Tvö af tískuorðunum: "Að leysa úr" og "gegn".

 Ég hyggst af og til leggjast á sveif með Eiði Svanberg Guðnasyni í ábendingum og umræðum um notkun íslenskrar tungu. 

Eitt af viðfangsefnum verða þau orð, sem ég vil kalla tískuorð. 

 Íslenskan býr yfir mörgum góðum orðum til að lýsa flestu því sem til er. Sífellt koma þó upp eins konar tískuorð, sem ryðja burtu góðum og gegnum orðum af ýmsu tagi.

Ég heyrði eitt af þessum tískuorðum rétt áðan í útvarpi notað svona: "...til að leysa úr óvissu..."

Hingað til hefur orðið að "eyða" verið notað um þetta og hefði þá verið sagt: "...til að eyða óvissu..."

En þetta tískuorð þrengir sér sífellt víðar inn og þykir fínt, samanber hið margtuggða "...að leysa inn á línuna..." þegar handboltamaður hleypur úr stöðu sinni inn á línuna. 

Enn meira tískuorð er orðið "gegn". Hér áður fyrr glímdu menn, börðust, léku, spiluðu eða tefldu við mótherja. Einnig öttu menn kappi hverjir við aðra eða kepptu við hver annan.

En nú er þetta alveg að hverfa. Nú glíma menn gegn hinum og þessum eða berjast gegn þeim, og líklega fellur síðasta vígið, að tefla við einhvern, bráðlega og skákmenn tefla gegn hver öðrum. 

Tískuorðin lýsa fátæklegum orðaforða og eru sum hver beinlínis notuð ranglega og ég get ekki séð að það sé fallegra og betra að segja að einhver keppi gegn einhverjum heldur en að segja að einhver keppi við einhvern. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það myndi æra óstöðugann að telja til allar ambögurnar sem sjást og heyrast.

Mér dettur í hug auglýsing frá bílaumboði nokkru sem segir að Suzuki sé "skynsamur kostur" ....kannski eru Súkkurnar með einhver skilningarvit eftir allt saman.

Arion Banki er með sama frasa um einhverja sparnaðarleið,....kannski eru þessar auglýsingar framleiddar á sömu auglýsingastofunni?

Ármann (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband