25.9.2010 | 07:16
Flestir kusu Hauk Morthens.
Það er ekki nýtt að sérkennileg útkoma fáist úr vinsældavali. Ég minnist þess að einhvern tíman á árabilinu 1952-1954 voru nemendur í skóla einum beðnir um að rita á blað nöfn þeirra Íslendinga sem þeir teldu merkasta í sögu þjóðarinnar.
Ekki man ég nákvæmlega hvernig atkvæði féllu en man þó að Haukur Morthens, sem þá var feykivinsæll fyrir dægurlagasöng sinn, fékk yfirburðakosningu og helstu íþróttastjörnur þjóðarinnar komu næstir á eftir.
Jón Sigurðsson komst varla á blað í þessari kosningu.
Þetta minnir á fleiri hliðstæð tilvik. Í skoðanakönnun fyrir nokkrum árum um það, hverjir hefðu verið mestu íþróttamenn Íslendinga lenti Örn Clausen í 14. sæti en Jón Arnar Magnússon var hins vegar við toppinn.
Var Örn Clausen þó í hópi þriggja bestu tugþrautarmanna heims í þrjú ár, 1949, 1950 og 1951 en Jón Arnar komst í hóp tíu bestu í aðeins eitt ár.
Í ársbyrjun 2003 gekkst Fréttablaðið fyrir vali helstu poppsérfræðinga landsins á besta dægurlagasöngvara Íslendinga fyrr og síðar.
Ellý Vilhjálms varð efst á blaði og fast á eftir fylgdu Björk, Vilhjálmur Vilhjálmsson og frændurnir Haukur og Bubbi Morthens.
Nefndir voru hátt í þrjátíu söngvarar og virtist nokkuð góð sátt um röðina. Athygli mína vakti þó að nafn Ragnars Bjarnasonar sást hvergi. Voru þó bæði ég og Jón Ólafsson frá Bíldudal á listanum !
Virtust poppsérfræðingarnir algerlega setja til hliðar þá staðreynd að á blómatíma Hauks Morthens barðist hann við Ragnar Bjarnason um það að vera vinsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar og hafði Ragnar lengst af betur.
Í ljósi verðskuldaðrar virðingar og vinsælda Ragnars nú lítur niðurstaða poppsérfræðinganna 2003 einkennilega út. En svona getur nú skammtímaminnið leikið marga.
120 kusu Andrés Önd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.