ómar minn ég sagði ALDREI að Þeir sem stóðu fyrir Kárahnjúkavirkjun hafi farið út í það vegna umhverfisverndar. Það breytir því þó ekki að hún er MJÖG umhvervisvæn fyrir heiminn. Hún er meira segja mun umhverfisvænni en flestar vatnsafsvirkjanir vegna þess að uppstöðulón hennar er hlutfallslega lítið miðað við afl vegna gríðarlegrar fallhæðar og þar sem hún er staðsett á frekar gróðursnauðu landi þá verður rotnun og þar með losun gróðurhúsaloftegunda mun minni en hjá flestum vatnsaflsvirkjunum til dæmis í Suður Ameríku og Afríku.
Af hverju má ekki tala um þetta með þessum staðreyndum Þarf eitthvað að fela þær. En takið nú vel eftir:
ÞAð er líka alveg fullgild rök að vera á móti þessari framkvæmd Það er grátlegt að sjá eftir þessu fallega landsvæði undir vatn. Þeir sem eru á móti þessu þurfa ekkert að réttlæta þá skoðun fram og aftur með einhverjum rökum. Það er alveg fullgilt að vera á móti vegna þess að mönnum hugnast ekki að sjá eftir ósnortu landi. Og þá skiptir engu máli hvort menn ætli sér að heimsækja staðinn eða ekki. Ég hef fullan rétt á því að vera á móti útrýmingu villtra tígrisdýra þó svo að ég ætli mér aldrei að fara til Indlands að skoða þau.
Þetta er í raun bara ákvörðun sem er tekinn og það er líka stór ákvörðun að láta svæði í friði. Þannig er það bara með ákvarðanir þær eru teknar og sumir eru sammála og aðrir ekki. Ég bið menn bara um að hætta að dæma fólk svona harkalega hvaða afstöðu sem menn taka.
Og aðalmálið sem greinilega hefur farið framhjá flestum sem hér tjá sig. Hver framkvæmd og ákvörðun er sérstök og fólk á að geta tekið sjálfstæða ákvörðun um hverja og eina.
Ég spyr, er þá sá sem er á móti Kárahnjúkum en með álveri á Húsavík svikari?
Ég spyr líka hann Þröst hér að ofan hvaða grundvallarhugsun ég er ekki að skilja?
Ef fólk snýr sjónaukanum rétt þá sér það að svona umræða er á villigötum Hvað myndi fólk segja um Bókina "Draumahafið, Sjálfshjálparbók fyrir hrædda veiðiþjóð" Þar væri hægt að koma með hugmyndir um að gera hafsvæðið í kringum Ísland að ósnortnu hafssvæði og hætta öllum veiðum hið snarasta. Það eru ákveðin verðmæti fólgin í því.
N.B. Þá fannst mér Draumaland Andra frábær en þar var einmitt opnað á meiri víðsýni en hefur á óskiljanlegan hátt gefið af sér meiri þröngsýni.
sigurður (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 10:30
Það er margt ágætt í því sem Sigurður segir en ég vil samt gefa þrjár ábendingar.
1. Hæpið er að segja að Kárahnjúkavirkjun sé MJÖG umhverfisvæn, - framkvæmd sem rammanefndin góða telur hafa í för með sér mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll á Íslandi. Þar að auki hefur ekki verið krufið vísindalega til mergjar að í leirnum sem sökkt verður í lónið hafa verið fólgin mikil áhrif á útblásturlofttegundir og lífríki í sjónum. Vísa til athugana Guðmundar Páls Ólafssonar í því efni.
2. Lón virkjunarinnar eru ekki á "frekar gróðursnauðu landi". 40 ferkílómetrar fara undir vatn og á meirihluta lónstæðis Hálslóns er þykkur gróður sem á eftir að rotna á tuga ferkílómetra svæði snemmsumars hvert ár.
3. Það er stór ákvörðun að virkja því að það útilokar nýtingu sem byggist á halda landi sem mest ósnortnu. Það er miklu minni ákvörðun að friða land, því að það útilokar ekki virkjun síðar. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
4. "Hver ákvörðun og framkvæmd er sérstök." Þetta gilti á sínum tíma þegar menn unnu "þjóðþrifaverk" með hverjum skurði sem grafinn var til að ræsta og þurrka upp votlendi. Þá var hver framkvæmd sérstök þangað til menn stóðu allt í einu stóu frammi fyrir því, til dæmis á Suðurlandi, að búið var ganga allt of langt að þarflausu og aðeins örfá prósent eftir. Nú er byrjað að moka aftur ofan í skurðina. Þetta má að mínu viti ekki gerast aftur með miklu verri afleiðingum.
Ómar Ragnarsson, 20.1.2007 kl. 12:39
Þetta eru fínar athugasemdir
En mér finnst samt eins og það sé verið að gengisfella orðið Umhverfisvænt með þessari umræðu. Kárahnjúkavirkjun er alls ekki Náttúruverndarvæn en hún er klárlega umhverfisvæn ef við skoðum þetta út frá erfiðistu umhverfisvandamálum heimsins.
Auðvitað er þetta gróðursnautt svæði í samanburði við flesta allar virkjunarframkvæmdir sunnar í veröldinni.
Náttúruvernd er bara brot af umhverfisumræðu. Ég er nú einn að þeim sem geri mér vel grein fyrir þeim gríðarlegu verðmætum sem felast í ósnortri náttúru. Hinsvegar veist þú vel Ómar að ósnortið land er erfitt hugtak og við verðum að geta rætt þau mál með skynsemi.
Er landgræðsla árás á ósnortið land? Er sauðfjárbeit aðgerð gegn ósnortu landi? Hvað með beit hreindýra sem ekki voru hér fyrir 300 árum? Eyðir lúpínurækt ósnortnu landi? Er lerkiskógur náttúrulegur eða ekki? Á að veiða refi? Er uppblástur náttúrulegur eða ekki? Er úthverfamyndun í REykjavík eyðing á ósnortnu landi? Hvað þolir svæði marga ferðamenn áður en það hættir að vera ósnortið?
Ég er að mörgu leyti mjög ánægður hvernig þú hefur opnað á ofangreindar umræður í gegnum tíðina en einhvern veginn fisnnt mér nú vera tilhneiging til að einfalda umræðun í með / móti öllu.
Sérstaklega finnst mér slæmt Ómar þegar þú gerir lítið úr áhrifum íslendinga á heimsvísu. ÞAð hættulegasta í umhverfisumræðu heimsins í dag er þegar menn leyfa sér að segja "það sem ég geri skiptir engu máli því ég er bara einn af milljörðum"
Þá getum við alveg eins haldið áfram að keyra á Risapallbílum og hætta að flokka rusl og láta alla HINA redda þessu bara.
Sigurður (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 16:26
Minna á þetta til dæmis : http://ingibjorgelsa.blog.is/blog/ingibjorgelsa/entry/104537/
Pétur Þorleifsson , 21.1.2007 kl. 13:33
Sigurður, grundvallarhugsunin sem ég tel þig ekki vera að skilja er m.a. að leiða fram rök með því að Kárahnjúkavirkjun sé umhverfisvæn og tal þitt um 100% endurnýjanlega orku er á viligötum. Um ýmislegt annað sem þú nefnir get ég þó tekið undir.
Ísland er ekki að bæta stöðu heimsins í umhverfismálum með því að stuðla að því að setja hér niður álbræðslur og byggja virkjanir fyrir þessar sömu álbræðslur sem valda ÓENDURKRÆFUM UMHVERISÁHRIFUM (sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar) og selja svo á "Lowest energy prices".
Að lokum þetta Sigurður. Umræðan um náttúru- og umhverfisvernd hefur ekki snúist um, af hálfu þeirra sem eru meðmælendur náttúrunnar, að draga menn í dilka með eða á móti. Þessi umræða gengur frekar út á það að auka víðsýni fólks á því að til er annar raunveruleiki heldur en álbræðslur og eyðing náttúru sem jafnvel er einstök á heimsvísu. Við hér í þessu landi getum lagt okkar að mörkum í baráttunni gegn umhverfisvanda heimsins með því að sýna fram á að hægt sé að fara aðrar leiðir og vonað að okkar framlag skipti máli. Svo veistu líka Sigurður að það eru sömu stjórnvöld sem leitt hafa glórulausa stóriðjustefnu, fengið fram "íslenska ákvæðið í Kyotosamkomulaginu og bera ábyrgð á skattlagningu risapallbílanna.
Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 21.1.2007 kl. 22:51
Áhugavert að lesa þessa umræðu. Varðandi Kárahnjúkavirkjun og staðsetningu álbræðslna á Íslandi og gróðurhúsaáhrif:
Svo hvers vegna eru Álcoa og Álcan ekki að vinna ál í Suður Ameríku ef þeir þykjast bera umhyggju fyrir umhverfinu?? Jú Húgo Chavez er svo vondur
Asta (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 14:49
Sæl Ásta
Ég minni enn og aftur á að þó svo að ekkert sé víst með umhverfisáhuga Álfyrirtækja þá breytir það ekki staðreyndum.
1 Þetta er rangt, frekar má tala um árhundruð en áratugi sjá:
http://soloweb.samorka.is/Apps/WebObjects/Samorka.woa/1/swdocument/1000831/Sigur%C3%B0ur+Magn%C3%BAs+Gar%C3%B0arsson.pdf?wosid=false
2 Það er ekki hægt að setja það upp svona 40 km2 gróðurþekja á hálendi Íslands, sem n.b. er skilgreint sem eyðimörk samkvæmt alþjóða stöðlum, er ekki sama og 40 km2 gróðurþekja í suður Ameríku. Rotnun ER hverfandi miðað við sambærilegar virkjanir erlendis.
3 Hárrét með svifleirinn en áhrif eru því miður ekki fullþekkt.
4 Það er alveg rétt að best er að draga sem mest úr flutningi. Hinsvegar er flutningsútblástur lítill í heildarkolefnisbókhaldi áls. Þannig að aðrir þættir vega meira.
5. Ég hef sagt áður að mörg lönd hafa nóg af endurnýjanlegri orku. En betra er að nota hana til að draga úr notkun jarðefnaeldneytis. Því meira sem af er tekið þar því minna er eftir að möguleikum til að draga úr notkun olíu og kola. Þetta á ekki við hér það er allt og sumt.
sigurður (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.