6.5.2010 | 15:33
Verður slysaaldurinn færður upp um eitt ár ?
Á milli mín og föður míns var það kynslóðabil að hann varð að bíða til 18 ára aldurs til þess að fá ökuréttindi en ég til 17 ára aldurs.
Þegar aldurinn var færður niður um eitt ár gafst það ekki verr en svo að þeirri breytingu var við haldið.
Ég set spurningarmerki við það að slysum muni fækka við það að lækka aldurinn úr 18 í 17.
Ég hygg að svipað gildi um akstur og flug að slysatíðnin sé hærri hjá óvönum stjórendum bíla og flugvéla en hjá vönum og aldurinn skipti miklu minna máli.
Sem sé að eitt ár í aldri til eða frá skipti ekki máli eftir að fólk er orðið 16 ára.
Ég dreg því í efa árangur þess að færa aldurinn upp um eitt ár því að slysatíðnin á fyrsta ári ökuprófs muni einfaldlega færast upp um eitt ár.
Skynsamlega hefði verið að þrengja skilyrðin fyrir ökuréttindum fyrsta árið eftir að ökuréttindi eru veitt, til dæmis með takmörkunum á stærð, vélarafli og hraðagetu bíla, sem nýliðar megi aka á fyrsta árið.
Jafnvel að þeir megi ekki hafa farþega með sér. Þannig er það í fluginu hvað snertir réttindi til þess að taka farþega með. Menn taka fyrst svonefnt sólópróf og síðar réttindi til að taka fólk með sér.
Ökuleyfisaldur hækki í 18 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það gæfi sennilega meiri árangur að færa aldurinn niður um eitt ár. Þá eru unglingar enn meðtækilegri fyrir tilsögn eldra fólks og því kannski meiri möguleiki á að þeir færu varlega. Samhliða því væri hægt að herða viðurlög við umferðalagabrotum hjá ökumönnum á fyrsta ári, hugsanlega væri hægt að láta viðurlög lækka við hvert ár sem engin brot eru framin þar til ákveðnu marki yrði náð.
Gunnar Heiðarsson, 6.5.2010 kl. 15:47
Ég er sammála því að hver og einn þurfi að vera með sólópróf í ákveðinn tíma á meðan spennan er að fjara út. Það mætti alveg eins mæla í klukkutímum í akstri alveg eins og í flugi - ekki eftir aldri sem er jú afstæður.
Sumarliði Einar Daðason, 6.5.2010 kl. 16:40
Nú er ég ósammála þér, Ómar.
Slysatölfræðin sýnir að aldurshópurinn 17-25 ára er margfalt líklegri en þeir sem eldri eru til að valda bílslysum, ekki síst alvarlegum bílsysum. Ég held að að sé alls ekki bara útaf reynsluleysi, þó reynsluleysið spili aupvitað inn, en líka og ekki síður út af þroskaleysi.
Tvítugir strákar eru oft búnir að keyra alveg helling, jafnvel eiga sjálfir bíl í þrjú ár, en þeir eru samt hættulegir, þar sem þeir taka alltof of oft alltof mikla áhættu. Stelpurnar eru ef mig misminnir ekki mun skárri, þó líklegt sé að þær keyra að meðaltali minna.
Við 25 ára aldur erum við strákarnir (að meðaltali) búnir að þroskast og vitkast nóg til að slysatíðni er orðin allt önnur, ekki háð því hvort við höfum haft bílpróf í 7 eða 8 ár, heldur af því við höfum þroskast.
Með því að hækka bílprófsaldurinn í 18 ár tökum við lang-hættulegasta árganginn úr umferð og fækkum ökumönnum í hópnum 17-25 ára um 12.5%. Ég held að það muni skila sér, líklega í um 10-12% færri slysum af völdum þess hóps. Og það munar um minna.
Að auki held ég við fáum "bónus" effekt við það stærri hluti stálpaðra unglinga þurfi að reiða sig á annan ferðamáta en að keyra sjálf á einkabílum.
Einar Karl, 6.5.2010 kl. 20:27
Sammála og hef nefnt það áður, og þetta með að gera í staðinn meiri kröfur fyrsta árið er bara gott, það að gera þetta í tímum held ég geti verið verra viðureignar vegna vandamála við skráningu tímanna og svo þetta með "sóló" á bíl í eitt ár er líka svoldið strangt er það ekki Ómar og Sumarliði ?, en stærð/gerð bíls, ekki draga tengivagn/kerru og kannski fjöldi farþega t.d. einn það er þá allavega hægt að bjóða kærustunni/kærastanum með.
Kristján Hilmarsson, 6.5.2010 kl. 20:28
NR.3 innlegg frá Einari Karli læddist inn meðan ég skrifaði mitt, svo það er ekki það sem ég segist sammála, hann leggur til að vegna sannaðrar slysatíðni 17 til 25 ára sé rétt að gera þetta og hefur svosem nokkuð til síns máls, en eru nú 17 ára oftar í alvarlegum slysum en t.d. 18 til 19 ?? ég hef ekki séð neinar tölur um það.
Og svo að blanda þessu inn í umhverfismál ...nei.
Kristján Hilmarsson, 6.5.2010 kl. 20:34
Þetta er gert í flugi og ég veit ekki til þess að mörg slys í sólóflugi hafi verið hér á landi. Ómar ætti að þekkja það betur. Hann er með mjög marga flugtíma að baki - goðsögn að mínu mati.
Eftir því sem ökumaður skynjar betur hversu hættulegt tækin eru - því minni líkur eru á því að hann fíflist á tækinu. Hann skynjar hversu alvarlegt þetta er. Ég veit um krakka sem aka um á dráttarvélum og eru hinir ábyrgustu ökumenn þegar þeir verða 17 ára. Þetta er bara spurning um uppeldi.
Sumarliði Einar Daðason, 6.5.2010 kl. 20:55
Óhjákvæmilega hef ég fræðst mikið um þessi mál sl. tvö ár, en ég útskrifaðist sem ökukennari frá HÍ í des 2009. Þetta sem Einar Karl segir er hárrétt, þetta snýst um þroska að miklu leyti, síður um reynslu þó auðvitað skipti hún máli líka.
Við vitum t.d. að fullorðnir útlendingar sem ekki eru vanir malarvegum, eru að lenda í alvarlegum slysum, svo ekki skal vanmeta reynsluna. En slysatíðni 17 ára ökumanna er skelfilega há og þessi "tilraun" er vel þess virði að gera. Það er þá ekki annað að gera en að breyta aftur í fyrra horf ef hún skilar ekki árangri.
Og þetta með muninn á piltum og stúlkum á þessum aldri er einfaldlega staðreynd. Piltar haga sér með öðrum hætti í umferðinni en stúlkur og fyrir því liggja sálfræðilegar og menningarlegar ástæður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.5.2010 kl. 22:31
Vil bæta því við að það sem Ómar nefnir varðandi vélarkraft og "sólópróf" hefur líka verið í athugun.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.5.2010 kl. 22:40
Ég fellst á það sem rök að stórum hluta að þetta snúist um þroska. Sjálfur byrjaði ég ekki að læra að fljúga fyrr en ég var orðinn 25 ára. Það var að vísu mikið af peningaástæðum en ekki síður vegna þess að ég taldi mig þurfa að vera búinn að hlaupa af mér hornin eins og sagt er áður en ég færi að fljúga.
Fróðlegt verður að fylgjast með áhrifum fyrirhugaðrar breytingar. Held þó að með öflugum takmörkunum á fyrstu árum réttindanna sé hægt að ná sama árangri.
Áður hef ég lýst tveimur atvikum í flugi með öðrum flugmanni áður en ég byrjaði að læra, þar sem niðurstaða mín var sú að ég gæti allt eins flogið sjálfur, gæti varla orðið verri en þessi flugmaður var.
Ómar Ragnarsson, 6.5.2010 kl. 22:54
Ég byrjaði ekki að fljúga fyrr en ég var 22ja ára gamall og lenti í ýmsu sem eldri og reyndari flugmenn báru ábyrgð á. Sem fékk mig einmitt til þess að leggja áherslu á öryggi umfram allt - og helst bara fljúga einn. Síðan lenti ég í bílslysi 25 ára gamall vegna kæruleysis 70 ára gamals vörubílstjóra (slapp lítið slasaður vegna bílbeltis!).
Oftar en ekki þá þarf fólk að lenda í alvarlegum óhöppum til þess að fara að haga sér á ábyrgan hátt. Það vill því miður oft bitna á öðrum sem eiga það ekki skilið. Þess vegna finnst mér að frekar ætti að horfa til hvers einstaklings sem slíks fremur en aldur. GPS og GSM tímaskráningarkerfi, sem tryggingafélögin gætu leigt út, er mun ódýrara fyrir samfélagið heldur en alvarleg slys sem kosta milljarða.
Þetta er ekki bara siðferðislegt mál heldur líka einföld hagfræði.
Ps. þýsku hraðbrautirnar eru til þess að botna bílana
Sumarliði Einar Daðason, 7.5.2010 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.