Hvenær á fólk að verða "fullorðið"?

Það er vafalaust rétt og skynsamlegt hjá formanni þingflokks að biðjast afsökunar á glannalegu tali, þótt það gerist utan viðtals, sem átti að vera lokið. En mér finnst þetta nú ekki stórvægilegt og satt að segja  bara tilbreyting í því að tala tæpitungulaust þótt það kunni að þykja ungæðislegt.

Hins vegar leiðir þetta hugann að því hvenær og hvernig fólk verði það sem kallað er "fullorðið". p1011515.jpg

Dóttirdóttir mín, hún Lilja Sóley Hauksdóttir, á tvítugs afmæli í dag og það, sem gerði daginn svo merkilegan var það, að með því var næstsíðustu hindruninni velt úr vegi fyrir því að hún væri algerlega fullgildur þjóðfélagsþegn með fullum réttindum. 

Þessi tímamót finnst mér reyndar koma á vitlausum tíma og asnalegt að fólk, sem er orðið átján ára, fjárráða, má ganga í hjónaband og kjósa eða bjóða sig fram í kosningum, megi ekki fara í ríkið og kaupa sér áfengi fyrr en það verður tvítugt.

Er ég þó enginn aðdándi áfengis og bindindismaður á það.

En dóttirdóttir mín verður nú að bíða í 15 ár eftir því að komast yfir síðasta hjallann í því að verða með full þegnréttindi. Hún má sem sé ekki bjóða sig fram í embætti forseta Íslands fyrr en hún verður orðin 35 ára. 

Mér finnst þetta fráleitt skilyrði og skrýtið að þjóðinni skuli ekki vera treyst fyrir því sjálfri að ákveða, hvort frambjóðandi sé nógu reyndur og traustverðugur. 

Kristur minntist oft á það hve mikilvægt væri að varðveita barnið í sjálfum sér. Ég hygg að það gildi að sumu leyti líka um það að varðveita unglinginn í sér og leyfa honum að komast að einstaka sinnum, jafnvel þótt það kosti að þurfa að biðjast afsökunar af því að maður er virðulegur þingflokksformaður. 


mbl.is „Ég biðst innilega afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, þetta er ekkert tiltökumál....

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2010 kl. 00:41

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Til hamingju með afmælið! Og flott er kakan!

Og hér verð ég helzt að gera bil, áður en ég kem að hinu ólíka efra efni þínu.

Svona rétt til að skilja á milli góðs og ills, hreins og óhreins.

Ómar minn, hefðir þú réttlætt slíkt óþrifatal, sem Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði uppi, ef það hefði "óvart" komið úr munni formanns þingflokks Framsóknarflokksins með Sjálfstæðisflokksins?

Ég er nú hræddur um ekki – sama hvað þú kannt að segja!

Eða viltu innleiða svona þroskaleysistal hjá þingmönnum?

Eða hve hár á siðferðisstandardinn að vera? Sem lægstur?

Við viljum örugglega óska börnum okkar þess að alast upp við fallega hugsun og hreint tal.

Það er miklu betra en að gerast meðvirk með spilltu umhverfi.

Jón Valur Jensson, 2.9.2010 kl. 04:27

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

... Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins ...

Jón Valur Jensson, 2.9.2010 kl. 04:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Höfum þetta á hreinu: Svona ummæli eiga aldrei rétt á sér, hver sem þau viðhefur eða í hvaða samhengi sem þau eru sögð. Þórunn hefur iðrast þeirra og beðist afsökunar.

En ekkert okkar getur orðið svo heilagt að okkur geti ekki orðið svona á þegar við höldum að við séum ekki á opinberum vettvangi og þess vegna get ég ekki séð að þetta sé stórvægilegt. 

Allar getsakir um það að ég hefði haft aðra skoðun á þessu ef um Sjálfstæðismann eða Framsóknarmann hefði verið að ræða eru út í hött, hvað sem þú segir, heldur met ég svona kalt út frá aðstæðum. 

Ég geri til dæmis greinarmun á því hvort ölvun verði stjórnmálamanni til vansa utan vinnu hans eða hvort hún hefur áhrif á starf hans til hins verra þegar hann er í vinnu fyrir umbjóðendur sína. 

Dæmin sem ég hef tekið í þessu efni úr fortíðinni þegar ég hef rætt þetta við fólk eru þannig að ég tel mistök Sjálfstæðismanns hafa verið mun léttvægari en mistök Alþýðuflokksmanns. 

Það mat mitt var alveg óháð því hve góða og merka stjórnmálamenn ég taldi þá vera. 

Ómar Ragnarsson, 2.9.2010 kl. 10:11

5 identicon

Æ þetta þreytta flokkatal.  Ég er ekki flokkssystir Þórunnar og alveg get ég fyrirgefið henni.   Segi sama og Ómar;  Bara smá tilbreyting í þessu og létt fyndið.  Að síðustu vil ég óska þér innilega til hamingju með afmælið Ómar :)

Linda Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 14:55

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kom "iðrun Þórunnar" frá hjartanu, eða var hún þáttur í PR-i hennar?

Opinberaði hún ekki afstöðu sína til almennra mótmælenda gegn stjórnarsinnagerræðinu með þessum óhóflegu viðbrögðum sínum, og reyndi hún svo ekki að "play it down" með því að láta eins og þetta væru gamanmál?

En þú tekur sem sagt iðrun hennar alvarlega. Þín túlkun, Ómar.

Jón Valur Jensson, 2.9.2010 kl. 15:25

7 identicon

„Þetta datt upp úr mér. Það greip mig gamall pönkari sem býr innra með mér. En það svo sem afsakar ekki neitt. Fullorðið fólk á ekki að tala svona“

Ég mæli nú bara með því að hún og fleiri dansi pönkdansin og hafi gaman af og æsi sig jafnframt ekki meira yfir þessu. Hann er útskýrður hér:  http://www.youtube.com/watch?v=ivUviIWb1xE

p.s: Ég er ekki stuðningsmaður hennar né hennar flokks en mér finnst kjánalegt að fólk sé að æsa sig mikið yfir þessu. Það er margt verra í þjóðfélaginu í dag sem ætti að fá meiri athygli.
Til hamingju með dótturdótturina.

Davíð (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 18:06

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Davíð.

Jón Valur: .... "Lighten up!"

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2010 kl. 23:40

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú svarar nú ekki fyrir Ómar með þessum tveimur orðum, Gunnar.

Dæmigert var það fyrir meðvirkni Rúvara með fulltrúum vinstri flokkanna, hve afsakandi fréttamaðurinn tók á þessum ummælum Þórunnar. Hefði einhver þekktur hægri foringi látið þetta út úr sér, hefði fréttamaðurinn ekki vogað sér slíkt, og það hefði heldur ekki myndazt hópur, sem hástöfum væri að réttlæta þetta, hvað þá að setja þessi ummæli á boli og bolla, eins og nú er að gerast hjá "pönkuðum" málsvörum óþrifatalsmáta opinberra manna.

Jón Valur Jensson, 3.9.2010 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband