Orð eru til alls fyrst...

Samkvæmt fyrstu fréttum af þjóðfundinum í hádegisútvarpinu áðan virtust hugtök eins og mannréttindi, jafnrétti og lýðræði efst í huga margra þar.

Einn viðmælenda sagði raunar, að hann vissi ekki betur en að þessi hugtök væru grunnur núgildandi stjórnarskrár og rétt er það.  Til dæmis var bætt inn í stjórnarskrána sérstökum ákvæðum um mannréttindi meira en hálfri öld eftir gildistöku hennar.

Þetta leiðir hugann að tvennu: 

1. Orð eru til alls fyrst. Ef niðurstaða þjóðfundar verður nógu afdráttarlaus varðandi mannréttindi, jafnrétti og lýðræði yrði það fagnaðarefni, því að þá auðvelda þau 2. áfanga í gerð nýrrar stjórnarskrár á komandi stjórnlagaþingi sem felst í....

2. ...að mun skýrar yrði kveðið á um þessi atriði og lagfærðar ýmsar misfellur, sem stangast á við þessi markmið. 

Ég hef áður bloggað um áherslur mínar í þessu efni í tengslum við framboð mitt en get nefnt eftirfarandi: 

Í fyrsta lagi þarf alveg ný ákvæði hliðstæð þeim, sem gilda í mörgum stjórnarskrám annarra landa varðandi jafnrétti kynslóðanna, þau mannréttindi milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land, að gerðar verði auknar kröfur til lagasetningar og útfærslu aðgerða og framkvæmda sem á óafturkræfan hátt geta haft afgerandi áhrif á frelsi og kjör afkomenda okkar. 

Reynslan af svona ákvæðum hefur verið góð og komið í veg fyrir stórslys af völdum flumbrugangs, svo sem í Finnlandi. 

Stórauka þarf vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og tryggja beinna lýðræði en nú er.

Eins og nú er háttað eru meirihluti þingmanna í raun sjálfkjörinn, það er, í "öruggum sætum" eftir að listar hafa verið boðnir fram. 

Persónukjör hefur reynst vel í nágrannalöndunum og má taka mið af reynslu þeirra. 

Mér finnst lágmark að þau framboð sem vilja sjálf viðhafa persónukjör í kjörklefanum varðandi framboðslista þeirra, fái leyfi til þess að hafa þann hátt á. 

Tryggja þarf jafnræði hinna þriggja valdþátta stjórnskipunarinnar meðal annars með því að rjúfa tengsl framkvæmdavaldsins við dómsvaldið, stórauka vald og sjálfstæði þingnefnda, og sjá svo um að ráðherrar geti ekki gengt þingmennsku jafnframt ráðherradómi á meðan á honum stendur. 

Jafna þarf vægi atkvæða og má gera það á ýmsan hátt, án þess að ganga um of á rétt landshlutanna. 

Dæmi eru um þetta erlendis, svo sem í Þýskalandi og hér á landi væri hægt að nefna þrjár útfærslur: 

1. Landið eitt kjördæmi en auk þess átta einmenningskjördæmi, svipuð þeim sem voru fyrir 1959.

2. Landið tvö kjördæmi og jafnt vægi atkvæða í þeim. Annars vegar yrði höfuðborgarsvæðið skilgreint sem svæðið milli Hítarár á Mýrum í vestri og Jökulsár á Sólheimasandi í austri og það eitt kjördæmi, en afgangurinn yrði eitt landsbyggðarkjördæmi. 

3. Landið tvö kjördæmi eins og í lið 2 en auk þess átta einmenningskjördæmi. 

Huga má að því að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt forsetaembætti, þar sem valdamesti og æðsti maður framkvæmdavaldsins, þjóðhöfðingi og oddviti ríkisstjórnar yrði  valinn beint af þjóðinni. 

Bandaríkjamenn, sem eru þúsund sinnum fleiri en við, telja að einn maður geti sinnt þessu. Það ætti því líka að vera hægt að gera það hér.

Þrátt fyrir þetta mætti tryggja þingræðið á þann hátt að þingið geti stöðvað mál eða samþykkt vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórnina alla. Á móti kæmi að forsetinn hefði málskotsrétt og gæti skotið slíkum brýnum málum í dóm þjóðarinnar. 

Ég hygg að svona fyrirkomulag gæti stuðlað að meiri eindrægni og samráði stjórnmálamanna en hér hefur verið og má nefna sem dæmi um slík vinnubrögð hvernig minnihlutastjórnir í mörgum nágrannalöndunum vinna í samráði við stjórnarandstöðuna. 

Þetta er auðvitað útfærsluatriði og þar gætum við sótt í smiðju þeirra þjóða sem hafa reynslu í þessum efnum, svo sem Frakka og Finna. 

Fleir get ég nefnt en læt þetta nægja. Aðalatriðið er þetta: Þjóðfundurin nú og komandi stjórnlagaþing eiga sér ekki hliðstæðu í sögu þjóðarinnar.  Ef þessu tækifæri, sem nú býðst, verður klúðrað, getur það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lýðræði, frelsi, mannréttindi og jafnrétti í framtíðinni. 

Því skiptir miklu að niðurstöður bæði þjóðfundar og ekki síður stjórnlagaþings verði svo afdráttarlausar og með svo breiðri samstöðu að Alþingi komist ekki hjá því að taka tillit þeirra. 


mbl.is Góður andi á Þjóðfundinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vægi atkvæða getur aldrei orðið það sama ef landið verður ekki eitt kjördæmi.

Það gengur ekki að vægi eins atkvæðis verði til að mynda 1,1 í einhverjum alþingiskosningum en annars 0,9.

Slíkt er engan veginn jafnrétti eða eðlilegt lýðræði og mannréttindi í örlitlu þjóðfélagi, sama hversu strjálbýlt það er.

Það gengur engan veginn að vera með ákvæði um jafnrétti, lýðræði og mannréttindi í einni grein stjórnarskrárinnar og ganga svo gegn slíku ákvæði í næstu grein.

Þorsteinn Briem, 6.11.2010 kl. 14:02

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Hvað með ríkisvald eða vald yfirhöfuð? Það er ekki orð um það.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.11.2010 kl. 22:17

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Síðastliðin 748 ár hefur ekki ein einasta hugmynd um mannréttindi atvinnuréttindi eða önnur réttindi og fæðst í íslenskum heila orðið að lögum á Íslandi. Öllu slíku hefur verið þröngvað uppá íslendinga utanfrá með hótunum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.11.2010 kl. 23:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vægi atkvæða gæti orðið jafnt ef kveðið  yrði á um það í lögum að fjöldi þingmanna í hverju núverandi kjördæma yrði algerlega í hlutfalli við atkvæðafjölda og fækkaði eða fjölgaði eftir atvikum í samræmi við það. 

Þá myndi ekki lengur vera sú hlálega skipan, að atkvæði íbúa á Akranesi vegi 2,5 sinnum meira en atkvæði íbúa á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði, sem er aðeins korteri lengur að aka til Reykjavíkur en Akurnesingurinn. 

Ómar Ragnarsson, 6.11.2010 kl. 23:36

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nokkrar mínútur tekur að ganga frá Seltjarnarnesi (Suðvesturkjördæmi) í gegnum Reykjavíkurkjördæmi suður og yfir í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kjördæmi Íslands
- Wikipedia

Þorsteinn Briem, 6.11.2010 kl. 23:52

6 identicon

Mér líst vel á hugmyndir þínar, Ómar. Þær ríma ágætlega við mínar hugmyndir. Fróðlegt verður að sjá hvernig þeim reiðir af á komandi stjórnlagaþingi. Ég mun berjast fyrir þeim, hvort sem ég lendi innan garðs eða utan.

Baráttukveðjur,

Hjörtur

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband