Hvenær verður tékkað á stefnuljósunum?

Það er af hinu góða að lögreglan taki stikkprufu á ökuhraða og sekti menn fyrir of hraðan akstur. Það er til umhugsunar og aðvörunar fyrir ökumenn.

En það er hægt að valda óöryggi, hættu og töfum í umferðinni á fleiri vegu en með of hröðum akstri. 

Einkum er ónóg notkun stefnuljósa áberandi og hvers kyns tillitsleysi, til dæmis með því að tefja fyrir umferð fyrir aftan sig með óþarfa seinlæti þannig að bílar komist seint og illa áfram á beygjuljósum. 

Einnig að stöðva bíla sína þannig hægra megin út við gangstétt þegar þeir ætla til vinstri á gatnamótum, að bílar sem ætla til hægri, komast ekki framhjá inn á auða götuna þeim megin. 

Ökumenn sem koma niður Fellsmúla og ætla til hægri inn á Grensásveg gefa til dæmis yfirleitt ekki stefnuljós og stöðva þannig að óþörfu alla umferð neðan úr Skeifuhverfinu inn á Grensásveg til suðurs. 

Svipað má sjá á mörgum T-gatnamótum borgarinnar og gott dæmi um skort á notkun stefnuljósa eru öngþveiti og tafir sem verða oft á mótum Skipholts og Háaleitisbrautar.

Ég skora á lögregluna að taka til hendi í þessum málum. Það getur hún gert með því að nota tvö eða fleiri lögreglubía og hafa einn þeirra vopnaðan myndavél til þess að hægt sé að hafa hendur í hári þeirra brotlegu þótt síðar verði eða ekki hægt að gera það fyrr en talsvert eftir að þeir eru komnir áfram í átt frá gatnamótunum.

Í umferðarlögum er ákvæði sem skylda ökumenn til að haga akstri sínum þannig að það skapi sem öruggasta og greiðasta umferð. Ekkert ákvæði íslenskrar umferðarlaga hefur verið eins oft og almennt brotið og þetta í bráðum heila öld.  

Það versta við þessa hegðun er sú að þegar umferðin er tekin sem heild þá tapa allir á þessu, líka þeir sem halda á því augnabliki, sem þeir hegða sér svona, að þeir séu einir í umferðinni. 


mbl.is Fimmtungur ók of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er tvennt annað sem fer verulega í pirrurnar á mér en það eru bílstjórar sem tilla vinstri fæti alltaf aðeins á bremsur þannig að bremsuljósin loga stöðugt og svo þegar fólk stoppar til að bíða eftir umferð þegar það á greiða götu fyrir framan sig óháð umferð sem kemur að gatnamótunum þetta á til dæmis við þar sem miklabraut fer á afrein inn á trúlega Réttarholtsveg í norður þar eru ótrúlega margir sem stoppa þó að þeir eigi akreinina fyrir sig.

Ólafur Helgason (IP-tala skráð) 7.12.2010 kl. 19:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ástæðan fyrir því að bílstjórar stoppa og hika er sú að það óöryggi sem hegðun of marga skapar í umferðinni. Smám saman lærir fólk að treysta engu vegna þess hve almenn slæm hegðun er í íslenskri umferð.

Ég hef áður lýst því hvernig ég mátti þakka fyrir að vera ekki drepinn þegar ég neyddist til að stoppa á enda langrar aðreinar inn á Miklubraut til austur frá Réttarholtsvegi, vegna þess að enginn vildi hleypa mér inn á Miklubrautina eins og þó er skylda og alls staðar tíðkað undanbragðalaust nema bara hér á landi. 

Skömm seinna kom stór amerískur bíll eftir aðreininni og konan, sem hafði búið lengi erlendis, hélt að hér gilti það sama og í öðrum löndum, að bílarnir blönduðust saman líkt og "tannhjól" eða rennilás. 

Þegar enginn vildi hleypa henni inn á brautina og jafnvel gáfu í til þess að koma í veg fyrir að hún kæmist inn í umferðina, fór hún að veifa út um gluggann vegna þess að hún hélt að stefnuljósin sín hlytu að vera biluð. 

Þetta séríslenska ástand kom henni alveg í opna skjöldu og það endaði með því að hún ók aftan á mig kyrrstæðan á 60 kílómetra hraða og henti bílnum, sem ég var á, 15 metra áfram! 

Ég kengbeygði stýrið með höndunum og ökumannsstóllinnn bognaði aftur á við. 

Mér varð til lífs að vera í þetta skipti á bíl konum minnar sem var að vísu minnsti bíllinn, sem þá var fluttur inn til landsins en mun betur byggður út frá öryggissjónarmiðum en örbíllinn minn. 

Ef ég hefði verið á gamla, litla bílnum mínum, hefði sætið brotnað og ég kastast út um afturgluggann. 

Þetta atvik fékk mig til þess að hugsa um það hve hættuleg hin þjösnalega og tillitslausa hegðun, sem viðgengst í íslenskri umferð, getur verið hættuleg. 

Ómar Ragnarsson, 7.12.2010 kl. 20:07

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið að orðið "hættuleg" er óvart tvítekið hér að ofan. En kannski ekki að ástæðulausu.

Ómar Ragnarsson, 7.12.2010 kl. 20:10

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Það mætti líka huga að aðalljósum bifreiða, það virðist annar hver bíll vera með vanstillt ljós, sem er mjög óþægilegt sérstaklega úti á þjóðvegunum. Þetta helst í hendur við kreppuna, menn eru að skipta um perur sjálfir með misjöfnum árangri.

Eyjólfur G Svavarsson, 7.12.2010 kl. 21:11

5 identicon

Orð í tíma töluð. Um það bil helmingur ökumanna telur enga ástæðu til gefa stefnuljós.  Tíundi hver  talar í síma undir stýri.   Símamennirnir gefa yfirleitt aldrei  stefnuljós, -  líta  svo að það komi engum við  hvert þeir ætla.

Eiður (IP-tala skráð) 7.12.2010 kl. 23:19

6 identicon

Vinkona mín var einu sinni stoppuð af lögreglunni, hún vissi ekki hvers vegna fyrr en lögreglumaðurinn teygði sig inní bílinn hennar og kveikti á stefnuljósinu og bað hana vinsamlegast um að nota þau.

Eftir það hefur hún passað sig á þessu :) 

Kristín Eva (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 13:15

7 identicon

Ég tek undir hvert einasta orð í þessari bloggfærslu þinni Ómar. Maður reynir að láta umferðarósiði landans ekki fara of mikið í taugarnar á sér en flesta daga er það einfaldlega ekki hægt - tillitsleysið er svo yfirgengilegt. Ég veit um indælis fólk, vini mína og aðra, sem breytist í einhverjar allt aðrar týpur þegar það sest undir stýri. Ég veit ekki  hver skýringin er. Hvort fólk er svona gjörsamlega "úti að aka" - þ.e. sé algjörlega hugsunarlaust þegar út í umferðina er komið - eða hvort það fær útrás fyrir einhverjar "ég er kóngur í ríki mínu" hugsanir. Ég hallast helst að því að greindarvísitala um 95% Íslendinga lækki um 70-80 stig þegar það sest undir stýri. Það er sú skýring sem mér finnst nærtækust.

Ragnheiður (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 16:29

8 identicon

Réttmætar athugasemdir hjá þér og öðrum. Ég man eftir því að fyrir 10-15 árum var nokkuð vitnað til sænskrar könnunar sem sýndi fram á að sterk fylgni var á milli greindar fólks og stefnuljósanotkunar. Getur Umferðarstofa ekki dregið hana aftur fram í dagsljósið?

Ég verð að viðurkenna að maður hugaði enn betur að stefnuljósunum eftir að hafa lesið um þessa könnun á sínum tíma!

Annars er vandamálið að löggan er sofandi alla daga. Lítið sem ekkert umferðareftirlit fer fram annars staðar en við skrifborðin á lögreglustöðinni og aldrei tekið á þeim sem nota ekki stefnuljós, leggja bílunum sínum með fullum ljósum á röngum vegarhelmingi, leggja við brunahana, fara yfir eftir að grænt ljós er komið á hina akstursstefnuna o.s.frv. Það er eins og lögregluyfirvöld viti ekki að fyrir þessa hluti er hægt að innheimta háar sektir. Sum okkar læra ekki af neinu öðru.

Pétur (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband