25.4.2010 | 15:37
Takmörk mannlegrar getu.
Gosið í Eyjafjallajökli og fleiri fyrirbrigði í náttúrunni minna okkur á að mannlegri getu eru takmörk sett.
Ég hef einu sinni fengið að "taka í" Boeing 747 þegar hún var án farþega á leiðinni frá Bretlandi til Íslands.
Í hátt í 40 þúsund feta hæð voru flugeiginleikar vélarinnar gerólíkir því sem er á litlum flugvélum niðri við jörðu. Ég fann vanmátt minn til að ráða við vélina.
Þegar ég kenndi flug árið 1969 fór ég einu sinni með einn af reyndustu flugstjórum landsins í flug á Cessna 152, sem hafði tugþúsundir flugtíma að baki á stærstu flugvélum Íslands en hafði ekki snert litla flugvél í áratugi.
Á aðeins 10 mínútum tókst þessum flugstjóra að gera fleiri og afdrifaríkari mistök en tugir byrjenda minna til samans.
Hann missti vélina inn í ofris og niður í byrjun á "dauða-gormdýfu" þar sem honum tókst að koma hreyflinum langt yfir leyfileg mörk snúningshraða.
Allt þetta gerði hann vegna þess að hann ofmat getu sína stórlega.
En víkjum aftur að háloftaflugi.
Vegna þess hve loftið er þunnt er hraðasviðið miklu þrengra í þessari hæð og því ekkert sældarbrauð að ráða við svona flykki í mikilli ókyrrð.
Þarna uppi geta geysað ósýnilegir þotuvindar eða "jet streams" sem eru ógnarhraðir og geta leitt þá, sem ekki ugga að sér ínn í ofboðslega ókyrrð sem gengur undir heitinu "CAT" sem er skammstöfun fyrir clear air turbulence. Ég get vel ímyndað mér að það sé ekki hægðarleikur að ráða við stóra þotu við slíkar aðstæður.
Fyrir mörgum árum var ákaflega vönduð og ítarleg umfjöllun um ísingu í tímaritinu "Flying".
Ein af niðurstöðunum var sú, að til væru ísingaraðstæður þar sem engu máli skipti hvort verið væri að fljúga Boeing747 með fullkomnustu ratsjám og afísingarbúnaði eða Piper Cub.
Í slíkum skilyrðum væri allt flug vonlaust.
Aðal sérfræðingurinn sem rætt var við, hafði gert ísingu að sérgrein sinni í fluginu í áratugi og aflað sér meiri þekkingar og reynslu en nokkur annar á því sviði.
Var hann til dæmis einstaklega fundvís á flughæðir á milli ísingarlaga þar sem hægt var að þræða fram hjá verstu ísingarskilyrðunum.
Eitt sinn þegar lokað var fyrir flug í Klettafjöllunum vegna ísingar tók hann að sér í krafti einstakrar reynslu sinnar að fljúga með áhrifaríkan öldungardeildarþingmann sem þurfti nauðsynlega að komast leiðar sinnar.
Þeir fórust báðir þegar vélin lenti í ísingu sem mesti sérfræðingur heims á sviði flug í ísingu réð ekki við.
Enn ein áminningin um takmörk mannlegrar getu.
17 slösuðust þegar flugvél féll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég efa þó að vélin hafi í raun fallið 15.000 fet. Þetta hlýtur að vera einhver villa í fréttamönnum annað hvort MBL eða fréttamönnum sem gerðu upprunalegu erlendu fréttina. Ég efa að hún hafi falli meira en nokkur hundruð fet.
http://www.airliners.net/aviation-forums/general_aviation/read.main/4790407/
Egill (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 20:13
Icelandair þotan sem féll í aðflugi að Gardermoen fyrir nokkrum árum féll um 2500 fet.
Ef þessir stóru hlunkar ofrísa eða fara í gormdýfu er þetta yfirleitt ekkert smáræðis fall, einkum ef vélarnar eru stjórnlausar í byrjun fallsins.
Þarf raunar ekki stórar flugvélar til.
Fjögurra sæta Republick Seebee vél, sem við flugum hér heima í gamla daga, féll stundum allt að 2500 fetum þegar hún var látin fara bratt upp á fullu afli og ofrísa.
Ómar Ragnarsson, 25.4.2010 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.