Í rétta átt.

Ég hef áður lýst ástæðum þess hve lítið virðist hafa þurft til að að grípa til lokana á flugumferð.

Miklu ræður að framleiðendur hreyfla, tryggingafélög og fleiri aðilar vilja hafa allt sitt á þurru varðandi ábyrgðir á því að öryggið sé í fyrirrúmi. 

Það þótti mikið framfaraskref þegar allt áætlunarflug færðist smám saman yfir í það að vera blindflug, þ. e. að flogið væri eingöngu eftir mælitækjum um borð í vélunum og á jörðu niðri,  og fluginu,  flughæðum og flugleiðum hvers loftfars stjórnað af flugumferðarstjórum til að tryggja öruggan aðskilnað. 

En nú er þetta aðal ástæða þess að flugbönnum er beitt vegna þess að þegar flogið er í blindflugi er gert ráð fyrir því að flugið sé öruggt þótt ekkert sjáist út úr flugstjórnarklefunum. 

Jafnvel þótt flogið sé í raun utan skýja og skyggni gott er gert ráð fyrir hinu og sú er aðal ástæða þess að banna flug ef minnsta hætta er á að flogið sé inn í öskuský, jafnvel þótt þunnt sé. 

Erfitt er að sjá áhrif ösku á flugvélahreyfla nema að mæla magn hennar á ákveðnum tíma á ákveðinni flugleið og taka síðan hreyfla í sundur og skoða, sem lent hafa í henni. 

Þetta þyrfti samt að gera til þess að öðlast meiri vitneskju um raunveruleg áhrif öskunnar og raunar gæti lengra gos í Eyjafjallajökli hugsanlega gefið tækifæri til slíks. En enginn óskar þess að gosið verði lengra, - síst af öllu fólkið sem býr næst eldstöðinni og hefur mátt þola mestar búsifjar af þess völdum.

Ég hvet fólk til þess einmitt núna þegar sunnan átt er á gosstöðvunum að skoða á mila.is myndina úr vefmyndavél á Þórólfsfelli sem beint er að Eyjafjallajökli. 

Það grillir varla í jökulinn í gegnum öskusortann sem hefur legið þar yfir allt frá því í fyrrinótt. 

Tveir frábærir erlendir ljósmyndarar, vinir mínir og Íslandsvinir, sem eru fyrir austan, eru að verða vitlausir af óþoli út af því að komast ekki til þess að mynda hina einstæðu og risavöxnu ísgjá sem er í Gígjökli. 

En illmögulegt er að gera það nema úr lofti. Svona ísgjá er ekki vitað til að nokkrir menn hafi séð nokkurs staðar í heiminum svo vitað sé. 

Þótt ég sé á flugvél með bulluhreyfli lagði ég ekki í það í gær að fljúga inn fyrir Múlakot heldur hef ég algerlega haldið mig utan við öskublandið loft í flugi mínu til þessa. 

Eins og sést á loftmyndinni hér að ofan, leggur öskumökk til norðurs frá gosinu og er ekki spáð breytingu á því næstu daga. 

Kann að vera að ég skjótist austur og aki inn í öskumettaða loftið hjá Fljótsdal til að kanna þetta betur. 

En samt er ólíklegt að ég fljúgi sömu leið á eftir. 


mbl.is Mildari reglur um flugumferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband