15.7.2010 | 22:19
"...birkið ilmaði, allt var hljótt..."
Við hjónin ókum inn í Þórsmörk síðastliðinn sunnudag til að sjá með eigin augum áhrif öskufalls á þetta vinsæla útivistarsvæði.
Myndirnar með þessum pistli eru teknar í ferðinni á síðustu kílómetrunum inn að Básum og beftirtektar vert hvað litiirnir eru víða með blágráum blæ sem felur í sér nýja fegurð.
Skemmst er frá því að segja að með ólíkindum var hvað svæðið leit betur út nú en það leit út úr lofti eftir að mestu öskugusurnar dundu yfir það meðan á gosinu stóð.
Að okkar dómi er það aldeilis fráleitt að Íslendingar forðist að koma þarna inneftir á þeim forsendum að þar sé aska til trafala á jörðu niðri og fjúkandi í loftinu.
Þvert á móti fannst okkur það stórkostleg upplifun að sjá hvernig lífríki Goðalands og Þórsmerkur bregst við öskunni, teygir sig upp úr henni og nýtir sér efni í henni sem örvar vöxt og viðgang.
Þar að auki er miklu betra bílfæri inn eftir en var í fyrra eftir rigningaflóð sem þá komu og gerðu veginn og vöðin illfær og varasöm.
Vegna gossins fór Vegagerðin inneftir á dögunum og lagfærði veginn stórlega svo að nú er ekkert mál að fara inn eftir á jeppum af öllum stærðum.
"Ofarlega mér er í sinni
að það var fagurt í Þórsmörkinni, -
birkið ilmaði, allt var hljótt,
yfir oss hvelfdist stjörnunótt..."
orti Sigurður Þórarinsson á sínum tíma og það á svo sannarlega við í dag.
Fegurð Þórsmarkar nú er fólgin í því að litirnir eru víða öðruvísi en áður, mismunandi mótaðir af öskufallinu en á hraðri leið til að verða hinir sömu og var.
Ef notað er leitarorð í sérstökum dálki á bloggsíðunni má finna pistil um ástand Þórsmerkur frá því snemmsumars, sem er orðinn úreltur að mestu, sem betur fer.
Auðvitað er mikilsvert að hreinsa öskuna þar sem hún getur orðið hvimleið og ber að fagna framlagi Pokasjóðs til þess verkefnis, sem tilkynnt var í dag.
En það er líka ástæða til að hjálpa til við þetta með því að fara inneftir og njóta þjónustu þeirra aðila sem annast hana á þessu svæði svo að þeir missi ekki tekjur, sem mikil þörf er á að minnki ekki.
Iðjagrænt í Þórsmörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það má nefna það, að þarna hefur mikið verk verið unnið við hreinsun. Mér skilst að það hafi verið hrist askan af trjánum með því að nota spýtur/sköft svo að ekki sliguðust þau og laufgast gæti. Og það tókst.
Í Apríl var Þórsmörkin bleksvört af ösku. Núna er hún græn, - allt í grósku, og engin ástæða til annars en endinlega að kíkja þangað. Svo er alltaf jafn gaman að fljúga þarna yfir ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.7.2010 kl. 23:01
trjágróður jafnar sig ótrúlega fljótt eftir öskufall.. þess vegna er trjágræðslan undir hekluhlíðum eitt mikilvægasta ræktunarátak landins í dag.. því það er bara tímaspursmál hvenær Hekla gamal ræskir sig.
Óskar Þorkelsson, 16.7.2010 kl. 05:55
Meðan landið var mestallt viði vaxið milli fjalls og fjöru eins og Ari fróði lýsir því höfðu eldgosin ekki nærri því eins alvarleg áhrif á gróðurinn og eftir að menn voru búnir að höggva mestalla skógana og kjarrið.
Það voru stórgos á Íslandi fyrir landnám og samt var landið svona viði vaxið þegar mennirnir komu.
Þess vegna er það augljóslega rangt að kenna eldgosum um jarðvegseyðinguna.
Í raun liggur sökin nær öll hjá mönnunum en ekki náttúrunni.
Ómar Ragnarsson, 16.7.2010 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.