Hvað sagði Göran Persson ?

Göran Persson, sem var forsætisráðherra Svíþjóðar þegar mikill samdráttur dundi á þjóð hans, hélt fyrirlestur hér á landi rétt í kjölfar Hrunsins. 

Boðskapur hans var skýr: Þið verðið að taka á ykkur allan vandann strax, þótt það kunni að sýnast alltof sársaukafullt.  Ef þið dragið að taka að fullu á vandanum þegar í stað og undanbragðalaust mun hann aðeins verða verri og mun erfiðara en ella að ná þjóðinni upp úr öldudalnum. 

Með því að ráðast ekki að fullu strax að vandanum mun kreppan verða lengri og enn dýpri en hún þyrfti að verða. 

Nú eru liðin tæp tvö ár síðan Persson mælti þessi orð og fréttin, sem þetta blogg er tengt við, sýnir að hann hafði lög að mæla. 

Vanskil og vextir hlaðast upp og skuldirnar vaxa hröðum skrefum. Það leiðir hratt og örugglega til þess að ástandið verði æ erfiðara viðfangs. 

Ef óhjákvæmilegt reynist að verja miklum fjármunum í að afstýra stórkostlegum óförum heimila og fyrirtækja mun það bara bitna á ríkissjóði sem þarf þá að taka á sig skellinn, því að þótt gagrýna megi bankana hart er það ljóst að ekki má verða hér annað bankahrun. 

Svo kann að fara að aðeins ríkissjóður geti afstýrt bankahruni á sama tíma sem skorið er inn að beini og allt að því aflimað í velferðarkerfinu. 

Aðvörunarorð Perssons koma í hugann þegar horft er á ástandið. 

Ég held að tillaga Framsóknarmanna um 20% flata afskrift af öllum skuldum hafi hvorki verið sanngjörn né skynsamleg. 

Hún hafði þó einn kost: Hún var afar einföld og virkaði strax. 

Ég var einn þeirra sem taldi að réttara væri að ráða fram úr hverju skuldamáli útaf fyrir sig. En forsenda þess var að það gerðist hratt og örugglega með hjálp af skýrum og einföldum reglum og miklum afköstum í fjármálakerfinu.  

En það er sitthvað að orða hlutinn eða framkvæma hann og nú er að koma í ljós að þrátt fyrir vilja og orð gengur þetta verk alltof, alltof hægt og heildarvandinn vex og verður æ erfiðari viðfangs. 

Aðvörunarorð Perssons áttu greinilega fullan rétt á sér enda mælt af reynslu. 


mbl.is Brot af tapi heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það þarf kjark til þess að viðurkenna mistök sín opinberlega, eins og þú gerir hér Ómar. Það merkilega er að Göran Person er jafnaðarmaður og því var ekki ,,eitrað" að taka mark á ráðum hans. Vandamál okkar sem þjóðar er m.a. að við virðum ekki næjanlega þekkingu og reynslu. Við eigum við eitt flóknasta efnahagslega vandamál sem þjóðin hefur við að glíma. Hér á árum áður voru kallaðir til Benjamín Eiríksson og Jónas Haralds. Nú voru þau kölluð til Jóhanna og Steingrímur.

Við eigum mikið af afburða fólki sem var hægt að kalla til í teymi. Inn á þingi eru nokkrir röskir. Framsóknarmenn viðurkenndu að þeir kynnu þetta ekki allt og kölluðu til sérfræðinga. Ráðgjöfin var 20% flatur niðurskurður. Undir það tóku m.a. Lilja Mósesdóttir og Tryggvi Herbersson. Ég veit ekki um neinn Samfylkingarþingmann sem var þessu hlynntur. Framsóknarflokkurinn var hæddur á Alþingi, í fjölmiðlum og hér á blogginu. 

Stjórnun er að taka ákvörðun. Þar sem ákvarðanirnar hafa reynst flestar rangar, ætlar ríkisstjórnin að sitja áfram. 

Sigurður Þorsteinsson, 7.10.2010 kl. 22:52

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Margir sem skulda mikið eiga jafnframt umtalsverðar eignir. Á þeim tímum sem vextir voru tiltölulega lágir þótti ekki mikið mál að taka lán til að auka eignirnar.

Nú hefur markaðsverð eigna dregist saman og sama má segja um tekjurnar hjá flestum. En það er alltaf töluvert stór hópur fólks sem kreppan bitnar lítt eða jafnvel ekkert á. Þó þessi hópur skuldi mikið getur hann staðið í skilum, hann þarf ekki á aðstoð að halda.

Hins vegar eru auðvitað þeir sem horfa upp á að geta ekki staðið í skilum, eignir þeirra hafa hrapað í verði og það lækkað í launum og sjá þannig enga leið út úr vandanum. Þessum hóp þarf auðvitað að veita aðstoð - ef óskað er eftir. En það eru því miður ekki allir sem kæra sig um það og hvað á þá að gera?

Því miður er oft allt of seint brugðist við vandanum. Ekkert til að draga úr kostnaði og hagræða.

Annars er ekki unnt annað en dást að Steingrími J. sem ekki hefur átt sjö dagana sæla í Stjórnarráðinu. Líklega hefur hann tekið að sér eitt erfiðasta hlutverkið í íslenskri stjórnmálasögu fyrr og síðar. Hann þarf að sinna ótalverkefnum, vera sofinn og vakandi yfir nánast öllu í samfélaginu. Óskandi er að hann fái nægjanlegan vinnufrið að vinna í þágu okkar allra. En kröfurnar til hans eru ótrúlega bíræfnar og sumar ósanngjarnar. Hann er að glíma við afleiðingar hrunsins og vakti oft athygli á því sem betur mátti fara í aðdraganda hrunsins.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 7.10.2010 kl. 23:09

3 Smámynd: Einar Guðjónsson

Lyklafrumvarpið ef það hefði orðið að lögum þá hefði strax hjálpað mikið. Bankarnir hefðu orðið ábyrgari og viljugri til samninga.Þá voru Lögin aldrei gerð til að virka. Það átti aðeins að hjálpa þeim sem fæddir voru á hlaupársdag þau ár sem ekki var hlaupár. Nýleg lög frá þessu ári sem hjálpa áttu fólki til ( sjálfstæðum atvinnurekendum aðallega )  að koma ákveðnum skattskuldum áranna 2008 og 2009 í skil með skuldabréfi með gjalddaga á árinu 2011 en úrræðið er aðeins aðgengilegt þeim SEM ERU Í SKILUM með SKATTA ÁRSINS 2010. Þannig hjálpar það aðeins fólki sem er á örorku á árinu 2010 eða er komið í bússandi uppsveiflu með sinn rekstur.Þetta var ástæðulaus og kjánalegur fyrirvari í Lögum sem samin voru af fólki sem aldrei hefur unnið fyrir eigin reikning.

Einar Guðjónsson, 7.10.2010 kl. 23:23

4 identicon

"Séríslenskar aðstæður" eru alltaf afsökunin fyrir því að nýta sér ekki reynslu annarra og ef sú dugar ekki er hægt að fara í flokkadrætti.

Gulli (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband