Galdurinn við að skapa viðmið.

Volkwagen verksmiðjurnar voru í miklum vanda um 1970. Þeim hafði tekist að framleiða mest selda bíl heims, Bjölluna, strax eftir stríð, og þessi eina bílgerð ásamt Volkswagen "rúgbrauðinu" varð að tákni um ævintýralega endurreisn Vestur-Þýskalands, "þýska efnahagsundrið".

Bjallan átti velgengni sinni að þakka hve hún var einföld, sterkbyggð, endingargóð og vönduð smíð.

Vegna þess að vélin var fyrir aftan afturhjólin var hún dugleg í snjó og á vondum vegum.

Á hinn bóginn var hún þröng, þótt fimm manns gætu troðið sér inn í hana, miðstöð loftkælingarinnar gaf lítinn hita og vegna þess að þyngsti hluti bílsins, var fyrir aftan afturhjól, gat hún skvett út rassinum á óvæntan hátt ef of hratt var farið í beygjur.

Það liðu 15 ár frá upphafinu eftir stríðið þar til verksmiðjan bauð upp á aðra gerð, Volkswagen 1500, sem var í meginatriðum sami bíll og Bjallan, aðeins yfirbyggingin með öðru lagi. 

Áfram voru loftkældar "boxara"vélar atfturí með afturdrifi allsráðandi hjá verksmiðjunum og ljóst að á áttunda áratugnum myndu framdrifnir bílar með vatnskælda vél þversum frammi taka völdin á markaðnum.

Minnstu munaði að VW misstu af strætisvagninum vegna tregðu til breytinga en það vildi verksmiðjunum til happs að hönnunin á VW Golf var afar vel heppnuð. Til þess að tryggja það smíðuðu verksmiðjurnar fyrst Passat, Audi 80 og Póló og nýttu sér reynsluna af þeim. 

VW náði strax að gera Golf að þvílíku viðmiði fyrir aðra bíla, að heill stærðarflokkur bíla var nefndur eftir honum, Golf-flokkurinn. 

Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi bíll ekki valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram 1973, heldur Citroen CX, sem ekki náði neitt viðlíka fótfestu og Golfinn, enda mun stærri bíll. 

Nú er á boðstólum fimmta kynslóðin af Golf og VW hefur gætt þess að stækka bílinn jafnt og þétt eftir því sem tekjur helsta kaupendahópsins hafa aukist. 

Nú er Golf hálfum metra lengri, 15 sentimetrum breiðari og 500 kílóum þyngri en 1973. 

Í kringum þennan bíl hafa verksmiðjurnar byggt mestallan bílaflota sinn í millstærð af gerðunum Skoda, Audi og Seat, og keppinautarnir verða enn, 37 árum eftir að Golf kom fram, orðið að sætta sig við að keppa í "Golf-flokknum", sem er höfðar til stærsta hóps kaupenda með meðaltekjur. 

Á mektarárum sínum var Packard "standard of the world" í flokki lúxusbíla og Cadillac tók við í nokkra áratugi. Sá framleiðandi sem ræður yfir þeirri vöru sem aðrar verða að miða sig, við, hefur yfir að ráða svipuðu atriði og kallað er "ring generalship" í hnefaleikum, sem sé að ráða ferðinni. 

 


mbl.is Stóraukinn hagnaður VW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband