4.8.2010 | 08:32
Bílveltur urðu og verða...
Nú nýlega komst tískubullið "bílvelta varð" (í staðinn fyrir að segja einfaldlega "bíll valt") á nýtt stig hér á mbl. is þegar skrifað var "bílveltur urðu."
Hliðstæða væri að segja "tveir húsbrunar urðu" í stað þess að segja "tvö hús brunnu", - segja "tvær afsagnir urðu" í stað þess að segja "tveir sögðu af sér" eða að segja "tvö lærbrot urðu" í stað þess að segja "tveir lærbrotnuðu."
Nú kemur "bílvelta varð" enn einu sinni í frétt hér og um það hef ég aðeins þetta að segja:
Bílveltur urðu og urðu, -
það orðalag vekur furðu
en óstöðvandi
er þessi fjandi
á okkar landi.
Já, bílveltur verða og verða
og vitleysan fer sinna ferða.
Svo arfaslakt er það, -
þú undireins sérð það, -
að bílveltur verða að verða.
Í felum á Klambratúni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki má gleyma þessu sem er komið nú hjá bönkum.
"Það ÞARF að afskrifa" hjá einhverju einkafyrirtæki.
Það þarf EKKI neitt og hefur aldrei þurft.
En ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra
En langar til að óska þér til hamingju með afmælið og þessa rosalegu afmælisgjöf.
En að lokum langar mér að spyrja hvort það verði eða sé hægt að kaupa stiklurnar þínar og annað efni á DVD?
Anepo, 4.8.2010 kl. 12:32
Sjónvarpið á Stiklurnar og selur þær í útvarpshúsinu. DVD-diskarnir eru 17 og þættirnir orðnir 36.
Ómar Ragnarsson, 4.8.2010 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.