Ekki "þröngur hópur" í Magma-málinu.

Það er einföldun að "þröngur hópur" þingmanna VG ógni ríkisstjórnarsamstarfinu hvað Magma-málið snertir eins og stjórnmálasérfræðingur talar um. 

Óánægjan með Magma-samninginn nær langt inn í raðir annarra flokka, enda er samningurinn sjálfur á alla lund með þvílíkum fyrir-Hruns-blæ ef svo má að orði komast, að með ólíkindum er. 

Til dæmis hefur Íslandshreyfingin, aðildarfélag að Samfylkingunni, ályktað eindregið frá upphafi gegn því ferli sem hafið var 2007.  

Það er ekki aðeins að samningstíminn sé svo langur að jafngildi afhendingu auðlindarinnar heldur er hún færð fyrirtækinu á einhverju magnaðasta silfurfati sem um getur, félaginu lánað fyrir kaupunum með kúluláni á gjafvöxtum og með veði í bréfunum sjálfum.

Öll einkenni spilaborgar og hókus-pókus gerninganna sem skópu Hrunið lýsa í gegn, að ekki sé talað um hugsunarháttinn.

Það er augljós mótsögn í því að útlendingar megi ekki eignast nýtingarrétt sjávarauðlindarinnar en hins vegar eignast sams konar rétt í orkuauðlindinni.

Undir yfirskini raunsæis, realpólitíkur, er nú sagt að í gegnum eignarhald útlendinga á bankanum, sem í raun eigi HS Orku, eigi útlendingar fyrirtækið hvort eð er þegar og að skárra sé að færa hið erlenda eignarhald yfir á erlent orkufyrirtæki en að hafa það áfram í núverandi gjörgæslu raunverulegra eigenda.

Ef þetta á að vera hin gildandi rökfærsla fyrir afhendingu auðlinda til útlendinga á áreiðanlega svipað við um mörg sjávarútvegsfyrirtæki.

Vel kann að vera að það sé erfitt að brjótast um í því neti erlendra kröfuhafa sem Hrunið leiddi þjóðina í.

Hitt er verra ef uppgjöfin er slík að blygðunarlaus færsla eignarhaldsins á silfurfati til útlendinga sé orðin að stefnu stjórnvalda og stjórnmálaflokka, sé réttlætt sem "realpólitík". 

Ef uppgjafarhugsun fyrir ofurefli dansks valds hefði ríkt á Þjóðfundinum 1851 hefði enginn staðið þar upp og sagt: "Vér mótmælum allir!"  


mbl.is Þröngur hópur þingmanna VG ógnar stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

AMEN!

Flosi Kristjánsson, 27.7.2010 kl. 10:35

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Samfylkingin og ýmsir aðrir eru að reyna að einangra þennan stóra hóp sem misbýður allt þetta söluferli með orkuna sem endaði með sölunni til Magma. Ætli þetta sé ekki liður í ,,að berja" Guðfríði Lilju og Atla til hlýðni við stjórnarstefnuna, því auðvitað er Magma salan á ábyrgð stjórnarinnar. Ég velti hins vegar fyrir hver hvaða áhrif Íslandshreyfingin þín Ómar hefur haft innan Samfylkingarinnar í þessu máli?

Jón Baldur Lorange, 27.7.2010 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband