24.11.2010 | 09:22
(Fb. 9365) "Ekkert fær staðist..."
Það er gróin hefð fyrir því að sjóði upp úr í einstaka vinnustaðasamkomum hér á landi.
(Það sauð þó ekki uppúr partýinu eins og sagt er í tengdri frétt á mbl.is, heldur sauð upp úr í því)
Eitt af mörgum svona atvikum í skemmtanasögu landsins komst í fréttir fyrir meira en áratug þegar mikil átök urðu á skemmtun björgunarsveitarmanna sem haldið var á Nesjavöllum svo að kalla varð lögreglu til ef ég man rétt og urðu af þessu talsverð eftirmál.
Hér í gamla daga skemmti ég árlega á árshátíð prentsmiðjunnar Eddu, en sú prentsmiðja prentaði dagblaðið Tímann.
Á einni árshátíðinni urðu óvenju margir mjög ölvaðir og bar þá svo við að ritstjóranum sýndist einn prentaranna gera sér full dælt við eiginkonu sína og skarst í leikinn.
Kom til átaka á milli þeirra sem fóru alveg úr böndunum og lauk þeim þannig að ritstjórinn sá ekkert annað ráð til bjargar sér en það, að hann beit prentarann í lærið.
Fyrir hverja árshátíð var gefið út sérstakt blað starfsmanna sem var dreift á árshátíðinni og hét "Hálftíminn".
Þetta var stórskemmtilegt blað því að þar létu menn þar gamminn geysa í miklu gríni um það helsta sem hafði borið við á árinu á undan.
Ári eftir að ritstjórinn beit prentarann var úr vöndu að ráða, því að þetta atvik hafði verið það, sem var einna fréttnæmast á því ári innan fyrirtækisins. Þótti mönnum sýnt að yfirstjórn blaðsins og prentsmiðjunnar myndi ekki verða skemmt yfir slíkri umfjöllun og gætu frekari eftirmál hlotist af.
Loks duttu menn þó niður á lausn, sem gerði málinu skil, án þess að áberandi væri.
Í hverjum Hálftíma var dálkur undir nafninu "Málshættir og orðtök" og inn í þann dálk var laumað sakleysislegu máltæki: "Ekkert fær staðist Tímans tönn."
Taldist máli þessu þar með endanlega lokið.
Sauð upp úr starfsmannapartýi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
haha gott að geta lent málum svona
Jón Snæbjörnsson, 24.11.2010 kl. 09:58
Stjórinn þar í starfsmann tók.
Strákur beit í lærið.
Stelpurnar í stórum hóp
störðu á fyrirbærið.
Sæmundur Bjarnason, 24.11.2010 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.