Vietnamstríðið tapaðist heima.

Flestum ber saman um að í raun hafi Vietnamstríðið tapast heima í Bandaríkjunum fremur en á vígvellinum sjálfum.

Þetta er að vísu of mikil einföldun því að hefði ástandið verið betra á vígvöllunum er það var hefði almenningsáltið heima fyrir ekki snúist svo mjög gegn stríðinu að Johnson forseti lagði ekki í að leita eftir endurkjöri 1968 og í kjölfarið fylgdi langdreginn ósigur.

Helsta röksemdin fyrir því að her Bandaríkjamanna kæmist upp í allt að 550 þúsund manns í Vietnam var sú, að félli Vietnam í hendur kommúnistum, myndu öll ríkin í þessum heimshluta fylgja á eftir. 

Þetta var kölluð Dómínókenningin. 

Þótt ósigur Bandaríkjamanna væri hinn fyrsti í sögu landsins og mjög beiskur, rættist Dómínókenningin ekki. 

Ég hef áður fært að því rök hér á blogginu að stríðið í Afganistan beri í sér flest einkenni Vietnamstríðsins. 

Hinir útlendu hermenn væru að berjast við framandi aðstæður í fjarlægu landi þar sem landfræðilegar aðstæður væru allar hliðhollar heimamönnum, sem væru þeim vanir og þaulkunnnugir. 

Spilling ríkti meðal leppa innrásarherjanna, menningargjá væri á milli hinna erlendu hermanna og landsmanna og stríðsglæpir og mannfall meðal almennra borgara mun meira en látið væri uppi.

Stórveldunum Bretlandi og Rússlandi mistökst að sigrast á Afgönunum á sinni tíð og ef Bandaríkjamenn gefast upp á þessu stríði eins og Rússar og Bretar má segja að sætt sé sameiginlegt skipbrot.

Ekki virðíst hafa skipt máli hvort hermennirnir óku frambyggðum Rúsajeppum eða Hummerum. 

Í upphafi stríðsins í Afganistan var svipuð dómínukenning í gangi og í upphafi Vietnamstríðsins og sagt að ef talibanar yrðu ekki gersigraðir myndi það þýða ósigur í stríðinu gegn hryðjuverkum um allan heim.

Vafasamt er að þessi kenning fái staðist því að eðli hryðjuverkastarfsemi er þannig að hún leynist hvort eð er í mörgum löndum og verður ekki upprætt með því einu að vinna bug á talibönum í landi, sem er mun óhagstæðara fyrir vélvæddan hernað Bandaríkjamanna en flest önnur lönd.

Vietnamstríðið tapaðist meðal annars vegna þess að sjónvarp var komið til sögunnar og sjónvarpsfréttamenn reyndust starfi sínu vaxnir að greina frá sannleikanum ekkert síður en undanbrögðum og blekkingum hernaðaryfirvalda sem ævinlega fylgir stríðsrekstri, sama hvaða þjóð á í hlut.

Þetta var fyrsta stórstríðið sem var háð í sjónvarpi.

Af hálfu hernaðaryfirvalda hefur verið reynt að setja undir þennan leka í stríðum nútímans en lekinn mikli hjá Wikileaks hefur nú dregið huliðstjaldið að hluta til frá og glyttir í nakinn veruleikann, sem Bandaríkjamenn verða að horfast í augu við.


mbl.is Stríðið gæti tapast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

kvitt +mikið sammála þessu Ómar/kveðja

Haraldur Haraldsson, 26.7.2010 kl. 23:57

2 identicon

En féll Kambódía ekki um leið og Suður Víetnam?

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 23:59

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Ef einhver kann að lýsa þessu rétt, þá ert það þú. Takk fyrir. M.b.kv. Anna

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.7.2010 kl. 00:08

4 Smámynd: Sigurður Heiðar Elíasson

satt satt, en þó Ameríkanarnir unnu orrusturnar en töpuðu stríðinu...

Sigurður Heiðar Elíasson, 27.7.2010 kl. 01:05

5 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Víetnamstríðið var í kjarna sínum árás norður- víetnamskra kommúnista á Suður- Víetnam, Laos og Kambodíu. Kommúnistum hafði mistekist í Suður- Kóreu, en Ho Chi Minh og eftirmönnum hans tókst á þrjátíu árum ætlunarverk sitt, að innlima Suður- Víetnam og gera Laos og Kambodíu að undirgefnum leppríkjum. Þeir hófu stríðið strax 1957 og því lauk ekki fyrr en eftir innrásina í Kambódíu í kringum 1980. Ég hef skrifað ýmislegt um þetta stríð, ekki síst Þjóðmálagreinina „Víetnam, vendipunktur kalda stríðsins“, nú á vefsíðu minni.

Alltaf er tala um afskipti Bandaríkjanna af þessu útþenslu- og landvinningastríði kommúnista, en voru þó aðeins veruleg á tímabilinu 1965-1973. Dómínó- kenningin var í kjarna sínum rétt. Hörð mótspyrna Bandaríkjanna varð til þess að útþensla kommúnista í Asíu sem staðið hafði látlaust frá 1945 stöðvaðist eftir Víetnam. Hinar ýmsu „þjóðfrelsishreyfingar kommúnista í öllum löndum á svæðinu frá Burma til Filippseyja misstu allan stuðning og lognuðust út af eftir Víetnam.

Vilhjálmur Eyþórsson, 27.7.2010 kl. 01:44

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Undarlegt að ekkert sé nefnt það sem á eftir þessu stríði kom, Ómar. "Unaðsár Rauðu Khmeranna" sem endurstilltu tímatalið til ársins núll og slátruðu fleira af sínu eigin fólki áður en yfir lauk, en Víetnam stríðin öll til samans gerðu. Eftir á að hyggja var inngrip USA ekki svo illa ígrundað, en með fjölmiðlana gegn hernaðarbröltinu, gekk þetta ekki upp og almenningur snérist á sveif með "Peace on Earth" sem kom Khmerunum til valda. Blessuð sé minning þeirra rúmlega einnar milljónar einstaklinga sem fengu að njóta þess að Kaninn fór. Þegar mannkynssagan er skrifuð með augum þess sem ber einungis glerauga öðru megin, verður útkoman frekar ótrúverðug. Það finnast nefnilega menn og konur enn, sem hafa sjón á báðum augum. Það sannast best í stríðunum í Vétnam, Afganistan, hvar sem er í Afríku og jafnvel á Balkanskaganum, að bræður eru bræðrum verstir. Spurningin verður hins vegar ávallt sú hvort grípa eigi inní hjaðningavígin, eða láta sem við sjáum þau ekki. Dæmi hver fyrir sig. Einföldun á sögulegum staðreyndum hefur hins vegar engu áorkað hingað til og einungis dregið fólk í dauðans angistar dans.

Halldór Egill Guðnason, 27.7.2010 kl. 03:57

7 identicon

Bandaríkjamenn voru aðilar að Kóreustríðinu 1950 – 53 og ekki er hægt að segja að þeir hafi sigrað þar. “Vietnamstríðið tapaðist meðal annars vegna þess að sjónvarp var komið til sögunnar” segir þú. Hvernig hefði verið hægt að vinna þetta stríð?

Þér hættir til að alhæfa um það sem þú veist ekki Ómar.

Hvernig var annars með afmælisgjöfina? Þú hefur ekki eytt einum bókstaf til að þakka fyrir þig. Nú veit ég ekki með Facebook, ég er ekki þar.

 

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 13:02

8 identicon

Víetnam stríðið var líklega fyrsta "vopnasölu" stríðið, reynt draga það á langinn og helst enginn mátti hvorki vinna né tapa.

Bandamenn hafa dvalið þarna í 8 ár, einnig 7 ár í Írak. Þetta er undarlaga langur tími og það gefur manni að eitthvað meira en "réttlæti" eða stríð gegn hryðjuverkum ráði för.

Reyndar er það svo að stríð gegn hryðjuverkum er FULLKOMIN aðferð til þess að vera alltaf á tánum og skera niður réttindi almennings, allir geta verið óvinurinn.

Við Íslendingar höfum nú fengið að bragða á þessum beiska bikar, því hryðjuverkalögin sem Bretar settu á okkur eru einmitt sett í kjölfar 11 sept 2001.

En aftur að pistlinum, það er rétt að það er nánast ómögulegt að sigra þjóð sem hefur svona miklar landvarnir, því þetta er ekki her sem mætir her á opnu landsvæði, skæruhernað er erfitt að yfirbuga.

Einnig eru Rússar ekki þekktir af góðri meðhöndlun mótherja og fyrst þeir tóku þetta ekki þá á kaninn engan séns.

P.S

Til hamingju með afmælisgjöfina, þú áttir þetta fyllilega skilið.

Ég er ekki alltaf sammála þér í umhverfismálum en hugsjónamenn eru vandfundnir og eiga virðingu skilið!!

runar (IP-tala skráð) 27.7.2010 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband