Flestir kusu Hauk Morthens.

Það er ekki nýtt að sérkennileg útkoma fáist úr vinsældavali.  Ég minnist þess að einhvern tíman á árabilinu 1952-1954 voru nemendur í skóla einum beðnir um að rita á blað nöfn þeirra Íslendinga sem þeir teldu merkasta í sögu þjóðarinnar.

Ekki man ég nákvæmlega hvernig atkvæði féllu en man þó að Haukur Morthens, sem þá var feykivinsæll fyrir dægurlagasöng sinn, fékk yfirburðakosningu og helstu íþróttastjörnur þjóðarinnar komu næstir á eftir. 

Jón Sigurðsson komst varla á blað í þessari kosningu.

Þetta minnir á fleiri hliðstæð tilvik.  Í skoðanakönnun fyrir nokkrum árum um það, hverjir hefðu verið mestu íþróttamenn Íslendinga lenti Örn Clausen í 14. sæti en Jón Arnar Magnússon var hins vegar við toppinn. 

Var Örn Clausen þó í hópi þriggja bestu tugþrautarmanna heims í þrjú ár, 1949, 1950 og 1951 en Jón Arnar komst í hóp tíu bestu í aðeins eitt ár. 

Í ársbyrjun 2003 gekkst Fréttablaðið fyrir vali helstu poppsérfræðinga landsins á besta dægurlagasöngvara Íslendinga fyrr og síðar. 

Ellý Vilhjálms varð efst á blaði og fast á eftir fylgdu Björk, Vilhjálmur Vilhjálmsson og frændurnir Haukur og Bubbi Morthens.

Nefndir voru hátt í þrjátíu söngvarar og virtist nokkuð góð sátt um röðina. Athygli mína vakti þó að nafn Ragnars Bjarnasonar sást hvergi. Voru þó bæði ég og Jón Ólafsson frá Bíldudal á listanum !

Virtust poppsérfræðingarnir algerlega setja til hliðar þá staðreynd að á blómatíma Hauks  Morthens barðist hann við Ragnar Bjarnason um það að vera vinsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar og hafði Ragnar lengst af betur.

Í ljósi verðskuldaðrar virðingar og vinsælda Ragnars nú lítur niðurstaða poppsérfræðinganna 2003 einkennilega út. En svona getur nú skammtímaminnið leikið marga. 


mbl.is 120 kusu Andrés Önd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband