10.7.2010 | 01:10
Neitaði að skemma ekki bíl minn.
Ég var að aka síðasta spottann á leið minni frá Neskaupstað að Hvolsvelli nú upp úr miðnætti þegar ég varð að nauðhemla tvisvar með innan við mínútu millibili.
Í fyrra skiptið var það vegna þess að kindahópur hljóp skyndilega upp á veginn og þvert yfir hann. Það var skuggsýnt og engin leið að sjá kindurnar fyrr en þær hlupu inn á veginn. Aðeins munaði hársbreidd (lagðbreidd) að ég lenti á einni þeirra.
Ég hélt áfram ferðinni en kom strax að kafla rétt sunnan Hvolsvallar þar sem lögð hefur verið möl ofan á veginn og því sett upp skilti um 50 kílómetra hámarkshraða. Í baksýnisspeglinum sá ég stóran pallbíl koma æðandi og fyrr en varði var hann kominn að mér á minnsta kosti tvöföldum leyfilegum hraða.
Ég reyndi að gefa stefnuljós til vinstri og blikka ljósum til að koma bílsjóranum í skilning um að hann stofnaði mér og bíl mínum í hættu með því að æða svona fram hjá mér og ausa yfir mig grjóti.
Fyrir nokkrum dögum varð ég fyrir því að stór jeppi fór fram úr mér á vegi með leifum af möl og steinn braut framrúðuna hjá mér og mig langaði ekki aftur í að upplifa slíkt svona strax á eftir.
En þessi eigandi stóra ameríska jeppatröllsins neitaði að hlífa mér og jós yfir mig grjótinu, en ég nauðhemlaði í annað sinn til að forðast nýtt framrúðubrot um leið og hann óð fram hjá mér með allt í botni.
Mér tókst að komast hjá framrúðubroti en hann braut annað stöðuljósið að framan og ekki slapp lakkið heldur.
Ég sá hann hverfa á öskrandi hraða í gegnum þorpið á Hvolsvelli aðeins nokkur hundruð metra frá lögreglustöðinni.
Atvik þetta er ekkert einsdæmi. Fyrir nokkrum árum reyndi ökumaður að leika þennan leik á malarkafla í Norðurárdal þar sem var 30 kílómetra hámarkshraði á aðeins eins til tveggja kílómetra kafla.
Ég reyndi að hindra hann í þeirri ætlan að grýta bíl minn en hann þrengdi sér samt fram hjá mér, jós grjótinu yfir mig og farþegi við hlið hans kastaði ölflösku út um gluggann í átt að mér þegar hann fór fram úr og munaði minnstu að hann hitti.
Við Hvalfjarðargöngin fórum við nær samhliða í gegn og mér gafst færi á að tala við hann við lúguna.
Hann hélt því fram fullum fetum að það væri hans einkamál sem kæmi mér ekki við ef hann bryti hraðatakmarkanir þegar honum dytti það í hug en taldi akstur minn hins vegar hafa verið vítaverðan.
Ég taldi mig hins vegar aðeins hafa verið að verjast því að vera grýttur.
Við ókum með 50 metra millibili inn í Reykjavík og ég velti því enn fyrir mér hvað svona ökumönnum gangi til í akstri sínum.
Einnig velti ég því fyrir mér hvílík býsn af sauðfé var á ferli á hringveginum á leið minni austur og til baka og hver hefði borið ábyrgð á því blóðbaði, sem orðið hefði ef stóri pallbíllinn við Hvolsvöll hefði verið ca 10 sekúndum fyrr á ferðinni og lent á ofsahraða á kindahópnum, sem ég rét slapp hjá að lemstra.
Hefði það orðið eigandi sauðfjárins, ökumaðurinn eða báðir sem báru ábyrgð á því? Ég smellti einni mynd af fé við vegarbrún fyrr á leiðinni en þar sem ég er núna á ég ekki tæknilega möguleika á að setja hana inn.
Neitaði að færa sig yfir götu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst það á því grófasta ef lögreglan geti skipað almenningi fyrir ef almenningur er ekki að brjóta lögin. Varla á sendiráðið göngustíginn og varla eru borgarar lögbrjótar fyrir það eitt að mótmæla?
Tómas Waagfjörð, 10.7.2010 kl. 01:33
Þegar þú segir þetta þá minnist ég þess að fyrir svona kannski hálfum öðrum áratug , var ég á leiðinni austur á firði , fór suðurhringinn, og á leiðinni voru þó nokkrir vegkaflarkaflar þar sem verið var að leggja sjálfþjappandi slitlag á þjóðveginn. Eftir að hafa fengið góða gusu yfir bílinn á einum slíkum, með þeim brotið ljós og einhverjar lakkrispur sem afleiðingu af að hafa mætt bíl á allmiklu meiri hraða en skilti sögðu til um, tók ég upp á því að færa mig inn á miðjan veg á þessum köflum ef mér leist ekki á ferðahraða bíla sem á móti komu, eða afturaf , og aka löturhægt, þetta dugði alltaf til að ökufantar af því tagi sem þú lýsir að ofan urðu að slá af í tíma til að lenda ekki í árekstri við mig, og ég slapp við að frekari skemmdir þennan túrin, en ég geri nú svo sem ráð fyrir að einhverir þeirra ökumanna sem ég mætti í slíkum tilfellum hafi velt því fyrir sér hvaða hálfviti væri eiginlega þarna á ferðinni, eða eitthvað slíkt. Það er þó alltaf hálffúlt að þurfa að standa í einhverjum svona uppátækjum þegar manni ofbýður virðingarleysið ( og að mínu mati vöntun á sjálfsvirðringu viðkomandi bílstjóra ) sem stundur er fyrir hendi í traffikinni.
Bjössi (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 09:09
Það sem er verst við svona tilfelli sem þú lýsir hér, Ómar, er að það þýðir ekkert að kæra svona fanta. Við lentum í einu svona atviki á malarvegi, tókum niður bílnúmerið og kærðum til lögregluna. þó að við vorum fleiri í bílnum að bera vitni um þetta atvik kom aldrei neitt út úr þessu. Sennilega er best af öllu að haga sér eins og Bjössi og aka á miðjum vegi til að neyða svona tillitslaust fólk að hægja á sér.
Úrsúla Jünemann, 10.7.2010 kl. 09:54
Ef bíllinn verður fyrir skemmdum, þ.e. grjótkasti sem verður þess valdandi að bíllinn þinn skemmist. Þá áttu að fá það greitt úr tryggingum ökufantsins.
Guðmundur (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 11:43
Íslendingar eru svakalega aggresívir í umferðinni. Það er ekki nýtt og því kemur pistill Ómars ekki á óvart.
En af hverju? Fróðlegt væri að fá skýringar á því. Þarna er eitthvað í þjóðarsálinni sem þarf að breytast.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 12:08
Ég lenti í þessu í vikunni að mig minnir rétt hjá Mosfelli og Sólheimaafleggjara á Suðurlandi. Þar er verið að laga veginn á köflum. Sett 50km hámarkshraði. Ég keyri á rúmlega 60 en það æða jeppar framhjá mér og hefja steinaskothríð. Bölvaði þegar einn hitti beint í mark með miklum hvelli.
Ari (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 12:31
Þú ættir að birta bílnúmerið hanns með færslunni Ómar.
Svona drullusokkar eru alveg óþolandi sem bera enga virðingu fyirr lífi og eigum annarra.
Sigurður (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 13:53
Ég botna hvorki upp né niður ; hvað kemur þetta mótmælum við sendiÓráð við ?
Hörður B Hjartarson, 10.7.2010 kl. 14:24
Er alinn upp á vestfirskum malarvegum og hef lengi notað taktík Björns með góðum árangri þar sem annarsstaðar. Er slétt sama þó menn bölvi í sand og ösku ef þeir hunskast til að hægja á (sem þeir gera alltaf - fyrir rest)
Haraldur Rafn Ingvason, 10.7.2010 kl. 16:16
Haukur nr.5 : Ég býst við að þessi umferðarhegðun sé ein birtingarmynd af "Ég um mig frá mér til mín" syndrominu. Menn álíta sig konunga veganna, eina í heiminum og geti bara hagað sér einsog þeim sýnist og farið sínu fram. Öðrum vegfarendum komi það ekki við- enda eru þeir bara fyrir MÉR þegar ÉG þarf að fara MITT.
Arnór (IP-tala skráð) 11.7.2010 kl. 01:04
Það var skuggsýnt og þegar ég nauðhemlaði og trukkurinn óð á ofsahraða fram úr mér gafst ekki tækifæri til að sjá hvaða númer væri á honum.
Ómar Ragnarsson, 11.7.2010 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.