Misskilningur á kreiki varðandi tölurnar.

Ég sé á blogginu í dag miklar vangaveltur á kreiki hjá einstaka bloggara um úrslit Stjórnlagaþingkosninganna og það sem framundan er.

Eitt af umræðuefnunum er það að ekki hafi verið gefið upp nema það, hve mörg atkvæði hver fulltrúi fékk í 1. sæti. Var rætt um þetta á Bylgjunni í morgun. Á blogginu má lesa að þetta sé tortryggilegt. 

En þetta er ekki rétt. Ég var að vísu ekki í Laugardalshöll þegar úrslitin voru kynnt og það var ekki fyrr en ég kom í viðtal upp á Rás 2 sem ég sá lista, sem landskjörstjórn hafði birt og afhent, þar sem fulltrúum var raðað í stafrófsröð og fyrir aftan þá nokkrir talnalistar þar sem kynna mátti sér þær tölur sem lágu til grundvallar úrskurði kjörstjórnar. 

Á einum listanum rétt hægra megin við miðju var gefið upp hvað hver frambjóðandi fékk mörg atkvæði í 1. sæti, en Þorkell Helgason, sem þarna var og er einhver fróðasti kunnáttumaður um kosningar hér á landi, gaf aðspurður upp röðina, sem var aftast á listanum, en þar er tekið tillit til fleiri atriða en fylgis í 1. sætið. 

Þessi röð var sáralítið frábrugðin röðinni gagnvart fylgi í 1. sætið. Þarna kom það fram að ég hefði verið í 2. sæti, rétt á undan Salvöru Nordal. 

Þegar ég síðan kom niður á Bylgju í viðtal, strax á eftir, voru menn þar með röðina varðandi atkvæði í 1. sæti og þá var ég í þriðja sæti, rétt á eftir Salvöru Nordal. 

Allir fjölmiðlarnir nema Síðdegisútvarp rásar tvö voru með þessa tölu og þessa röð og því var fólki kannski vorkunn að halda að kjörstjórn hefði aðeins gefið hana upp. 

Mér finnst óþarfi að fara að gera þetta að einhverju stórmáli nú og jafnvel að reyna að gera störf landskjörstjórnar tortryggileg. 

Á Stjórnlagaþingi verða allir fulltrúar jafnir og þeir ekki kynntir eins og Alþingismenn, þar sem einn er kynntur sem 1. þingmaður kjördæmisins og síðan koll af kolli. 


mbl.is Íris Lind var næst inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg rétt hjá þér. Ég lá (því miður) yfir niðurstöðum kosninganna í gærkvöldi og þú varst annar inn, Salvör þriðja, þrátt fyrir að hafa vissulega fengið fleiri atvkæði í 1. sæti.

Bjarni Ben (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 12:57

2 identicon

Til lukku með að hafa komist inn, okkur veitir ekki af góðum mönnum!!!

doctore (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 13:01

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Til hamingju með nýja "embættið", Ómar!

Verst hversu margir virðast ofmeta vald stjórnlagaþingsins. Það er hætt við að einhverjir verði fyrir vonbrigðum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.12.2010 kl. 15:57

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Margir voru kallaðir, en fáir útvaldir. Flestir mæta með uppbrettar ermar og segja: "Nú skal taka á því!"

Mér líst ekki á þá nálgun á verkefnið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.12.2010 kl. 16:02

5 Smámynd: Gunnar Waage

Til hamingju Ómar, ég er mjög ánægður með að þú verðir þarna inni, eins er Þorkell Helgason afburðamaður eins og reyndar allt það fólk.

Ég vona að þú standir vörð um þau réttindi sem við höfum er varða langrunnið umhverfis landið. Hafréttarsamningurinn er gríðarlega mikilvægur Íslendingum og má aldrei selja eða leigja okkar strandríkisréttindi.

Gunnar Waage, 1.12.2010 kl. 16:31

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka ykkur fyrir. Ég vona að ég geti staðið við það að nálgast verkefnið af varfærni og virðingu fyrir öllum sjónarmiðum.

Dæmi um það eru bæði skrif mín á blogginu fyrir kosningarnar og greinargerð mín til kjörstjórnar þar sem til dæmis er mér ofarlega í huga að ekki verði gengið á rétt einstakra landshluta þótt sniðnir séu af slæmir vankantar á núverandi kjördæmaskipan. 

Ég tel mig jafn mikinnn landsbyggðarmann og þéttbýlisbúa eins og sést af ferli mínum og ævistarfi. Ég hlaut mikilsverðan hluta af uppeldi mínu og lífsviðhorfum í sveitinni í gamla daga og síðan í ferðum mínum í landið sem skemmtikraftur og sjónvarpsmaður. 

Að því leyti til er ég allt eins fulltrúi Húnvetninga og Akureyringa eins og Reykvíkinga. 

Ómar Ragnarsson, 1.12.2010 kl. 16:37

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það ber að birta allar niðurstöðutölur. Þetta voru opinberar kosningar, og þetta eru opinber gögn, sem upplýsingaskylda stjórnvalda hlýtur að taka til. Listinn yfir 26. sæti og nokkur áfram, sem sjá má í Mbl.is-fréttinni, virðist hinn sami og sjá má í hæpinni bloggfærslu á netinu. Við þurfum áreiðanlegar tölur "straight from the horse's mouth."

Menn þurfa að taka sér tak og birta þessar tölur allar eins og þær voru í reynd. Tölvutalning þeirra á þegar að liggja fyrir. Varla vill landskjörstjórn leyna landsmenn upplýsingum?!

Jón Valur Jensson, 1.12.2010 kl. 16:56

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á tölvuöld á að vera auðvelt að birta öll gögn, þótt þau séu mikil að vöxtum.

Ómar Ragnarsson, 1.12.2010 kl. 21:41

9 Smámynd: Pétur Óli Jónsson

Til hamingju Ómar, þetta voru góð úrslit fyrir þig. En þó voru þessi úrslit mun betri fyrir þjóðina í heild.

Sú staðreynd að þú fáir svona góða kosningu er staðfesting á því að þjóðin vill auka veg umhverfismála.

Það má alltaf deila um hversu langt kjósendur vilja ganga í þeim efnum, en ég held að það sé nokkuð ljóst að kjósendur vilja vernd auðlinda.

Framkvæmd og reglur þessara kosninga hefði mátt vera betri. En ég held að það hafi flækt málin að velja 25menn en þó greiða bara eitt atkvæði. Eins voru það mikil mistök að hafa kosningarnar ekki í tölvu. En ég efast ekki um framkvæmd talningarinnar, eða um kosningaúrslitin.

Gangi þér vel Ômar.

Pétur Óli Jónsson, 1.12.2010 kl. 22:30

10 identicon

Já, það er margt ruglandi vegna lélegrar framsetningu á niðurstöðum frá kjörstjórn. Það hefði mátt birta heildarlista atkvæða. Hvað hver fékk mörg atkvæði í hverju valsæti. Kjósendur eiga skilið að það sé gert grein fyrir hverju atkvæði/atkvæðisbroti.

Þá væri einnig fróðlegt að fá talningu ef allir hefðu haft 25 atkvæði, þ.e. ef hver vallína hefði verið heilt atkvæði.

En við fengum þó góðan lista yfir atkvæðin í fyrsta vali. Hann var þó aðeins birtur í stafrófsröð. En ég tók hann og raðaði í röð eftir fjölda atkvæða, allt frá 1. niður í 522. sæti. Ég hef hvergi annar staðar séð þann heildarlista.

Listann og fleiri pælingar (t.d. um hversu lítið forgangsröðin breytti) frá mér má sjá hér:  http://gulli.is/2010/11/30/rod-og-umbod-theirra-sem-nadu-kjori/

gulli.is (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 23:14

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tölur Gulla þessa tel ég alls ekki áreiðanlegar, ég hef þegar sett inn athugasemd þess efnis á vefsíðu hans.

Jón Valur Jensson, 2.12.2010 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband