"Við vorum hræddari við Finnana..."

Það er alveg sama hvaða þjóð á í hlut á í hernaði, stríðsglæpir verða ævinlega fylgifiskur hernaðar.

Dæmin frá Írak eru ekkert einsdæmi. 

Fyrir nokkrum árum fór ég um hávetur í kvikmyndatökuferðalag til bæjarins Demyansk, sem er 550 kílómetrum fyrir norðvestan Moskvu. Þar lokuðust 110 þúsund þýskir hermenn inni frá janúar til maí 1942 en tókst síðan að brjótast út úr herkvínni.

Þjóðverjum tókst með stórkostlegri loftbrú mörg hundruð kílómetra leið að viðhalda styrk hins innilokaða hers, flytja 20 þúsund særða á brott og 16 þúsund hermenn inn í staðinn. 

Hernaður Þjóðverja var háður undir formerkjum sem leyfðu og óskuðu eftir áður óþekktri grimmd í garð Rússa.  Urðu þessi grimmdarverk slík að fá dæmi eru um slíka villimennsku. 

Fyrir tilviljun hitti ég konu skammt frá Demyansk sem var þar á þessum tíma og ég spurði hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið. 

"Þeir voru hvorki verri né betri en búast mátti við" svaraði hún. "Þetta voru mest ungir menn sem voru komnir í fjarlægt land án þess að vita nákvæmlega af hverju", sagði hún. 

"Innan um voru ribbaldar og glæpamenn eins og gengur, " sagði hún, "en við vorum ekkert sérstaklega hrædd við þá, heldur Finnana. Þeir voru villimenn og sýndu hræðilega grimmd." 

Ég varð hugsi við að heyra þetta sagt um norræna vinaþjóð.  En síðan áttaði ég mig á því af hverju þetta var svona. 

Það var vegna þess að hinir ungu þýsku hermenn áttu engra harma að hefna. Það áttu hins vegar Finnarnir eftir nýliðið vetrarstríð við Rússa.

Ótrúlegar og ömurlegar fréttir bárust fyrir nokkrum árum frá Danmörku um það hvernig farið var með þýsk-dönsku "hermannabörnin" í kjölfar stríðsins.

Hvernig gat norræn frændþjóð látið slíkt gerast í landi sínu?

Tómas orti um það að fólkinu svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Það var mikið til í því. 


mbl.is Ótrúlega alvarlegar skýrslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: kallpungur

Ég er nú hræddur um að þegar Rússar mættu Finnum hafi hinir fyrr nefndu ekki hitt fyrir annað en greiðslu fyrir fyrri störf. Konurnar í berlín greiddu líka hátt verð fyrir hegðun sinna manna, í lok stríðs. Þar hefði nú aldeilis verið hægt að hefja rannsóknir á stríðsglæpum. Eitt fæ ég ekki skilið hinsvegar, og það er það að gamlir kommar skuli ekki skammast sín fyrir stuðning sinn við Ráðstjórnarríkin. Þegar gamlir nasistar læðast meðfram veggjum og láta lítið á ser bera, eru gamlir kommar í hávegum hafðir. Þó hefur engin stjórnmálastefna kostað eins miklar blóðsúthellingar hvorki fyrr né síðar og er enn að.

kallpungur, 24.10.2010 kl. 20:26

2 identicon

Stjórnmálastefnan sem kend er við kommúnisma hefur ekkert að gera með stjórnarfar eins og það birtist í USSR, Kína og fleirri einræðisríkjum.  Alveg eins og kapítalismi hefur ekkert að gera með það stórnarfar sem er í USA.  Ekki gleyma því að margt hefur verið gert í nafni lýðræðis, frelsis og mannréttinda sem hefur ekkert með fyrrnefnda hluti að gera og allt í nafni einhverrar hugmyndafræði sem notuð er sem afsökun, og almenningur gleypir við.  

Að heyja stríð til að koma á friði er eins og að öskra til að fá hljóð. 

Að skera niður í ríkisbúskap til að verja velferð er eins og að setja snöru um hálsinn á sér til að eiga auðveldara með að anda. 

Valgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 00:38

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Undarlegra er þó kallpungur góður það að enn eru til sjálfstæðismenn á Íslandi. Ekki eru þó nema rúm tvö ár frá því að stefna kapitalismans rústaði tilveru mikils þorra íbúanna.

En þú hittir naglann beint á hausinn Valgeir.

Árni Gunnarsson, 25.10.2010 kl. 09:51

4 identicon

Það sem kallpungur skrifar er ekki svarar vert. En ég vil gera athugasemd við Valgeir. Því er oft haldið fram, að það sem gerðist í Rússlandi hafi ekkert haft með kommúnisma að gera. Það er að mínu mati rangt. Það sem gerðist var vegna þess að menn REYNDU kommúnismann sem stjórnmálastefnu. Menn reyndu einnig kapítalíska frjálshyggju hér á skerinu og öll þekkjum við afleiðingarnar. Það er of auðvelt að segja að hinn og þessi ismi sé góður, en það séu ekki til mannlegar verur til að framkvæma hann.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 10:06

5 identicon

Valgeir:

"Að heyja stríð til að koma á friði er eins og að öskra til að fá hljóð."

Það þarf stundum að láta í sér heyra til að fá hljóð. Annað hvort flaskaðirðu á því eða ert svona sleipur í háði.

Má ég nefna það að Bretar og Frakkar sögðu Hitlers Þýskalandi stríð á hendur en ekki öfugt. Það tók 6 ár og mikla slátrun að koma á friði á þeim slóðum, en ég er efins um að hlutleysi þeirra hefði bætt nokkurn hlut.

Og svo yfir í Finnana. Þeir áttu harma að hefna og treystu Rússum síður en Þjóðverjum. Rússarnir byrjuðu reyndar með innrás og almennum hrottaskap, - t.d. loftárásum á Helsinki strax í byrjun. Í fyrra vetrarstríðinu urðu Finnar að beygja sig undir kröfur Rússa og láta undan, bara ekki eins mikið og verið hefði ef þeir hefðu ekki verið svona harðir í horn að taka.

Í seinna vetrarstríðinu slógust þeir í lið með Þjóðverjum til að endurheimta það sem þeir höfðu misst, og tóku m.a. einhvern þátt í umsátrinu um Leningrad. En þeir ollu Þjóðverjum vonbrigðum um það leiti, því þeir vildu EKKI slást í herför Hitlers alla leið.

Seinna brenndu svo Þjóðverjar heil ósköp af Finnmörku á undanhaldi sínu, og það kom til vopnaðra átaka milli þeirra og Finna.

Niðurstaðan var þó að Finnland hélt velli sem lýðræðisríki, en missir þeirra var mikill, bæði í mannskap og landi.

Ce'st la Guerre....

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 17:23

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hinn hreini kommúnismi og hinn hreini kapílalismi byggjast á því að allir menn séu algóðir.

Hvorug stefnan gerir ráð fyrir mannlegu eðli og veikleikum þess og breyskleika og eina ástæðan sem hægt er að finna fyrir hruni þeirra er sú, að þess vegna hafa þessar stefnur beðið skipbrot. 

Kommúnisminn hrundi í Sovétríkjunum hrundi VEGNA stefnunnar en ekki vegna þess að Rússar væru eitthvað verri þjóð en aðrar þjóðir. 

Óheftur kapítalismi beið skipbrot í kreppunni miklu og aftur nú í nýju kreppunni. 

Ekki vegna þess að Bandaríkjamenn væru eitthvað verri þjóð en aðrar heldur VEGNA stefnunnar. 

Að minnsta kosti er erfitt að finna aðrar skýringar. 

Ómar Ragnarsson, 25.10.2010 kl. 19:55

7 identicon

Ástæðan fyrir því að Bretar ofl fóru í stríð var sú að Þjóðverjar réðust inn í Pólland.   Draumur Hitlers var auðvitað að sameina Evrópu, hann gerði þau mistök að reyna að hrifsa hana til sína í stað þess sem nú er búið að gera -  fjárhagslega neyða þjóðir í sameiningu.  Fullyrðingin stendur því óhögguð - enda ætti hverju mannsbarni að vera það ljóst að stríð hafa engu áorkað nema blóðsúthellingu.  Gandhi sýndi okkur að einn maður getur stöðvað stórveldi án þess svo mikið sem hleypa af einu skoti...en menn virðast alltaf þurfa að drepa til að sína mátt sinn og megin.

Sammála er ég svo Ómari um það að til þess að fyrgreindir -ismar gangi upp þurfi menn að vera algóðir.  En ég vill ganga enn lengra og segja að það skiptir engu máli hversu gott, skilvirkt, göfugt kerfið er eða hversu mikið lögum og reglugerðum er beitt innan kerfisins, á meðan til er "vont" fólk þá verður kerfið alltaf misnotað.  Hafa ber það í huga þegar menn ætla sér nú að eyða einhverjum hundruð milljóna í stjórnlagaþing.  Vandi okkar er ekki lögin heldur fólkið sem fer ekki eftir þeim.

Valgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband