VANDI VINSTRI GRÆNNA.

Í nafni Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs felst aðalvandi hennar gagnvart umhverfismálum. Fyrri og lengri hluti nafnsins skilgreinir flokkinn í hægra-vinstri-litrófinu og "- grænt framboð" lítur út svona eins og hali eða viðbót. Afleiðingin hefur orðið sú að í undanförnum kosningum, einkum 1999, hefur með "smjörklípuaðferð" Davíðs verið sótt að VG með því að veifa málum sem helst aðgreina vinstri menn frá hægri mönnum. VG hefur neyðst til að verjast og sækja á í þeim málum og græna umræðan liðið fyrir það.

Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr því feiknarlega stóra hlutverki sem þessi flokkur hefur gegnt í umhverfismálum. Þetta er fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem tekur græna stefnu upp á sína arma og neglir það í hluta nafns síns því til staðfestingar. Vinstri grænir hafa verið í sérflokki hvað snertir það að standa vaktina í þessum málum þegar aðrir hafa brugðist. Fyrir það á flokkurinn skildar miklar þakkir og heiður í þjóðarsögunni. 

Það breytir ekki fyrrnefndum vanda VG því stjórnarflokkarnir munu vafalaust notafæra sér það bragð í aðdraganda kosninganna í vor að láta þær snúast um önnur mál en umhverfismálin, -  reyna að láta þær til dæmis snúast um mál eins og matarverðið, sem kemur daglega beint við pyngju hvers manns.

Annar Akkilesarhæll VG er sá að þótt byrinn, sem flokkurinn hefur núna sé líklega að miklu leyti sprottinn úr verðskulduðu fylgi umhverfisverndarfólks við hann, eru takmörk yfir því hve marga flokkurinn getur laðað til sín af hægri sinnuðum kjósendum. Á þessu byggist stöðugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum því stóriðju- og virkjanastefnan hefur fyrst og fremst bitnað á Framsóknarflokknum.  Það er furðulegt og óréttlátt því það er Sjálfstæðísflokkurinn ber höfuðábyrgð á þessari stefnu, -  svo miklu stærri sem hann er en Framsóknarflokkurinn.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn sé látinn bera þá ábyrgð á virkjanafíkninni sem hann hefur ræktað í 16 ár sem leiðandi flokkur í ríkisstjórn. Ráðamenn flokksins þurfa líka að útskýra hvernig svonefndur flokkur einkaframtaksins getur gengist fyrir sovéskri handstýringu með ríkisábyrgð til að fylla landið af stórverksmiðjum sem með ruðningsáhrifum ryðja burt vaxtarbroddum frumkvæðis, einkaframtaks og útrásar.

 En gallinn er sá að þeir, sem segjast vilja kjósa Sjálfstæðísflokkinn þrátt fyrir að vera ósammála þessari stefnu, neyðast til þess vegna þess að þeir eru bólusettir gegn vinstri stefnu og geta hvorki aðhyllst VG né Samfylkinguna með sitt "Fagra Ísland."

Vinstri græna dreymir um 25 prósent fylgi í kosningunum í vor sem umbun fyrir góða frammistöðu í baráttunni gegn stóriðjustefnunni. Steingrímur og hans fólk eiga það  fylgi fyllilega skilið að mínu mati ef umhverfismálin ein væru notuð sem mælikvarði. Ef flokkurinn lægi á miðju íslensks stjórnmálalitrófs væri raunhæft að hann næði þessu markmiði og vel það. En meðan hann liggur á vinstri jaðrinum getur hann þetta ekki og það er vandi hans gagnvart stórum hópi umhverfisverndarfólks. Því miður.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Taka fjögur.  Það sem ég er að reyna að segja, búin að reyna x 4 að skrifa inn á bloggið án árangurs.  Aðrir bloggarar eru í lagi.

Sjálfstæðismenn bera þungann af allri fjármálaóreyðu ríkisins.  Framsókn er bara leppur þeirra og ef aðrir flokkar fara í samstarf við þá verður það bara alveg eins, því miður. 

Ómar, það sem þú hefur gert með elju þinni og áhuga fyrir landið okkar, verður þín minnst í Íslandssögunni.  Við verðum að hugsa þannig, að hvernig við sem foreldrar viljum skilja við landið okkar til hinna sem erfa okkur. 

Áslaug Sigurjónsdóttir, 24.1.2007 kl. 22:46

2 identicon

Vinstri grænir eru í þeim vanda að standa annars vegar fyrir umhverfisvernd og hins vegar fyrir sjónarmið þeirra sem lengst eru til vinstri í stjórnmálum. Slík blanda getur aldrei höfðað til allra.

Þess vegna er mikilvægt fyrir náttúru- og umhverfisvernd að fólk sem er á og vinstra megin við miðju hafi líka grænan valkost. Það hefur fólk því Fagra Ísland er slíkur valkostur og um þær tillögur ríkir full eining innan þingflokks Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún hefur sagt að Fagra Ísland verði sett fram sem eitt af grundvallarplöggunum í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar í vor ef kjósendur veita flokknum umboð til. Ég vona að þeir geri það. Náttúran getur ekki beðið önnur fjögur ár eftir góðri lausn.

Mér líst líka prýðisvel á það Ómar ef þú býður Frjálslyndum krafta þína. Frjálslyndir hafa verið mjög óljósir hvað þetta varðar og það sást best í haust þegar ekkert samband var á milli borgarstjórnarflokksins og þingflokksins. Borgarstjórnarflokkurinn bar fram tillögu um að fylla Hálslón bara að 2/3 en auðvitað hefði verið nær að þingflokkurinn bæri fram þingsályktunartillögu eða kæmi alla vega upp í ræðustól og ræddi hugmyndina. Þingflokksarmurinn hefur hins vegar aldrei haft neinn áhuga á náttúruvernd og það væri því afar gott að þú bættir úr því.

Það myndi líka setja meiri pressu á Sjálfstæðisflokkinn sem er í þeirri þægilegu aðstöðu að þurfa ekki að gera neitt í málunum af því að þeir eru alveg einir á hægri vængnum. Það er bara rétt fyrir prófkjör að þeir Illugi og Gulli reyna af veikum mætti að sýnast dálítið grænir. Það hefur hins vegar engin vinna farið fram í flokknum um þessi mál - hvað þá að það hafi verið mótaðar ítarlegar tillögur um málið eins og Samfylkingin hefur gert með Fagra Íslandi.

Af því hér ertu að fjalla um Vinstri græna þá langar mig að bæta við einu atriði sem mér sýnist þú hafa gleymt. Vegna þess sem þú bendir réttilega á að það geta ekki allir grænir verið vinstri menn hafa Vinstri grænir dálitla tilhneigingu til að eigna sér grænu málin, t.d. með því að kalla aðra sem setja fram metnaðarfullar tillögur í umhverfismálum ótrúverðuga.

Það er slæmt fyrir málefnið að leiða umræðuna sífellt út í meting um það hver er besti græni flokkurinn. Ég furða mig sannast sagna á því að Vg skuli ekki frekar taka hinn pólinn í hæðina og segja "Frábært að fá þennan liðsauka, nú fara hlutirnir að gerast!" Það væri bæði stórmannlegra og betra fyrir málefnið.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 10:38

3 identicon

Þið eruð stórkostleg og hippar nútímans en ekki virkar það fyrir fólk hér fyrir austan sem hafði ekkert og verðlausar eignir út um allt, fiskiðjuverin héldu fólki á horreiminni því það ver ekkert annað að hafa, svo kemur lið eins og nútíma hippar og gefa þessu fólki langt nef og og það eigi að vera í öðru sæti í einhverjum draumsýnum nútíma hippa sem eru svo fjarstæðu kenndir að það nær ekki nokkru tali. 

Nú sjá þúsundir austfirðinga bjarta tíma og fara fá laun fyrir vinnu sína og geta endurnýjað húsnæði komið bæjunum í viðunandi horf hreinsað og snyrt og allt verður miklu fegurra ásýndum en áður.

Svo látið okkur í friði nútíma hippar og hugsið um ykkar eigin bakgarð, sem betur fer tókst ykkur ekki að eyðileggja okkar framtíð.

Kv. Óskar 

Óskar þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 10:46

4 identicon

Hérna er farið afar frjálslega með Ómar minn.

Sjálfstæðiflokkurinn ber að vísu ábyrgð á nokkru því, sem þú sakar hann um en svo er í samstarfi við aðra flokka, að tillit verður að vera á aðal kosningamálum þeirra.

Framsóknarmenn lögðu allt undir í loforðaflaumi um stóriðjuframkvæmdir á Auturlandi.  Þetta veist þú og ekki þér sæmandi, að líta framhjá því.

Samningaferlið áður en núgildandi samningar náðust, höfðu staðið lengi og fyrri lotu lauk með því, að norðmenn hættu við og fóru frá borðinu.  Valgerði var svo mál, að hún virðist hafa boðið verð, sem var alltof lágt og lofaði meiri orku en hægt var að afhenda öðruvísi en með stórvirkjuninni þarna við Kárahnjúka. 

 Ég hef bæði verið á þessu svæði fyrir framkvæmdir og þegar þær stóðu sem hæst.  Auðvitað hefði mér hugnast betur, að þarna hefðum við, sem höfum gaman af torfærum og flugi, hefðum bara fengið einir að njóta víðernisins en það er auðvitað eigingirni.

Ég hóf ungur að ferðast um landið, fyrst með brúargerðaflokkum og síðar á eigin vegum.  Nú hin síðari ár hef ég verið að fara um þau svæði, sem áður voru nánast ósnert af okkur mönnunum.  Nú eru ruslahaugar, troðnar slóðir og bara sóðaskapur eftir þessa túrista, sem þið mærið svo oft og hefjið til skýjanns sem fólk sem viti um hvað þau tala.

 Ferðaþjónusta í stórm stíl er láglaunastörf, eins og best sést á Spáni og víðar.  Landið okkar þolir ekki þennann átroðning og er mál að stemmt verði stigu við þessum notum, sem ég vil kalla nánast rányrkju á viðkvæmum svæðum.

 Svo er annað.  Náttúran fer ekki í umhverfismat og þegar eldfjöllin okkar ræskja sig, lætur allt undan, bæði mannanna verk og þau náttúruundur sem fyrir eru.  ,,brúin" er fallin og margt það, sem ég áður sá umhverfis landið er farið af náttúrulegum ástæðum. 

 Kæri vin, þegar við plönum fluglegg, vonumst við til, að nægt sé eldsneytið en eru viðbúnir hinu.  Förum því varlega og með ögn meiri varfærni í einkavæðingamálum, er ekki til þjóðhollari stjórnamálaflokkur en flokkur allra landsmanna, -Sjálfstæðisflokkurinn.

Vonandi hittumst við á næsta Landsfundi og færum minn ástkæra flokk aftur nær Ungmennafélagshugsjónum, þá er engu að kvíða.

Með hægri -grænni kveðju

Bjarni Kjartansson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 11:48

5 identicon

Sæll Ómar og takk fyrir hrósið, sem ég vona að sé verðskuldað. Ég tel að við höfum staðið mikilvæga vakt og munum gera það áfram, til dæmis í Hafnarfirði.

Ólíkt því sem haldið er fram af Dofra Hermannssyni, þá fagna ég stefnubreytingu sumra innan Samfylkingarinnar í náttúruverndarmálum. Ég fagna því ekki síst hversu mikið af umhverfisstefnu VG frá 1999 hefur ratað inn í Fagra Ísland Samfylkingarinnar, sem hann er einn af höfundunum að (eða kannski eini?)

Ég hef reyndar aðra skoðun en þú að því leyti að mér finnst ekki hægt að vera "hægri-grænn" eins og sumir hafa kallað það. Mér finnst að sama skapi að róttæk kvenfrelsisstefna sé líka vinstra megin við miðju, enda býr hún hjá okkur í VG - eins og vel er þekkt. Það hlýtur að vera afstaða okkar til málanna sem setur okkur á hinn pólitíska ás. Þeir sem eru ósammála okkur í afstöðunni til Írak-stríðsins þeir kjósa okkur ekki. Þeir sem eru ósammála okkur í að jafna skuli mun milli þeirra sem eru ríkastir og þeirra sem minna hafa kjósa okkur ekki. Það er hins vegar vandi kjósendanna. Það er ekki vandi okkar.

Við skulum muna að jaðarinn nær inn að miðjunni. Vegna grænu málanna, eigum við þá ekki að sækja þessi 25% inn að henni? Fyrst við eigum það skilið??

með góðum kveðjum frá mér til þín og allra þeirra sem eru með náttúru!

Gestur Svavarsson

Gestur Svavarsson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 12:01

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

"Nútíma hippar" er nú ekkert skammaryrði held ég. Það verður gaman að sjá allar þúsundir Austfirðinga hrúast saman í Reyðarál. Hélt að þar yrðu bara um 400 til 500 störf. Og þau kostuðu um 110 milljarða í lánum. Það hefði verið kannski betra að huga að því hvað annað hefði verið hægt að setja á stofn fyrir 110 milljarða. Kannski eitthvað sem hefði valdið því að fólk vildi flytja austur. Sé ekki alveg hvað ungafólkið sem er við nám í háskóla hefur að sækja í álver.

Magnús Helgi Björgvinsson, 25.1.2007 kl. 12:20

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri Dofri.

Ég sé að í Fréttablaðinu í dag er haft eftir formanni flokks þíns að sé virkjun sett inn á skipulag sé erfitt ef ekki ómögulegt að snúa til baka. Ég fagna þessu mati Ingbjargar Sólrúnar sem sat í fremstu röð á baráttufundi gegn virkjunum í Skagafirði en sagði við mig og lagði áherslu á það að endanleg ákvörðun um virkjanir lægju í ráðherravaldi um virkjanaleyfi.

Mér skildist þá á henni að það ætti að nægja. En skýrasta og nýjasta dæmið um hið gagnstæða eru yfirlýsingar Árna Sigfússonar um það að í byrjunarferli álvers í Helguvík sé búið að gera samning sem geti komið í veg fyrir að aftur verði snúið eða hvikað frá því setta marki að álver rísi í Helguvík.

Þetta hefur kannski sýnt henni eins og mér, að nýja stóriðjustefnan byggir á því að koma málum sem fyrst það langt heima í héraði að ekki verði aftur snúið og virkjanaleyfisvald ráðherra því dautt í raun.

Varðandi einhuginn í þingflokki Samfylkingarinnar, Fagra Ísland, þá vona ég að þú leiðréttir það sem ég held, - að Kristján Möller hafi lýst sig andvígan henni. Og hvað um Einar Má Sigurðarson? Þú munt væntanlega svara því að þessir tveir þingmenn séu aðeins brot af þingflokknum en þeim tókst þó að snúa Samfylkingunni í heilan hring í Kárahnjúkamálinu á sínum tíma.

Annars er ég þér sammála að við eigum að klappa hvert öðru á bakið, umhverfisverndarfólk, og styðja til áhrifa og góðra verka á hvaða vettvangi sem við erum. Ég þykist greina handbragð þitt af stefnuskránni "Fagra Ísland" og dáist að því hve langt þér tókst að komast á þeim vettvangi innan þíns flokks.

Ómar Ragnarsson, 25.1.2007 kl. 12:25

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er vandasamt fyrir hvern sem er, að fara vel með sitt aflafé.  Miklu viðkvæmarar er fyrir horska menn, að fara með fé og framtíð sveitunga sinna, sem treysta viðkomandi fyrir að gaumgæfa hvaðeina, -áður en ákvörðun er tekin.

Sú staða sem Árni Sigfússon er í, er allsekki öfundsverð.  Herinn farinn, allt leit út fyrir, að til stórvandræða leiddi í framfærslumálum hans skjólstæðinga(sveitunga) .  Það er afar auðvelt, að standa hjá og krítisera með hofmóði, viðleitni manna til að undirbyggja framtíð íbúana þi þessu sveitafélagi.

Ekki tel ég að heldur, að Bæjarstjóri Hafnafjarðar eigi rósamleg kvöld og svefnsamar nætur, nú um mundir.

Túristminn er stórhættulegur landinu og íbúum þess, þar sem um er að ræða nánast eingöngu láglaunastörf í kringum þennann iðnað og svo er átroðslan óbærileg landinu.

kveðjur

Bjarni Kjartansson, 25.1.2007 kl. 13:29

9 identicon

Kæri Ómar. Eins og þú biður um þá staðfestist hér með (eina ferðina enn) að Einar Már og Kristján Möller styðja Fagra Ísland eins og aðrir í þingflokknum. Kristján var meira að segja einn af þeim sem kynntu tillögurnar í september. Hann hefur hins vegar sagt að verði niðurstaðan sú að hægt verði að nýta til atvinnuuppbyggingar orkuna í Þingeyjasýslu (eins og þú hefur reyndar lagt til að verði gert) þannig að það samrýmist hugmyndum um náttúruvernd þá vilji hann ekki berjast á móti því.

Það er síðan annað verkefni sem pólitíkusar verða að takst á við - misskipting tækifæranna á milli höfuðborgar og landsbyggðar. 39% hagvöxtur á sex ára tímabili á höfuðborgarsvæðinu en -6% á sumum svæðum landsins á sama tíma! Það væri trúlega besta náttúruverndarverkefni sem hægt væri að setja af stað - að rétta hlut landsbyggðarinnar.

Kæri Gestur. Það eru akkúrat svona athugasemdir eins og þínar sem er svo mikill óþarfi að vera með. Þú reynir stöðugt að draga úr trúverðugleika Samfylkingarinnar, núna með því að tala um stefnubreytingu "sumra" og gefa í skyn að Fagra Ísland sé tekið frá gamalli stefnu Vg. Því fer fjarri.

Ef þú skoðar ályktanir landsfunda Samfylkingarinnar er auðvelt að sjá úr hverju Fagra Ísland sprettur. Eins ef skoðuð er ítarleg greinargerð Framtíðarhóps um náttúruvernd andspænis auðlindanýtingu. Mér finnst afar ódrengilegt að dylgja um það að Samfylkingin, sem hefur á síðustu árum lagt meiri vinnu í stefnumótun en nokkur annar flokkur, sé að stela einhverri ályktun Vg frá ´99.

Samfylkingin vill breiða samstöðu um náttúruvernd og Fagra Ísland er aðferðafræðin sem við þurfum, ný nálgun sem mikill meirihluti þjóðarinnar getur heils hugar tekið undir. Að farið verði strax í Rammaáætlun um náttúruvernd, verðmæt svæði kortlögð og friðun þeirra tryggð. Eftir það er hægt að skoða hvar má skipuleggja nauðsynleg mannvirki s.s. vegi þjónustustofnanir og virkjanir ef þess gerist þörf. Ég hef enn engan hitt sem hefur bent á betri tillögur til að ná víðtækri sátt um náttúruvernd.

Af hverju er Vg svo í mun að draga úr trúverðugleika Samfylkingarinnar í umhverfismálum? Vilja Vinstri grænir ekki breiða samstöðu um náttúruvernd? Væri ekki nær að fagna tillögunum - og þeim sem unnu þær? Segja "frábær vinna, frábært að vera búin að fá svona sterkan samherja með í baráttuna!" Er það svona erfitt?

Kv. Dofri Hermannsson, baráttumaður fyrir breiðri samstöðu um náttúruvernd.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 14:25

10 identicon

Ég fæ ekki betur séð á skrifum þínum Ómar og á þeim athugasemdum sem fylgja í kjölfarið að fleiri en ég eru í “pólitískri tilvistarkreppu”, allt vegna þeirra hryðjuverka sem unnin eru á nátttúru Íslands í skjóli arfavitlausrar atvinnusköpunar.  Fyrir þessum ósköpum standa stjórnmálaflokkar sem umhverfisverndarfólk gat áður stutt og unnið með.  Þá var mögulegt að hafa áhrif á umhverfis- og byggðamál í landi okkar með starfi innan stjórnmálaflokka, en nú valta þessir flokkar yfir rökstudd álit virtra vísindamanna, hagfræðinga og annara sem rækilega hafa sýnt fram á hversu vitlaus stóriðjuáformin eru.  Okkur er ekki lengur vært í þessum félagsskap, þ.e. Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki eða Samfylkingunni.

 

Vissulega eru margir í þessum flokkum einlægir náttúruverndarsinnar en aðeins mjög fáir alþingsmenn hafa þorað að standa í lappirnar trúir sínum málstað þegar kemur að atvinnumálum einstakra byggðarlaga.  Ég lái því ekki þeim sem hafa hrökklast frá flokksstarfinu og reynt að hafa áhrif með öðrum aðferðum.  Ég sé ekki fyrir mér að Frjálslyndir breyti neinu þarna um þrátt fyrir góðan vilja sumra þar.  Hvað er til ráða? 

Vinstri grænir hafa verið staðfastir í sínum málflutningi gegn stóriðju og hafa ásamt öðrum náttúruverndarsinnum náð að vekja fólk af værum blundi.  Mér er þó til efs að sú mikla vakning í umhverfismálum sem orðin er staðreynd hefði orðið til nema fyrir tilverknað einlægrar þverpólitískrar baráttu alls landverndarfólks.  Þar eiga margir hrós skilið og ekki síst þú Ómar.  Þegar einstök mál skipast í svo alvarlegan og hættulegan farveg sem orðinn er í stóriðjumálum er ekki óeðlilegt að litið sé til allra þeirra leiða sem vænlegar eru til að stöðva  þetta brjálæði.

 

Eigum við að kjósa Vinstri græna og sum okkar þá hugsanlega að víkja til hliðar hugmyndafræði um önnur mál eða eigum við að stofna stjórnmálaflokk og reyna að sameinast um almenna stjórnmálastefnu þar sem landvernd verður í fyrirrúmi?  Í stöðuni sé ég ekki aðrar leiðir en þessar tvær.  “Þreifað” hefur verið á stjórnmálamönnum stóriðjuflokkanna.  Þeir segjast náttúrverndarsinnar og flagga nýjum áherslum, en þegar vikið er að einstökum framkvæmdum fer allt í klessu.  Ég treysti þeim ekki. 

 

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 15:47

11 identicon

Ævinlega margblessaður, Ómar

Þú hefur eiginlega ekki nægilega langt minni hvað varðar umhverfismál og stjórnmálaflokka. Kvennalistinn lagði mikla áherslu á umhverfismál, var með ítarlega stefnu í þeim málaflokki og setti þau mjög á oddinn. Í stjórnarmyndunarviðræðum sem listinn fór í eftir kosningar 1987 setti hann það að skilyrði að stofnað yrði umhverfisráðuneyti og það hafði verið samþykkt þegar upp úr slitnaði af öðrum ástæðum (lágmarkslaunum). Sjálfsagt má einhvers staðar á safni, a.m.k. Kvennasögusafninu, finna Stefnuskrá Kvennalistans í landsmálum, bæði frá 1987 og 1991. En þó að þessi stefna sé komin á safn !! er ekki nokkur vafi að hún og málflutningur kvennalistakvenna, a.m.k. sumra, hafði veruleg áhrif á sínum tíma. Sjálf var ég varaþingmaður kvennalistans í tvö kjörtímabil og var á þingi nokkrar vikur og flutti þar nokkur mál, m.a. um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og Hvítár og um stofnun umhverfisráðuneytis svo að eitthvað sé talið.

Kær baráttukveðja

Sigrún Helgadóttir

Sigrún Helgadóttir (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 16:53

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek undir það sem Ægir Magnússon segir um skoðanakúgun sem ekki eigi að viðgangast. Ég hef ekkert við það að athuga að einstakir þingmenn hafi aðrar skoðanir en forystumenn flokkanna í einstökum málum. Samkvæmt eiðnum sem þeir vinna þegar þeir setjast á þing ber þeim að fara eftir eigin sannfæringu og samvisku. En kjósendur gera líka kröfu til þess að þessar skoðanir byggist á því að þeir hafi kynnt sér viðkomandi mál sem best.  

Dofri Hermannsson upplýsir um að Kristján Möller styðji þá góðu stefnuyfirlýsingu "Fagra Ísland" en segir jafnframt að Kristján styðji "nýtingu orku í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar ef það samrýmist hugmyndum um náttúruvernd."

 Þetta síðast með orkunýtinguna og náttúruverndina er hins vegar mikið matsatriði. Hverjar eru kröfur Kristjáns til náttúruverndar? Minna má á 20 "ströng" skilyrði Sivjar Friðleifsdóttur fyrir Kárahnjúkavirkjun sem áttu að tryggja að sú framkvæmd stæðist kröfur um náttúruvernd.

Ég er ekki með þessum orðum að vantreysta þingmönnum Samfylkingarinnar fyrirfram til að standa náttúruvaktina, - þeir eiga allar mínar óskir um velfarnað í þeim efnum. Ég er aðeins á benda á á staðreynd sem blasir við í skoðanakönnunum að þeir þurfa að hafa fyrir því að sanna sig fyrir fólki sem er tortryggið í ljósi fortíðar flokksins og stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins við mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.

Það myndi til dæmis bæta ímynd Samfylkingarinnar mikið ef þeir þingmenn sem stóðu að Kárahnjúkavirkjun myndu viðurkenna að þeir hefðu haft rangt fyrir sér. 

Það svar margra frambjóðenda nú að ákvörðunin um virkjunina hafi verið rétt á sínum tíma miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir stenst ekki skoðun að mínu mati. Allar upplýsingar sem skiptu máli lágu þá fyrir. Þingmennirnir sem ákváðu þetta gerðu það án þess að kynna sér dalinn sem átti að drekkja, - unnu ekki vinnuna sína og yrðu menn að meiri ef þeir viðurkenndu það, á sama hátt og þeir krefjast þess af þingmönnum stjórnarflokkanna að hafa gert mistök með því að láta það viðgangast að Íslendingar létu setja sig í hóp hinna viljugu þjóða til innrásar í Írak. Og það er ekki tekið gilt sem afsökun stjórnarliða að nægar upplýsingar hefðu þá ekki legið fyrir.

Það er gott þegar við viljum bæta ráð okkar. Betri árangur næst þó í þeim efnum ef horfumst við í augu við mistök fortíðarinnar en sópum þeim ekki undir teppið. Á grundvelli þess er hægt að forðast að gera aftur svipuð mistök. Kjörorð mitt í lífinu er: Það gengur betur næst. Í því kjörorði felst viðleitni til játa mistökin, - gera sér grein fyrir því í hverju þau fólust og að nota það sem grundvöll fyrir því að gera betur.   

Ómar Ragnarsson, 25.1.2007 kl. 22:27

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek undir það sem Ægir Magnússon segir um skoðanakúgun sem ekki eigi að viðgangast. Ég hef ekkert við það að athuga að einstakir þingmenn hafi aðrar skoðanir en forystumenn flokkanna í einstökum málum. Samkvæmt eiðnum sem þeir vinna þegar þeir setjast á þing ber þeim að fara eftir eigin sannfæringu og samvisku. En kjósendur gera líka kröfu til þess að þessar skoðanir byggist á því að þeir hafi kynnt sér viðkomandi mál sem best.  

Dofri Hermannsson upplýsir um að Kristján Möller styðji þá góðu stefnuyfirlýsingu "Fagra Ísland" en segir jafnframt að Kristján styðji "nýtingu orku í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar ef það samrýmist hugmyndum um náttúruvernd."

 Þetta síðast með orkunýtinguna og náttúruverndina er hins vegar mikið matsatriði. Hverjar eru kröfur Kristjáns til náttúruverndar? Minna má á 20 "ströng" skilyrði Sivjar Friðleifsdóttur fyrir Kárahnjúkavirkjun sem áttu að tryggja að sú framkvæmd stæðist kröfur um náttúruvernd.

Ég er ekki með þessum orðum að vantreysta þingmönnum Samfylkingarinnar fyrirfram til að standa náttúruvaktina, - þeir eiga allar mínar óskir um velfarnað í þeim efnum. Ég er aðeins á benda á á staðreynd sem blasir við í skoðanakönnunum að þeir þurfa að hafa fyrir því að sanna sig fyrir fólki sem er tortryggið í ljósi fortíðar flokksins og stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingflokksins við mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.

Það myndi til dæmis bæta ímynd Samfylkingarinnar mikið ef þeir þingmenn sem stóðu að Kárahnjúkavirkjun myndu viðurkenna að þeir hefðu haft rangt fyrir sér. 

Það svar margra frambjóðenda nú að ákvörðunin um virkjunina hafi verið rétt á sínum tíma miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir stenst ekki skoðun að mínu mati. Allar upplýsingar sem skiptu máli lágu þá fyrir. Þingmennirnir sem ákváðu þetta gerðu það án þess að kynna sér dalinn sem átti að drekkja, - unnu ekki vinnuna sína og yrðu menn að meiri ef þeir viðurkenndu það, á sama hátt og þeir krefjast þess af þingmönnum stjórnarflokkanna að hafa gert mistök með því að láta það viðgangast að Íslendingar létu setja sig í hóp hinna viljugu þjóða til innrásar í Írak. Og það er ekki tekið gilt sem afsökun stjórnarliða að nægar upplýsingar hefðu þá ekki legið fyrir.

Það er gott þegar við viljum bæta ráð okkar. Betri árangur næst þó í þeim efnum ef horfumst við í augu við mistök fortíðarinnar en sópum þeim ekki undir teppið. Á grundvelli þess er hægt að forðast að gera aftur svipuð mistök. Kjörorð mitt í lífinu er: Það gengur betur næst. Í því kjörorði felst viðleitni til játa mistökin, - gera sér grein fyrir því í hverju þau fólust og að nota það sem grundvöll fyrir því að gera betur.   

Ómar Ragnarsson, 25.1.2007 kl. 22:27

14 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

MÁLEFNIÐ HEFUR SIGRAÐ!

Ég bið vinsamlegast um að við hættum að karpast og hártogast og sýnum náttúru Íslands þá virðingu að stilla saman strengi flokkanna og dansa til sigurs í vor

Andrea fagnar breiðri samstöðu um náttúruvernd

Ég heyrði svo mikla speki um daginn sem er svo einföld og hlaðin visku:

"Hættu að vonast eftir betri fortíð" 

Það verður aldrei hægt að breyta fortíðinni, en það sem við getum gert sem mannverur í átt að frekari þroska í þessu lífi er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Sami maður og sagði þetta hér að ofan sagði líka á sama tíma að okkur ber að líta á öll þau "mistök" sem við höfum gert og spyrja okkur sjálf hvort við höfum dregið einhvern lærdóm af þeim og breytt hegðun okkar í samræmi  - ef það hefur gerst eru mistökin orðin að lærdóm og ekki hægt að kalla mistök lengur.

Vissulega má segja að Kárahnjúkavirkjun séu ein mestu og stærstu mistök sem gerð hafa verið í sögu lýðveldisins, en lítum þó allavega með móðurlegri væntumþykju til þeirra sem eru viljugir til að læra af mistökunum og snúa við blaðinu í átt að betri hegðun og betri framtíð. Slíkan lærdóm hafa hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkurinn sýnt, en Samfylkingin er á góðri leið í átt til aukins þroska. Gleymum því heldur ekki að Framsókn var ekki ein um að bera ábyrgð á stóriðjustefnunni, heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn stutt einatt við þessa gamaldags atvinnustefnu í anda gamaldags Rúss-kommúnisma. Slík atvinnustefna er engan veginn í anda okkar í VG. Því má spyrja sig í þessu samhengi, hverjir eru vinstri og hverjir eru hægri? Hverjir vilja styðja einstaklingsframtakið en draga úr gífurlegum áhrifum stórfyrirtækja sem eru farin að hafa alltof mikil áhrif á stjórn landins og setja þeim ramma sem þeir þurfa að fara eftir? Hverjir vilja tryggja velferð almennings í landinu fyrir alvöru og tryggja með lögum að hann fái almennilega og sanngjarnt greitt fyrir vinnu sína til að enginn þurfi að búa við fátækt?  Það er VG. XD hins vegar hefur stutt þvílíka skammsýna og eyðileggjandi atvinnustefnu sem er hægt að leita fyrirmynda hjá gamla Rússaveldi og kommúnistum í Kína - nema hvað einhver amerísk fyrirtæki fá gróðann en ekki ríkið.

Leyfum VG og XS að mynda saman meirihluta í vor til að rétta kútinn og byggja almennilegt samfélag sem í raun allir vilja en sumir átta sig ekki á. Bestu samfélög heims eru Norðurlöndin og við lítum til þeirra sem fyrirmyndar. 

RÉTTLÆTI OG NÁTTÚRUVERND ERU OKKAR AÐALSMERKI - vinstri, hægri snú er bara orðaleikur til að villa um fyrir fólki.  

Andrea J. Ólafsdóttir, 26.1.2007 kl. 10:29

15 identicon

Þið flest hlaupið kringum pottinn án þess að sýna innihaldinu nokkurn áhuga? Afhverju svarið þið ekki hvað hefði átt að koma staðinn hér fyrir austan? fyrir utan kjaftæðið um eina og eina rútu með túrista (sem nóta bene hefði ekki komist á svæðið)Þið bullið í hringi um göfugmálefni fyrir túristan(ekki var íslendingurinn þarna uppi í nokkru mæli)og eins og ég sagði áður nokkra nútíma hippa í Rvk. Og hafið með þessu náð einhverju fylgi því þið passið ykkur á að ræða aldrey um íbúana og lausnir fyrir þá. Afhverju eruð þið ekki farinn af stað á öðrum svæðum með allar þessar háu hugmyndir um túrista gull og sýnið fólkinu fyrir norðan og í keflavík hvernig á að græða áður en framkvæmdir hefjast?

Og það eru margir í Rvk. sem styðja ykkar málstað sem hafa einga rökhugsun og fylgja göfugu málefni í blindni leidda áfram af nútíma hippum. 

Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 16:10

16 identicon

Ágæti Óskar Þór.  Ég þykist vita að þú sért að tala um álver Alco á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun okkar.  Sjálfur hef ég farið um svæðin sem verða fyrir barðinu á þessum ósköpum, bæði fyrir og eftir að framkvæmdir hófust, síðast rétt áður en áfylling hófst.  Eftirsjáin er átakanleg.

 

Það er ekki að sjá að þú hafir kynnt þér þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í finna út hvað borgar sig og hvað ekki og hefur greinilega annað mat á landsins gæðum en þeir sem hafa af einlægni barist gegn þessum hryðjuverkum.  Þar á ég ekki eingöngu við þetta svæði, heldur landið allt.  Okkur kemur þetta við hvar sem við búum og líka þér.

 

Því miður hef ég ekki forsendur til að rökstyðja útreikninga um kostnað vegna Kárahnjúkavirkjunar.  Ég tel mig hins vegar hafa fylgst mjög vel með umræðu um þessa risaframkvæmd og afleiðingar hennar og þar hefur því oft verið haldið fram, að hvert starf sem skapað verði muni kosta 300 milljónir.  Ég hef aldrei heyrt að þessi tala fyrir hvert starf hafi verið véfengd.  Er þetta ef til vill eitt af því sem ekki mátti nefna, eða kostar hvert starf miklu meira?  Ef minna, gott mál.

 

Ég veit ekki hvað er nákvæmlega rétt í þessu, en sjálfur hafði ég í huga kostnað við rannsóknir, hönnun, hafnarmannvirki, húsbyggingar, vegi, brýr, rafmöstur, línur og spennuvirki auk kostnaðar við allar stíflur, varnargarða, jarðgöng ásamt kostnaði við hverfla, loku- og vélbúnað, mótvægisaðgerðir, fórnarkostnað vegna jarðminja, greiðslur fyrir vatnsréttindi og umhverfisspjöll hjá landeigendum  o.fl. o.fl.

 

Kostnaður við hvert starf mun einfaldlega vera fundið út með því að deila heildarkostnaði, að frátöldum kostnaði við álverið sjálft, í þann fjölda starfa sem áætlað er að muni skapast eftir að framkvæmdum lýkur, þ.e. störf í álveri Alcoa, við virkjunina og í afleiddum störfum á Austurlandi, samtals um 800 störf.

 

Gott væri fyrir þjóðina að fá nákvæmari upplýsingar um þetta.  Svona til glöggvunar tek ég hér dæmi um sjálfan mig.  Það tæki mig, miðað við fastalaun um 120 ár að ná inn 300 milljónum að frádregnum tekjuskatti.

 

Af þessu má sjá hvaða endaleysa þetta er.  Nær hefði verið að borga öllum vinnufærum Austfirðingum laun fyrir að gera ekki neitt frekar en leggjast í hernað gegn náttúrunni.  Auðvitað mæli ég ekki með slíku ráðslagi, því ég treysti Austfirðingum eins og öðru landsbyggðarfólki vel til betri verka en við þessa ömurlegu nýsköpun í landshlutanum.

 

Atvinnuleysi á Austurlandi var reyndar innan við ½ % áður en framkvæmdir hófust og þrátt fyrir mikinn straum innflytjenda til Austurlands vegna stórframkvæmda flytjast fleiri þaðan þegar litið er til búferlaflutninga Íslendinga. Þann 1. des. 2006 hafði Austfirðingum enn ekki fjölgað umfram brottflutta.  Þrátt fyrir næga atvinnu eru nokkur dæmi um að Austfirðingar hafi selt eignir sínar þegar þær hækkuðu í verði og flutt annað.

Ég skil þig að vissu marki Óskar Þór, en það máttu vita að ég vil veg landsbyggðarinnar sem allra mestan.  Að halda jafnvægi í byggð er stórmál og kannski ekki svo einfalt  eins og þú villt vera láta.  Ég leyfi mér þó að benda þér á hugmyndir Andra Snæs í þessu sambandi.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband