Kynslóðin hömlulausa.

Í viðtali við blaðið Krónikuna 2007 lýsir Sigurjón Þ. Árnason því fjálglega að kynslóðin, sem stjórni hinum ævintýralegu loftfimleikum fjármálamanna, sé að mestu á sínu reki, hafi alist upp við mikið frjálsræði og segir í lokin: "...telur allt mögulegt og er að þessu leyti hömlulaus."  

Sú spurning vaknar nú í mínum huga hvort þessi sama kynslóð sé nú að nýta sér sparnað minnar kynslóðar til að breiða yfir skítinn sinn, - þið fyrirgefið orðbragðið. 

Nú er það svo að við erum öll á sama báti og að það er kannski einföldun að setja þetta mál í farveg togstreitu kynslóða. 

Hitt liggur ljóst fyrir að elsta kynslóðin á ekki aðeins mest undir því að lífeyrissjóðirnir séu vel notaðir þannig að þeir séu ekki eyðilagðir eða stórskertir, heldur kemur veiklun þeirra beint niður á elstu kynslóðinni á sama tíma og vofa Hrunsins gengur enn ljósum logum, hugsunarháttur skyndireddinga, kúlulána, ofnýtingar orkulinda og eyðileggingar náttúruverðmæta á kostnað komandi kynslóða. 

Annað varasamt atriði kemur upp í hugann við ráðstöfun framlaga lífeyrissjóðanna, en það er sú þróun að mörg stór fyrirtæki séu rekin af ríkinu á kostnað skattgreiðenda til þess að keppa við önnur fyrirtæki, sem ekki voru eins glæfralega rekin. 

Ef þessu fer fram stefnum við í svipað ástand og á spillingartímum haftakerfisins hér í gamla daga þegar þau fyrirtæki sem höfðu pólitísk sambönd inn í hið opinbera fyrirgreiðslukerfi ríkisbankanna gátu nýtt sér það í "pilsfaldakapitalisma" þess tíma, sem orðhagur maður kallaði kapítalisma andskotans. 

Það mátti heyra á útvarpsauglýsingum fyrir síðustu jól að fyrirtæki, sem ríkið hafði tekið að sér, gátu auglýst miklu meira en samkeppnisfyritækin, sem urðu að spenna sultarólina í þrengingum kreppunnar og fengu ekki aðstoð né umbunun fyrir að sýna aðhald og gætni. 

 

 


mbl.is Ósátt við fjárfestingar sjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Nákvæmlega, góð færsla.

Sigurður Sigurðsson, 31.8.2010 kl. 09:43

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Mjög þarfar ábendingar, Ómar!

Flosi Kristjánsson, 31.8.2010 kl. 10:31

3 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Alveg rétt!

Ég man líka þegar verið var að koma þessum sjóðum á að í stað launahækkana þá borguðu fyrirtækin í lífeyrissjóð sem við áttum að njóta góðs af. Nú eru allt í einu komnar á loft raddir um eitthvað allt annað hlutverk lífeyrissjóðanna svo sem að "byggja upp hlutabréfamarkað", "taka samfélagslega ábyrgð" osfrv. Hlutverk lífeyrissjóðanna er að mínu mati (og reyndar líka samkvæmt lögum um lífeyrissjóði) að ávaxta þessa peninga á sem tryggastan hátt fyrir okkur sem eigum þá og ekkert annað.

Þeir eiga ekki að bera neina ábyrgð á hlutbréfamarkaði eða samfélaginu að öðru leiti frekar en til dæmis skákklúbbur Hafnarfjarðar.

Jón Bragi Sigurðsson, 31.8.2010 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband