6.6.2010 | 05:47
Danir eru drengir góðir.
Afhending handritanna 1971 á sér enga hliðstæðu í samskiptasögu þjóða.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á átjándu öld réði enginn einvaldskonungur eins litlu í nokkru landi eins og Danakonungur á íslandi.
Kristján 7 skipaði svonefnda Landsnefnd um 1770 til þess að ná fram umbótum á Íslandi, en þá hafði Íslendingum fækkað á meðan Norðmönnum stórfjölgaði.
Íslenski aðallinn, embættismenn og stórbændur, komu í veg fyrir nær allar umbæturnar sem nefndin vildi beita sér fyrir. Í Íslandssögunni, sem við vorum látnir læra var aldrei minnst á þetta.
Ef einhver önnur þjóð en Danir hefðu ráðið á Íslandi væri íslenska ekki töluð hér á landi í dag.
Alþjóðleg aðstoð á vegum Dana til Íslendinga eftir Móðuharðindin á sér ekki hliðstæðu. Bretar lyftu til dæmis ekki litla fingri til aðstoðar Írum í hungursneyðinni miklu í því landi á nítjándu öld.
Þegar sonur minn var í námi í dönskum háskóla kom í ljós að enn var í gildi ívilnun til handa íslenskum nemendum, sem höfðu átt foreldra er voru þegnar Danakonungs einhvern tíma á ævinni.
Þetta er enn í gildi og eru leifar af mestu forréttindum sem nokkur aðall í Evrópu hafði frá því að íslenskir ráðamenn og yfirstétt gat látið syni sína læra frítt í dönskum háskólum án þess að vera skyldir til að senda synina í herþjónustu eins og danski aðallinn varð þó að gera.
Niðurstaða: Almennt eru og voru Danir drengir góðir, að minnsta kosti miðað við aðrar þjóðir í Evrópu.
Allt það besta komið frá Dönum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
jamm bændur.. þá meina ég landeigendur hafa lengi staði íslandi fyrir þrifum.. og gera að hluta til enn.
Óskar Þorkelsson, 6.6.2010 kl. 06:17
Tek undir með þér, það má þakka þeim að við eigum ennþá þessar skruddur, værum sennilega búnir að sjóða þær og éta ef þeir hefðu ekki passað upp á þær fyrir okkur.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.6.2010 kl. 08:50
Þetta er athyglisvert. Í hverju fólst þessi ívilnun Ómar?
Guðmundur Sighvatsson (IP-tala skráð) 6.6.2010 kl. 08:51
Hárrétt Ómar
Haraldur Bjarnason, 6.6.2010 kl. 09:13
Þakka þér Ómar. Danir voru okkur ekki verstir það voru Íslenskir prestar, sýslumen og stórbændur.
Við vorum heppin með herraþjóð, eða skoðum ef það hefðu verið Spánverjar. Herraþjóð er auðvita herraþjóð og það þarf hún að munna en við þakka það sem gott var.
Hinu má gleyma þar sem af því hlaust minni skaði en af gerðum Íslenskra embætismanna, hvort sem var til himins eða jarðar.
Hrólfur Þ Hraundal, 6.6.2010 kl. 10:06
Og enn má bæta því við að Danir héldu Jóni Sigurðssyni uppi í starfi hans í Kaupmannahöfn á sama tíma sem hann barðist fyrir sjálfstæði Íslendinga.
Ætli slíkt sé ekki einsdæmi sem og það að sjálfstæðisbaráttan kostaði ekkert mannslíf.
Ómar Ragnarsson, 6.6.2010 kl. 13:08
Ívilnunin fólst í lækkuðum skólagjöldum sonar míns við Háskólann í Horsens af því að faðir hans hafði verið þegn Danakonungs í 3 og hálft ár og móðir hans í eitt og hálft ár !
Árni Magnússon og Skúli fógeti hefðu að sjálfsögðu ekki átt neina möguleika á umbótastarfi sínu ef umbótasinnaðir menn í Kaupmannahöfn hefðu ekki stutt þá gegn spilltum íslenskum ráðamönnum og einokunarkaupmönnum, sem raunar átti líka ítök í Höfn.
Ómar Ragnarsson, 6.6.2010 kl. 13:11
Þegar ég var í námi ásamt eiginkonu minni í Danmörku (1998-2002) þá var enn í gildi svokallað "Islændinge fradrag".
Þetta er í raun skattaafsláttur fyrir námsmenn s.s. ef að þeir stunda vinnu yfir sumarið eða með námi þá fengu Íslendingar þokkalega summu í afslátt af skattinum sem að borga skyldi fyrir vinnlaunin.
Taka skal fram að þetta þarf að endugreiða ef að námsmaðurinn/konan fær svo vinnu í Danmörku og heldur áfram búsetu þar. ( á þetta er minnst á þessari heimasíðu t.d. http://notendur.hi.is/joner/eaps/csee_al.htm ).
Ég bendi öllum á það sem að huga að því að fara í nám eða vinnu erlendis að kynna sér sinn rétt sem innflytjanda í viðkomandi land.
Athugið að það er í báðar átti hvernig fólk "notar" sér slíkt.
Bæði getur innflytjandinn "notað" sér það og eins getur yfirvald í viðkomandi landi "nýtt" sér vankunnáttu innflytjandans ef að hann veit ekki sinn rétt.
Ég vildi bara koma þessu að í þessa umræðu sem farið hefur fram á síðunni hjá þér Ómar.
Kv. Þorgils Bj. (gítarleikari í Sniglabandinu)
Þorgils Björgvinsson (IP-tala skráð) 6.6.2010 kl. 14:51
Alveg rétt Ómar, þetta ber okkur að rifja upp öðru hvoru. Ég kynntist Dönum vel 1948-50. Þó aðganstakmörk væru við Danmarks Tekniske Hoyskole komust Íslendingar með fyrrihlutpróf frá Íslandi sjálfkrafa inn. Danir voru þá margir gramir yfir "lösrielsen" þ.e. sambandsslitin, enda var þeim yfirleitt ekki kunnugt um að samningunum frá 1918 mátti slíta eftir 25 ár. Þetta var því ekki hepplegur tími til að bretta upp á handritamálinu. En þessi 20 ára deila var báðum þjóðum til sóma, sérstaklega Dönum, sem á endanum lögðu meiri áherslu á móralskan rétt Íslendinga en lagalegan rétt. En það er afsakanlegt að Danir hlægi að íslenskum banksterum sem halda að þeir geti betur rekið fyrirtæki eins og Angleterr on Magazin de Nord heldur en Danir sjálfir.
Sigurdur Helgason (IP-tala skráð) 6.6.2010 kl. 17:16
Já. Varðandi ísland fyrr á öldum, þá gleymist líka oft (líka í íslandssögunni þegar mér var kennd hún i barnaskóla) hvað ísland var í rauninni frumstætt bara langt fram á 19. öld. Eða frumstætt - hægt að kalla það ýmsum nöfnum. Vanþróað. Hörð lífsbarátta etc. En það er ekki þar með sagt að það hafi ekki líka átt við sum svæði í Evrópu á þeim tíma. En við erum að tala um ísland.
Að sem sagt, hugarfarið sko almennt á þesum tímum er svo allt öðtuvísi en við eigum að venjast í dag, að fátt er líkt með okkur og forfeðrunum.
Bara sem dæmi barnadauðinn. Að hann var gígantískur. Að um 1850 er hann um 350 dáin börn af hverjum 1000. Meina, hátt í helmingur. þá er mun minni barnadauði í Englandi, Danmörku og Noregi. (En álíka í Bæjaralandi þar sem hann var lengi mjög hár.) En eftir þetta fer hann lækkandi á Íslandi. Kom auðvitað í einhverjum toppum, sjúkdómar og þess háttar en samt.
Td. höfðu konur börn yfirleitt ekki eða lítið á brjósti fyrr en langt var liðið var á 19 öld. Og þá kenndu danskar ljósmæður ísendingum það.
Það eru mismundandi kenningar um þetta. Erfitt að segja nákvæmlega til um ástæður núna. Sumir telja jafnvel að börn hafi, beint eða óbeint, viljandi verið látin deyja, vegna þess að framfærslan var svo erfið. Erfitt að meta þetta. Meðal frumstæra þjóðflokka þekkist líka og þróast stundum ótrúleg harka (miðað við nútímahugsun)
Að fólk í nútímanum sér frumstæða þjóðflokka eða fyrri tíma líf í hyllingum og svona. Í rómantískum bláma. Það er oft mikill miskilningur.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.6.2010 kl. 23:35
Ég sakna samhugar - samhjálpar Íslendinga, sem þó má enn sjá víða í hinum dreyfðari byggðum landsins. En er á undanhaldi, og "ég á" hugsunin hefur tekið við. Ég sakna einfaldari tíma, þar sem fólk gekk í öll störf og gerði hlutina, þar sem ekki þurfti að kalla til "sérfræðinga" til þess eins og búa til bílastæði. Verkþekking gekk manna á milli og menn komust ekki upp með það að hafa ekki lagað dráttarvél, bíl eða smíðað - bara eitthvað. Auðvitað er það svo að eiginhagsmunaseggir hafa verið hér á landi frá ómunatíð en í minni minningu eru þeir færri og litnir hornauga og voru yfirleitt þessir sömu "aðalsmenn" og reynt er að fegra í nútímanum. En ég á við þá tæru hugsun sem bjó í fólki og það grettistak sem fólk lyfti hér á landi með byggingu sundlauga, samkomuhúsa og félagsheimila - allt byggt af sveitungum í sjálfboðavinnu fyrir samfélagið. Auk þess sem fólk hjálpaði hvert öðru við að byggja húsnæði hverskonar, ekki bara vinir og vandamenn. Mér þykir ásókn okkar í hluti sem við ekki skiljum eða getum lagað vera of mikla - og vildi óska þess að landsmenn gerðu sér grein fyrir því að það eru innan við 30 ár síðan Ómar Stiklaði um landið og færði okkur Ísland, með sínum malarvegum, einbreiðu brúm, sveifarknúðum símum og bílum (sumum brekkuknúðum). Það voru kamrar í minni sveit (ekki það að ég sakni þeirra neitt sérstaklega) og ég er nú nýskriðinn yfir þrítugt. Við höldum alltaf að þetta tilheyri einhverjum löngu liðnum tíma en þetta gerðist nú bara allt í gær. En kanski er það bara þetta með græna grasið sem er að blinda mig. Ég afsaka málalengd, en þakka um leið áhugavert blog hjá þér Ómar.
Valgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 02:19
Mér skilst líka að Íslendingar fæddir fyrir '44, eða hvort það var sem eigi foreldra fædda fyrir '18, annað hvort, er orðinn svo gamall að ég man þetta ómögulega, geti flutt til Danmerkur og fari þá beint inn í kerfið eins og Danir sem væru að flytja heim.
Karl (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 08:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.