31.1.2007 | 02:19
RÚNTUR OG RÝMISGJALD.
Á annarri bloggsíðu hér á mbl.is er mér borið eftirfarandi á brýn: Ekur um á reykspúandi bensínhákum. Stundar utanvegaakstur. Skemmir landið með þjöppun flugbrauta. Leggur til aukinn útblástur. Ekkert af þessu er rétt. Hér eru staðreyndirnar:
Fyrsti bíllinn minn var minnsti og sparneytnasti bíll á Íslandi og síðan hef ég alla tíð reynt að aka um á minnstu, sparneytnustu og ódýrustu bílum sem hægt er að finna. Um árabil hef ég ekið um á minnsta og sparneytnasta bíl sem völ er á á Íslandi: Daihatsu Cuore 1987.
Eins oft og ég get ek ég um hálendið á langminnsta, sparneytnasta og ódýrasta fjórhjóladrifsbíl sem hægt er að finna, Daihatsu Cuore 4x4 ´87.
Síðustu Vatnajökulsferð fór ég á Suzuki Fox, ´85, minnsta jöklabíl landsins, 920 kílóa bíl. Reyni að fara á honum allar jöklaferðir sem hægt er að fara á svo litlum bíl.
Ásakanir um utanvegaakstur eru fráleitar nema það teljist utanvegaakstur að aka á jökli.
Ég lenti á tveimur stöðum í lónstæði Hálslóns áður en dalnum og þar með flugbrautunum var sökkt í drullu. Norðan við Brúarjökul er lendingarstaður svipaður öðrum slíkum sem Flugmálastjórn hefur gert. Þessi lendingarstaður var tekinn út af fulltrúum Umhverfisstofnunar, Norður-Héraðs, Landsvirkjunar og Impregilo, enda er það öryggisatriði fyrir svæðið að geta lent á besta lendingarstað norðan Vatnajökuls.
Vegna frostlyftingar yfir veturinn er ekki hægt að sjá það á vorin að þarna sé lendingarstaður.
Að lokum útblásturinn og bensíneyðslan sem ég er skammaður fyrir með því að leggja til að fríska aðeins upp á rúntinn í Reykjavík. Þessi aukning á akstri um nokkrar götur er svo lítið brotabrot af þeirri sóun sem felst í því að snatta um og fara í og úr vinnu á núverandi bílaflota að það tekur því ekki að tala um rúntinn í því sambandi.
Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag. Með því að minnka þá eyðslu sem felst í daglega snattinu fengist vafalaust langt yfir 90 prósent af þeim sparnaði sem hægt er að fá á þessu sviði.
Ég er með róttækar tillögur um minnka sóunina vegna hins daglega snatts: Einskonar rýmisgjald sem skattleggur bíla eftir lengd. Meðallengd bíls er um 4,50 metrar. Smart er 2,5 metrar. Ef helmingurinn af bílaflotanum væri af þeirri lengd myndu losna 100 kílómetrar af malbiki á Miklubrautinni einni á hverjum degi! Og bensínsparnaðurinn yrði gríðarlegur.
Það er réttlátast að borgað sé fyrir afnot af malbiki í hlutfalli við það flatarmál sem notað er. Þetta myndi spara milljarða vegna umferðarmannvirkja. Það þarf ekki 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti. (Meðalfjöldi um borð í bíl er 1,1 ). Þaðan af síður þá 5,5 metra löngu 3ja tonna bíla sem maður sé þeytast um göturnar með einn mann hver.
Ég hef í nokkra áratugi dundað við að teikna bíl sem tekur tvo menn og er 2,5 metrar á lengd og 1,10 á breidd. Það er tæknilega mögulegt að framleiða slíkan bíl. Fjórir slíkir kæmust þversum í bílastæði þar sem einn kemst nú og hægt yrði að taka tveimur saman á akrein.
Ég legg til að Íslendingar taki forystu meðal þjóða um úrbætur og sparnað á þessum nótum með því láta gera módel af slíkum bíl og stokka upp bílagjöldin þannig að í staðinn fyrir rýmisgjaldið yrðu önnur gjöld á bílum lækkuð. Þegar á að spara á einhverju sviði næst mesti sparnaðurinn í hinni hversdagslegu og daglegu eyðslu.
Ef á að spara í matarkaupum yfir árið ráðast menn ekki fyrst á jólamatinn því hann er svo lítill hluti af þeim og jólasteikin er sálræn nauðsyn fólks til að gera sér dagamun.
Almennilegur rúntur í Reykjavík er tilbreyting í tilverunni en hið daglega snatt ekki. Úr því að möguleikarnir til umtalsverð sparnaðar liggja þar að auki nær allir í að draga úr kostnaði við þetta snatt er það leiðin til árangurs. Ekki að ráðast á örlítinn hluta akstursins sem skiptir engu máli miðað við heildina.
En nú spyrja menn: Hvað um fjölskylduna? Henni nægir ekki tveggja manna bíll. Jú, rétt er það, en þá kemur hugsanleg lausn á því. Meðalfjölskyldan á Íslandi á þegar tvo eða jafnvel þrjá bíla. Í þessu hugsanlega rýmisgjaldakerfi ættu menn kost á því að hafa innsiglaðan mæli í stóra bílnum sem grunn að því að borga rýmisgjaldið í hlutfalli við vegalengd sem ekin er.
Kerfið hvetur á jákvæðan hátt til sparnaðar. Litli bíllinn hefur yfirburði í þægindum í borgarakstri og ef einn maður þarf að skjótast til Akureyrar er það langódýrast á litla bílnum. Það geri ég alltaf ef mögulegt er.
En umfram allt næst fram sparnaður í gerð samgöngumannvirkja, eyðslu á eldsneyti og minni mengun.
Að lokum: Rýmisgjaldið kæmi í stað annarra gjalda á bíla sem yrðu lækkuð eða felld niður sem því næmi. Í Japan eru felld niður gjöld á bílum sem eru styttri en 3,40 og mjórri en 1,48. Hér á landi mætti byrja á því að leggja lengdargjald á hvern sentimetra sem bíllinn er lengri en 2,50. Smart-bíllinn yrði gjaldfrír og því hægt að kaupa hann en núna er hann of dýr.
Athugasemdir
takið strætó!
Bragi Einarsson, 31.1.2007 kl. 09:49
Kæri Ragnar. Ég reyni að hafa bloggið mitt ekki of langt og hefði kannski átt að hafa alla hugmyndina með í því, því ég var búinn að hugsa um þetta. Meðalfjölskyldan á fleiri en einn bíl og í minni framtíðarsýn fer fólk í vinnuna og í búð á litla bílnum (bílunum). Mun þægilegra að komast um í umferðinni.
Af stóra bílnum gefst fólki kostur á að greiða rýmisgjald eftir mæli, þ. e. kílómetragjald. Komið er kerfi þar sem fólk borgar fyrir afnot af malbiki og er réttlátt. Ef þú ætlar að skjótast einn í skottúr til Akureyrar ferðu jafnvel á litla bílnum á miklu ódýrari hátt en á þeim stóra.
Þannig er það langoftast hjá mér.
Umfram allt myndi svona kerfi leiða til stórminnkaðs kostnaðs og eldsneytissparnaðar.
Ómar Ragnarsson, 31.1.2007 kl. 10:58
no comment
Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:05
Það er varasamt að hætta sér út í ormagryfju stjórmálanna. Þar er engrar sanngirni gætt og ef menn koma fram með réttláta og hugsaða umræðu um grunnhagsmuni fólksins og það skyggir á málefni hinna, þá er öllum brögðum beitt til að kasta rýrð á viðkomandi. Tilgangurinn helgar meðalið.
Sting upp á að þú hugleiðir forsetaframboð. Bendi þér að lokum á innlegg mitt í umhverfisumræðinu á blogginu mínu undir titlinum: Vér Læmingjakyn.
Jón Steinar Ragnarsson, 31.1.2007 kl. 11:51
Ómar,
Er þetta eitthvað sem þú ert að spá í með bílahönnuninni:
http://www.archinode.com/Archcar.html
Guðjón Erlendsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 14:16
Fín hugmynd og fín grein. Kíktu á þetta ef þú hefur tíma.
http://njalli.blog.is/blog/njalli/entry/112784/
Njáll Ragnarsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 15:26
Takið reiðhjólið - og eða labbið og notið strætó !
<p>
<p>
Þú átt heiður skilinn fyrir mjög margt sem þú hefur gert, Ómar. Þjóðin er þakklát. En þetta með rúntinn.... Ég missti af þessu með að endurvekja rúntinn og hef því misst af rökin með þessu. Þú ber þetta saman við jólasteik, en munurinn er að þessi steikur væri ekki á boðstólum einu sinni á ári, og mundi hrafa beinn og mikill áhrif á borgarbrag miðborgarinnar. Þessi áhrif gætir nú þegar á Laugaveginum.
<p>
Varðandi að breyta skattheimtu eftir umhverfisáhrif sem menn valda, þá hlýtur það að vera framtíðinn. Polluter pays principle. En þeir sem búa þar sem aðrir kostir til samgangna eru rýrir ættu að fá afslátt á skattheimtuna. Samkvæmt því sem ég kemst næst er kostnaður við einka/fjölskyldu bíla langtum meiri en það sem ríkið fær í gjöld og skatta. Þá er reiknað með slys, kostnaður byggingarlands, mjög margvisleg umhverfisáhrif frá öllum þáttum í "lífi" bíls. Menn hafa ekki tekið með þann áhrif sem skipulag í þágu bíla hefur á hreyfingarleysi og lýðheilsu.
<p>
En það tekur langan tíma að skipta út meirihluti bílaflotans. Og breytingar á bílaflotann er alls ekki eina leiðin. Ef stjórnvöld mundu reikna út hversu mikið það borgar sig fyrir samfélaginu að fólk hjóli, ganga og nota strætó, og mundu breyta áherslur í skattheimtu og samgönguframkvæmdum til samræmis, þá mundi það skila okkur miklu meiru en breutingar á bílaflotann. Til dæmis ættu útgjöld í heilbrigðiskerfinu að lækka, en þetta er ein stærsti útgjaldaliður ríkisins í dag og fer vaxandi. Við skulum vinna að heilsu ofg fyrirbyggja sjúkdóma, frekar en eyða svona miklu í að lækna. Samkvæmt samantekt Norræna ráðherranefndarinnar "CBA of Cycling", spara þeir sem hjóla til samgnagna samfélaginu um 300.000 ISK á ári, að miklu leyti vegna sparnaðs tengd heilbrigði.
( Fyrirgefið málfarið..)
Morten Lange, 31.1.2007 kl. 15:51
Ég hef aldrei séð þig Ómar á öðrum bílum en pínulitlum
, og finnst mér það alltaf jafn skemmtilegt. Það er alveg vit í þessum hugmyndum sem þú slærð fram. Mér finnst tími til kominn að hressa upp á rúntinn í miðbænum, löngu tímabært.
Ester Júlía, 31.1.2007 kl. 18:10
Góð hugmynd að endurvekja rúntin, þetta er t.d. stór partur af menningu yngra fólksins á Akureyri. Varðandi rýmisgjöldin þá finnst mér nú gleymast að um 70% af þeim sköttum sem bifreiðaeigendur greiða í gegnum eldsneytisgjald og ýmislegt annað fer í eitthvað annað en vegagerð, þannig að ekki eru bifreiðaeigendur beint að fá mikið fyrir peninginn. (Endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.)
Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 20:15
Þú þarft ekki að svara svona ómerkilegri gagnrýni.
Það dylst engum Íslendingi að þú vinnur gott starf og af hugsjón. Enda fáir Íslendingar iðjusamari en þú, að mörgum ólöstuðum.
Þú mátt eiga það að þér er einkar margt til lista lagt og þú nýtir það vel. Haltu endilega ótrauður áfram.
Hitt er annað mál að ef að þú ferð í pólitík þá brennur þú upp eins og eldspýta ef þú ætlar að eltast við alla þá fjóshorna fýlupúka sem aldrei eru ánægðir með nokkurn skapaðan hlut. Það er nefnilega bara staðreynd að þú færð aldrei algeran meirihluta til stuðnings við nokkurt mál. Það eru alltaf um 30% á öndverðum meiði. Og sumir eru einfaldlega veikir og sjá aldrei jákvæðar hliðar á neinu. Þeir geta samt haldið á penna og eytt sínum síðustu kröftum í niðurrif og kærur.
Þó eru líklega fæstar af framsýnustu ákvörðunum teknar þannig að meirihlutinn sé sammála þeim.
Gamall nöldurseggur, 31.1.2007 kl. 20:53
Eins og ég sagði í blogginu ek ég yfirleitt um landið á minnsta, ódýrasta og sparneytnasta bíl, sem völ er á, og hef ekki haft annað en ánægju af því auk þess sem það er miklu ódýrara. Langflestir Íslendingar eiga heima í þéttbýli og í þéttbýlinu úti á landi eru svipaðar götur og bílastæði og í Reykjavík.
Bíll af gerðinni Toyota Aygo er aðeins 3,43 metrar að lengd, rúmlega metra styttri en meðal fólksbíll og 1,5 metrum stytttri en jeppi. Hann myndi því falla rétt neðan við miðjan rýmisgjaldsflokkinn.
Það er fínt fyrir fjóra fullorðna að sitja í þessum bíl og öðrum af svipaðri stærð, - og verði að veruleika hugmyndir um stórauknar vegaframkvæmdir í stað virkjanaframkvæmda kaupi ég það ekki að það þurfi að snattast á milli bæja, inni í þorpum og kaupstöðum eða um hringveginn á einhverjum drekum.
Ómar Ragnarsson, 1.2.2007 kl. 01:18
Góð grein hjá þér Ómar. Málefnaleg og skír svör við ýmsum útúrsnúningi, nöldri og ómálefnalegum athugasemdum sem ég hef séð á blogginu og beinst hafa að þér og persónu þinni.
Ég er ekkert endilega sammála öllu sem þú segir hér, en það þurfa heldur ekkert allir að vera sammála. Ég er nefnilega tortrygginn á að gjald sem lagt væri á bíla með þeim hætti sem þú leggur til yrði lagt á með sanngjörnum hætti. Ég man nefnilega of vel eftir gjaldinu sem Jón Baldvin lagði á bíla og miðað var við vélarstærð. Á þeim tíma var ég nýbúinn að eignast mitt fjórða barn og átti 5 manna Volvo sem þar með varð of lítill. Stærri bíll - stærri vél sem ég hafði svo aldrei efni á fyrr en ég flutti til útlanda.
Taktu strætó segir einhver. Gott og vel. Einkabíllinn er nútímaþægindi, því er ekki að neita. Mig langaði svo sem ekkert til þess að fara með konuna og öll 5 börnin (sem varð endanlegur fjöldi) í strætó (eða rútu) í hvert skipti sem okkur datt í hug að skreppa eitthvað. Fyrir þennan 1,1 sem nota hvern bíl að meðaltali hins vegar er strætó vissulega valkostur, ef kerfið sem slíkt er gott.
Nota hjólið segir svo annar. Gott og vel aftur. Hentar sumum, öðrum ekki. Maður sér svo sem heilu fjölskyldurnar á hjólum með aftanívagna. Dáist að þessu fólki, en þetta er einhvern veginn ekki fyrir mig. Hafði líka á sínum tíma ekki nógu marga dráttarklára (mig og konuna) fyrir alla krakkana
Fjölskyldubíll er valkostur sem á ekki endilega að miðast við hina efnameiri sem geta borið auknar álögur. Efnaminna fólkið kaupir notuðu þreyttu druslurnar sem hinir efnameiri hafa slitið út og reyna að nýta áfram þar til yfir lýkur. Auknar álögur á það eitt að taka pláss á götunum í Reykjavík kemur harðast niður á þessu fólki, eins og alltaf. Í London greiða menn 5 pund á dag (minnir mig) fyrir það eitt að aka yfir ákveðnar línur sem umlykja miðborgina. Þegar ég bjó í Englandi (miðlöndunum) þurfti ég eitt sinn að keyra á bíl mínum (þessum 7 manna, stoltinu mínu :-) (og ég var einn í honum) inn í London og leggja honum yfir nótt. Aðstæður réðu því að lestin í það skiptið hentaði ekki. Keyrði inn í bílastæðahús og lagði bílnum yfir nótt þar við hliðina á Rolls Royce sem var með ábreiðu yfir sér. Borgaði svo um morguninn 30 pund fyrir gistingu bílsins. Sem betur fer 'kleimað' á 'Expenses' hjá vinnuveitanda ásamt hótelreikningnum mínum sem var litlu (nei, ok; töluvert) hærri. Þetta er jú London. Viljum við svona Reykjavík? Kannski vilja það sumir, hver veit.
Í stað þess að leggja aukin gjöld á flatarmál sem bílar taka, styð ég frekar heils hugar þá hugmynd að boðið verði upp á fjölbreyttara úrval smábíla og ökutækja sem væri þá hyglað með lægri álögum, t.d. í tryggingum, niðurfelldu bifreiðagjaldi, lækkuðum tollum o.fl. Frábært ef þín hönnun kæmist á markað einhvern tímann í framtíðinni. Smart bílarnir þýsku eru í þessa áttina, þræl smart, en að mínu mati of dýrir. Góðar almenningssamgöngur, ódýrar eða fríar, hraðlest á Selfoss og til Keflavíkur (ekki göng til Eyja) eru allt kostir sem eiga að vera í stöðugri þróun og uppbyggingu í vaxandi borgarumhverfi.
Mér finnst góð hugmynd að lífga upp á rúntinn. Man sjálfur gullaldardaga rúntsins þar sem maður lullaði á 8 gata nýbónaða tyggjógula tryllitækinu sínu og hafði ekki áhyggjur af gróðurhúsaáhrifum, hljóð- eða loftmengun. Góð stemming oft í þá daga, en það er svo sem ekki víst að slíkt næðist upp aftur miðað við þá fyrringu sem við sjáum því miður of oft í miðborginni um helgar.
Biðst svo afsökunar á ómálefnalegu röfli, ætti sennilega að fara að sofa ....
Ó, eitt enn fyrst ég er byrjaður. Mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar! Hvernig fá menn þá niðurstöðu að það fylgi minni hávaða og loftmengun því að hafa áfram ljós þarna? Hvað með útblástur frá kyrrstæðum bílum og hávaða frá bílum að taka af stað samanborið við umferð sem flæðir hindranalaust á eðlilegum umferðarhraða? Að halda því fram að það sé hægt að minnka umferðina þarna um með því að hafa umferðarmannvirkin léleg er eins og að stinga fingri í stíflugat í New Orleans í miðri Katarinu! Það er ekki nóg að staglast á því að fólk eigi að fara í strætó, ef sú þjónusta er ekki með þeim hætti að fólki þyki hún ásættanleg hvað verð, leiðakerfi og ferðatíðni varðar.
Karl Ólafsson, 1.2.2007 kl. 01:44
Ef ég man rétt Ómar minn varst þú nú einn af þeim sem fóruð á jeppa upp á Hvannadalshnjúk og skilduð bæði eftir hjólför og rusl, ekki reyna að segja mér að það sé umhverfisvænt. Það að bera saman að fara á rúntinn og hefðbundinð útréttinga snatt á bíl finnst mér skrýtið, því snattið er yfirleitt af nauðsyn en rúnturinn ekki
bjarnveig (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 09:17
Mig langar að koma með punkta varðandi athugasemd Benedikts. Ég er stoltur Gaflari en hef þó ekki verið krati alla mína tíð.
Ég held að tölur um að álverið skili bænum 70 milljónum á ári eins og staðan er í dag séu nokkuð nærri lagi. Miðað við þá upphæð mun stækkað álver skila bænum tekjum eitthvað nálægt 200 milljónum á ári.
Hinsvegar er bæjarstjórinn búinn að tala um að hann vilji breytt skattaumhverfi sem myndi færa bænum 200 milljónir á ári miðað við núverandi stærð og þá líklega eitthvað af stærðargráðunni 700 milljónir eftir stækkun. Það er hinsvegar engin trygging fyrir því að þær skattalegu breytingar verði gerðar sem muni auka tekjurnar svona mikið. Þetta er bara það sem bæjarstjóri vill.
Þannig að miðað við óbreytt ástand þá mun stækkað álver skila um 130 milljónum meira í kassann á ári sem er um 1.3% af árlegum tekjum bæjarins.
Fyrir það fáum við í bæjarhlaðið 250% meiri mengun gróðurhúsalofttegunda heldur en er til staðar í dag. Álverið í bæjarhlaðinu mun skila CO2 mengun hliðstæðri og 130% af því sem bílafloti landsmanna skilar á hverju ári. Þar að auki mun útblástur brennisteinstvíoxíðs aukast um 30%.
Mér finnst þetta mjög auðveld ákvörðun. Tekjur verða óverulegar af stækkun, mengunin veruleg.
Ég mun kjósa Nei
Ómar Hilmarsson (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 01:30
Hvað með mengun af útblæstri
bíla sem koma til með að "aka" rúntinn mikilvæga.
Hafdís (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 22:30
Kæri Ómar ,
Ekki að það skipti miklu máli, en misminnir mig, að þú hafir ekið um á Ford Bronco hér í eina tíð ? Samkvæmt mínum bílafræðum var Bronco þeirra tíma hvorki lítill né neyslugrannur. Kannski misminnir mig.
Kv ESG
Eiður Svanberg Guðnason, 4.2.2007 kl. 14:19
Er einhver mengun af því að taka þátt í rallakstri? - eða er það kannski bara umhverfisvænt að spæna svona fram og aftur um landið í "engum mikilvægari tilgangi en að hlaupa á eftir einhverjum bikar og kampavínsflösku?"
zorglubb (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.