25.4.2010 | 18:16
Til hamingju, brautryðjandi!
Sigrún Helgadóttir er vel að náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti komin. Sigrún varð fyrst Íslendinga til þess að ferðast gagngert um þjóðgarða erlendis til þess að kynna sér ofan í kjölinn þau lögmál og kröfur sem þjóðgarðarnir byggjast á.
Þetta var eitthvert mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga, en að sama skapi vanrækt af okkur.
Á þeim tíma hafði enginn þjóðgarðsvörður á Íslandi kynnt sér þjóðgarða erlendis, ótrúlegt en satt, og séra Heimir Steinsson varð fyrstur þeirra til þess að gera það fyrir atbeina Steingríms Hermannssonar, sem þá var forsætisráðherra.
Sjálfur hafði Steingrímur ferðast víða á árum sínum vestra og komið í öll ríki Bandaríkjanna nema Alaska. Sigrún starfaði hér heima um hríð í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur en á þeim tíma voru þau sjónarmið sem hún hafði kynnt sér erlendis í litlum metum hér.
Við Steingrímur töluðum við oft um það síðustu árin að gaman væri að fara til Alaska saman, en af því varð þó aldrei.
Séra Heimir varð að vísu að láta sér Yellowstone nægja en Sigrún hafði þá skoðað marga þjóðgarða vestra.
Reynsluna frá Yellowstone var hægt að nýta á Þingvöllum til að koma í veg fyrir frekari spjöll af völdum umferðar fólks þar.
Árið 1998 uppgötvaði ég það að þrátt fyrir að einbeita mér að umfjöllun um umhverfismál í sjónvarpi í áraraðir og ferðalög gangandi, hjólandi, ríðandi, akandi og fljúgandi um allt land, var ég ekki aðeins heimskur í upphaflegri merkingu þess orðs (maður, sem er alltaf heima hjá sér og miðar allt við það), heldur fjallheimskur.
Þegar ég þurfti á leiðbeiningu að halda til að vita hvað nýttist best til að skoða og kvikmynda erlendis var Sigrún Helgadóttir eina manneskjan hér á landi sem bjó yfir þekkingu til að leiðbeina mér.
Ráð hennar reyndust mér ómetanleg. Sigrún Helgadóttir hefur á hljóðlátan hátt varið lífi sínu til að ryðja mikilvægum sjónarmiðum og þekkingu á náttúruverndarmálum og nýtingu lands braut á Íslandi.
Kynslóðir framtíðar munu þakka störf hennar meira en margra annarra, sem meiri athygli hljóta á okkar tímum.
Ráðherra afhenti umhverfisverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já Sigrún á svo sannarlega skilið þessa viðurkenningu. Hún er líka ein af brautryðjendum okkar í umhverfismennt og var fyrsti verkefnisstjóri Skóla á grænni grein. Þetta verkefni, sem margir þekkja sem Grænfánann, telur nú yfir 170 skóla.
Lárus Vilhjálmsson, 25.4.2010 kl. 19:11
Ég óska Sigrúnu hjartanlega til hamingju. Ef einhver á skilið að fá þessa viðurkenningu þá er það hún.
Úrsúla Jünemann, 25.4.2010 kl. 22:17
Sigrún er svöl og hefur hreint hjarta.
Ekki eru allir glæpamenn í glæparíkinu Íslandi, þar sem fólk hefur yndi af að svíkja og ljúga og ekki síst að sjálfu sér.
Þorsteinn Briem, 26.4.2010 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.