20.1.2007 | 01:21
"ÓNÝTAR 20 MÍNÚTUR", SEGIR NINNA.
Ég sagði í fyrsta blogginu mínu snemma í vikunni að rabbað yrði um heima og geima á þessari bloggsíðu en ég myndi byrja fyrstu dagana á helstu hugðarefnunum, umhverfismálunum. Nú er komið að fyrsta blogginu "um heima og geima." Ég var nú upp úr miðnættinu að koma inn úr trimminu mínu sem var svolítið seint á ferðinni vegna anna. Það fólst í klukkustundar blöndu af hraðgöngu, sprettum upp brekkur, "skuggaboxi" í húsasundi og liðkunaræfingum. Það er della að veður hamli þessu. Með því að klæða sig rétt heldur maður á sér hita, jafnvel í hörkufrosti.
Þegar það er sunnanátt og rigning fer ég frá Austurstræti upp að Hlemmi, til baka vestur í Garðastræti, tek aftur sprett upp Bankastrætið og niður í Austurstræti, tek krók inn í húsasund til staðæfinga og skuggabox. Alls 6O mínútur, ekki styttra og helst samfleytt. Allan tímann skýla húsin manni fyrir sunnanáttinni og maður hittir fullt af fólki en má samt ekki hægja á sér. Jónína dóttir mín, sem er íþróttaþjálfari og ég veit ekki hvað fleira segir mér að hreyfingin verði að vera almennileg og nógu langdregin ef árangur eigi að nást til að brenna fitu. Árum saman hélt ég að það væri nóg að hreyfa sig svona kortér í senn og dreifa því yfir daginn. En Ninna sagði að það væri alveg ónýtt. Hreyfingin yrði að standa í meira en 20 mínútur því fyrr færi líkaminn ekki að brenna fitunni.
Eftir trimmið yrðí síðan að innbyrða eitthvað af kolvetni og það mætti ekki dragast í meira en 20 mínútur. Mig varðar ekkert um rökin fyrir þessu, - hlýði bara Ninnu. Ég byrjaði að hlýða henni 1997 og náði af mér níu kílóum á einu ári. Síðan olli svokallað samfall hryggjarliða því að ég get ekki verið eins grimmur í orkubrunanum og er aftur búinn að bæta á mig þessum kílóum. En ég hef engar áhyggjur, fer bara betur eftir Ninnu hér eftir, trimma oftar og er þegar búinn að taka af mér fyrstu tvö kílóin af níu.
Mér finnst best að trimma á kvöldin. Það þurfti Ninna ekki að segja mér. Stress dagsins með tilheyrandi adrenalíni hefur sest í líkamann og það er eins og hreinsa skítugan svamp að fara í bað á eftir að ekki sé talað um hvað hugurinn hreinsast. Síðan sofnar maður eins og barn.
Athugasemdir
Má til að skipta mér svolítið af vegna þess að ég vil að þú lifir sem lengst og hafir sem minnst fyrir því. Þess vegna vona ég að dóttir þín sé ,,rétt" stefnd í næringarfræðinni hvað varðar orkubrennslu líkamans, Það er sorglegt hvað Ameríkananum hefur tekist að ljúga upp á okkur síðustu 30 árin í þessum efnum og allt í nafni vísindanna. Afleiðingin er eins og við þekkjum allt í kringum okkur. Yfirfull sjúkrahús og helftin af þjóðinni glímir við offitu. Lausnin er afar einföld og auðveld í framkvæmd: Minna af kolvetnum- meira af smjöri. Samt sem áður, hreyfing er okkur öllum nauðsynleg hvort sem við erum feit eða grönn..
Kveðja, Kristján
Kristján Oddsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.