Alltaf jafn gaman!

Ég fór á völlinn eftir mjög langt hlé í kvöld með tengdasonum mínum og dóttursyni til að sjá mína menn.

Þeir unnu ekki í kvöld. Þeir lentu 0:2 undir snemma í fyrri hálfleik og fengu á sig víti sem þó var varið glæsilega. En það var samt ógurlega gaman því að það er svo magnað hvað rígfullorðnir menn sleppa sér alveg aftur og aftur á svona leikjum og verða frá sér numdir af tilfinningum af ýmsu tagi, hrifningu, fyrirlitningu, æsingi, dofa, reiði, vorkunn, andúð, aðdáun, von og vonleysi til skiptis. 

Það er hrópað og dómarinn verður fljótlega óvinsælasti maðurinn á vellinum og fylgjendur beggja liða sammála um það. 

Það er rifist úm atvik, leikaðferðir, leikmenn, þjálfarana og hvað sem er. 

Síðan skora mínir menn í uppbótartíma í lok fyrri hálfleiks og gerast síðan betri aðilinn á vellinum í síðari hálfleik, alveg að gera mann vitlausan af spenningi og ótta við að andstæðingarnir skori og vinni sigur. 

Þegar jöfnunarmarkið kemur verður allt vitlaust og enn vitlausara þegar okkar maður er rekinn útaf og hægt að rífast um það atvik jafn lengi og um gatmarkið fræga á Melavellinum fyrir meira en hálfri öld sem menn rífast enn um. 

Ég hélt þá með Skagamönnum og fannst boltinn lenda réttu megin inni í markinu hjá þeim, en gamlir Valsmenn, vinir mínir, eru enn jafn sannfærðir um að boltinn hafi gert gat á fúið þaknetið og farið þar í gegn. 

Mínir menn sóttu stíft þótt þeir væru einum færri síðasta kafla leiksins og maður var haldinn mörgum sterkum tilfinningum í leikslok, vonbrigðum um að þeir skyldu ekki uppskera meira úr öllum færunum, óánægju með útafreksturinn og hrifningu á strákunum hvað þeir börðust allt til leiksloka eins og ljón. 

Ég fór með peysu með mér á völlinn ef það skyldi verða of kalt að sitja og horfa á, en var svo sjóðheitur allan leikinn af æsingi að peysan var óþörf. 

Aldeilis makalaust hvað eltingarleikur 22jaa manna við leðurtuðru getur skapað mikið tilfinningarót og haldið á manni hita þótt maður sitji allan tímann nema þegar allir rísa upp í æsingi og hrópa sig hása þegar mörkin og marktækifærin koma.

Alltaf jafn gaman!  Alveg eins og á Melavellinum í gamla daga! Alveg eins og var alltaf og verður alltaf! 

Lifi knattspyrnan!  Áfram Fram! Áfam Ísland! Áfram íþróttirnar! 


mbl.is Gunnlaugur: Þetta var mjög sérstakur leikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Var líka á Laugardalsvellinum í gær. Veðrið gat ekki verið betra, ég hélt með hvorugu liðinu og stressið því lítið. Fín knattspyrna og glæsileg tilþrif tveggja góðra liða sköpuðu spennandi og skemmtilegan leik. 

Minningar um Melavöllinn valda stundum fortíðarþrá. Bjarni miðavörður seldi leikskrár, sölufólk með skúffu framan á sér galaði SÆLGÆTI SÍGARETTUR og VINDLAR, oft töfðust leikir mjög, þegar sækja þurfti boltann yfir Suðurgötu og jafnvel var keyrt yfir þá. Bárujárnið steinflórinn sem pissað var í, timburstúkan þar sem Sjéniver var vinsælastur drykkja, og orðbragðið! Þá fengu sko leikmenn og dómara að finna til tevatnsins! Uhuhu  ég er farinn heim.

Dingli, 6.7.2010 kl. 11:55

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Eins og þú lýsir þessu Ómar, þá held ég að þú talir fyrir mig og miklu fleiri. Þeir sem sjá mann á vellinum og hafa hvorki áhuga né vit á fótbolta og um hvað hann snýst, halda að maður sé í raun hreinn spítalamatur og eigi bara heima á  lokaðri deild með hámarksgæslu. Ég rétt náði í endann á Melavallartímanum, það var oft gaman að koma þar og sérstaklega man ég eftir einni ferð, þegar faðir minn læsti lyklana inni í bílnum og við urðum að bíða eftir aukalyklum með rútunni frá Keflavík, það var ekki gaman meðan á því stóð en oft hlegið að því seinna.

Gísli Sigurðsson, 6.7.2010 kl. 14:14

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Mín eina minning af Melavellinum er líklega síðan um haustið 1978. Ég þá tæplega níu ára. Ég fór með vini mínum og pabba hans á leik Fram og KR. Ekki man ég hvernig leikar fóru en ég varð viðskila við þá feðga og þurfti að labba heim í Safamýrina, blautur og kaldur.

Þetta er eina slæma minning mín af fótboltaleik. Vissulega tapleikirnir ekki eins skemmtilegir og sigurleikirnir, en vallarstemmningin er einstök og skemmtileg.

Brjánn Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband