24.5.2010 | 06:52
Mætti skoða "lestarstjórana".
Þyrla gæti nýst við við þá þörfu nýjung að fylgjast með því fyrirbæri sem kalla má "lestarstjóra", en það eru bílstjórar sem í sumum tilfellum virðast vart færir um að aka í þjóðvegaumferð vegna hægagangs í akstrinum.
Þá má oft þekkja á hægum akstri þar sem þeir lötra áfram á allt niður í 50 kílómetra hraða við bestu aðstæður þar sem leyfður er 90 km hámarkshraði.
Fyrir aftan þá myndast oft langar raðir bíla og í þéttri umferð skapa þessir ökumenn hættu vegna þess að þeir lokka aðra til að reyna framúrakstur við erfiðar aðstæður.
Sumir þessara ökumanna aka afar skrykkjótt og er oft næstum því fyndið að sjá hvernig þeir virðast vera að fara á límingunum við það að taka beygjurnar í Kömbunum í þurru sumarveðri af "öryggi" með því að hægja á sér allt niður í 40 km hraða algerlega að aðstæðulausu.
Ég hef oft verið að reyna að rýna í það hvaða bílstjórar eru hér á ferð og reynist oft vera um gamalt fólk að ræða sem augljóslega er búið að missa hæfni til aksturs í þjóðvegaumferð en er samt á ferli og heldur að það skapi mikið öryggi fyrir það og aðra vegfarendur að aka sem allra hægast.
Þetta fyrirbæri er lygilega algengt en ég minnist þess aldrei að hafa nokkurn tíma séð lögreglu stöðva slíka bílstjóra.
Gómaðir úr þyrlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er ekki alltaf gamalt fólk sem við þurfum reyndar öll að taka tillit til. Það mætti líka huga að námskeiðum fyrir aldraða. En þeir hættulegu í þessu efni eru sauðirnir sem vita ekkert hvar í veröldinni þeir eru og geta aldrei haft hugann við það sem þeir eru að gera. Hef oft tekið eftir því að fari ég í gegn um þéttbýli þá dregur mig uppi bíll sem ég hleypi framúr. Nokkru síðar er ég komin aftur undir þennan sama bíl og hann spítir í og þetta endur tekur sig nokkrum sinnum eð þar til ég gefst upp og fer framúr á 120. Það er nefnilega stór hættulegt að vera í grennd við svona ökumenn. Það má margt um þetta segja en nóg að sinni.
Hrólfur Þ Hraundal, 24.5.2010 kl. 08:51
Með hækkuðu eldsneytisverði má reikna með að einhverjir vilji aka eitthvað hægar í sparnaðarskyni. Af hverju ætti að taka meira tillit til þeirra sem vilja fara hraðar en hinna sem vilja fara hægar. Eins og staðan er í dag gerist það gjarnan að þeir sem aka á hámarkshraða eru lestarstjórar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 24.5.2010 kl. 09:37
Það er rétt að lestarstjórarnir skapa mikla hættu. En einnig eru þeir varasamir sem að geta ekki haldið ferðahraða, eru sífellt að rokka á milli þess að vera töluvert undir hámarkshraða eða yfir honum. Þessir sömu snögghægja síðan oft á sér þegar þeir sjá bíla, sem þeir telja vera lögregluna, koma á móti sér.
Aðalsteinn Baldursson, 24.5.2010 kl. 10:04
Eins og Aðalsteinn bendir á þá eru til bílstjórar sem geta ekki haldið jöfnum hraða, safna bílum fyrir aftan sig, svo þegar einhver fer framúr þá gefa þeir í, hitt er líka til að svona akstur skapast af því að viðkomandi bílstjóri er að "skoða" eitthvað sem "honum" finnst áhugavert en samt ekki svo að hann stoppi alveg. En annars hefur mér alltaf fundist að "lestarstjórar" sé bíll nr. 2 í röðinni, sem stundum er í samfloti með fremsta bíl og því ekkert að fara framúr og það vita það allir sem hafa ekið á þjóðvegum landsins að það er töluvert meira mál að fara framúr 2 bílum en einum. Húsbíla eigendur eru sem betur fer að ná því loksins þegar þeir eru margir saman að hafa þokkalega langt á milli bíla svo hinir geti farið framúr áreynslulaust. Eins finnst mér að sumstaðar á þjóðvegum landsins ætti að taka upp lámarkshraða svo ekki skapist óþarfa framúrakstur.
Sverrir Einarsson, 24.5.2010 kl. 10:59
Einhvers staðar hefði hugmyndin um tvöföldun vega og/eða breytingar á samgöngukerfum verið tekin til skoðunar. Skrítið að þurfa að vera með 11 háskólastofnanir, 2 stórar verslanamiðstöðvar (Kringluna og Smáralind) og 4 einkabanka, jafnframt því sem íslenskir ökumenn og ferðamenn þurfa að aka vegi sem eru jafnframt notaðir undir mest allan flutning á vörum til og frá landsbyggðinni og allir keyra á sömu akgreininni?
Ingimar (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 11:12
Rétt hjá Ragnari Geir.
Ef maður leyfir sér að aka á hámarkshraða þá oftar en ekki er maður snigillinn. Eilíft verið að taka fram úr manni.
En, þetta með lestarnar. Er þetta ekki spurningin um skynsemina, bæði hjá þeim sem kjósa að fara hægar og svo ekki síst hinna, sem kjósa að vera alltaf á ólöglegum hraða. Þó það sé að sjálfsögðu meðsekt í glæp að víkja fyrir þeim sem vill komast framúr á ólöglegum hraða þá kannski þarf að loka hvíta auganu svona endrum og eins til að skapa ekki óþarfa hættu.
Skussinn (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 12:21
Mæltu manna heilastur, Ómar. Það er löngu tímabært að taka á þessu vandamáli.
Baldur Hermannsson, 24.5.2010 kl. 12:29
Þörf ábending Ómar, "lestarstjórar" eru einn hættulagasta fyrirbrigðið á þjóvegum landsins.
Ég ek tæpa 40 km til og frá vinnu eftir þjóðveginum, það er oft sem maur hefur séð "næstum" slys, þar sem þessu akstulagi er um að kenna.
Það er einnig annað sem ég hef orðið vitni að, eftir að dregið hefur verið úr fjármagni til löggæslu viðist umferðareftirlit veða einn fyrst fyrir samdrættinum. Þetta hefur orðið til þess að umferðahraði á þjóðvegum hefur hækkað. Árið 2007 var hægt að aka á 90-95km hraða, undantekning var ef einhverjir tóku fram úr. Nú heyri það til undantekninga að einhver nennir að halda sig á eftir manni.
Það þarf að gera átak í þessum málum, vonandi er þetta starf sem verið er að vinna þessa helgi upphafið að frekara eftirliti.
Þó fáir nenni lengur að aka á 90-95, skapa þó þeir sem á þeim hraða aka ekki bílalestir fyrir aftan sig, "lestarstjórarnir" eru þeir sem eru á mun minni ferð, langt undir hámarkshraða. Hverjar svo sem ástæðurnar eru, þá er slíkur akstur stór hættulegur. Það er spurning hvort ekki eigi að setja reglugerð um sektir ef of hægt er ekið.
Vegakerfið hjá okkur er ekki byggt fyrir mismunandi ökuhraða. Þá kemur maður að þeirri undarlegu umferðarreglu að vörubílar og bílar með aftanívagna mega ekki aka nema á 80km hraða.
Til að hafa mismunandi umferðarhraða verður að hafa jafn margar akreinar í hvora átt og hraðamörkin eru, jafnvel eina að auki fyrir þá sem einhverra hluta aka enn hægar!
Gunnar Heiðarsson, 24.5.2010 kl. 14:37
Ég tek undir með Ómari að 50 km. hraði á 90 km. vegi er að sjálfsögðu allt of hægur hraði. En framúrakstur framúr bílum á löglegum hraða er líka vandamál. Sumir virðast líta á þá sem eru nálægt hámarkshraða sem snigla. Það sjónarmið getur verið lífshættulegt. Á Suðurlandsvegi frá Rauðavatni er t.d. fyrsti vegarspottinn með 80 km. hraða. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því og telja að þarna sé 90 km. hraði. Í gær varð ég t.d. vitni að glannalegum framúrakstri framúr bíl sem var á nálægt 80 á þessum spotta. Sá sem ók framúr þurfti að sveigja framúr bíl sem kom inn á veginn frá hægri og hafði metið aðstæður þannig að bílarnir myndu ekki fara hraðar en 80.
Eftir að hraðamyndavélarnar komu upp í Ölfusinu hafa aðstæður þar snarbatnað. Raunverulegur meðalhraði hefur að líkindum lækkað úr nálægt 100 niður í um 90.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 24.5.2010 kl. 14:59
Ég þoli bara þrjá bílstjóra. Mig sjálfan, mig sjálfan og mig sjálfan. Ökuleyfi annarra ætti að afturkalla.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.