6.5.2010 | 00:18
Dásamleg sýning.
Var að koma af dásamlegri sýningu í Þjóðleikhúsinu. Heilmikill söngleikur og allt að 40 manns á sviðinu.
Kannski ekkert nýtt nema fyrir það að á sviðinu var fólk frá ekki stærra samfélagi en Sólheimum í Grímsnesi og varla hægt að trúa því að þetta fólk gæti staðið að svona góðri og vel fluttri sýningu.
Sýningin er sett upp í tilefni af 80 ára afmæli Sólheima og enn og aftur sýnir Sólheimafólkið hvað í því býr.
Ljóst er að Edda Björgvinsdóttir hefur unnið kraftaverk og ekki í fyrsta sinn við það að semja handrit og ná því fram úr leikendum sem raun ber fagurt vitni.
Sýningin er áhugaverð vegna þess að í henni er varpað ljósi á ýmis atriði í lífi hinnar einstöku konu, Sesselju Sigmundsdóttir, og í sögu Sólheima, sem ekki hefur verið mikið fjallað um áður.
Sólheimar eiga sérstakan sess í hjarta allra sem kynnast þessum einstaka stað og fólkinu, sem þar býr.
Það eru engin jól hjá mér nema að hafa fyrst farið og verið á litlu jólunum á Sólheimum til að njóta einstakrar einlægni, lífsgleði og ljúfmennsku fólksins þar.
Læt fylgja með litla mynd sem ég stalst til að taka án flass ofan af efri svölum í kvöld án þess að nokkur yrði þess var.
Athugasemdir
Ekki séð þessa sýningu en trúi vel að hafi staðið undir væntingum og vel það. Sólheimar er einstakur staður og Edda Björgvinsdóttir er einstök kona. Og með hættu á að vera væmin, þá ert þú einstakur líka. Hef alltaf jafn gaman af því að lesa bloggið þitt, svo mannlegt og hlýlegt, sem alltaf mikilvægt en ekki síst um þessar mundir. Takk fyrir mig :-)
ASE (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.