Hið sígilda lögmál þöggunarinnar.

Það er nánast sama hvar borið er niður í aðdraganda Hrunsins og einnig í eftirmálum þess.  Með fáum undantekningum þráir fólk að vita sem minnst um það sem óþægilegt er og víkur því frá sér.

Það er með ólíkindum að hvorki ráðamenn né fjölmiðlar létu þjóðina vita af hinum tryllta ofvexti bankanna fyrr en um mánuði áður en allt hrundi. 

Og nú stendur yfir mikil barátta um það hvar draga skuli línuna á milli þeirra sem teljist hafa brugðist skyldu sinni og hinna sem ýmist geti fríað sig eða sloppið vegna fáránlega stutts tíma sem svona mál fyrnast. 

Og þöggunin heldur áfram. Í kosningabaráttunni 2007 marg endurtók ég þá staðreynd að jafnvel þótt öll orka og náttúra landsins yrði lögð undir fyrir álver myndu aðeins 2% vinnuafls landsmanna fá vinnu í þeim sex risaálverum sem þá var rætt um. 

Þetta fór inn um annað eyrað og út um hitt, - áfram var tönnlast á því að það yrði allsherjar lausn á atvinnuvanda landsmanna að reisa eins mörg álver og við yrði komið. 

Með einfaldri samlagningu fæst út samkvæmt upplýsingum sérfræðinganna, sem Tryggvi Þór Herbertsson vitnaði sífellt í í Kastljósi nýlega, að 370-390 megavött fáist í besta falli út úr Þeystareykjum, Gjástykki-Leirhnjúki, Kröflu og Bjarnarflagi. 

Samt liggur fyrir  að 650 megavött þarf fyrir álver á Bakka. 

Það er eins og að ekkert geti stöðvað þessa vitleysu eða fengið menn til að leysa einföld læknisdæmi. 

Annað hvort hefur Tryggvi Þór ekki nennt eða talið ástæðu til að fara út í hið sáraeinfalda reiknisdæmi eða treystir því að þeir sem heyra hann tala trúi honum eða nenni ekki að leita hins sanna. 


mbl.is Sagði þingmönnum frá fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ingibjörg Sólrún:

  • "S ö k  b ý t u r  s e k a n" !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 24.9.2010 kl. 22:45

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ógeðfelldasta þöggun síðari áratuga - er hvernir "logið er með þögninni" - í meðvirkninni með Hafró.... sjá nýjar (gamlar) heimildir   www.kristinnp.blog.is 

Kristinn Pétursson, 24.9.2010 kl. 23:22

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Grein Andra var lengi vel þögguð þangað til Tryggvi Þór sprakk á limminu og svaraði með annari grein í Fréttablaðinu. Það var reyndar léleg greinargerð hjá TÞH en hann má eiga það að láte ekki frýjunarorð Andra Snæs liggja óbætt hjá garði. Síðan hafa menn neyðst til að taka á þessari umræðu en með semingi þó. Greinilegt er að stóriðjudraumaprinsarnir eiga nú í vök að verjast.

Gísli Ingvarsson, 24.9.2010 kl. 23:39

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"...að það yrði allsherjar lausn á atvinnuvanda landsmanna að reisa eins mörg álver og við yrði komið."

Þetta hef ég aldrei heyrt né séð nokkursstaðar á prenti. Þú gætir kannski frætt lesendur þína Ómar, frá hverjum þetta er komið?

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2010 kl. 02:01

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það var erfitt að standa vaktina á fundum Alcoa þegar þeir voru að reyna að koma með álverið á Bakka og Valgerður Sverrisdóttir var upp á sitt besta að troða álinu upp í okkur!

Sigurður Haraldsson, 25.9.2010 kl. 02:47

6 Smámynd: Heimir Tómasson

Það má vera að erfitt hafi verið að standa vaktina en samt sem áður stóðu menn eins og Ómar vaktina. Ég tel Andra Snæ ekki með því þó að margt gott komi frá honum þá finnst mér hann vera, tja of öfgafullur á stundum. Munurinn á honum og Ómari er sá að maður veit algerlega hvernig náungi Ómar er, maður treystir því sem að hann lætur frá sér fara um landið því ég myndi gjarnan vilja vera bent á einhvern sem að þekkir landið betur en hann. Víst eru margir staðkunnugri en Ómar en það er að ég held ég geti leyft mér að fullyrða enginn sem þekkir landið í heild sinni betur en hann, jafnt úr lofti sem láði.

Menn get komið með tölur eins og "álveri vantar X megawött" og "þetta svæði framleiðir bara y megawött", ég tek takmarkaða trú á því. Sú var tíðin að maður treysti því (innan skekkjumarka) sem frá vísindamönnum kom, en eftir Kárahnjúkaævint´´yrið þá er jafnvel trú mín á þeim farin að daprast.

Vandamálið er, enn og aftur, fámennið hér á landi. Þegar stórfyrirtæki geta svo gott sem pantað sér rannsóknarniðurstöður og hafa aukinheldur ráðandi stjórnmálaöfl í vasanum (fámennið, muniði) þá getur fátt breyst. Núverandi ríkisstjórn er skólabókardæmi um hvað gerist þegar stjórnmálamenn sem hafa verið í stjórnarandstöðu árum saman fá allt í einu völdin. Þá virðist bara eina stefnan vera sú að halda völdum, sama hvað það kostar pöpulinn.

Svandís virðist vera að ganga harðast fram, sennilega vegna þess (ég er að giska hérna) að ákvarðanir hennar munu ekki kosta þjóðina ákveðna krónutölu. Hún segist vera að fylgja sannfæringu sinni. Gott og vel. Það mættu fleiri gera. En gallinn er sá að hún fylgir sinni sannfæringu, annarra sannfæring kemur málinu ekki við. Hún virðist vera undir allsvæsnum umhverfisáhrifum og þarf kannski afvötnunar við.

En til að slá botninn í þetta raus mitt þá vil ég segja mína sannfæringu.

Breyting mun ekki eiga sér stað á Íslandi á meðan að núverandi kosningakerfi er við lýði. Á meðan að hinn almenni borgari ræður ekki hvern hann kýs þá er ekki við góðu að búast. Einstaklingskerfi er eina sanngjarna leiðin. Það og að ráðherrar sitji ekki þing. Þing þarf að sjálfsögðu að samþykkja ráðherra, en ráðherra hefur ekki þingvald og þing hefur ekki ráðherravald. Það væri ráðherrans að fylgja vilja þingsins (eins og það á víst að vera samkvæmt íslenskum lögum) en ekki að setja því fyrir. Ef að lýðnum líkar ekki störf ákveðinna stjórnmálamanna þá eru þeir einfaldlega ekki kosnir.

En hvað með útstrikanir? Fylgismenn núverandi kerfis segja að útstrikanir séu leið einstaklingsins til að láta í ljósi óánægju með uppstillingu á kjörlista. Fínt.

Segið Árna Johnsen það. Það sýndi sig nefnilega þar hvað það virkaði vel.

Heimir Tómasson, 25.9.2010 kl. 04:36

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á landsþingi Samfylkingarinnar 2009 munaði örfáum atkvæðum að samþykkt yrði sú ályktun þess, að stefna flokksins yrði að reisa eins mörg álver og hægt væri.

 Vorið 2007 var hart barist fyrir eftirfarandi: 

Stækkun álversins í Straumsvík upp í 460 þúsund tonn.

Álveri í Helguvík, lágmarksstærð af hagkvæmnisástæðum 450 þúsund tonn. 

Álveri á Bakka, lágmarksstærð af hagkvæmnisástæðum 450 þúsund tonn. 

Undirbúningur á fullu vegna risaálvers í Þorlákshöfn. 

Stækkun álvers á Grundartanga. 

Einföld samlagning leiðir í ljós a. m. k. 2,5 milljóna tonna framleiðslu á ári í þessum álverum sem hefðu þurft meira en 4000 megavatta virkjanir samtals. 

Þrýst var á um öll fyrrgreind áform og þeir kallaðir "andstæðingar atvinnuuppbyggingar" og "afturhaldsmenn" sem voru að benda á að þessi álver myndu þurfa alla fáanlega orku landsins með tllheyrandi eyðileggingu náttúruverðmæta. 

Í öðru orðinum var þrýst á um þetta allt og er enn varðandi Helguvík og Bakka en í hinu orðinu þrætt fyrir þá útkomu sem einföld samlagning gefur.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2010 kl. 07:42

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að stærð álveranna í Helguvík og á Bakka hefur síðan 2007 verið lækkuð niður í 340- 350 þúsund tonn en það breytir ekki megin niðurstöðunni varðandi ódrepandi stóriðjudrauma þessarar þjóðar.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2010 kl. 07:45

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Varðandi  aths. 8 þá má ekki skauta framhjá því að eftir einhver ár komast stjórnendur álveranna kannski að þeirri niðurstöðu að náist ekki ráðrúm til stækkunar verði líklega að leggja niður starfsemina.

Af hagkvæmniástæðum.

Svo má geta þess að framsýna orkunýtingarsinna dreymir um að ofan á þessa 4000 megavatta nýtingu til álvera eigum við að hefja undirbúning á orkusölu til útlanda gegn um sæstreng.

"Við erum að fórna minni hagsmunum fyrir meiri!"

Árni Gunnarsson, 25.9.2010 kl. 11:13

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei Árni, það er ekki þannig ".. að eftir einhver ár komast stjórnendur álveranna kannski að þeirri niðurstöðu að náist ekki ráðrúm til stækkunar verði líklega að leggja niður starfsemina. Af hagkvæmniástæðum."

Samningar um raforkukaup eru yfirleitt gerðir til 20-40 ára. Þetta er gert fyrir hagsmuni beggja aðila, kaupanda og seljanda. Að samningstíma liðnum geta hvorir aðilar um sig sagt upp samningnum. T.d. ef Landsvirkjun/stjórnvöld telja að vert sé að selja orkuna "eitthvað annað" en til álversins, þá yrði það einfaldlega skoðað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2010 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband