Eftirminnilegar samkomur í Mývatnssveit.

Í gær voru haldnar tvær glæsilegar samkomur í Mývatnssveit sem komu mér á óvart fyrir þær sakir hve margir sóttu þær. Hefur fjöldastemning náttúruverndarfólks ekki komið mér meira á óvart í fjögur ár.

Hátt í 300 manns komu saman við Miðkvísl þar sem afhjúpað var minnismerki um það þegar stíflan í kvíslinni var sprengd og rofin fyrir réttum 40 árum.

Sú aðgerð markaði tímamót í Laxárdeilunni svonefndu og vakti athygli víða um lönd.

Erik Solheim, einhver reyndasti og virtasti náttúruverndarfrömuður á Norðurlöndum, sagði mér frá því þegar Kárahnjukadeilan stóð sem hæst að Miðkvíslarsprengingin hefði fyllt náttúruverndarfólk miklum móði sem kom vel fram í deilunni um Altavirkjun þótt hún tapaðist að vísu.

Baráttann í Noregi hefði síðan skilað sér í því að komið var naumlega í veg fyrir virkjun norðaustan við Jóstadalsjökul og nú væri staðan þannig í Noregi, að enda þótt þar sé enn óvirkjuð álíka mikill vatnsorka og á Íslandi og mun hreinni og endurnýjanlegri þar en hér og með minni umhverfisspjöllum, sé það yfirlýst stefna þar og í nágrannalöndunum að tími stórra vatnsaflsvirkjana sé á enda.

Solheim kom tvívegis til Íslands til að skoða Kárahnjúkavirkjun og hikaði ekki við að segja að umhverfisspjöllin af Altavirkjun væru smámunir einir miðað við hin hrikalegu umhverfisspjöll Kárahnjúkavirkjunar.

Í endurminningum sínum kvaðst Gro Harlem Brundtland ekki iðrast neins frá ferli sínum sem stjórnmálamanns nema þess að hafa sem umhverfisráðherra Noregs leyft Altavirkjun.

Í gærkvöldi var troðið hús af fólki í Skjólbrekku og þar var Laxárdeilan rakin á eftirminnilegan hátt.

40 árum eftir að flestir af helstu ráðamönnum þjóðarinnar þótti Gljúfurversvirkjun sjálfsagt mál vekur það undrun að þessi hrikalegu áform skyldu hafa verið uppi en þau fólust í því að taka Skjálfandafljót við Hrafnabjörg og veita því í sameiginlegri veitu Suðurár og Svartár í nýtt lón, Krákárlón, sem átti að verða stærra en Mývatn og fara með þetta allt niður í Laxárdal, sem yrði sökkt.

Króksdal, 25 km löngum og að miklu leyti grónum dal innan við Hrafnabjörg, átti að sökkva.

Í leitardálki vinstra megin á síðunni er hægt að leita að umfjöllun minni fyrr í sumar um þá framkvæmd með myndum af dalnum og fossunum, þ. á. m. Aldeyjarfossi, sem til stóð að þurrka upp 1970 og stendur enn til.

Í gagnum Kráká áttu Skjálfandafljót, Suðurá og Svartá síðan að renna í Laxá og síðan átti að reisa háa stíflu þar sem nú er Laxárvirkjun og sökkva gervöllum Laxárdal.

40 árum síðar finnst áreiðanlega flestum að það séu firn að menn skyldu í alvöru vilja umturna þessu svæði á þennan veg.

Spurningin er hvað mönnum muni finnast eftir 40 ár þegar farið verður yfir það sem til stendur nú til þess að seðja orkusvelginn álverið á Bakka og litið verður á hvað gert var til að seðja orkusvelginn álverið í Reyðarfirði.

Því miður þurfti dínamit til að koma vitinu fyrir menn 1970 og það virðist vera svo að ekkert minna dugi heldur nú ef koma á vitinu fyrir stóriðjufíklana, því að rökræður og andóf nú hafa enn ekki borið meiri árangur en svo, að það er eins og að klappa í stein.

Ég tók myndir í gær en er á ferðalagi á Norðurlandi og get ekki sett þær inn nú. Mun gera það síðar en minni á leitarorð eins og Skjálfandafljót og Gjástykki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru ekki margir í dag sem átta sig á hvað Gljúfurversvirkjun hefði táknað í heild. Almennt er vitað að virkjunin hefði gjörbreytt Laxárdal, haft áhrif á silung og lax, veiði, fugla og ásýnd alla að ótöldum áhrifum sem möguleg voru á Mývatn. Auk þess sem áhrifin á gróður sunnan Mývatnssveitar og á vatnasvið Skjálfandafljóts hefðu orðið mikil. En hin efnahagslegu áhrif eru færri ljós. Gljúfurver var óhagkvæmasti virkjunarkostur sem mögulegur var á þessum tíma. En fyrir þá sem vilja skoða þessi mál þá er hér hlekkur á safn nokkurra greina um Laxármálið ásamt skýrslum og grófri yfirlitsmynd af áhrifasvæði veitunnar sem átti að fóðra virkjunina.

Hlekkur 

Jóhann F. Kristjánsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 11:58

2 identicon

Í öðru bindi Sjálfsævisögu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, má lesa á bls. 36 eftirfarandi: En vel má minnast pólitíkusanna. Hlutur margra þeirra var engan veginnn góður. Framsóknarþingmenn kjördæmisins báru kápuna á báðum öxlum, og munu í baktjaldamakki hafa stutt við Hermæðlinga, og Alþýðubandalagið studdi málstað þeirra opinberlega. Þá skorti mjög á einlæga afstöðu Akureyringa í þessum málum. En sigurinn má vera þeim sætur er hann unnu, enda hafa þeir með honum aflað sér þess heiðurs að hafa sett heimsmet í heimsku og þvermóðsku, sem sennilega verður seint hnekkt, enda þótt það sé ekki talið í heimsmetabók Guinnes.  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 13:46

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Landeigendur við Mývatn -  og Laxá - voru þarna að taka skarið af á eigin landareignum - og mér finnst þau hafa staðið sig  ágætlega - en að ég er efins um að það hafi verið rétt að hætta að dæla drullunni af botni Mývatns með lokun Kísiliðjunnar.

Það er töluvert öðruvísi þegar landeigendur taka til sinna ráða - eða þegar útlenskir "mótmælendur" sem einhverjir borguðu farið fyrir hingað til lands - "til að mótmæla" með því að hengja sig upp í krana eða hlekkja sig við vinnuvélar.

Þetta er afar ólíkt. Landeigendur eru eigendur landsins og  voru þarna að vernda ín hlunnindi og náttúrperlur sem þau eiga sjálf skv þinglýstum skjölum um landareignir.

Ef Mývatn grynnist  of mikið næstu áratugi - vegna þess hve það grynnist (hætt að dæla kísilgúr burt)  þá  kann Mývatn að hitna of mikið  í hitabylgjum á sumrin - fyrir silung í Mývatni - og einnig fyrir laxinn í perlunni Laxá.

Þarna vantar meiri vísindarannsóknir - sem beinast að örðu en að kenna Kísiliðjunni bara blindandi um náttúrusveiflur í Mývatni - svona eða hinsegin - mikið eða lítið mý - mikið af öndum - lítið af öndum - allt eru  þetta flórur náttúrunnar sjálfrar sem er ekki í mannlegu valdi að stöðva - en það var í mannlegu valdi að  dýpka vatnið aðeins - meira se´gja var búið að finna upp tækni til að soga drulluna að "neðanfrá" og takmarka dýpkun vatnsins - eftir faglegri "uppskrift".

Ármann Pétursson  í Reynihlíð sagði mér að þegar hann byrjaði að telja álftir á Mývatni - (14 ára) - þá voru 2 álftir í fyrstu talningunni - man ekki árið.

Þegar hann sagði mér þetta  (c.a. árið 1995) - var síðasta hausttalning hjá Manna - um 1100 álftir - fjölgun álfta á Mývatni var sem sagt úr 2 - í 1100 á hans talningarferli.

Álftir éta silungahrogn - en um það er lítið rætt á vegum "umhverfissamtaka" sem varðar ekkert um varasamar breytingar á náttúrunni - ef friðað er of mikið - og þá komi tiltekin "hættumerki"... stundum er eins og allt miðist við einhverja óskilgreinda tilfinningavellu um að "friða" alla skapaða hluti -  út í loftið - án skynsamlegrar umræðu

Ekki eru mörg ár síðan að fjölmiðlar réðust heiftarlega á bændur í Mývatnssveit fyrir að reka nokkrar rollur á afréttir...

Þurrkur virðist versti óvinur gróðurs  á hálendinu  en ekki nokkrar rollur - sem bæði éta gras og "bera á" á náttúrulegan hátt.

Eftir sem áður er "ofbeit" möguleg og hefur oft verið stunduð - í búskap - en tæplega er það gert í dag...

Eina "ofbeitin" í dag - er í hafinu - þar sem heimska virðist ráða för um offriðun flestra fiskistofna.

Ómar - svo ég komi mér að kjarna málsins.  Ég vil fá þig í lið með okkur um að  skoða gaumgæfilega að auka fiskveiðar hérlendis - og þá minnkar að sjálfu sér þrýstingurinn á að virkja meira - svo fólk hafi einhverja atvinnu.

20 þúsund manna atvinnuleysi er alvörumál. Þrýstingurinn á að virkja meir og meir - er til kominn að hluta til vegna allt of mikils niðurskurðar  fiskveiða.

Ef dellan um niðurskurð fiskveiða - hefði ekki verið framkvæmd svona blint og öfgafullt - án tilefnis - þá kynni að vera að Kárahnjúkar hefðu sloppið Ómar.

Vinsamlega hugleiða samhengin og  enn og aftur kærar þakkir fyrir allt þitt góða innlegg í máli og myndum um náttúruvernd. Þú ert búinn að ná langtum meiri árangri en þú virðist gera þér grein fyrir. Vertu þakklátur fyrir það.

Kristinn Pétursson, 26.8.2010 kl. 13:52

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Því miður þurfti dínamit til að koma vitinu fyrir menn 1970 og það virðist vera svo að ekkert minna dugi heldur nú ef koma á vitinu fyrir stóriðjufíklana"

Einhverjir myndu kalla þetta hótun, Ómar. Eigum við vona á svoleiðis aðgerðum frá ykkur?

Gott innlegg hjá Kristni Péturssyni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.8.2010 kl. 15:22

5 identicon

Stórgott innlegg hjá Kristni Péturssyni, og tengist margbreytilegum málefnum, t.a.m. hitamálinu um Makrílinn.

Og Gunnar, - ætli að þessi pena notkun á sprengiefni þarna um árið sé ekki eitthvað sem Nóbel heitinn hefði kannski brosað við í gröfinni. Ég held nú reyndar að Ómar sé manna ólíklegastur til að nota kemíköl til að sprengja niður biluð áfom, - það er beitt orðum sem sverði, en ekki ofbeldi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 22:40

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Segðu sumu af þessu öfgafólki það. Svona ábyrgðarlaust tal, espar það upp til óhæfuverka.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.8.2010 kl. 22:58

7 Smámynd: krumminn

Sæll Ómar, já mikið væri magnað að fá þig til liðs við að auka fiskveiðar og það sem getur skapað vinnu og útflutningstekjur núna en ekki eftir fjölda ára.

Þú hefur skrifað mikið um Skjálfandafljót sem dæmi en má ég spyrja þig hvort þú hafir tekið eftir eða skrifað um vatnaflutning í Vonarskarði þar sem hluta af Skjálfanda fljóti var veitt til suðurs og þar með hefur Aldeyjarfoss ekki verið svipur hjá sjón í nokkra áratugi.

Með kveðju frá Húsavík

Björn Sig.

krumminn, 27.8.2010 kl. 00:14

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Svona ábyrgðarlaust tal, espar það upp til óhæfuverka."
Hér er deilt um framkvæmd sem hefði orðið óhæfuverk í tilliti náttúruverndar. Sú framkvæmd var stöðvuð með óhefðbundinni (sem betur fer) aðferð.
Sagan mun dæma um það hvaða framkvæmdir megi teljast hafa verið náttúruspjöll.
 
Nú heyrði ég fréttir af því að 5 milljónir Pakistana væru á flótt frá heimilum sínum vegna vatnsflóða.
Í gær minnir mig ég hafa lesið svohljóðandi titil á bloggfærslu:
Guð blessi gróðurhúsaáhrifin! 

Árni Gunnarsson, 27.8.2010 kl. 07:37

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Finnst þér, Gunnar, að sá háttur sem ég hef haft á andófi mínu hingað til bendi til þess að ég sé með "hótanir"?

Eða að viðvera mín og samstaða með þeim sem stóðu að aðgerðunum við Miðkvísl bendi til "hótana" um það sem koma skal?

HIð hlálega var að dínamitið sem notað var að sprengja stífluna var víst í eigu þess aðila sem hafði og hefur leyfi valdhafa til að nota sprengiefni við eyðileggingu íslenskra náttúruverðmæta.

Ómar Ragnarsson, 27.8.2010 kl. 10:34

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Árni segir: "Sagan mun dæma um það hvaða framkvæmdir megi teljast hafa verið náttúruspjöll."

Nánast allar framkvæmdir ERU náttúruspjöll.

Vistkvíðasjúklingar hafa mikið óþol gagnvart hverskyns röskun. Það er óásættanlegt fyrir okkur hin að þurfa að hlýta einhliða áliti þeirra í framfaramálum. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2010 kl. 12:05

11 identicon

Úpps.

Og ég sem er búinn að vinna við að rústa niður fleiri hundruð hekturum af mólendi og sandlendi og breyta yfir í flatir grónar....tja, ég get þá ekki verið með vistkvíða, en kannski vistbit?

Gunnar, þetta er baulandi leiðinleg alhæfing að setja gagnrýna hugsun undir einn hatt undir þessu orði. Og er ekki einhliða álit marghliða? Er þitt álit ekki bara einhliða? Allavega er mitt einhliða álit það, að tundra náttúruperlum undir vatn til að selja orku á verði sem þolir ekki dagsljósið sem almúginn greiðir, og í leiðinni að auka á skuldsetningu og skuldbindingar til framtíðar sé ekkert annað en einhliða heimska byggð á vistkvíða-fælni

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.8.2010 kl. 16:44

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég á mér fleiri skoðanabræður en þú heldur, Jón Logi. Þeir eru bara svo fáir sem nenna að standa í þessu þjarki við ykkur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2010 kl. 21:42

13 identicon

Hvað ætli mínir skoðanabræður séu þá margir? Og skyldi vera hægt að setja annan hvorn flokkinn undir einn hatt, s.s. vistkvíðasjúklingar v.s. vistkvíðafælnis-sjúklingar.

Ég held að litrófið sé fjölbreyttara en það, og "þjarkið" sé það sem almennt er kallað umræða og skoðanaskipti, og ætti það að vera af hinu góða.

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.8.2010 kl. 07:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband