Fjölgun í stóriðjulausum fjórðungi.

Athyglisvert er að skoða mannfjöldatölur síðustu 50 ára. Í mikilli síbylju Austfirðinga um að sá landsfjórðungur berðist við mesta fólksfækkun gleymdist að geta þess að á árunum 1960 til 2000 hafði fólki fjölgað þar verulega á sama tíma og fólki á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra fækkaði stórlega.

Síðan var það gefið út að stóriðja myndi skapa fólksfjölgun til frambúðar upp á 1500 manns. 

Þá gleymdist að athuga að stór hluti þeirra sem hæst lét um að fá stóriðjuna gerði það vegna þess að tímabundið hærra húsnæðisverð á meðan á framkvæmdum stóð gerði þeim kleift að flytja í burtu. 

Nú er mikið sífrað um það að aðeins stóriðja á Bakka geti "bjargað" Norðurlandi eystra frá hruni. 

Þvert ofan í það er það eini fjórðungurinn þar sem fólki fjölgar á sama tíma og fækkar á Austurlandi.

Fækkunina þar er ekki lengur hægt að skýra með því að virkjanaframkvæmdir hafi hætt.

Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað eru meðal skuldugustu svæða landsins og auðar íbúðir þar samsvara því að 11000 íbúðir stæðu auðar á Reykjavíkursvæðinu. 

Íbúar á Djúpavogi segja nú að þeim hafi verið sagt, að ekki væri hægt að fá betri veg yfir Öxi nema stóriðjan kæmi. Nú segjast þeir hafa verið sviknir um þetta

Áratugum saman voru fluttar fréttir, oftast fremstar í fréttatímum, af "hruni" byggðar í Mývatnssveit ef Kísiliðjan yrði lögð niður. 

Síðan gerðist það en "hrunið" lætur á sér standa. 


mbl.is Landsmönnum fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í dag búa ca.1500 fleirum í Fjarðarbyggð en árið 2005.

Magnús Eggertsson (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 17:26

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Flest ef ekki allt sem þú segir í þessum pistli, Ómar, er hrein lýgi í þér,... og auðvitað rétt af þér að draga þetta bull strax til baka og biðjast afsökunar á því.

 "Í mikilli síbylju Austfirðinga um að sá landsfjórðungur berðist við mesta fólksfækkun"

Ég hef hvergi séð Austfirðing halda þessu fram, en anstæðingar virkjanaframkvæmdanna hér eystra hika auðvitað ekki við að bera þetta upp á Austfirðinga. Austfirðir, eða Austurland, eins og það hét fyrir kjördæmabreytinguna, er afar stórt og dreifbýlt svæði með nokkrum jaðarbyggðum. Viðvarandi fólksfækkun hefur verið í landsfjórðungnum en þeirri óheilla þróun hefur nú verið snúið við á Mið-Austurlandi, þökk sé framkvæmdunum.

"Síðan var það gefið út að stóriðja myndi skapa fólksfjölgun til frambúðar upp á 1500 manns"

Enda gekk það eftir!

"Þá gleymdist að athuga að stór hluti þeirra sem hæst lét um að fá stóriðjuna gerði það vegna þess að tímabundið hærra húsnæðisverð á meðan á framkvæmdum stóð gerði þeim kleift að flytja í burtu."

Þú ert auðvitað óuppdregginn dóni að halda þessu fram. Hins vegar var auðvitað einhver fjöldi fólks sem hafði hugsað sér til hreyfings um árabil, en sat í átthagafjötrum vegna eins lægsta húsnæðisverðs á landinu. Fólk sem átti skuldlaust 200 fermetra einbýlishús á Reyðarfirði, (sem vel að merkja kostar jafnmikið ef ekki meira að byggja þar, en í Reykjavík) fékk litla tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu fyrir andvirði hússins. Við, heimafólkið hér, fögnuðum auðvitað hækkuðu húsnæðisverði.

"Nú er mikið sífrað um það að aðeins stóriðja á Bakka geti "bjargað" Norðurlandi eystra frá hruni. Þvert ofan í það er það eini fjórðungurinn þar sem fólki fjölgar á sama tíma og fækkar á Austurlandi".

Hvaða "Austurland" ertu að tala um Ómar. Það vill nú svo til að Reyðarfjörður og Húsavík tilheyra bæði N-Austur kjördæmi. Ertu að tala um Þórshöfn? Bakkafjörð? Kópasker? Djúpavog? Breiðdalsvík? Seyðisfjörð? Vopnafjörð? Ef þú er að tala um þessa staði þá eru engar nýjar fréttir þaðan um fólksfækkun. Ekkert hefur breyst varðandi þá þróun undanfarna áratugi. Að vísu verður stundum tímabundin fjölgun vegna uppgangs í sjávarútvegi, s.s. síldarárin.

"Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað eru meðal skuldugustu svæða landsins og auðar íbúðir þar samsvara því að 11000 íbúðir stæðu auðar á Reykjavíkursvæðinu."

Verktakar fóru fram úr sér hér eins og annarsstaðar. Aðal ástæðan fyrir tómu húsnæði hér á Reyðarfirði var þó fyrst og fremst sú að íbúðaverð og leiguverð var allt of hátt. Eftir að Íbúðalánasjóður yfirtók eignir gjaldþrota verktakafyrirtækja, þá hefur leiguverð lækkað til muna og mikil fjölgun hefur orðið á síðustu vikum. Þá mun eflaust fækka eitthvað í "úthverfum" Reyðarfjarðar, því margir settust að hér í nágreninu þar sem leiguverð var mun lægra. Sú "fækkun" mun verða vatn á myllu andstæðinga framkvæmdanna og þú og þínir líkar munuð reyna að nýta ykkur það í mjög svo óheiðarlegum bull-áróðri ykkar. Skuldir Fjarðabyggðar eru vissulega miklar, en það var líka gert ráð fyrir aukningu skulda. Tekjustofn sveitarfélagsins er hins vegar mjög stöðugur og öflugur, þökk sé álverinu.

"Íbúar á Djúpavogi segja nú að þeim hafi verið sagt, að ekki væri hægt að fá betri veg yfir Öxi nema stóriðjan kæmi. Nú segjast þeir hafa verið sviknir um þetta "

Þetta er helber lýgi í þér Ómar. Íbúum á Djúpavogi hefur aldrei verið lofað betri vegi yfir Öxi vegna álversframkvæmda. Reyndar hefur vegurinn verið lagfærður mikið á undanförnum árum, en þarna mun aldrei verða gerður heilsársvegur. Það er einfaldlega ekki raunhæft og fyrir því liggja nokkrar ástæður.

Haltu bara þessu bulli þínu áfram, Ómar. Kannski færðu fleiri verðlaun og viðurkenningar fyrir vikið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2010 kl. 17:49

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar ég kom á fund sem Íslandshreyfingin hélt á Húsavík fyrir kosningarnar 2007 skók stór hluti fundarmanna hnefana framan í okkur og hrópaði: "Þið viljið halda húsnæðisverði áfram lágu hér svo að við getum ekki flutt burtu.

Sjálfur þekki ég fólk eystra sem hafði uppi sömu sjónarmið.

Ég tel mig ekki "óuppdreginn dóna"  að segja frá þessu og biðst ekki afsökunar á því.

"Hvaða Austurland ert þú að tala um, Ómar" spyr þú. 

Svarið er einfalt: Sama Austurland og Hagstofan, þ. e. hið gamla Austurlandskjördæmi. 

 Hagstofan gefur líka upp fólksfjöldatölur í því og einnig í hinu gamla Norðurlandskjördæmi eystra og tal þitt um Húsavík og Reyðarfjörð er því út í hött. 

Farðu bara í tölur Hagstofunnar um fólksfjöldatölur frá árinu 1960 sem meðal annars eru birtar árlega í minnisbók Fjölvíss og sjáðu "lygarnar" sem þú sakar mig um að bera fram.

Í fréttum fyrir nokkrum dögum héldu talsmenn Djúpavogshrepps því fram að þeir hefðu verið sviknir um heilsársveg yfir Öxi. Ég er aðeins að segja frá þessum ummælum þeirra eins og sést glögglega af pistli mínum.

Afstaða þín til heilsársvegar yfir Öxi lýsir sér annars vel í ummælum þínum, því að þú virðist vera í hópi þeirra sem mega ekki til þess hugsa að þess stórkostlega vegabót verði að veruleika sem styttir leiðina á milli Suðausturlands og Héraðs um 61 kílómetra.

Ég hygg að heilsársvegur yfir Öxi sé ekkert fjarlægari kostur en heilsársvegurinn yfir Steingrímsfjarðarheiði sem er skilgreindur sem slíkur þrátt fyrir að hann sé ófær nokkra daga á hverjum vetri. 

Og hvers vegna í ósköpunum má ekki gera þennan vel vel úr garði ?  

Ómar Ragnarsson, 17.8.2010 kl. 19:50

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 "...þú virðist vera í hópi þeirra sem mega ekki til þess hugsa að þess stórkostlega vegabót verði að veruleika..."

Hvernig dettur þér í hug að einhver hér eystra sé á móti því sem slíku, að gera heilsársveg yfir Öxi?

Þekkingarleysi þitt á aðstæðum á Öxi kemur mér dálítið á óvart. Þú veist greinilega ekkert hvað þú ert að tala um. Þú segir:

"Ég hygg að heilsársvegur yfir Öxi sé ekkert fjarlægari kostur en heilsársvegurinn yfir Steingrímsfjarðarheiði sem er skilgreindur sem slíkur þrátt fyrir að hann sé ófær nokkra daga á hverjum vetri.  "

Er það virkilega Ómar Ragnarsson, sem fólk segir að þekki landið okkar allra best, sem lætur þessa dæmalausu þvælu út úr sér?

Ég sagði að fyrir því lægju nokkrar ástæður að ekki er raunhæft að gera heilsársveg yfir Öxi.

  1. Í dag er Öxi lokuð frá u.þ.b. nóv. - apríl, eða í um 5 mánuði á ári. Vetrarveður og snjóþyngsli er þarna mjög mikil, enda vegurinn í 539 m. hæð. Til samanburðar er Steingrímsfjarðarheiði akkúrat 100 m. lægri og það munar um minna.
  2. Umhverfisrask yrði gífurlegt og kostnaður er talinn í mörgum miljörðum, ef ráðist yrði í nýjan veg þarna yfir. Kostnaðurinn við vetrarþjónustuna yrði einnig fáheyrður og nær örugglega sá mesti við einstakan veg á landinu. Þrátt fyrir vetrarþjónustuna, yrði vegurinn mikið lokaður. Það yrði talið í tugum daga á vetri.
  3. Umferð um "Streiti" sem er rétt sunnan við Breiðdalvík, er um 100 bílar á dag yfir vetrarmánuðina og hefur verið nánast óbreytt sl. áratug. Yfir sumarmánuðina fer um 1/3 heildarumferðarinnar um Öxi og 2/3 er um firðina. Ef hlutfallið er svipað á veturna, þá erum við að tala um 30 bíla á dag yfir hinn rándýra og arfavitlausa veg yfir Öxi. Eimskip hefur gefið það út að þó gerður yrði heilsársvegur yfir Öxi, myndi fyrirtækið ekki láta bíla sína fara þá leið, heldur færu þeir firðina af öryggisástæðum.

Ómar minn, fræddu okkur nú lesendur þína um það hver lofaði Djúpavogsbúum heilsársvegi yfir Öxi. Ég þykist þó vita að ekki nokkur lifandi sála getur bent á þann mann, en þú hikar samt ekki við að vitna í hann.... þó hann sé ekki til

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2010 kl. 20:33

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gunnar minn þú ert gegntekin af fáránleika Reyðfirðinga.  Hélt að þessu myndi linna með álverinu ykkar.

Haraldur Bjarnason, 17.8.2010 kl. 21:39

6 identicon

Já, þetta var arfalélegur  pistill hjá Ómari. Arrogance manns, sem hefur alltaf búið á mölinni í Reykjavík, leyndi sér ekki. Frekja gagnvart þeim sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu og vilja ekki búa þar, nokkuð sem Ómar á líklega erfitt með að skilja, Fullyrðing Ómars að Húsvíkingar vilji álver svo þeir megi flytja í burtu er mjög dónaleg og fjarri sanni. Það sýnir sterkan karakter að geta beðist afsökunar og það ætti Ómar að gera núna.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 22:03

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Haraldur, ólíkt þér hef ég rök fram að færa og staðreyndir.

 Þú kýst hins vegar að hæðast að fólki í heilu byggðarlagi. Það er innlegg þitt í umræðuna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.8.2010 kl. 22:47

8 identicon

Ég er ekki stóriðjusinni (ekki lengur allavega, álver við Bakka er glötuð hugmynd finnst mér) en mér þykir stóriðjuandstæðingar oft ekkert sérstaklega heiðarlegir þegar kemur að því að tala um byggðaþróun á Austurlandi. Í Fjarðabyggð búa nú 500 fleiri en gerðu árið 2000 og á Fljótsdalshéraði búa nú 700 fleiri en gerðu árið 2000. Það munar um það.

Það er ekkert vit í því að draga ályktanir af tölum fyrir allt Austurland eins og það er skilgreint af Hagstofunni. Hver hélt því fram áður en framkvæmdir hófust fyrir austan að þær myndu bjarga málunum á Vopnafirði, Höfn, Djúpavogi, Borgarfirði o.s.frv.? Það var aldrei ætlunin.

Bjarki (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 23:19

9 Smámynd: Stefán Stefánsson

Svona er nú málflutningurinn allt of oft hjá Ómari. Sannleikanum hagrætt eftir því sem hentar hverju sinni o.s.frv.

Það er öllum mynnistætt þegar hann barðist sem mest á móti Kárahnjúkavirkjun og sagði að réttast væri að hætta við þá virkjun.
En í staðinn ætti að virkja háhitann í Þingeyjarsýslum og flytja orkuna austur á land og svo vitum við framhaldið.

Stefán Stefánsson, 17.8.2010 kl. 23:41

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir innleggin, félagar.

Það er allt of oft sem ég er hér sem hrópandinn í eyðimörkinni

Afskaplega gagnrýnis og þekkingarlaus jákór hér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2010 kl. 01:03

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

.... þ.e.a.s. gagnrýnislaust á málflutning Ómars og þekkingarlaust á umræðuefninu

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2010 kl. 01:04

12 Smámynd: Kristinn Pétursson

Kæri Ómar.

 Orðalagið "friðun fokmela" á t.d. vel við um þær öfgar að vilja ekki láta malbika Sprengisandsleið og Kjöl.

Þar á að gera lítið upp byggðan penan hálendisveg - tvíbreiðan - og taka svo töluverðan hluta þungaflutninga á þessar leiðir og minnka þannig álagið á Þjóðveg 1.

Þú og fleiri sem berjist fyrir "náttúruvernd" Ómar - hafði ýmislegt til ykkar máls - og þið hafið náð stórfelldum árangri.

Ég skil ekki þennan pirring í ykkur - þó ykkur sé bent á það þegar þið eru komin of langt í baráttunni.

Er ekki nóg að það séu 10 þúsund manns atvinnulausir eða meira.

Þú Ómar er vita gagnslaus  í umræðunni um að það megi veiða meiri fisk. Ef þið gætuð nú gert gagn á þeim vettvangi - þá minnkaði hugsanlega pressan á að skapa fleiri störf með nýjun virkjunum.

Pældu í því

Bestu kveðjir til þín og annarra fokmelafriðunarsinna    KP

Kristinn Pétursson, 18.8.2010 kl. 01:14

13 identicon

Sæll Kristinn!

Það væri eyðilegging á Kili og Sprengisandi að fá tvíbreiðan veg með umferð flutningabíla þar yfir.  Þér getur ekki verið alvara að kalla eftir slíkum vegi.

Magnús Dan (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 09:18

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég kalla eftir slíkum vegi og mér er fúlasta alvara.

Ég hefði haldið að það væri "umhverfisvænna" að hafa ryklausan veg á þessum leiðum

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2010 kl. 09:49

15 Smámynd: Kristinn Pétursson

Auðvitað er mér alvara með hálendisveginn og áningarstaði með mannsæmandi snyrtiaðstöðu - allt þetta er  framkvæmanlegt ef þeir sem fá virkjunarleyfi - fjármagna  (og framkvæma) þann kostnað sem þessu fylgir - fyrir leyfið.

Samnýting á þjórsárverum með vatnsmiðlun  og gerð vega (malbikaðra til að koma í veg fyrir ryk og drullu) göngustíga,  áningarstaða o.fl. - allt er hægt að sameina þetta með góðri samvinnu - ef öfgunum er ýtt til hliðar.

"Sameinuð stöndum vér - sundruð föllum vér"...

Kristinn Pétursson, 18.8.2010 kl. 12:49

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Samnýting á Þjórsárverum með vatnsmiðlun.."  Hvað áttu við með þessu, Kristinn?

Ómar Ragnarsson, 18.8.2010 kl. 18:19

17 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég á t.d. við þetta:

Auglýsing eftir verðlaunatillögu (samkeppni) um Þjórsárver þar sem tekið væri tillit til beggja sjónarmiða - nýta svæðið til vatnsmiðlunar eins og áformað hafði verið, - en bæta jafnframt aðgengi ferðamanna gera skemmtilega göngustíga og áningarsvæði - gera "eyjur" sem yrðu friðland fugla og njóta svo náttúrunnar þarna - og nýta hana líka.

Myndirnar frá þér Ómar af þessu svæði - yrðu lítið breyttar - sami gróður- og sömu blóm ættu að geta þrifist þarna - þetta er bara eins og gera nýjar garð heima hjá sér - eftir teikningu arkitekta.

Af hverju ekki láta reyna á hvort ekki væri hægt að ná sátt um svona verðlauna-málamiðlunar-tillögu?

Það skaðar varla að reyna?

Kristinn Pétursson, 19.8.2010 kl. 02:03

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst þetta góð hugmynd, Kristinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.8.2010 kl. 10:05

19 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu. :) En... Mín skoðun er að ef vatni verður hleypt meira inn á Þjórshárverin þá er hætta á að sífrerin undir þeim hverfi og einkenni veranna líka og það má alls ekki. Mér finnst að það eigi að láta Þjórsárverin í friði.

Þar er stærsta heiðargæsavarp í heimi, svo vitað sé, og það sko ekkert smá flott.

Tek fram að ég er virkjannasinni en menn mega samt ekki fara fram úr sér, á hvorn veginn sem er.

Ég sé ekki að sjarminn hafi horfið á Fljótsdalsheiði þó að búið sé að malbika þá leið. :) Vilja menn kannski að ferðamenn pissi í dollu frekar en að hafa almennilega WC aðstöðu? Bara svo sjarminn sé hressilegur. :)

Marinó Már Marinósson, 19.8.2010 kl. 11:13

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki hægt að rannsaka það hvort sífreranum sé hætta búinn og hverjar afleiðingarnar yrðu ef hann hyrfi eða minnkaði?

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.8.2010 kl. 12:01

21 identicon

Gunnar og aðrir öfgavirkjunarunnendur. Hafiði pælt í því þegar það verður fyrsta frétt, kanski árið 2037, að Alkói ætli að loka álverinu eftir segjum 3 ár þaðan í frá .  Þetta mun gerast, bara spurning um tíma.  Það er ekki ólíklegt að þessi álbræðsla verði í lengsta lagi rekinn hér sem svarar einni starfsævi ! Þá held að menn sjái ruglið í að láta stórfyrirtæki niður í krummaskuð eins og Reyðarfjörður sannalega er, fyrirtæki sem nánast eignar sér umhverfið með alls kyns mútum ( kallað styrkir á fínu máli) Gleymið því ekki að Alkói er ekki vinur, heldur stórfyrirtæki sem vill græða sem allra mest.

HStef (IP-tala skráð) 19.8.2010 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband