Mannauðurinn og einstæð náttúra.

Tvær mestu auðlindir Íslands eru mannauðurinn og einstæð íslensk náttúra. Í órofa sambandi við mannauðinn er íslensk tunga sem grundvöllur íslenskrar menningar.

Dagur íslenskrar tungu er dagur íslenskrar menningar og mannauðs sem mynda grundvöll velferðar og virðingar okkar sem þjóðar. Ef við kunnum vel með þetta að fara mun okkur vegna vel.

Þess vegna skiptir það máli hve vel íslensk skólabörn standa sig í lesskilningi, stærðfræði og fleiri greinum.

Einstæð náttúra og meðferð hennar er annar hornsteinn heiðurs og virðingar okkar sem sem þjóðar og vörslumanna þess mikla auðs fyrir hönd mannkyns alls.

Ef við skoðum til hlítar meðferð okkar á þessu mikla verðmæti er ekki víst að við stefnum í það að vera fyrir ofan meðallag meðal þjóðanna. 

Við höfum lengi gert okkur grein fyrir gildi íslenskrar tungu og menningar og reynt að standa okkur í því efni. Meðal annars þess vegna höfum við haft dag íslenskrar tungu. 

Það segir sína sögu um það hve andvaralaus við höfum verið gagnvart hinum hornsteini virðingar okkar og orðstirs að fyrst nú skuli hafa verið ákveðið að hafa í fyrsta sinn á næsta ári dag íslenskrar náttúru. 

Land, tunga og þjóð mynda þá undirstöðu "gróandi þjóðlífs sem þroskast á Guðsríkis braut" eins og skáldið sagði.

 P.S. Nú heyri ég í sjónvarpsfréttum að íslensku skólabörnin séu neðarlega hvað snertir þekkingu og skilning á náttúrunni og umhverfismálum. Það rímar við það sem ég segi hér að ofan varðandi meðferð okkar á þessum mestu verðmætum Íslands. 


mbl.is Ísland í 10.-11. sæti í PISA-rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég, ungur framhaldsskólanemi, verð að segja að námsefni í íslensku bæði á grunn- og framhaldsskólastigi er ábótavant. Það þarf að draga aðeins úr íhaldssemi fagsins og koma því í meira spennandi búning en nú. Mér finnst leiðinlegt að viðurkenna það sem dyggur unnandi íslenskrar tungu að mér dauðleiðist íslenska í framhaldsskóla. Áhuginn á málvísindum og málfræði kviknaði hjá mér þegar ég skoðaði Wikipedia-færslur á ensku um hljóðfræði og málsögu. Fyrir vikið fór ég að kynna mér efnið nánar á íslensku og fékk í afmælisgjöf ritsafnið Íslensk tunga. Þegar ég gluggaði í gegnum þennan heillandi fróðleik vaknaði akademískur áhugi sem menntakerfið hafði aldrei vakið hjá mér.

Það mætti gera mun meiri kröfur til móðurmálskennslu í skólum. Ég skil ekki af hverju krökkum eru ekki kenndar fornbókmenntir strax í 4. og 5. bekkjum grunnskóla. Það eru til teiknimyndasögur úr Njálu sem hægt væri að styðjast við. Sömuleiðis mættu íhaldsseggir byrja að heyja verðugri baráttur en þá eilífu gegn þágufallssýki og minniháttar slettum. Framburður íslensku tekur örum breytingum og byrjað er að mótast í auknum mæli fyrir svokölluðum félagslegum mállýskum í samfélaginu. Fólk á milli tvítugs og þrítugs af lægri stéttum skilur jafnvel ekki formlegt hjal háskólamenntaðs fólks á Gufunni, hvað þá Njálu. 

Það sem ég er að segja er að það vantar nokkurn veginn það element í móðurmálskennslu á Íslandi að kveikja áhugann á móðurmálinu. Krakkar heillast strax á unga aldri af stærðfræði, sögu og náttúrufræði, en það heyrir til undantekninga að barn sé áhugasamt um móðurmálið. Raunar er enska talsvert algengara hobbý en íslenska. 

Að lokum er vert að minnast á þá sókn sem íslenska hefur verið í "eftir hrun". Þegar hvítflibbaglæpahrina íslenskra bankamanna var í algleymingi poppaði oft upp umræðan um það að skipta íslensku út fyrir ensku á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Enska var í mörgum fyrirtækjum og bönkum aðalsamskiptamál innanhúss og í mörgum skorum háskóla var kennt nánast einvörðungu á ensku. Þessi umræða er með öllu dauð. Sem betur fer. 

Almar (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband