8.12.2010 | 00:05
Hafísinn er alltaf hættulegur.
Hafísinn er alltaf varasamur og hættulegur fyrir skip. Aðal áhyggjuefnið nú gæti verið að verði suðvestan- og vestlægar áttir, sem sækja munu að á næstu dögum langvarandi muni þær hrekja ísinn til austurs og nær landi.
Ég hef einu sinni flogið á FRÚ-nni að Grænlandsströnd skemmstu leið yfir sundið þar sem það er aðeins 285 kílómetra breitt. Þetta var í miðjum nóvember árið 2000.
Það þurfti að uppfylla ströng skilyrði Dana, svo sem að vera í björgunarvesti og hafa gúmmíbát um borð, vera með HF senditæki og fylgdarflugvél.
Ég var einn í FRÚ-nni en Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður var með flugmanni í fylgdarflugvélinni sem var alveg eins en með stærri eldsneytisgeyma.
Þegar komið var yfir ísinn á miðju sundinu kom í ljós að ekkert af þessu myndi hafa hin minnstu áhrif á það að ef það dræpist á hreyflinum á annarri hvorri flugvélinni vær þeir sem um borð væru í þeirri flugvél dauðans matur.
Ástæðan sést vel ef myndirnar, sem teknar voru af ísnum í gær, eru stækkaðar og skoðaðar vel.
Aðeins tveir möguleikar eru að nauðlenda á ísnum. 1. Í íshraflinu milli jakanna og fá ísklumpa í gegnum framrúðuna sem gæfi náðarhöggið.
2. Að lenda á jaka og fara út af brún hans og steyptast í íshraflið sem sömu afleiðingum og í 1.
Þegar ég var þarna á ferð var enginn borgarísjaki svo stór að lendingarbraut á honum væri nógu löng.
Eina vonin væri að finna borgarísjaka sem væri nógu rosalega stór og langur.
Engu máli myndi skipta þótt fylgdarflugvél væri á staðnum. Hún gæti að vísu tilkynnt um atvikið en flugvélin, sem lenti á íshraflinu væri löngu sokkin þegar hjálp bærist loksins.
Hreyfillinn í þessum flugvélum er af Lycoming-gerð og í aðstæðum sem þessum er aðeins ein bæn til fyrir flugmanninn: Nú er að treysta á Guð og Lycoming.
Hafísinn er alltaf hættulegur eins og Titanic-slysið og fleiri slík slys vitna best um.
Hann er enn og verður um sinn "landsins forni fjandi."
Íshellan hugsanlega hættuleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef þessi blessaða ríkisstjórn okkar verður langlíf, ... þá hirðir hún nafngiftina
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2010 kl. 01:04
Björgunarvesti í flugvélum eru sennilega jafn líkleg til björgunar og fallhlífar í skipum og því er það Tuðarakvikyndinu alveg hreint með öllu óskiljanlegt hvers vegna litlar flugvélar eins TF-FRÚ rnar þínar eru ekki skikkaðar til að vera útbúnar fallhlíf sem opna má fyrir flugvélina sjálfa og þannig lenda lóðrétt með lágmarkshraða og koma í veg fyrir náðarhögg gegnum framrúðuna. Þessi búnaður er jú til og var meira að segja talsvert kynntur á sínum tíma. Þekki vel til hafíssins á norðurslóðum og þar gildir að eiga ávallt tvennt nálægt sér. Góðan galla og riffil. Sýnist stefna í "slæman vetur hvað hafís varðar. Væntanlegt vestanskot í vindáttum mun sennilega gera þennan vetur erfiðan, hvað hafís varðar og ekki bætir nú úr skák að hér ríkir "tær vinstri stjórn". Hætt við að landanum verði óvenju kalt þetta árið. Gangi þér annars allt í haginn á Stjórnlagaþinginu og í öllum bænum láttu Þorvald ekki stela senunni.
Halldór Egill Guðnason, 8.12.2010 kl. 05:16
Er ekki Cirrus vélin með svona "ballistic" fallhlíf, svo og mörg fis? Gott ef ekki, sjá:
http://www.cirrusaircraft.com/parachute/default.aspx
Annars er kannski nær að flugmaðurinn sjálfur sé með fallhlíf, það er kannski betra að stýra sér nákvæmlega niður á jaka, - veit ekki hvort að hitt systemið býður upp á það.
Svo kemur smá saga:
Ég þekki gamlan jaxl sem var Wing-commander hjá Luftwaffe (NATO). Hann hafði heimsótt öll NATO ríkin nema Ísland, en hafði flogið hér með ströndum. Þá var hann á Tornado þotu og með fylgd sem var tankvél. Það þýddi að flugið sóttist hægt, og á leggnum Evrópa-USA þurfti hann að fylla 10 sinnum á. miðað var við að ef eitthvað færi úrskeiðis við áfyllingu (stífla, slit, bilun o.s.frv) þá ætti hann nóg eldsneyti til næsta flugvallar, og þess vegna fór hann hér með ströndum.
Sökum áhættu með hreyfilbilun eða þess háttar var kappinn látinn vera í hrikalegum gúmmígalla, sem átti að lengja lífslíkur hans í köldum sjó. Gallinn var óþægilegur mjög, og olli verulegu svitabaði. Hann spurði mig út í það hvort ég vissi um tilvik þar sem slíkir gallar hefðu bjargað flugmönnum og varð ég að svara neitandi. Þekkti nefnilega gamlan flugumferðarstjóra sem varð vitni að nokkrum stökkum/nauðlendingum á eftirlitsvélum á tímum kalda stríðsins. Hann sagði mér að í öllum tilvikum sem hann varð vitni að, hefðu flugmennirnir farist, ýmist drukknað, króknað, eða bara ekki fundist í tæka tíð.
En....þetta var ekki yfir ís. Og yfir alvöru ís frekar en einhverju Ölfusár-hröngli, eru lífslíkurnar e.t.v. betri en yfir pottþétt köldum og BLAUTUM sjó ;). Þ.e.a.s. fyrir fallhlífastökkvara.....
Ég á aðra sögu í sarpinum frá þessum ágæta flugsveitarforingja, - hún fylgir seinna ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 10:17
Ómar: Er það rétt sem ég heyrði eða las einhvern tíma að það hafi drepist á þessum mótor hjá þér á flugi einhvers staðar fyrir austan, aðeins örfáum dögum eftir þess ferð yfir Grænlandssundið, og þú þurft að lenda vélinni af þeim sökum? Eða er þetta bara þjóðsaga?
PS: Annars er mjög skemmtileg frásögn Jóhannessar Snorrasonar í ævisögu sinni (Skrifað í skýin) af því þegar hann lenti DC-3 á borgarísjaka sem hafði rekið suður á bóginn meðfram austurströnd Grænlands, en þá þessum ís voru Bandaríkjamenn með litla rannsóknarstöð.
Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 13:56
Sem lofað er kemur seinni sagan frá vinin mínum úr Bundesluftwaffe. Hann býr rétt hjá Bonn og ber eftirnafnið Göbel. Er á eftirlaunum og helgar sínu frístundastarfi hinu Þýska flugsögufélagi.
Ég sótti hann heim, og það var þá sem hann sagði mér af hinu svaðalega flugi yfir Atlantshaf, undir Íslands-strendur, innpakkaður í gúmmígalla. En hann átti meira Íslands-tengt í sarpinum, og skal ég hafa eftir söguna eins og hún kemur fram í minningunni. Nú gætu þó femínistar haft horn í síðu mér fyrir svona "Assange-style" tilburði, en vonandi er það sem innan gæsalappa er nógu torrætt til að tefja málið nógsamlega svo að lesist getið fyrir ritskoðun.
Hann spurði mig hvort ég þekkti nafnið á flugsveitinni sem væri á Keflavíkurflugvelli.
Ég taldi mig góðan. Stuttu áður hafði ég heimsótt þessa sveit, - þeir voru með F-15E vélar og "nafnið" var "The Gorillas". Svaraði ég því sem svo.
Hann hló við, og tjáði mér að allar flugsveitir á Keflavíkurflugvelli (það er skipt um, "róterað") væru kallaðar "The 60 dollar squadron".
Ég varð nú hálf aulalegur og spurði hvers vegna svo væri.
Sjáðu nú til, sagði kappinn. Ísland þykir vera frekar útnáralegur staður (Tote Ecke), og því fara þangað gjarnan orrustuflugmenn annað hvort einhleypir, eða skilja fjölskylduna eftir í þá mánuði sem þeir eru á staðnum. Enn náttúran er söm við sig, og það virðist oft bregða við að á skerinu eru kvenskörungar all-tilkippilegir. Og frjósamir eftir því.
60 dollarar voru viðmiðunartala fyrir lögbundið barnsmeðlag, og þar sem sú innheimta var furðu algeng, þá festist nafnið við flugsveitina sem var í Keflavík, sama hvaða annað heiti hún hafði.
Ég held að mér hafi aldrei áður tekist að bæði glotta og vera sauðslegur samtímis.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 23:18
Góð saga, Jón Logi
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2010 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.