"Þriggja spólu ferð"

Ég heyrði þessa setningu fyrst fyrir fimmtán árum þegar rúta ein stansaði við Staðarskála í Hrútafirði og út snaraðist hópur vaskra ungmenna úr myrkvaðri rútunni.

Ég spurði fararstjórann af hverju dregið væri fyrir glugga eftir föngum í rútunni og svaraði hann því til að það væri til þess að byrgja sem mest af sólskininu úti svo að unglingarnir gætu horft á kvikmyndir á meðan á ferðinni stæði.

"Þetta er það löng ferð, þriggja spólu ferð" útskýrði hann.

Ég innti hann nánar eftir þessu og sagði hann að hér væri um íþróttahóp að  ræða og í slíkum ferðalögum yrði að halda uppi sem bestum anda og ánægju ef árangurs ætti að vera að vænta.

Engum þarf að koma á óvart skondnar uppákomur á borð við þá um daginn þegar dagskrárgerðarfólk úr Reykjavík ætlaði vestur á Grundarfjörð en var orðið rammvillt norður í Hrútafirði og þurfti að hringja í fróðan mann til að fá leiðbeiningar um hvert halda skyldi.

GPS-tæknin hefur í ofanálag orðið til mikils tjóns varðandi þekkingu okkar á landi okkar, hvað þá á sögu þess og menningu.

Ég hef í starfi mínu um áratuga skeið fylgst með versnandi þekkingu Íslendinga á eigin landi, og gildir einu hvort um alþýðu manna er að ræða eða hámenntað fólk.

Frá þessu eru auðvitað undantekningar og ýmis áhugamál eins og útivist, hestamennska og ferðalög draga úr þessu hjá stórum hópum fólks.

En sagan af því hvernig Grundarfjörður var kominn norður í land er ekkert einsdæmi, því miður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil ekki alveg hvernig GPS tæknin geti orðið þekkingu okkar á landi til tjóns? Ég hefði einmitt haldið að því væri öfugt farið en nú er mögulegt að fá í þessi tæki sögulýsingar er þú keyrir inn í ákveðin hnit . En ég hef upplifað þetta í Ameríku er ég fór með túrista rútunni í gegnum Rapid City, þökk sé GPS. Það mætti útbúa þetta í GPS á Íslandi og fá sögu Íslands beint í æð er maður ferðast um landið. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.6.2010 kl. 10:51

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Phu! það er nú bara að halda augunum opnum á ferðinni. Sagan svo að seiga sogast inn í mann á ferðinni. Það finnst mér þegar ég rúnta.

Eyjólfur Jónsson, 19.6.2010 kl. 13:05

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já Ómar það getur sumum reynst skemmtilega flókið að finna Grundarfjörð.  Vinur minn einn ætlaði að heimsækja mig og ók sem leið lá frá Reykjavík og til Ólafsvíkur og svo hringinn um jökul og þegar hann kom aftur í Sjoppuna í Borgarnesi  þá dró hann þá ályktun að Grundarfjörður væri ekki á Snæfellsnesi.

 Annar vinur minn velríðandi á Oldsmóbil lagði úr Reykjavík og reiknuðum við með að sjá hann eftir svo sem þrjá og hálfan tíma.  En þetta var fyrir Hvalfjarðargöng.  En ekki kom Kiddi en undir kvöld þá kemur hávaða samur skítugur Oldsmóbil í hlað og út stígur ferðalangur með þeim orðum að það hefði alveg mátt segja honum hverskonar andskotan trölla leið þetta væri hingað á þennan fjárans felustað.  Þegar búið var að ná að róa þennan ergilega ferðamann þá kom í ljós að hann hafði  tínt púströrinu sínu í grjóturð á Tröllatunguheiði.          

Hrólfur Þ Hraundal, 20.6.2010 kl. 09:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

GPS-tæknin getur valdið því til dæmis hjá flugmönnum, að þeir venji sig á það að slá einfaldlega inn GPS-hnit staðarins sem þeir ætla að fljúga til og láta það nægja til leiðsögu.

Ómar Ragnarsson, 21.6.2010 kl. 03:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband