29.9.2010 | 17:35
Jón Páll hefði getað orðið heimsmeistari.
Jóhannes Jósepsson á þriðja áratug aldar og Gunnar Huseby á þeim fjórða sýndu fram á að Íslendingar gætu eignast menn í fremstu röð í bardagaíþróttum og aflraunaíþróttum.
Nú sýnir Gunnar Nelson dæmi um þetta.
Allsherjar bann á hnefaleikum síðari hluta aldarinnar hér á landi olli því að stórkostleg efni í heimsklassa menn á því sviði leituðu í aðrar íþróttagreinar.
Miklu hefði munað ef að síðasta aldarfjórðunginn hefðu verið leyfðir ólympískir hnefaleikar en atvinnuhnefaleikar bannaðir hér því að þá hefðu áhugamannahnefaleikarnir getað orðið stökkpallur fyrir efnilega afreksmenn á því sviði.
Ég hef sérstaklega í huga einn mann, Jón Pál Sigmarsson.
Þegar maður horfði á einstæða yfirburði hans þegar hann var upp á sitt besta í keppninni um titilinn Sterkasti maður heims, sést glögglega að maður með slíka blöndu af stærð, þunga, afli, úthaldi og snerpu kemur varla fram nema á nokkurra áratuga fresti í heiminum.
Jón Páll hafði það fram yfir Mike Tyson að vera stærri og þyngri auk þess sem hann hafði meira úthald.
Á bestu árum sínum, 1986-89, bjó Tyson yfir fágætri blöndu af afli og hraða en Jón Páll hefði áreiðanlega ekki orðið síðri, nokkurs konar blanda af George Foreman, Tyson og Ali.
Gunnar Nelson á heimslistann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stærð, þungi, afl, úthald og snerpa eru auðvitað mikilvægir eiginleikar til að hafa í blönduðum bardagalistum en það sem skiptir mestu máli er tækni. Ef þú hefur ekki tækni þá mun allur styrkur í heiminum ekki koma að neinum notum.
Eins og er búið að koma í ljós, Mariusz Pudz hefur unnið titilinn sterkasti maður í heimi 5 sinnum og ákvað nýlega að reyna fyrir sér í blönduðum bardagalistum með mis góðum árangri. Í eina skiptið sem hann keppti á móti góðum andstæðingi þá gafst hann bara upp í miðri annarri lotu ef ég man rétt.
Ef ég er að misskilja og þú ert ekki að halda því fram að Jón Páll hefði geta orðið heimsmeistari í blönduðum bardagaíþróttum bara útaf líkamsburðum síðum þá máttu endilega hunsa athugasemd mína við þetta blogg :)
Gísli Óskarsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 21:30
Þú ert að misskilja Gísli. ;)
Hann er að tala um ef JPS hefði farið í hnefaleika, það hefði sjálfsagt verið gaman að sjá!
Karl (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 21:48
Það sama gildir. Allur kraftur í heiminum hjálpar ekkert ef þú hefur ekki tæknina. Það er flóknara að kýla fast en margir halda. Svo snýst box auðvitað um meira en bara það að kýla fast.
Er ekki að segja að JPS hefði ekki orðið góður boxari, er bara að benda á að það væri ekki styrkurinn bara heldur þyrfti hann að hafa tæknina á hreinu líka.
Gísli Óskarsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 22:17
Þegar þú horfir á það hvað Jón Páll gerði þegar hann var langbestur sérðu að það var fyrst og fremst tækni ofan á allt annað sem gerði hann svo frábæran.
Ómar Ragnarsson, 29.9.2010 kl. 23:10
Jájá auðvitað ekki misskilja, ég er mikill aðdáandi Jón Páls og veit vel að hann var fremsti íþróttamaður í sínum geira á sínum tíma. Það er ekkert einfalt mál að verða sterkasti maður í heimi 4 sinnum og svo verða Íslandsmeistari í vaxtarækt á sama ári. Þvílíkt afrek sem fáir ef einhverjir geta leikið eftir.
En það þýðir samt ekki að hann hefði getað gert góða hluti í boxi.
Gísli Óskarsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:15
Sæll Ómar.
Ég vona að fjölmiðlar haldi áfram að láta lítið yfir "afrekum" þessa arma manns. Vonandi verður iðkun hans, sem sumir vilja kenna við íþrótt, ekki honum eða öðrum að heilsutjóni.
Á skrifstofu minni hangir úrklippa úr SéðogHeyrt með umfjöllun um annan íslenskan box-iðkanda sem blátt áfram stærir sig af því að hafa lifað af heilablæðingu af völdum box-höggs. Sagt er þar með allmiklu dálæti að hann noti nú kunnáttu sína til góðs og kenni box!!! Ekki mikið gott við það að mínu mati.
Box væri ágætis þjálfunaraðferð og mætti kalla íþrótt ef bannað væri að slá ofan viðbeina. Eins og hún er stunduð þá er hún beinlínis heilsuvandamál. Haldið er fram að "rannsóknir" sýni hættuleysi hennar. Það er beinlínis rangt. Hlífar þær sem sagðar eru milda höggin koma ekki í veg fyrir hættulegustu áhrif þeirra, þegar höggið snýr höfðinu snarpega og heilinn fylgir ekki fullkomlega eftir. Við það geta smáæðar auðveldlega slitnað, sérstaklega í viðkvæmum svæðum á mótum heila og mænukylfu. Afleiðingarnar geta verið lífshættuleg bráðablæðing eða lúmskar smáskemmdir sem með tímanum safnast upp og valda örkumlum samanber Cassius Clay/Muhammad Ali.
Ojæja... þetta er auðvitað mín skoðun og virði líka þína því ég er nú eins og Voltaire sem á að hafa sagt: "Ég er ekki sammála þér en ég skal með lífi mínu verja rétt þinn til eigin skoðunar"
Snúum okkur að einhverju skemmtilegra, til hamingju með afmælið þó nokkuð sé frá því liðið.
Björn Geir Leifsson skurðlæknir.
Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:26
Þess má geta að Cus Damoto spáði því strax þegar Tyson var gersamlega óskólaður og óskrifað blað að hann myndi geta þjálfað hann til þess að verða heimsmeistari í hnefaleikum.
Svipað gerðist þegar Paul Ingle sá smápattann Naseem Hamed út um glugga á strætisvagni og þegar Blackburn, þjálfari Joe Louis, sá hann í fyrsta sinn lyfta bíl ofan af manni, sem hafði lent undir honum.
Ómar Ragnarsson, 29.9.2010 kl. 23:36
Ég man reyndar eftir skemtilegum sigurdanstöktum í JPS. Þar fór saman; hraði, snerpa, mýkt og kraftur.
Með réttri þjálfun hefði hann átt góða möguleika í öllum bardagaíþróttum. Við skulum ekki gleyma því að JPS hafði yfir mikilli tækni að búa í aflraunum. Hann var t.d. afbragðs maður í ólympískum lyftingum, sem er mikil tækni íþrótt. Sömuleiðis nýtti hann sér tækni og fimi í mörgum aflraunakeppnum (Sterkasti maður heims).
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 00:48
Björn Geir Leifsson skurðlæknir, þú sérð ekki heildar myndina. Þú einblínir á alvarlega heilaskaða sem vissulega hafa orðið vegna höfuðhogga í box íþróttinni. Þér finnst þetta sérstaklega hræðilegt af því að manneskja er slegin viljandi í höfuðið.
Flestir eru sammála um að besta forvörnin gegn áfengis og vímuefnanotkun, eru íþróttir. Ef þú þarft að aga hug og hönd, þá ertu ekki í ruglinu á meðan.
Nú er það svo að íþróttagreinar henta einstaklingum misjafnlega. Sumir finna sig engan veginn í boltaíþróttum á meðan aðrir geta ekki án bolta verið.
En svo er hópur einstaklinga sem finnur sig ekki í neinni íþróttagrein sem boðið er upp á. Ég hef það á tilfinningunni að stærð þessa hóps sé vanmetin og að hann geti flokkast sem "áhættuhópur". Afföll úr slíkum hópi eru þyngri en tárum taki.
Ég held að það þurfi sérstaka manngerð til þess að vera góður í bardagaíþróttum, auk góðs líkamlegs atgerfis. En til að ná árangri þarf fyrst og fremst aga. Þessi manngerð sem laðast að bardagaíþróttum, þarf einhvern veginn að fá útrás. Því ekki að beysla þennan kraft byggja um leið upp heilsteyptan og agaðan einstakling sem er arðsamur fyrir samfélagið. Mér finnst það bara nokkuð jákvætt.
Alvarleg slys henda í öllum íþróttagreinum. Ég tel mig hafa lesið tölfræði um það að hnefaleikamenn slasast ekki alvarlegar en aðrir íþróttamenn. Það sem villir mönnum sýn, er það að það er rangt að leggja þann skilning í slys sem verða í hnefaleikum, að það hafi orðið vegna þessa að hnefahöggi var viljandi beint að höfði fórnarlambsins.
Þetta er kellingarleg afstaða.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 01:16
Annars vekja hugleiðingar um bardagaíþróttir áhugaverðar spurningar, jafnvel heimspekilegar. Ég hafði lengi vel miklar efasemdir um að leyfa hér hnefaleika, þó ég hefði lúmskt gaman af því að fylgjast með góðum bardaga í sjónvarpinu. Saga hnefaleikanna finnst mér einnig heillandi.
Besta svarið sem ég fékk við þeirri spurningu hvort leyfa ætti hnefaleika, kom frá 9 ára gamalli dóttur minni, fyrir áratug síðan. Hún sagði við mig stundarhátt, þegar ég lá í stofusófanum og horfði á hnefaleika: "Ekki vildi ég vera hnefaleikari!" "Nú! Hvers vegna segirðu það", hváði ég. "Nú þá væri alltaf verið að berja mann!", svaraði sú stutta. Eftir þetta var ég frekar andvígur hnefaleikum í nokkur ár.
Í dag þýða orð dóttur minnar fyrir mér, að leyfa beri hnefaleika og aðrar "viðurkenndar" bardagaíþróttir. Hún hefur nefnilega val... og það er mikilvægast.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 01:35
Varðandi íþrótt Gunnars Nelson (ar), þá held ég að hún liði ekki fyrir það að bönnuð yrðu hnakka og gagnaugahögg og sömuleiðis hnjáspörkin. Mér finnst ekki fallegt að sjá slíkt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 01:43
MMA(blandaðar bardagalistir) er ekki eins um allan heim. En í flestum samtökum sem halda svoleiðis keppnir eru högg í hnakka bönnuð, hnéspörk í haus þegar andstæðingur er liggjandi eða á hnjám bönnum og margt annað sem telst vera mest hættulegt.
Gísli Óskarsson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 02:05
Ég er engan veginn sammála skoðun skurðlæknisins hér að ofan um að box sé ekki íþrótt heldur heilsufarsvandamál. Málið er bara að mjög margt sem menn taka sér fyrir hendur hefur einhverja hættu í för með sér. Mér finnst í góðu lagi að fræðsla sé veitt um að ákveðnar íþróttir, eins og box og mma, hafi meiri hættur í för með sér en aðrar. Valið um iðkun á að vera þeirra sem ákveða að stunda íþróttirnar.
Vill skurðlæknirinn kannski banna aðrar hættulegar íþróttir eins og kappakstur, bobbsleðakeppni, brun og risasvig? Alvarleg meiðsli og dauðsföll hafa orðið í öllum þessum íþróttum á undanförnum árum, ekki dettur samt nokkrum manni í hug að banna þær.
En ég er allavega sammála skurðlækninum með eitt, ég virði skoðanir annarra og því má hann hafa sína skoðun um þetta. En ég ætla að hafa mína, því ég er sannfærður um hana
Sigurður Ingi (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 08:18
Athugasemdirnar í kjölfar þess sem ég skrifaði lýsa vel þeirri vandræðalegu rökleysu sem áhangendur skipulagðra höfuðhögga nota til að réttlæta þau fyrir sér og öðrum.
Ef þið hafið fyrir því að lesa orð mín aftur þá lýsti ég m.a. þeirri skoðun að box og skyldar athafnir væru hin besta íþrótt ef bannð væri að slá ofan axla.
Ástæðan fyrir vanþóknun minni og annarra á því að höfuðhögg séu leyfð og talin æskileg í þessu sambandi er mjög einföld. Hér nýtist ekki tölfræði af því tagi að telja meiðsl og bera saman tíðni.
Heilinn og heilastofninn eru einu hlutar líkamans sem við getum alls ekki verið án. Skemmdir á taugavef eru alltaf varanlegar. Það er hægt að slíta öll liðbönd mörgum sinnum, brjóta eggi og merja hold og halda samt áfram að lifa og hugsa skýrt. Högg á höfuðið þurfa hinsvegar ekki að vera þung til þess að valda alvarlegum skaða. Það eru einmitt hin leyfðu og eftirsóknarverðu höfuðhögg í boxi sem eru vandamálið. Margir smáskaðar á heilavef geta ekki síður en stórir, safnast saman í alvarlegt en kannski lítið áberandi heilsuvandamál.
Heilinn er eini hluti líkamans sem ekki er hægt að gera við eða skipta út.
Bann við höggum í hnakka, höfuðhlífar og svo framvegis gerir því miður lítið til að minnka hætturnar á skaða og að kalla heilablæðingu eftir höfuðhögg "slys" bara af því það gerðist við "leyfða" iðkun, er bara kjánalegt.
Nú ætla ég ekki að gera bloggið hans Ómars að frekari vettvangi umræðu um þetta og mun ekki svara frekar hér en þeir sem vilja fræðast betur um málið frá mínu sjónarhorni hvet ég til þess að hafa samband við mig persónulega. Fyrir nokkrum árum ætlaði ég að bjóða Ómari og Bubba M. í kaffi og kökur og ræða við þá um málið en það er eins og með aðrar góðar fyrirætlanir...
Bestu kveðjur
Björn Geir, yfirlýst "kelling" í þessu máli. :D
Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 08:55
Og ef ég man rétt þá stundaði var Jón Páll karate, man eftir honum og Hjalta Úrsus koma af æfingu og sýndu okkur smá listir.
Sævar Einarsson, 30.9.2010 kl. 08:58
Má kannski líka benda á það að það hefur verið sýnt fram á það að fótboltamenn eru margir hverjir með skaðaðir eftir að skalla fótbolta árum saman. Sport er bara þannig að menn geta slasast og orðið fyrir allskonar heilsufarstjóni. Menn verða bara að fá að velja sjálfir hvað þeir vilja stunda og hvað ekki.
Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson, 30.9.2010 kl. 09:19
Þarna átti nú að standa "margir hverjir skaðaðir" þetta "með" var alveg óvart.
Eðvarð Hlynur Sveinbjörnsson, 30.9.2010 kl. 09:21
Skiljanlega hefur skurðlæknirinn áhyggjur af höfuðhöggum. Hann hefur sjálfsagt séð margan ljótan skaðann á sínum starfsferli.
"They shoot horses, don´t they?"
Um heila verður ekki skipt, segir hann og nefnir svo að lífið haldi áfram hjá þeim sem eyðileggja útlimi sína og hreyfigetu. Ég þekki hins vegar mörg dæmi þess að lífið hafi einmitt ekki haldið áfram, hjá einstaklingum sem orðið hafa t.d. fyrir alvarlegum mænuskaða. Fyrir suma er lífinu lokið við slíkar aðstæður.
Ég myndi ekki hvetja börnin mín til að leggja stund á bardagaíþróttir. Þau eru hvort eð er ekki rétta manngerðin. En ef ég ætti barn eða ástvin í eldlínunni, þá hefði ég örugglega áhyggjur.
Þau eru ófá dæmin um hnefaleikara, sérstaklega frá Bandaríkjunum, sem segjast hafa bjargast frá glapstigum, vegna þess að þeir fundu loksins eitthvað við sitt hæfi. Við megum ekki taka þennan möguleika út. Það er sjálfsagt kalt að segja það, en er ekki fórnarkostnaður í öllu?
Ég held að þeir einstaklingar sem ákveða að leggja fyrir sig hnefaleika, viti að í því felst áhætta eins og í mörgu öðru.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 10:19
Enn og aftur er ég ósammála skurðlækninum. Hann segir
"Athugasemdirnar í kjölfar þess sem ég skrifaði lýsa vel þeirri vandræðalegu rökleysu sem áhangendur skipulagðra höfuðhögga nota til að réttlæta þau fyrir sér og öðrum."
Ekki finnst mér þetta málefnalegt svar. Ég færði rök fyrir mínu máli og hann reynir ekki einu sinni að hrekja þau. Í stað þess grípur hann til barnalegra staðhæfinga um rökleysu. Ekki þykja mér það vísindaleg vinnubrögð.
Einnig segir hann:
"Ef þið hafið fyrir því að lesa orð mín aftur þá lýsti ég m.a. þeirri skoðun að box og skyldar athafnir væru hin besta íþrótt ef bannð væri að slá ofan axla."
Ég náði því alveg hjá þér. En málið er að það má slá ofan axla, þannig að við ræðum um box út frá því.
En ég vil hrósa honum fyrir fræðsluna um heilaskaða og fleira. Þetta er akkúrat það sem ég vil að sé uppi á yfirborðinu, fræðsla um hugsanlegan skaða. Það á það sama við um box og fótbolta. Út frá því geta menn tekið upplýsta ákvörðun
Sigurður (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 10:19
Er ekki íslensk glíma bardagaíþrótt, annars?
Sonur minn hefur æft glímu um nokkurt skeið og ég hvet hann til þess. Glímudeildin hér á Reyðarfirði, undir forystu Þórodds Helgasonar (Seljan), fræðslustjóra Fjarðabyggðar, hefur alið af sér marga af efnilegustu glímumönnum og konum landsins undanfarin ár.
Þóroddur á heiður skilið fyrir starf sitt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 10:33
Það mátti lengi vel æfa hér margar bardagaíþróttir, en ekki box. Bara að lofa að nota það ekki. Karate, jiu-jitsu, kung-fu og hvaðeina. Heilt arsenal af baneitruðum höggum og spörkum á hættulega staði.
Svo kom boxið. Aðalvinnan er þerkþjálfun, mjög mikil fótavinna, og mikil áhersla á að verja höfuðið. Mér skilst að slys séu algengari og jafnvel verri í handbolta. Og í hestamennsku. og fleiri sportum.
Annars er gaman að fylgjast með Gunnari. Mikið hefði hjón Páll orðið góður í þessu, hohoho. Það hefði ekkert þýtt að læsa honum :D
Jón Logi (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 11:27
Alveg finnst mér með ólíkindum að fólk sé með hroka gagnvart skurðlækni sem hér reynir að upplýsa hina fávísu um skaðsemi hnefaleika og annarra ofbeldisleikja, sem gera út á blóðþorsta almúgans.
Mætti halda að sumir sem tjá sig hér æfðu box og búið að kýla úr þeim alla rökhugsun.
Til hamingju með afmælið, Ómar. Ekki er víst að þú hefðir náð þessum aldri ef þú hefðir lagt fyrir þig boxið, miðað við að það hefði verið leyfilegt og þá hefði Ísland misst af miklu.
Theódór Norðkvist, 1.10.2010 kl. 01:47
Theódór, það er ekki hroki að rökræða málin. Það er hroki hjá þér að úthrópa alla nema skurðlækninn fávísa. Hættu því, þú lítur bara kjánalega út.
Það er enginn að segja að box sé hættulaust, heldur bara verið að benda á það er langt frá því að vera eina íþróttin sem er hættuleg.
Menn sem eru vel menntaðir eins og skurðlæknirinn eru ekki hafnir yfir það að skoðanir þeirra séu rökræddar. Það kallast gagnrýn hugsun, eitthvað sem þú mátt vel temja þér í stað upphrópana í garð annarra.
P.s. Ég hef aldrei stundað box eða aðrar bardagaíþróttir og mun líklega ekki gera það upp úr þessu.
Sigurður (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.