Sumarleyfi farin að hafa áhrif.

Davíð Oddsson, ritstjóri  Morgunblaðsins, er einn af ritsnjöllustu mönnnum þjóðarinnar og hefur mikið vald yfir tungunni.

Eftir talsvert suð mitt um málleysuna "bílvelta varð" sem óð uppi í fréttum á mbl.is brá svo við í lokin að farið var að skrifa "bíll valt"og ég gladdist yfir litlu og þakkaði Davíð þetta ósjálfrátt í huganum.

En nú er komið sumar og afleysingafólk greinilega tekið til starfa, því að nýtt afbrigði af "bílvelta varð" hefur nú litið dagsins ljós í frétt af óhappi við Þjórsárbrú.

Þar er sagt: "Bílvelta var", "....Lögregla mætti á svæðið. Ökumaður, sem var útlendingur, var einn í bílnum, reyndist sem betur fer heill á húfi"..."

Þetta vekur spurningar:

Valt þessi bíll á svo stóru svæði að þörf væri á að nota þetta orðalag?

Eða kom lögreglan inn á svæðið án þess að fara að bílnum? Eru orðin að koma og fara alveg að týnast úr tungunni og menn farnir að mæta hér og þar í stað þess að fara á fundi eða koma á fundi?

Er ekki nókkuð ljóst að fyrst einn maður var í bílnum þá hlyti hann að hafa ekið bílnum, þannig að óþarfi væri að taka það sérstaklega fram að þessi eini maður hefði ekið bílnum.  

Það er jafn mikill vandi að skrifa skýra og vel orðaða frétt þótt hún sé stutt og lítil eins og ef hún væri löng og stór.

Það hefði verið hægt að orða fréttina um óhappið á miklu styttri, skýrari og betur orðaðan hátt, til dæmis svona:

"Bíll valt skammt vestan við Þjórsárbrú og fór lögregla á vettvang. Útlendingur var í bílnum og reyndist ómeiddur."

Frábær íslenskumaður er ritstjóri Morgunblaðsins. En enginn má við margnum, ekki einu sinni Davíð Oddson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er á því að þessar málalengingar allar hjá unga fólkinu í dag eigi í raun upphaf sitt að rekja til Kardimommubæjarins þegar Kasper sagði við Soffíu: "Kæra ungfrú Soffía. Myndir þú nú ekki vilja vera svo væn að gjöra svo vel og fara bara heim aftur?"

Þarna þykir mér um óþarfa málalengingar að ræða hjá Kasper og að mörgum orðum sé ofaukið. Nægjanlegt hefði t.d. verið: "Kæra ungfrú Soffía. Farðu nú heim aftur".

Sé ekki betur en þetta segi nákvæmlega það sama, en í mun styttra máli.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 19:14

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ekki sammála þér þarna. Karakterinn er þarna fyrir börnin og talar til þeirra, en ekki málfræðinga.

Eyjólfur Jónsson, 20.6.2010 kl. 19:55

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Góð ábending Ómar. Það er verið að klóra í bakkafullan lækinn.

Júlíus Valsson, 21.6.2010 kl. 00:28

4 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Já það er skemmtilegra þegar blaðamenn eru sæmilega máli farnir.

Sigurður Sigurðsson, 21.6.2010 kl. 01:10

5 identicon

Ómar notar ólíklegustu tækifæri til að mæra Davíð Oddsson, einhvern mesta skaðvalda þjóðarinnar, sem ber nær einn ábyrgð á Davíðshruninu. Nú sér téður Davíð til þess að í stað "bílvelta varð" stendur nú skrifað "bíll valt", og er þar með orðinn einn af ritsnjöllustu  mönnum þjóðarinnar. Hvorki meira né minna.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 11:01

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir eiga að njóta sannmælis í smáu og stóru, Haukur, líka Davíð Oddsson.

Ef þú ferð í gegnum bloggpistla mína sérðu að þau ummæli þín eru fráleit að ég "noti ólíklegustu tækifæri til að mæra Davíð Oddsson, einhver mesta skaðvald þjóðarinnar sem ber nær einn ábyrgð á Davíðshruninu."

Ég skil ekki hvernig í ósköpunum þú getur sagt þetta upp í opið geðið á þeim sem hafa fylgst með skrifum mínum. 

Ómar Ragnarsson, 21.6.2010 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband