25.10.2010 | 08:48
Andlegt afrek.
Það er auðséð á allri framgöngu kvennaliðs Gerplu að þær hafa gefið allt líf sitt og alla sálu sína í það afrek sem þær hafa unnið.
Sú var tíðin að maður brosti góðlátlega þegar horft var á íslenskt fimleikafólk á mótum hér heima og borið saman við það besta sem sýnt var í sjónvarpinu, svo óhagstæður var þessi samburður Íslendingum.
Þess meira afrek er það þegar við sendum ekki aðeins eina afreksmanneskju, heldur heilan hóp glæsifólks, sem sýnir og sannar hvað margra ára hugarefling, þrautseigja og einbeiting megnar að beygja líkamann undir járnvilja mannsins.
Frammistaða hins unga afreksfólks á sviði fimleika og knattspyrnu þessa dagana fyllir mann bjartsýni á það að komandi kynslóð og kynslóðir verði til þess að bæta fyrir það sem núverandi ráðandi kynslóð í landinu hefur mistekist.
Til hamingju, Ísland!
„Fórum út til að rústa þessu móti“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þessi góðu orð Ómars.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 11:00
Þetta er virkilega glæsilegt hjá stúlkunum.
Það er þó óhætt að geta þess að keppnin sem stúlkurnar unnu um helgina er í "tromp fimleikum" (TeamGym) sem er hliðargrein innan fimleikanna. Þessi grein er upprunninn í Skandinavíu og hefur ekki enn náð þeim sessi að keppt sé í heimsmeistaramóti í greininni.
Samt sem áður glæsilegur sigur í móti þar sem kepptu lið frá 10 þjóðum og eins og þú segir Ómar þarf enginn að brosa góðlátlega að þessu flotta liði.
Freyr (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 12:02
Reyndar er þetta ekki alveg rétt hjá þér Freyr.
Innan Evrópu (UEG) eru fimleikar byggðir af sjö jafngildum stoðum. "The seven sportcolumns of UEG". Innan FIG fellur TeamGym enn sem komið er undir "Gymnastics for all".
TeamGym kallast Hópfimleikar á Íslensku.
Það kepptu 70 lið frá 13 löndum á þessu móti, en mörg lönd kusu að senda ekki lið þar sem þau áttu ekki möguleika á verðlaunum.
TeamGym er í gríðarlegri sókn og til dæmis þá stunda þessa íþrótt margfalt fleiri en handbolta hvort sem litið er til evrópu eða á heimsvísu.
Arnar (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 13:39
Tek undir öll lofsyrði og hamingjuóskir í garð þessara frábæru afreksmeyja. Þetta eru þeir fulltrúar þjóðarinnar sem við eigum að gefa meiri gaum og hvatningu.
Samanburður á íþróttum er auðvitað ekki vinsæll og heldur ekki með öllu sanngjarn. En þegar við berum þetta afrek saman við tiburði fótboltamanna þá sýnist mér ástæða til að hugleiða margt.
Er ekki knattspyrnan komin svolítið út fyrir þá hugsjón sem íþrótt grundvallast á? Spurt er vegna þeirra ógnarfjármuna sem spákaupmenn eru farnir að moka í efnilega sparkara. Mér er farið að sýnast þessar sparkorrustur líkjast sýningaratriðum á skylmingaþrælum Rómverja.
Og menningarsamanburðinn má finna í vaxandi fjölda óskemmtilegra einstaklinga sem kallast fótboltabullur og hafa yfir sér dauflegt yfirbragð áhugamanna um íþróttir.
Árni Gunnarsson, 25.10.2010 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.