Ísland sér á parti? Gengur ekki upp.

Á fundum hjá 4x4 og Slóðavinum hef ég lýst í fyrirlestrum því hvernig akstri á torfærutækjum utan vega er háttað hjá þjóðum austan hafs og vestan.

Langflestir fundarmanna hafa sýnt skilning þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst.

Í Noregi, landinu, sem mest svipar til Íslands, er allur akstur utan vega bannaður, líka á snjó yfir veturna. 

Þar yrði jeppa á stórum dekkjum ekki einu sinni leyft að fara eftir GPS-mælingu að vetrarlagi ofan á snjóþekjunni sem liggur á malbikaða veginum yfir Harðangursheiði.

Miðað við Noreg er Ísland gósenland slíkra ferða og getur verið það áfram ef tillit er tekið til annarra hópa fólks, sem sækist eftir kyrrð, friði í hinni ósnortnu náttúru. 

Margir halda að ríkin í og við Klettafjöllin í Bandaríkjunum, sem eru jafnvel dreifbýlli en Ísland, séu dýrðarland fyrir torfærutæki í líkingu við það sem halda mætti af lestri blaða og tímarita um þau efni, sem seld eru hér á landi.

Þetta er alrangt og af þeim 25 þjóðgörðum sem ég hef skoðað í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er aðeins leyfður torfæruakstur í þjóðgarðinum Giljalandi skammt frá Mekka torfæruaksturins sem er bærinn Moab við Coloradofljótið.

Í þeim þjóðgarði eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum en að öðru leyti er allur akstur bannaður utan þessara merktu slóða og þung viðurlög við brotum á því í þessum jeppaþjóðgarði.  Punktur.

Ákveðin tiltölulega lítiil, afmörkuð svæði eru í nágrenni Moab fyrir keppnis- og æfingaakstur.

Í vesturríkjunum eru einstakar afmarkaðar leiðir ætlaðar til torfæruaksturs svo sem Rubicon og akstursleiðirnar í Baja-akstrinum. 

Á öllum þeim svæðum, sem ég hef skoðað erlendis sem keppa við Ísland um ferðamenn sem vilja njóta náttúrunnar er hvergi að finna það takmarkalitla frelsi sem sumir eigendur torfærutækja hafa tekið sér hér á landi.

Alls staðar er keppst eftir því að laða til ferðalaga fólk, sem vill njóta útivistar og náttúrufegurðar í ósnortinni náttúru fjarri vélaskarkala nútímans. 

Við munum tapa þessum stóra markhópi milljóna manna frá okkur ef við friðum ekki stór svæði fyrir torfærutækjaeigendum sem halda að þeir eigi að geta spænt eftir gönguslóðum og kindagötum eins og sumir þeirra telja eðlilegt. 

Dæmi: Göngustígurinn Árnastígur liggur frá Grindavík í norðvestur í átt til byggðanna á Rosmhvalanesi. Hann liggur um harðar klappir og á fundinum með Slóðavinum voru menn sem töldu sjálfsagt að torfærutæki mættu þeysa um stíginn af því að þau mörkuðu ekki í klappirnar. 

Göngufólk sem gengur þennan stíg gerir það til þess að setja sig í spor vermanna og gangandi fólks fortíðarinnar sem gekk svo oft þennan stíg að hraunklappirnar eru ljósari á litinn en hraunið í kring.

Þessi upplifun gangandi fólks er eyðilögð ef torfærutækjum er leyft að fara þarna um að vild á þeim forsendum að allar göngu- og kindagötur á Íslandi séu þeim opin.

Ísland er nefnilega ekki stórt, heldur lítið miðað við það ferðafólk með ólíkar áherslur, sem fer sífjölgandi.   

Öræfajökull hefur þegar verið friðaður fyrir vélknúinni umferð og hafa jeppamenn yfirleitt ekkert við það að athuga. 

Ég er í hópi þeirra sem hrífst af fjölbreytileika í ferðum um hálendið og fólkvangana, gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi og hef notið allra þessara ferðamáta. En mér kemur ekki til hugar að hægt sé að viðhalda því taumleysi sem sumir eigendur torfærutækja og hesta virðast halda að hér eigi að ríkja. Því verður að linna.

Staðreyndin er sú að hver fyrrnefndra hópa er orðinn það stór að það geta ekki allir verið alls staðar heldur verður að fara skipta landinu upp og gera það í skynsamlegri sátt.

Eigendur torfærutækja eru svo heppnir hér á landi að hafa mestallt hálendið undir þegar þykkur snjór liggur yfir því á veturna.

Að öllu samanlögðu eru meiri tækifæri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar til að hægt sé að taka torfærutæki til kostanna án þess að það skaði landið eða spilli fyrir göngufólki. 

Ásókn í takmarkalitla umferð torfærutækja er hluti af því hömluleysi og frekju sem leiddi þjóðina í efnahagshrun.

Þetta er þjóðarlöstur. Að auglýsa Ísland sem land hins algera frelsis í torfærutækjaumferð eins og heimasíður ýmisssa gefa í skyn gengur ekki upp.

Nema að á þessu sviði eins og fleirum sé okkur orðið sama um allt nema hugarfarið "take the money and run!" , "...á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint...!"  

 


mbl.is Nauðsynlegt er að taka á vanda vegna torfæruaksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú meira endemis tuðið. Í raun væri best að banna bara alla umferð um land, hvort sem um ræðir fótgangandi eða akandi. Áníðsla vegna ferðamanna verður alltaf vandamál og áníðsla vegna gönguferðamanna er vel þekkt vandamál erlendis.

Kristinn (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 08:19

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég kynntist dálítið tveimur Norðmönnum sem unni við byggingu álversins hér á Reyðarfirði. Álversins sem breytti flestu til hins betra hér í Fjarðabyggð.

Eitt sinn sáu þeir snjósleðamenn þeysa í hlíðunum fyrir ofan þorpið og spurðu hvort þetta væri leyfilegt. Ég sagði þeim að svo væri og þá færðist ánægjusvipur yfir andlit þeirra og þeir sögðu að svona ætti þetta að vera, ólíkt því sem væri í Noregi þar sem allt væri bannað. Þeim fannst hreint frábært hvernig hægt er að nota snjósleða hér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.5.2010 kl. 08:57

3 identicon

Takk fyrir góðan pistil og takk fyrir að berjast fyrir landinu okkar við oft lítinn sklining

ASE (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 09:03

4 identicon

Takk fyrir mjög hófstillta gangrýni á hömluleysi okkar.  Við virðumst óttast reglur eins og pestina.  Óttumst að missa frelsi til að gera það sem okkur sýnist þegar okkur sýnist.  Á sama tíma þolum við ekki þegar eitthver veldur okkur ónæði eða gengur inn á okkar persónulega svæði.  Þetta sést víða og kannski helst í umferðinni eins og þú, Ómar hefur oft bent á.  Að banna umferð vélknúinna ökutækja á  ákveðnum svæðum og halda fast í að framfylgja banni á akstri utan "vega" er okkur flestum í hag.  Nógu margir torfærir slóðar eru um allt land fyrir torfæruáhugamenn og enn eru sem betur fer stór svæði handa gangandi ferðamönnum til að njóta kyrrðar friðsældar.  Með reglum fá báðir þessi hópar að njóta sín.  

Geir (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 09:13

5 Smámynd: Kristján Logason

Sæll Ómar og takk fyrir góðan Pistil.

.....hluti af því hömluleysi og frekju sem leiddi þjóðina í efnahagshrun. ....

Segir svo margt um okkar þjóðfélag síðustu ár ekki bara um torfærutröll

í Oceano í Californiu eru sandhólasvæði sem og strönd

Ströndin Oceano beach er eina ströndin þar vestra sem ég kom á þar sem spyrna má tækjum og óspart til þess notuð. Annarstaðar má sumstaðar keyra niður á strönd fyrst og fremst á 4 Júlí ef þú ert heimamaður eins og á Ameli Island. Það er hins vegar bara til að leggja.

Sandhólasvæðið er afmarkað og aðeins á takmörkuðu svæði sem má keyra.

íslenskum ofurspænurum myndi þykja aðstæður utan brauta fátæklegar þar vestra  og viðurlögin hörð. Þar eru menn hins vegar sáttir enda þjóðgarðar þeirra og fylkisgarðar frábærir staðir að heimsækja og fullir af lífi bæði dýra og manna sem eru þar í sátt og samlyndi.

Meira að segja á stað eins og Baja california í Mexico þar sem margir heimshornaflakkarar á ofurbílum og hjólum fara er borin virðing fyrir sandauðninni. Það gera líka flest allir þeir amerískir ferðamenn sem þangað koma. Sumir með fjórhjól og krossara í eftirdragi.

Þar eru þeir sem aka utan slóða taldir til landsóða

Kristján Logason, 17.5.2010 kl. 09:48

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég er sammala þér í meginatriðum Ómar og fátt fer meira í taugarnar á mér en hávaðasöm fjórhjól á dómadal og í Landmannalaugum.. fræsandi upp landið með tilheyrandi spjöllum og hávaða..

Varðandi Noreg þá eru þeir talsvert öfgakenndir þegar kemur að akstri almennt og elska að banna allan andskotan.. en ein ástæða þess að norðmenn banna td vélsleðaakstur utan merktra brauta sérstaklega ætluð fyrir slík farartæki og smölun hreindýra af sömum, er sú að þeir líta á hávaðan frá þessum tækjum sem mengun.. fólk eigi rétt á því að stunda gönguskíði og almenna útivist án þess að verða fyrir truflunum af þessum tækjum.  annað sjónarmið er hið ríka dýralíf sem noregur státar af.. þessi tæki og tól trufla lífríkið mun meira en gerist á hálendi íslands.

Óskar Þorkelsson, 17.5.2010 kl. 10:01

7 identicon

Er þetta ekki sami Ómar Ragnarsson sem hefur margoft verið tekinn fyrir að lenda flugvélum utan flugvalla? Sá sami og bjó sér til sinn eigin flugvöll uppá hálendi? Sá sami og flaug í gegnum Dyrhólaey?

Langstærstur hlutir ferðamanna á vélknúnum ökumanna kunna og virða reglur um akstur utanvega.

Þeir sem setja sínar eigin reglur í sínu sporti eru kallaðir svartir sauðir og þeir finnast allsstaðar.

Hannes (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 10:07

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Alltaf ertu jafniðinn við að afla sem traustra og bestu upplýsinga til að miðla áfram. Ljóst er að við þurfum heldur en ekki að taka til í eigin ranni. Af hverju kom til bankahrunsins nema af sömu ástæðum og þeim að hér er þvílíkt umburðarlyndi fyrir allskonar lögleysu að leitun er að öðru eins. Hér er bókstaflega lítið sem ekkert gert og þá helst ef útlendingar eiga við sögu þar sem utanvegaakstur kemur við sögu.

Ef settar verða góðar og sanngjarnar reglur um allt sem viðvíkur hvort sem er notkun vélknúinna farartækja í náttúru landsins eða öðru hliðstæðu, mætti reikna með að við gætum meira fengið út úr hollri útiveru en helst án vélknúinna farartækja. 

Bestu þakkir Ómar!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.5.2010 kl. 12:18

9 identicon

Ég  gæti ekki verið meira sammála þér og mér finnst alveg hræðilegt hvernig sumir trylla á þessum torfærumótorhjólum upp um alla hóla og yfir nánast allt sem verður á vegi þeirra.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 20:01

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það eru í gildi lög um utanvega akstur. Þau lög eru skýr að öllu leiti nema í einu atriði. Þar er sagt að heimilt sé að aka eftir slóðum en þeir ekki nánar skilgreindir. Nú er verið að vinna að kortlagningu slóði á hálendinu og skilgreina hverjir eru fyrir akstur tækja og hverjir ekki.

Fjórhjól skilur eftir sig minna rask en reiðhestar. Auðvitað er hægt að misbjóða þessum tækjum, eins og öllu öðru, og geta þau þá valdið miklu tjóni.

Vandamálið er ekki reglugerðarbáknið, vandinn er að fylgja þeim reglum sem þegar eru til staðar eftir. Löggæslan er of veik, það lagast ekki við hertari reglur!

http://noldrarinn.blog.is/admin/blog/?entry_id=1056221

Gunnar Heiðarsson, 17.5.2010 kl. 20:30

11 identicon

Því miður eru mestu landníðingarnir Ríkið sjálft og svo Orkuveiturnar,

En snúum okkur að skemtilegri hlutum,alvöru spól og jarðvegs tæting verður á Hellu um Hvítasunnu helgina.Tveggja daga Torfæru keppni.Sem er hluti af Norður Evrópu Meistaramótinu.

Óli Bjöss (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 00:07

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef aldrei flogið í gegnum Dyrhólaey og aldrei verið "tekinn" fyrir að lenda flugvél.

Á öllu hálendinu eru aðeins um tíu lendingarstaðir fyrir flugvélar sem eru alls með innan við tíu kílómetra langar flugbrautir en hins vegar 23 þúsund kílómetrar af vegaslóðum. 

Vegaslóðarnir eru sem sé 2000 sinnum lengri. 

Að leggja flugvélar og torfærutæki að jöfnu varðandi "skemmdir" á hálendinu eru út í hött, Hannes. 

Skoðaðu til dæmis "flugvöllinn" sem skráður er og merktur við Veiðvötn. 

Melurinn er valtaður einu sinni á ári og á hverju vori, áður en valtað er, sést ekki að þarna hafi verið lent flugvélum. 

Við hliðina á vellinum liggur merktur vegarslóði sem með árunum hefur grafist allt að hálfan metra niður í melinn. 

Ástæðan er sú að bílarnir aka alltaf í sömu förunum en flugvélarnir lenda aldrei á sama stað á völlunum. 

Hvernig væri, Hannes minn, að menn væru með einhverja þekkingu á því sem þeir tala um? 

Ómar Ragnarsson, 18.5.2010 kl. 00:51

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Get bætt því við, að líklegast er hvergi í nokkru landi hægt að hafa not af jafn löngu neti vegaslóða og hér á landi.

Þess vegna er ástæðulaust að sætta sig ekki við 23 þúsund kílómetra heldur vilja margfalda þá lengd með því að taka með alla götuslóða og kindagötur fyrir torfærutæki eins og sumir vilja nú. 

Ómar Ragnarsson, 18.5.2010 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband