9.11.2010 | 23:11
Hvað var eiginlega í gangi?
Sífellt eru að hellast inn fréttir af aldeilis fáránlegum skuldum, sem þetta þjóðfélag er að drukkna í.
Svakalegasta fréttin núna finnst mér ekki skuldir Hafnarfjarðar eða Reykjanesbæjar, heldur sú frétt, að þriðjungur íslenskra fyrirtækja hafi ekki nógu miklar tekjur til að borga skuldir sínar, sem nema alls 6000 milljörðum króna, segi og skrifa 6.000.000.000 króna!
Þetta samsvarar þjóðarframleiðslu Íslands í meira en fjögur ár! Og þessi þriðjungur íslenskra fyrirtækja stefnir beint í gjaldþrot fyrr eða síðar.
Jafnvel þótt við gæfum okkur að ekkert Hrun hefði orðið og að krónan hefði aldrei fallið neitt (sem var þó óhjákvæmileg afleiðing af Bólunni) þá væru þessar skuldir varla minni en 2000 milljarðar.
Hvað var eiginlega í gangi í mesta "gróðæri" Íslandssögunnar?
Björk orðaði þetta þannig í Návígi í kvöld, að frá 2003-2008 hefði verið "gat" í þjóðlífi og atvinnulífi, - ekkert var hugsað til framtíðar, ekkert gert til nýsköpunar, heldur var þjóðin á lánafylleríi þar sem ekkert annað komst að en að slá lán og lifa langt um efni fram á kostnað framtíðarinnar.
Til að kynda undir þessu voru landsmenn svo helteknir af virkjunum og álverum að þeir voru nánast með stóriðjustöru, sem enn hefur ekki minnkað heldur jafnvel vaxið.
Útlendingar sem koma til Íslands sjá hér fleiri lúxusbíla og risapallbíla en nokkurs staðar þekkist, háa skýjakljúfa, íbúðahverfi með stærri húsum og íbúðum en þekkist í nokkru öðru Evrópulandi og þegar þeir fara út á landsbyggðina blasa við sumarhallir hvert sem litið er.
Á sama tíma sem þetta var að gerast höfðu tugþúsundir Íslendinga það ekkert betra en endranær og hvorki vildu né gátu tekið þátt í þessum dansi í kringum gullkálfinn.
Nú lendir þetta á þeim og biðraðirnar stækka hjá hjálparstofnununum fyrir jólin.
Já, hvað var eiginlega í gangi? Hvernig gat þetta gerst?
Stórt lán gjaldfellur 2011 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað er þetta Ómar ríkisstjórnin heldur fund í Firðinum og setur fram 12 þrepa áætlun til að redda þessu.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 23:25
Sæll Ómar ertu loksins farið að sjá það að við erum gjaldþrota þjóð það er búið að stela öllum sjóðum og peningum úr landinu en skilja skuldirnar eftir!
Sigurður Haraldsson, 9.11.2010 kl. 23:49
Til þess að átta sig betur á þessu þyrfti maður að sjá lista yfir öll þessi fyrirtæki.
Á sínum tíma var mikið talað um að sægreifarnir hefðu flutt fé úr landi en skuldir sjávarútvegsins eru innan við 10% af þessum skuldum.
Ef ekki má birta lista yfir fyrirtækin á samt að vera hægt að fá þetta upp á borðið með því að birta lista og sundurgreiningu án nafna fyrirtækjanna.
Það hlýtur að vera krafa þeirra sem telja nauðsynlegt að kafa ofan í það hvað var þarna í gangi.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 00:04
Ég vek líka athygli á því að þetta er enginn smá fjöldi fyrirtækja, sem öll eru með vonlausan rekstur vegna skulda, þriðjungurinn af öllum fyrirtækjum landsins.
Fróðlegt væri að sjá hve mörg þeirra myndu hafa getað spjarað sig ef ekki hefði orðið svona mikið hrun.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 00:07
Sæll Ómar,
Þér skrikaði fótur á núllunum og þú ert ekki einn um það í öllum þessum ógnvekjandi fjárhæðum! 6.000.000.000 króna eru ekki nema skitnir sex milljarðar, sem varla er upp í nös á ketti þessa dagana. Þetta eru litlar 6.000.000.000.000 króna!!!
Það vill oft verða í góðæri að menn fjárfesta um efni fram og skuldsetja sig. Þetta kemur svo í bakið á mönnum þegar góðærið fjarar út. Því miður var ekkert góðæri á Íslandi 2000-2008, þetta var alltsaman út á krít og þess vegna er skuldsetning íslendinga orðin svo ofboðsleg sem raun ber vitni. Þetta var allt byggt á lygum og kjaftæði sem engan enda virðist ætla að taka. Það er sárt að sjá erlendis frá hvernig komið er fyrir landi og þjóð, en á sama tíma prísar maður sig sælan fyrir að hafa ekki lent í þessum ósköpum!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 10.11.2010 kl. 00:40
Lán Íslandsbanka til fyrirtækja
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 01:00
Skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru aðallega í erlendri mynt og þær voru 543 milljarðar króna í árslok 2008, eða 81% meiri í íslenskum krónum en í árslok 2007 en þá voru þær 300,3 milljarðar króna, samkvæmt Tíund, fréttabréfi Ríkisskattstjóra.
Á sama tíma hækkaði gengi evru gagnvart íslensku krónunni um 97% og um 80% af íslenskum sjávarafurðum voru seld á Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009.
Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja voru 22.675 milljarðar króna í árslok 2008 en 15.685 milljarðar króna í árslok 2007 og þar af voru heildarskuldir sjávarútvegsins 2,4% í árslok 2008 en 1,9% í árslok 2007.
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 01:12
Getið þið herramenn mínir, hér að ofan, ekki sett skýr skil á punkti og kommu? Steini Briem.: Er talan 22.675 milljarðar samasem 22.675.000.000.- krónur? Geng út frá því. Af hverju er síðan sjávarútvegurinn síðan settur í % kúturinn minn? Hvað varð um tölurnar þar? Er þetta ekki hluti af meininu? Ef sett er fram nógu löng buna af hellings núllum eða ekki, eftir því hvernig hentar, skilur að lokum enginn neitt og allir fara að deila.? Reiknið ykkur endilega fram og til baka elskurnar mínar. Góðar stundir.
Halldór Egill Guðnason, 10.11.2010 kl. 04:17
Halldór Egill Guðnason,
Hér á Íslandi merkir 22.675 milljarðar króna tuttugu og tvö þúsund sex hundruð sjötíu og fimm milljarðar króna, sem er andvirði 170 Kárahnjúkavirkjana.
Hins vegar væru 22,675 milljarðar króna tæpir 23 milljarðar króna og ég er nú ekki að tala hér um heimilisbókhaldið hans Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 05:27
Skuldir sjávarútvegsins innan við 2% af heildarskuldum allra fyrirtækja í árslok 2007
Heildareignir sjávarútvegsins í árslok 2007 voru 435 milljarðar króna og heildarskuldir 325 milljarðar króna. Eigið fé sjávarútvegsins í árslok 2007 var því 110 milljarðar króna. Heildareignir og skuldir höfðu þá aukist um 12% frá árinu áður en eigið fé jókst um 13%.
Hreinn hagnaður samkvæmt árgreiðsluaðferð og 6% ávöxtun var 10,3% árið 2007, 13,4% 2006, 8% 2005 og 5,9% 2004.
Tekjur af fiskveiðum árið 2007 voru 85,4 milljarðar króna en gjöld um 67 milljarðar króna.
Tekjur fiskvinnslu alls á skilaverði árið 2007 voru 94,3 milljarðar króna en kostnaður vegna aðfanga um 71 milljarður króna.
Hagtíðindi 27. apríl 2009: Hagur fiskveiða og fiskvinnslu 2007
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 05:43
Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar Bandaríkjadala, um 360 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
Vaxtagjöld Landsvirkjunar árið 2008 voru 178 milljónir Bandaríkjadala, um 20 milljarðar króna.
Og árið 2008 tapaði Landsvirkjun 345 milljónum Bandaríkjadala, um 40 milljörðum króna.
Þorsteinn Briem, 10.11.2010 kl. 06:10
000 átti auðvitað að vera fjórum sinnum, 1.000=þúsund, - 1.000.000=þúsund þúsund=milljón, - 1.000.000.000=þúsund milljónir=milljarður, og 1.000.000.000.0000=þúsund milljarðar.
Niðurstaða: Við eigum að gera það sem við hefðum átt að gera í ársbyrjun 1981, að taka þrjú núll aftan af krónunni. Við tókum aðeins tvö núll 1981 og erum komin í verri stöðu en þá.
Ómar Ragnarsson, 10.11.2010 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.