JÓN BALDVIN OG UMHVERFISMÁLIN.

Ég sé á umfjöllun fjölmiðla að ákveðins misskilings gætir um viðræður mínar við Jón Baldvin Hannibalsson að undanförnu þvi eldmessa hans í Silfri Egils virðist hafa vakið upp þær spurningar hvort í uppsiglingu sé umhverfis-krata-framboð þar sem hinn fyrrum krataforingi ætli sér að kljúfa Samfylkinguna í herðar niður. Ég lít öðrum augum á útspil Jóns hvað varðar hugsanlegt nýtt mið-hægri-umhverfisframboð og vísa um hugsanlegt eðli slíks framboðs til viðtals við okkur Andra Snæ Magnason í blaði Framtíðarlandsins.

Við Jón Baldvin höfum þekkst frá því í menntaskóla og höfum allan þennan tíma "kjaftað saman" þegar við höfum hist og haft gaman af. Þetta spjall hefur verið spjall tveggja kunningja en ekki neinar formlegar viðræður og yfirleitt höfum við hist af tilviljun. Daginn eftir spjall mitt við Egil Helgason fyrir viku hringdi hann í mig sagðist vera mér sammála í umhverfismálum.

Það er mikils virði þegar maður á borð við Jón Baldvin sér jafn mikilvægan málaflokk og umhverfismál í nýju ljósi og þegar hann kom síðan fram í Silfri Egils viku síðar kom í ljós að hann hafði unnið úr því  sem hann hafði áður gert sér grein fyrir.

Í viðtalinu við Andra Snæ og mig í blaði Framtíðarlandsins kemur skýrt fram að tilgangur nýs umhverfisframboðs yrði fyrst og fremst að frelsa það umhverfisverndarfólk sem stjórnarflokkarnir hafa jafnan læst inni eftir hverjar kosningar, en stór hópur þessa fólks er í Sjálfstæðisflokknum.

Til þess að ná í slikt fylgi þarf að höfða sterkt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir stalinískum  ríkisþvinguðum og firnadýrum verksmiðjulausnum sem hefta með ruðningsáhrifum, þenslu og efnahagssveiflum framgang fyrirtækja sem byggjast á frumkvæði og einkaframtaki og gefa margfalt meiri arð og menntun af sér en verksmiðju- og vikjanastefnan.

Að ekki sé minnst á hin óheyrilegu spjöll á íslenskri náttúru, mestu verðmætum sem Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.  

Það hlýtur eitthvað mikið að vera að hjá Sjálfstæðisflokknum ef hann stendur fyrir hinum tröllkarlalegu sovésku handstýringum, til dæmis á Húsavík, - en á sama stað gefa vinstri grænir á Húsavík út plagg undir nafninu "Eitthvað annað" þar sem rakið er hvernig frumkvæði einstaklinga og hópa skópu á sínum tíma störf í staðinn fyrir þau sem fóru forgörðum við gjaldþrot staðnaðs kaupfélags á staðnum.  

Af tali Jóns Baldvins Hannibalssonar sést að hann gerir sér grein fyrir því að þungamiðja þeirrar breytingar sem þarf að verða í næstu kosningum felst í afdráttarlausri breytingu í umhverfismálum sem skila muni breytingum og lífskjarabótum út í alla kima þjóðlífsins, - hliðstætt því sem gerðist við EES-samninginn. Ég velkist ekki í vafa um að framganga hans nú helgast aðeins af hugsjón og eldmóði manns sem telur skyldu sína að láta til sín taka fyrir góðan málstað.

Jón Baldvin á glæsilegan stjórnmálaferil að baki og gæti þess vegna ornað sér við afrek sín frá fyrri árum. Hann þarf ekkert á því að halda að fara fram eða láta til sín taka til þess að öðlast vegtyllur. Ég er ekki í minnsta vafa um það að hann gerir þetta af köllun, hann skynjar kall síns tíma og kennir til í stormum sinnar tíðar.  

Þess vegna virðist hann reiðubúinn til að styðja nýtt umhverfisframboð sýnist honum það geta skipt sköpun um nauðsynlegar breytingar í næstu kosningum.

Á þessu stigi er í mínum huga aðeins hægt að segja þetta eitt um slíkt hugsanlegt framboð að því aðeins er hægt að fylkja slíku framboði inn á leikvöll stjórnmálanna að hvort tveggja sé tryggt:  

Annars vegar skýr hugsjónagrundvöllur til umbóta og nauðsynlegra breytinga, - og hins vegar getu til að framkvæma þessar hugsjónir. 

Strax sama kvöld og gangan mikla var farin í haust höfðu stjórnmálaforingjar samband við mig. Síðan þá hef ég hitt stjórnmálamenn úr öllum þremur stjórnarandstöðuflokkunum margsinnis og suma oftar en Jón Baldvin. Ævinlega var umræðuefnið það hvernig hægt yrði að fjölga grænum þingmönnum í næstu kosningum því upp úr kjörkössunum sprettur valdið sem ógnar mestu verðmætum Íslands.

Nú hefur Frjálslyndi flokkurinn gengið til liðs við stóriðjuflokkana og þar með er úr sögunni von um það hann gæti orðið umhverfisafl hægra megin við Samfylkinguna, svo að ekki þurfi að fjölga framboðum. Þess vegna er sú staða komin upp sem nú blasir við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Sú breyting sem við þurfum að fá fram í umræðunni svo hún verði vitræn og málefnaleg er tvíhliða :  

A) Er það virkilega möguleiki að skyndilega sitjum við íslendingar uppi með það að einhver einstaklingur hafi fengið gefins öll vatnsréttindi í Þjórsá, gufuaflsréttindin á Reykjanesi, Langasjóinn eða öll orkuréttindi á Torfajökulssvæðinu?  Eru stjórnmálamenn að leiða okkur í samskonar vegferð með orkuréttindin og þeir gerðumeð fiskinn í sjónum?  Er skilið nægjanlega vel á milli verðmats á réttindum og kostnaðar við virkjanir?

Ein af ástæðunum fyrir mikilli raforkueftirspurn til álframleiðslu hér á landi síðustu ár er, sé litið til þess sem fram kom fyrr í vetur um orkuverð til ALCOA í Suður-Ameríku, að virkjanaréttindin hafi ekki verið réttilega metin til fjár.

B) Hin spurningin er sú ætlun við núlifandi íslendingar að klára það verkefni að virkja. Til þess að geta og nýta þá orku þurfum við að flytja inn erlent vinnuafl svo tugþúsundum skiptir. Við keyrum efnahagskerfi landsins áfram á yfirdampi til þess að seinka timburmönnunum, möo við sendum timburmennina fram í tíman til næstu kynslóðar.

Guðmundur Gunnarsson, 30.1.2007 kl. 11:49

2 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Til þess að breyta þessu ástandi verðum við að skipta um ríkistjórn.  Það er ekki einfaldara en það.

Áslaug Sigurjónsdóttir, 30.1.2007 kl. 13:12

3 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég skil vel þau sjónarmið er snúa að þessu fyrirhugaða framboði Ómars o.fl Hins vegar held ég að þessi framboð sem koma til með að bætast við þau 5 sem fyrir voru verði öll eingöngu vatn á myllu stjórnarninnar þar sem atkvæði þeirra sem vilja fella stjórnina dreifast meir en ella og því minnka líkurnar á að skipt verði um stjórn í vor með fleiri framboðum. Því miður  Ég hvet Ómar og félaga til að skoða stuðning við Samfylkinguna á breiðari grunni og auka þar með líkur á að stjórnin verði lögð að velli í vor. Annars held ég að nú hlakki í Jóni Sig og Geir harða í öllu þessu umróti.

Eggert Hjelm Herbertsson, 30.1.2007 kl. 16:06

4 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Mér finnst alltaf eitthvað borgið við þá skoðun að ný framboð taki frá stjórnarandstöðu eingöngu og styrki þar með stjórn. Ég tel alveg eins líklegt að ný framboð geti tekið af fylgi stjórnarflokkanna og þannig orðið þeim að falli. Það á frekar að hvetja til þess, en letja, að menn finni skoðunum sínum sem hreinastan farveg og gefi ekki eftir hugsjónir sínar til þess að vera samferða þeim sem hugsanlega hafa svo ekki getu eða dug til þess að vinna að heilindum að þeim málum er viðkomandi vill standa fyrir.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 30.1.2007 kl. 16:11

5 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæll Ómar, ég er ansi hræddur um að framboð Framtíaðarlandsins komi núverandi stjórnarflokkum best. Nema þið fáið eintóma yfirlýsta Sjálfstæðisflokksmenn sem auk þess eru umhverfisverndarsinnar, á listann. En ég held að þeir séu bara ekki nógu margir. Fyrir þá sem átta sig á því að umhverfismálin eru þau mál sem munu skipta mestu máli ætti að vera auðvelt að kjósa Vinstri græn. Þannig getum við breytt til hins betra í vor. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 30.1.2007 kl. 16:37

6 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það væri furðulegt ef sá flokkur sem inniheldur um 40% landsmanna hafi ekki á að skipa nægilega miklu magni kjósenda sem er bæði þenkjandi til hægri og vill græna stefnu. Það er hins vegar erfitt fyrir þennan hóp að kjósa VG.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 30.1.2007 kl. 16:50

7 identicon

Af hverju ættu þeir ekki að geta kosið VG? Sjálf tók ég U-beygju í síðustu kosningum, sem og í síðustu kosningum til bæjarstjórnar í mínu bæjarfélagi, einmitt vegna umhverfissjónarmiða.  Hins vegar vil ég kynna mér betur það sem Framtíðarlandið mun standa fyrir,en eiga þeir ekki samleið með VG? Og ef svo er ekki, hvað skilur þá á milli?

Hafnfirðingur (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 18:23

8 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég held því miður að nýtt framboð eins og framboð umhverfissinna eða Framtíðarlandsins myndi fyrst og fremst taka fylgi frá stjórnarandstöðunni. Hvers vegna? Jú, þeir sem eru óánægðir með núverandi stjórn eru líklegastir til þess að kjósa ný framboð - fólk sem annars hefði kosið einhvern af stjórnarandstöðuflokkunum. Þeir sem eru ánægðir með stjórnina kjósa hana áfram. Það eru fjölmargir umhverfissinnar innan Samfylkingarinnar ekki síður en VG. Þeir umhverfissinnar sem ekki geta hugsað sér að kjósa VG hljóta að geta kosið Samfylkinguna. Það væri nær að styrkja þá stjórnarandstöðuflokka sem fyrir eru, heldur en að koma fram með enn eitt framboðið sem gerir ekki annað en að styrkja núverandi stjórn.

Svala Jónsdóttir, 30.1.2007 kl. 19:10

9 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það eru nú einhverjir sem styðja frekar stjórnina en að kjósa til vinstri, en myndu hugsalega kjósa með náttúrunni ef það væri kostur að gera það ásamt því að vera hægra megin við miðju varðandi önnur mál.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 30.1.2007 kl. 21:41

10 identicon

Er það það sem Jón Baldvin vantar, umhverfisafl hægra megin við Samfylkinguna? Nú er ég hætt að skilja.

Svanfríður Jónasdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 23:31

11 identicon

Heil og sæl, ágæti Svarfdæli; Svanfríður, og þið öll !

Svo mjög, kann fimbulfamb Samfylkingarinnar að ganga fram af Jóni Baldvin, og hans ryckti, að hann vilji leita allra vitrænna leiða, úr því; sem komið er, til þess að afþakka leiðsögn stórfrænku minnar, hinnar ágætu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og hennar knecktis alls, eða hvað hyggur þú vera munu, frú Svanfríður; þar um ?

Með beztu kveðjum, úr Sunnlendinga fjórðungi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 00:40

12 identicon

Ég tel það eina rétta í stöðunni í dag, að Ómar og Framtíðarlandið stofni til framboðs, og ekki væri það verra að fá, Jón Baldvin í hópinn. Ég sé það að hugsuðu máli, að ætla að ganga til liðs við stjórnarandstöðuflokkana, yrði Ómari og co verri kosturinn. Því hann yrði fljótt bundinn á flokkaklafana. En með sérframboði myndi Ómar vera óbundinn í því að sannfæra þjóðina um nauðsyn þess að virða og elska landið okkar Ísland, með því að halda því eins óspilltu og hægt er.

Svo er annað sem mælir með sérframboði. Því það myndi vera hreinn prófsteinn á það, hvar í raun þjóðin stendur í afstöðu sinni til umhverfismála. Hvort hún vill hreint land fagurt land og framtíð fyrir börnin, eða hvort henni er bara sama, þótt landinu sé sökkt og andrúmsloftið mengað. Kannski verður þetta eins og með kvótakerfið, þar sem flestir sem maður talar við, segjast vera á móti því, að menn geti selt og leigt fiskinn í sjónum, sem samkvæmt Stjórnarskránni, er eign þjóðarinnar. En er svo alveg sama þegar að kosningum kemur, með því að kjósa þá flokka, aftur og aftur,  til að stjórna landinu, sem vilja viðhalda kerfinu.

Janus Hafsteinn Engilbertsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 01:28

13 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég man eftir þættinum "Í vikulokin" í útvarpinu (rás 1) fyrir nokkrum árum þar sem mætt voru Brynhildur Þórarinsdóttir,Einar Kárason og Jón Baldvin.  Brynhildur sagði eitthvað sem ég man ekki, Einar minntist á framfarir og Jón Baldvin sagði : "Mér finnst nú lón vera falleg".  Svo spurði stjórnandinn, Þorfinnur : "En er þetta hagkvæmt ?"  Eftir smá þögn kom svarið : "Ég er krati".  Þar með var ekki meira sagt í þættinum um það mál og farið í önnur.  Hvað skyldi þetta hafa þýtt hjá Jóni, að vera krati ?

Pétur Þorleifsson , 31.1.2007 kl. 04:26

14 Smámynd: Pétur Þorleifsson

(Vantaði setningu númer 2 í síðasta innlegg : Talið barst að Kárahnjúkavirkjun.)

Pétur Þorleifsson , 31.1.2007 kl. 05:13

15 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Hvaða heimild hefur Framtíðarlandið til þess að stofna til framboðs? Hefur þetta félag haldið aðalfund? Er núverandi stjórn ekki aðeins til bráðabirgða, þar sem hún var aldrei kjörin formlega?

Ég er félagsmaður í þessu félagi og ekki hef ég verið spurð að því hvort að ég styðji framboð (sem ég geri alls ekki). Ég veit heldur ekki til þess að aðrir í hópi rúmlega 2000 félagsmanna hafi verið spurðir, en margir þeirra eru skráðir í aðra flokka. Þegar Framtíðarlandið var stofnað var talað um þverpólitískan félagsskap. Flokksstofnun eða framboð er í algerri andstöðu við upphafleg markmið félagsins.

Svala Jónsdóttir, 2.2.2007 kl. 00:36

16 identicon

Iceland is one of the few countries left in the world that can still boast about extraordinary beautiful and unspoiled nature.  Putting down aluminum factories as planned, now and in the future, is destined to ruin Iceland’s reputation as the one of the few and clean places to go to and enjoy, apart from  all the pollution it will cause in air, water and ocean around Iceland. Income and jobs based on tourism alone could easily supersede any economical benefits from ALCAO plans. Try to market Miss Iceland / Miss World with an ugly tattoo on her face. Icelanders should indict those responsible for deceiving the nation with false information about the consequences. Icelanders have the rights to protect themselves from corrupt Politicians and Industrialists and their lobbyists. Let us all support Omar Ragnarsson and his NOBLE cause in protecting the countries most valuable assets. The unpolluted Land of Ice and Fire.  All my family and kids support Omar Ragnarsson in his quest for saving the nature. Thor Daniel HjaltasonLaura HjaltasonKolbeinn ThorgeirssonTomas ThorgeirssonThorunn ThorgeirsdottirThorina Gabriella HjaltasonThorunn JuliusdottirHjalti Thorgeirsson 

thor daniel hjaltason (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband