26.7.2010 | 11:45
"Safari-tilfinningin".
Stór hluti Kjalvegar í núverandi mynd er nýlega lagður, upphleyptur og tiltölulega beinn. Ég ók Kjöl nýlega og þá kom hið ótrúlega í ljós að nýju kaflarnir yfir Bláfellsháls voru ósléttastir, grófastir og leiðilegastir en gamli troðningurinn frá Hvítárbrú norður í Seyðisá hins vegar í góðu standi.
Ég er ekki fráhverfur því að þessir upphleyptu vegir, sem þegar eru komnir, verði malbikaðir þar sem þeir eru svona vondir, en sé enga sérstaka ástæðu til þess að gera vöruflutningahraðbrautarveg um Kjöl og fæla með því frá vaxandi fjölda ferðamanna sem sækist eftir þeirri óviðjafnanlergu tilfinningu sem óbyggðirnar bjóða upp á.
Íslendingar virðast eiga erfitt með að skilja það að töfrar hálendisins felast meðal annars í því að hægt sé að fá "Safari-tilfinningu" á ferð um það. Ég var einn þeirra sem skildi þetta ekki fyrr en ég fór að skoða þjóðgarða og virkjanasvæði erlendis fyrir rúmum áratug.
Fram að því var ég í hópi þeirra sem vildi fá beina, breiða, upphleypta og malbikaða hálendisvegi enda er ég af jarðýtukynslóðinni sem lék sér sem börn við að leggja vegi fyrir leikfangabíla okkar í sveitinni.
Það var ekki fyrr en ég fór að skoða lönd og lendur utan Íslands að ég áttaði mig á því að ég hafði fram að því ekki aðeins verið heimskur í upprunalegri merkingu þess orðs, - maður sem alltaf er heima, fer aldrei að heiman, og miðar alla heimssýn sína og skoðanir við það, - heldur hafði ég með því að ganga, hljóla, ríða, aka og fljúga um fjallendi landsins en aldrei skoðað neitt hliðstætt erlendis, verið fjallheimskur.
Ég viðurkenni að hægt er að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Norður-og Austurlands um 50 kílómetra með því að leggja sem beinastan veg um Grafningsskarð, Grímsnes, austan Bláfell og þvert yfir Eyvindarstaðaheiði yfir í Norðurárdal í Skagafirði.
En það blasir líka við að hægt er að stytta þessa sömu leið í byggð um allt að 25 kílómetra og bæta og stytta þar með leiðir á milli byggðanna innbyrðis, sem hringvegurinn liggur um og auka öryggið á þessari leið.
Hið hlálega er að sumir þeirra sem vilja jafnvel gera hraðbraut um Arnarvatnsheiði og Stórasand sem liggi upp í meira en 800 metra hæð yfir sjó á einhverjum versta illviðrakafla landsins mega ekki til þess hugsa að leiðin um byggðirnar séu styttar.
Vilja halda í malarveginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hálendisvegir eiga að fylgja landslaginu bæði í hæð og legu og hverfa þannig inn í það, þá sjást þeir varla úr fjarlægð og spilla engu. Uppbyggðir beinir vegir eru eins og ör í landslaginu sem sjást langar leiðir og spilla heildarmyndinni.
Og ég blæs á þær röksemdir að vegirnir verði að vera þannig að allir bílar komist á staðina, ef þú vilt ferðast um hálendið færð þú þér það sem til þarf, hvort sem það eru gönguskór eða jeppi. Það þarf ekki að vera svo dýrt eins og þú hefur oft sýnt fram á.
Einar Steinsson, 27.7.2010 kl. 06:42
Safarí-tilfinningin er einstök á fjallvegum landsins. Það er þetta sem ferðalangar vilja. Sér í lagi útlendingar sem koma með bílana með sér í Norrænu. Wildernisse, segir þjóðverji og augun glampa. Þessir menn eru vel útbúnir og fara eftir slóðum og keyra ekki utanvega eins og landar vorir.
Uppbyggðir vegir eru vondir, grófir, valda raski, menga sjón og hafa enga töfra.
Á yngri árum fór ég um flesta fjallvegi á óbreyttum Lada Sport. Ódýr bíll og góður ef þú ert ekki of pjattaður .
Árni Þór Björnsson, 27.7.2010 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.