23.6.2010 | 05:32
Hin "hreina og ómengaða" orka.
Íslendingar berja sér á brjóst og auglýsa landið sem hið hreinasta og ómengaðasta sem finnist.
Samt er rekið upp ramakvein ef eitthvað á að gera til að tryggja það að svo sé.
Það gengur hins vegar ekki upp að auglýsa vöruna sem einstaka en gera samt minni kröfur til hennar en annars staðar tíðkast.
Fyrir fjórum árum stóðst loftið í Reykjavík ekki kröfur Kaliforníu um lykt í lofti 40 daga á ári vegna brennisteinsmengunar sem kemur frá virkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði.
Nú er ástandið vafalaust mun verra eftir að útblásturinn hefur veirð stóraukinn.
Við verðum að geta staðið undir öllum upphrópununum um hreinleika og sjálfbærni en það gerum við alls ekki á mörgum svæðum.
Við viljum fá erlenda viðskiptavini á sviði ferðamennsku og orkunýtingar með því að auglýsa hluti en leyna því samt þegar þessar auglýsingar standast ekki.
Eitt nýjasta dæmið er hugmyndin um svonefnda Helmingsvirkjun Jökulsár á Fjöllum, sem byggir á því að taka "helminginn" af vatni árinnar og fara með það í burtu í nýja virkjun.
Á sama tíma ætla menn að auglýsa Dettifoss sem aflmesta foss Evrópu og fá ferðamenn til að kaupa það. Sömuleiðis að guma af hinum stórkostlega Vatnajökulsþjóðgarði, sem státar af þessari á, Jökulsá á Fjöllum, friðaðri.
Menn segja að það fari saman að áin sé friðuð og að hún sé virkjuð. Þessi séríslenska hugsun er þess eðlis að þegar maður heldur þessu fram erlendis er maður talinn viðundur.
Í Ameríku er þetta afgreitt svona: "You can´t have the cake and eat it too". Virkjanir og friðun fara einfaldlega ekki saman. Það er bráðum öld síðan menn héldu slíku fram í öðrum löndum.
Sumar jarðvarmavirkjanirnar verða orðnar orkulausar eftir nokkra áratugi vegna þess að meiri orku er tappað af jarðvarmasvæðum þeirra en þau standa undir.
Þetta er samt auglýst sem "sjálfbær notkun" og "endurnýjanleg orka."
Í öllu uppleggi svonefndrar Rammaáætlunar miðast orkutölur við afköst virkjana, sem ekki er hægt í mörgum tilfellum að láta haldast óbreytt nema í nokkra áratugi og eftir það verður að "hvíla" svæðin í jafnlangan eða jafnvel tvöfalt lengri tíma.
Þá þarf auðvitað að virkja einhvers staðar annars staðar á meðan til að bæta þetta upp en ekkert tillit er tekið til þess. Nei, komandi kynslóðir eiga að fá verkefnið og reikninginn.
Lengra gengið en annars staðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar
Við hljótum að hafa verulegar áhyggjur af heilsufari fólks sem býr á jarðhitasvæðum þar sem mengun af brennisteinsvetni er veruleg. Nægir að minnast á Hveragerði þar sem stórt hverasvæði er inni í þorpinu.
Gústi (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 07:38
Ýmislegt virðist eiga að liggja í þagnargildi. Á sínum tíma frétti ég af því að í kjölfar Nesjavallavirkjunar og afrennslis frá henni út í Þingvallavatn hefði mæst bæði arsenik og kvikasilfur í þessu vatni sem er heimsgersemi hvað snertir tærleika.
Ég rak mig alls staðar á veggi við að fá viðtöl út af þessu. Mér skilst að svipað geti verið uppi á teningnum í Hveragerði.
Ómar Ragnarsson, 23.6.2010 kl. 09:18
Við sem búum í Hveragerði höfum ákveðnar áhyggjur af þessu ástandi.
Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 09:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.