23.1.2007 | 21:20
VANDI FRJÁLSLYNDRA
Það mætti blogga margar síður um ástandið í Frjálslynda flokknum. Snemma síðastliðið haust hefði flokkurinn hugsanlega geta tekið það að sér að verða fyrst og fremst "Frjálslyndir grænir, "athvarf fyrir þá umhverfisvini í stjórnarflokkunum, einkum Sjálfstæðisflokknum, sem eru ósammála stefnunni þar á bæ í stóriðju- og virkjanamálum. Það hefði haft þann stóra kost að framboðslistum hefði ekki fjölgað vegna þessara mála og kjósendur í öllu litrófi stjórnmálanna frá hægri til vinstri hefðu getað kosið tvö traustvekjandi græn framboð, systurflokkana FG og VG.
Frjálslyndir grænir hefðu getað sett fram splunkunýja og skýra græna stefnu með trúverðugum frambjóðendum sem hafa staðið vaktina mun skár en meirihluti frambjóðenda Samfylkingarinnar. Meðal grænna forystumanna í flokknum í virkjanamálum (látum hvalamálin liggja milli hluta) eru að minnsta kosti þrir, Ólafur F. Magnússon, Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson (gekk í göngunni í haust).
Núverandi stefnuskrá flokksins er er að vísu ágæt í umhverfismálum þótt það megi teygja hana svolítið sitt á hvað eins og gengur með stefnuskrár þar sem þarf að nást samstaða. En í haust hefði mátt stefna að því að taka upp á landsþingi flokksins nýja og afdráttarlausari stefnu í umhverfismálum. En innrás Jóns Magnússonar og hans manna setti allt upp í loft eins og alþjóð hefur orðið vitni að.
Lítið hefur verið fjallað um frétt, sem virtist hálf drukkna, að borgarstjórnararmur flokksins hallaði sér að Margréti. Margir spá því að Margréti verði "slátrað" á landsþinginu en kannski er það jafn óútreiknanlegt í raun eins og það var að spá fyrir úrslit leiks Frakka og Íslendinga í handboltanum.
Engu að síður er hætta er á að átökin í flokknum og fyrirferð innflytjendamálanna muni yfirgnæfa svo allt annað á landsþinginu að umhverfismálin troðist undir.
Ég hef heyrt að reglurnar í flokknum séu þannig að hægt sé að smala inn í hann alveg fram á þingið. Ef svo er gefur það stríðandi fylkingum færi á að halda að sér spilunum alveg fram á síðustu stundu. Ef smölunin verður mjög mikil gæti niðurstaðan orðið flokkur þar sem meirihluti félaga verður nýtt fólk og þar með allt opið og óráðið um yfirbragð flokksins.
Nú er ljúka starfi eins grasrótarhópsins í Framtíðarlandinu, sem fer að skila af sér ákveðnum tillögum í framboðsmálum, og í frétt á Stöð tvö var talað um að verið væri að leita að fólki á hugsanlegan framboðslista, - einnig nefnd dagsetningin 13. febrúar um úrslitaákvörðun.
Það er ljóst að útkoma átakanna í Frjálslynda flokknum getur haft áhrif á það hvernig hið pólitíska landslag lítur út í febrúarbyrjun. Þá verður hugsanlega komin mun skýrari mynd á allt skákborð íslenskra stjórnmála en nú. Það eru því miklir óvissutímar framundan og vandteflt af hálfu þeirra sem líta til þess skákborðs sem vettvangs umhverfismála.
Athugasemdir
Er ánægð að Margrét hefur tekið ákvörðun, því hana má ekki missa á hinu pólitiska umhverfi. Ég ætla ekki að hallmæla núverandi varaformanni, en vona að Margrét vinni varaformanninn.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 23.1.2007 kl. 22:45
Miðju-hægri-grænt framboð yrði ekki eins máls framboð því stóriðju- og virkjanframkvæmdirnar hafa haft í för með sér ruðningsáhrif, þenslu og sveiflur sem hafa bitnað á öðrum sviðum þjóðlífsins.
Til dæmis hefur þessi stefna haft hamlandi áhrif á vegaframkvæmdir. Breytt stefna myndi fjarlægja þessa slæmu fylgikvilla og hafa áhrif á öll ráðuneytin og öll svið þjóðlífins, - framkvæmdir, samgöngur, menntamál, viðskipti, ferðaþjónustu, fjármál, viðskipti og jafnvel utanríkisstefnuna í gegnum breytta umhverfismálastefnu.
Ný stefna, uppstokkun, myndi meðal annars felast í því að minnka áhrif þessarar breytingar á verktakafyrirtækin og rannsóknaraðila með því að fela þeim stórauknar vegaframkvæmdir og aðstoða við útrás þessarar vísinda- og verkþekkingar til annarra landa.
Sérfræðingar sem fengið hafa verkefni vegna virkjanaframkvæmdanna myndu fá ný verkefni við margfaldaðar rannsóknir á íslenskri náttúru, mannvirkjum og uppbyggingu hins nýja Íslands með þá ómetanlegu ímynd að vera eitt af sjö undrum veraldar.
Auðvitað yrði best að meirihluti þeirra þingmanna sem stæðu að næstu ríkisstjórn yrðu grænir, en frambjóðendur núverandi stjórnarflokka virðast ekki á þeim buxunum og innan þingflokks Samfylkingarinnar er ekki einhugur um "Fagra Ísland."
Ómar Ragnarsson, 23.1.2007 kl. 22:57
Sæll Ómar. Var að renna yfir bloggið þitt og hlusta á viðtalið við þig í Silfrinu á sunnudag. Takk fyrir að segja það sem segja þarf.
Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 23:14
en það er vandlifað í þessum heimi, það spretta upp allskins hópar sem vilja vernda umheimin, það nýjasta er þotuliðið, fólk á að hætta að ferðast vegna mengunar af þotunum sem kljúfa himininn með spúandi eiturgufum, eins og Kalli bretaprins lenti í, varð að hætta við fríið vegna þrystings frá umhverfisverndarsinnum þar sem hann þurfti að ferðast með þotu. svo þar eru ferðamenn ekki inni í dæminu hjá okkur til að græða á í næstu framtíð ef það spretta upp svona fuglar eins og þú. leyfðu okkur að lifa af okkar orkulind og selja hana til stóriðju og atvinnusköpunar
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 02:40
Það var merkilegt að sjá Lúðvík bæjarstjóra í fréttum RUV auglýsa "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar. Hann styður sem sagt stækkun álversins (og hefur reyndar alltaf gert?). Það mun sem sagt rísa tæplega 500 þús tonna álver við Samfylkingarbæinn Hafnarfjörð ef hann mætti ráða. Er nema vona að menn viti ekki fyrir hvað þessi blessaða fylking stendur?
Þórdís (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 21:28
Sæll Ómar, ég skil ekki alveg svona tal. Stefna Frálslynda flokksins breytist ekkert hvort þeirra Margrétar eða Magnúsar Þórs sigrar varaformannskjör flokksins. Stefnuskrá okkar er bundinn í málefnahandbókina og verður ekki breytt nema á Landsþingi og þá einungis með tillögu frá miðstjórn. Enginn tillaga þar að lútandi liggur nú fyrir.
Allt þetta tal um rasista í flokknum vísa ég beint heim til föðurhúsanna. Það hefur engum tekist að benda neinstaðar á skrif forystumanna flokksins þar að lútandi. Hvað varðar Jón Magnússon og nýtt afl, þá gekk það fólk í flokkinn sem einstaklingar og höfðu áður lagt flokkinn niður sem stjórnmálaafl. Hvar ætli það þekkist nú að mönnum sé bannað að ganga í stjórnmálaflokk. Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Jón Magnússon er bara óbreyttur félagi í flokknum. Sem slíkur hefur hann álíka mikil völd og Jón Jónsson. Allt tal um annað er bara hreintæktað rugl.
Það er líka leitt til þess að vita að félagar mínir í flokknum hafa verið með ósanngjarna rógsherferð á hendur forystumönnum flokksins. Svo ódrengilega að með ólíkindum er. 'Eg þekki Guðjón Arnar mjög vel og get fullyrt að hann er drengur góður og heill í gegn. Það er leitt til þess að vita að fólk sé að reyna að gera lítið út honum til að þjóna eigin egói.
Það er alltaf verið að tala um að stjórnmálamenn eigi að vera samkvæmir sjálfum sér, og svo þegar slíkir dúkka upp þá er þeim velt upp úr fiðri og tjöru og hent út í ystu myrkur. Nei og aftur nei. Þú þarft ekkert að bíða Ómar eftir Landþingi eins og ég sagði áðan. Þú getur tekið þínar ákvarðanir núna, því stefna flokksins breytist nákvæmlega ekki neitt. Hins vegar getur verið að hugur þinn hafi verið lævíslega fylltur að bullshit. Sú mengun er ekkert betri þeirri sem framkvæmd er á náttúrunni.
Hins vegar vil ég hrósa þér sérstaklega fyrir þína góðu baráttu. Og þú ert svo sannarlega hetja Íslands í dag ásamt Andra Snæ. Bið ykkur samt að skoða það að því fleiri flokksbrot sem bjóða fram því fleiri atkvæði falla dauð. Og því meiri líkur eru á að þið komið Sjálfstæðisflokki og Framsókn til áframhaldandi valda. Ekki er það það sem þið stefnið að ? Er það nokkuð.
Annars bestu kveðjur frá gamalli vinkonu að vestan.
asthildurcesil (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 02:25
Sæll Ómar.
Skákborð íslenzkra stjórnmálamanna segir þú , já kanski en þar þarf sannarlega að gæta að því hvort peð , riddari eða hrókur verði þess umkomnir að máta kóng og drottingu stóriðjustefnunnar í íslensku samfélagi, og þar duga engin vettlingatök í því efni og áhorf á heildarmyndina og upphafið , athafnaseminnar stórnauðsynlegt.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 25.1.2007 kl. 02:33
það sem fáir vita að innan Frjálslynda flokksins er að finna öflugt náttúruvaktarfólk sem hvað harðast hafa barist fyrir náttúru Íslands á síðari árum. Fólk sem stóð vaktina á Austurvelli í 400 daga og hefur skipulagt ótal viðburði til verndar Íslandi. Möguleikar á framboði sem hefur Velferð, umhverfi og nýsköpun sem einkunnarorð falla og standa með þvi hvort Margrét nær kjöri sem varaformaður. Stefna hversu góð sem hún virðist við yfirlestur er einskis virði ef henni er ekki fylgt af festu. Guðjón Arnar sat hjá þegar atkvæði voru greidd um Kárahnjúkavirkjun
Asta (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 17:14
Að sitja hjá í atkvæðagreiðslu eru ekki skýr skilboð, það eru Já eða Nei hinsvegar.
Þórdís (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.