10.12.2010 | 23:42
Hin rómaða tillitssemi í minn garð.
Ég hef áður sýnt sýnishorn af landlægu tillitsleysi sem birtist í því hvernig við Íslendingar leggjum oft bílum okkar í stæði.
Hins vegar eru góðu fréttirnar við þetta fyrir mig þær, að á örbíl eins og mínum er yfirleitt hægt að finna stæði sem enginn annar getur notað þegar aðrir bílstjórar hafa lagt bílum sínum í tvö stæði en þó skilið eftir nógu breiða rönd til þess að ég geti smokrað mér þar inn og verið samt innan við hvítu línuna.
Komið hefur fyrir að þessir plássfreku bílstjórar sem gera löndum sínum lífið leit þegar slegist er um bílastæðin hafa brugðist hinir verstu við þegar ég hef verið kominn inn í stæðið og skammað mig blóðugum skömmum fyrir frekjuna í mér, því að þeir hafi komið á undan og eigi því "réttinn".
Einn varð alveg brjálaður yfir því að konan hans kæmist ekki inn hægra megin vegna þess hvað minn bíll væri þétt upp að bíl hans.
Ekki sefaði það reiði hans þegar ég benti honum á að á bílnum hans væri bakkgír og að hann þyrfti aðeins að bakka bílnum um tvo metra og konan hans að ganga tvo metra til þess að komast inn í bílinn.
Oft bera menn það fyrir sig að annar bíll hafi fyrr verið skakkur í stæði og sá bíll sé farinn.
En í fjölda tilfella standa þó hinir plássfreku bílar yst við jaðar bílastæðisins og þessi mótbára því haldlaus eins og glöggt sést á myndinni efst á síðunni.
Þess skal getið að meðan ég var inni í versluninni þegar neðri myndin var tekin, fylgdist ég með ástandinu og var viðbúinn að skjótast út ef ökumaður gráa bílsins kæmi og trompaðist alveg yfir því að komast ekki vinstra megin inn í bílinn sinn.
En ég ætti að vera þakklátur fyrir að þessir frekjuhundar eru svona margir. Ég get ég svo sem ekki annað en þakkað þeim fyrir það að gefa mér færi á að komast í stæði sem enginn annar getur notað.
Er þessi tillitssemi þeirra í minn garð rómuð af mér.
P. S. Vegna talsverðrar "umferðar" inn á þennan bloggpistil vil ég benda á annan pistil 7. desember þar sem ég fjallaði um stefnuljósaleti okkar Íslendinga. Þið getið smellt orðinu stefnuljós inn í leitarrammann vinstra megin á síðunni og þá er sú færsla neðst.
Eða smellt inn Hvenær verður tékkað á stefnuljósunum? og þá kemur færslan beint upp.
Í henni segi ég frá því af hverju ég ákvað eftir að hafa sloppið við örkuml eða dauða fyrir nokkrum árum að sinna þessum atriðum hér á blogginu, - fannst ég skulda forsjóninni það.
Athugasemdir
Sæll Ómar. Þetta pirrar mig líka oft. Að menn leggi svona illa í stæði. En ég viðurkenni að oftast lækna ég eigin pirring með því að telja sjálfum mér trú um að það sé einhver kona sem keyrir lítið og er óörugg við að leggja í stæði sem leggur svona illa. Það dugir mér yfirleitt til að gleyma þessu. Kannski er ég að gera konum rangt til með að klína þessu almennt á þær.
En reyndar gerðist það fyrir nokkrum vikum að bílum var lagt beggja megin í þröngri götu svo að ekki var hægt að koma vörubíl sem ég var að nota um götuna. Ég hringdi í lögreglu til að gera ráðstafanir til að annar bílinn yrði fjarlægður og gatan opnuð. Ég valdi að siga löggunni á þann bílinn sem var verr lagt við götuna, það var jeppi sem stóð nærri 1. metra frá götubrún, bíllinn hinum megin var alveg þétt við kantsteininn. Það kom nú ekki til að þyrfti að fjarlægja jeppann, eigandinn birtist skyndilega og var það kona sem hafði lagt honum svo illa að gatan varð ófær.
Reyndar gerðist það fyrir
Jón Pétur Líndal, 11.12.2010 kl. 01:54
"Komið hefur fyrir að þessir plássfreku bílstjórar sem gera löndum sínum lífið leit þegar slegist er um bílastæðin hafa brugðist hinir verstu við þegar ég hef verið kominn inn í stæðið og skammað mig blóðugum skömmum fyrir frekjuna í mér, því að þeir hafi komið á undan og eigi því "réttinn"."
Leiðinlegt að heira, Ómar. Fólki ætlar seint að lærast að tillitsemi og ást á náunganum er betri en groddaleg eiginhagsmunahyggja. Ég held að flestir íslendingar séu fermdir og hafi játað kristna trú. Það er synd að svo margir skuli hafa gleimt þeirri hugmyndafræði og þeim lífsstíll sem fylgir því að vera kristinn. Ég held að þeim myndi líða miklu betur ef þeir temdu sér fallegt hugarfar og gleddust með þér yfir því að þú skyldir hafa getað lagt bílnum sínum í stað þess að reiðast þeim smávægilegu óþægindum sem vera kann að þeir hafi orðið fyrir.
Hörður Þórðarson, 11.12.2010 kl. 03:16
Góður sem oftar.
Sigurbjörn Sveinsson, 11.12.2010 kl. 11:06
Ég sé að þú hefur haldið gamla Akureyrar merkinu á bílnum. Annars finst mér svona að þú sért heppin á efstu myndinni, að hann hafi passað stæðið fyrir þig. Á hinni myndinn, finnst mér þú hafir nú getað gefið aumingja konunni smá aukapláss til að komast inn í bílinn ... þeir eru hvort eð er allir skakkir og skældir þarna. Enda þessa hvítu línur, meira til leiðbeiningar, en að sé lögbrot að fara yfir það.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 12:47
Snilld
Friðrik Ásmundsson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 14:12
ÞÚ ERT BESTUR!!!! Ég styð þessar "aðgerðir" þínar heilshugar og hef gert þetta sjálf nokkrum sinnum!!! :C) Var einmitt að spá í að opna netsíðu með nafninu Lærduadleggja.is þar sem hægt væri að hlaða inn myndim af þeim sem láta svona einsog asnar. Þar mætti líka finna upplýsingar um ökukennara og fróðleik umhverni Á að leggja í stæði... :C)
Valgerður (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 14:29
Djöfulsins snilld er þetta hjá þér, ég hef margoft lent í svipuðum aðstæðum þ.e.a.s. að sjá stæði sem er búið að eyðileggja því einhver ákvað að taka 2 stæði, ég hef reyndar líka séð fólk leggja alveg þvert og þarmeð taka alveg 3-4 stæði. það er alveg óþolandi og óskyljanlegt.
Arnkell (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 14:31
Sæll félagi, Ómar.
Gott hjá þér. Svo er einkennilegt hvað sumir plús 10 milljóna jepparar (Land Cruiser, Porsche (eins og útvarpsstjóri RÚV ekur um á á okkar kostnað) Range Rover, Landrover Freelander) eru lélegir í löppunum. Þeir leggja ærið oft á gangstéttina við inngang í stórverslana. Á ég að senda þér myndasafnið mitt af þessu liði? Ýmislegt fróðlegt þar. En líklega má ekki tala til útvarpsstjóra á vefsíðu þinni.
Eiður Svanberg Guðnason, 11.12.2010 kl. 14:32
Verulega þörf umræða!! Eg er sjálfur atvinnubílstjóri og er því mikið á ferðinni í borgarumferðinni og því sem hér á landi er ekkert annað en umferðarómenning. Bílastæðanotkunin er eitt. Ég er fastlega á þeirri skoðun að því dýrari og stærri sem bíllinn er því verr er honum lagt. Það er eins og sumir átti sig ekki á því að bílastæði eru takmörkuð gæði sem ótrúlegt nokk eru ennþá meira og minna ókeypis á Íslandi. En þetta með stærðina á bílunum. Er virkilega einhver sem heldur það í fullri alvöru að það þurfi Landcruiser á 44 tommu dekkjum til að komast leiðar sinnar í borgarumferðinni?? Eða að besti bíllinn til að koma krökkunum í leikskóla eða komast í Bónus sé risavaxinn amerískur pickup-trukkur á risadekkjum?? Það er algerlega stórkostlegt að virða fyrir sér bílakostinn á hvaða bílastæði sem er í borginni, stórir jeppar og pallbílar í röðum til þess eins að komast úr og í vinnu. Ég leyfi mér að fullyrða að 90% þessara bíla fara aldrei lengra útí óbyggðir en kannski á tjaldstæðin á Laugavatni!! Fyrir nú utan það hversu heimskulegt er að rúnta um á þessum bílum, búið að eyðileggja alla aksturseiginleika og auka eyðsluna um 20 - 30% bara fyrir einhverja sýndarmennsku?? Nei, ég verð þeim degi fegnastur þegar risavaxnir jeppar og trukkar verða gerðir útlægir úr borgarumferðinni!! Og tengdamömmuboxin. Sumir hafa þau á þakinu allan ársins hring af því þau eru svo "svöl". Og eyða 10 - 15% meira eldsneyti fyrir vikið... Kastarar í framstuðara. Bannað að nota innanbæjar en eru svo svalir að margir nota þá allan sólarhringinn. Og svo er þetta almenna tillitsleysi í íslenskri umferð, hangs á ljósum, hangs á vinstri akrein, tillitsleysi við gangandi vegfarendur, tillitsleysi við hjólandi vegfarendur og svo framvegis og framvegis... Að leggja í stæði fyrir fatlaða virðist vera einhver þjóðaríþrótt, tala nú ekki um ef þú ert á jeppa, þau eru jú aðeins breiðari!! En kannski er það ekki skrýtið. Að leggja í stæði fyrir fatlaða er jú látið alveg óátalið hér á landi. Hefur einhverjum orðið það á að leggja í þannig stæði erlendis?? Já takk. Mér varð það einu sinni á í Malmö. Eftir innan við 2 mínútur voru komnir 2 menn á bíl frá Securitas og sektuðu mig uppá litlar 1500 sænskar krónur, um það bil 25 þúsund kall í dag. Ég þarf varla að taka fram að síðan hef ég aldrei lagt í stæði fyrir fatlaða, hvorki hérlendis né erlendis.
Það er því miður alltof algengt að menn hafi þennan hugsunarhátt sem Bjarne Örn Hansen sýnir af sér hérna fyrir ofan þar sem hann segir að hvítu línurnar séu "meira til leiðbeiningar". Nema flestir íslendingar halda að bæði umferðaarlög og almennar kurteisis og umgengnisreglur í umferðinni séu líka til "leiðbeiningar". Ég giska á að Bjarne keyri um á td GrandLúser eða Pajero og taki 2 -3 stæði í einu...
Nostradamus, 11.12.2010 kl. 14:52
Svo sannarlega er ég sammála. Ég sjálf er á pínulitlum bíl og nýt þess stundum að troða mér :)
En ekkert fer meira í mínar fínustu þegar ég er að fara til dæmis inná Glerártorg og ætla að finna mér stæði og það virðist sem svo að ökumenn hafi tekið sér höndum saman og gert nógu mikið pláss til þess að 3 bílar geti tekið 5 stæði en enginn kemst á milli.
Mér finnst einfaldlega að sekta megi svona bjána.
Margrét (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 15:29
Það má samt ekki alveg skella skuldinni á alla sem leggja svona asnalega, hef lent í því að fara í stæði þar sem margir bílar voru lagðir á línuna og aðeins yfir þannig að næsti varð að gera það líka og svo næsti, þannig að þegar ég kom út aftur þá voru bílarnir sitthvoru megin við mig farnir og það leit út eins og ég hefði lagt fáranlega í stæðið, án þess að ætla mér það. Hin vegar vil ég háar sektir fyrir að leggja í fatlað stæði án gildandi ástæðu.
Sveinn Theodórs. (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 16:05
Sæll Ómar,
Hér áður fyrr, þegar ég hafði minn gamla fjögurra manna bíl til umráða, þá stundaði ég þetta gjarnan líka, þ.e. að leggja ítrekað í þessa vannýttu stæði þegar þau stóðu til boða. Jafnvel þótt það þýddi vesen fyrir ökumanninn sem stal tveimur eða fleiri stæðum í einu. Það er hans vandamál. Eina söguna kann ég af því, þegar ég lagði í stæði svipað og þú gerðir á neðri myndinni hér að ofan, að á leið minni til baka að bílnum varð ég vitni að því að hinn ökumaðurinn var búinn að troða sér inn í sinn bíl með tilheyrandi basli og bakkaði svo á fullu gasi í reiði sinni. Við þetta náði hann að höggva annan hliðarspegilinn af bíl sínum og mölva glerið í honum ásamt því að hurðin rispaðist á nýlegum bílnum hans. Þegar hann svo ætlaði að beina reiði sinni að mér og ætlaðist til þess að ég borgaði skemmdirnar. En ég benti honum kurteisislega á að bíllinn minn væri fullkomnlega löglega lagður í stæðið, en hans ekki, og það væri hann sem hefði ekið á bílinn hjá mér (sem skemmdist að vísu ekki). Málið úrskurðaðist þannig hjá tryggingafélagi að tjónvaldur var sá er lagði ólöglega, og fékk hann því að borga sínar eigin skemmdir uppá nokkra tugi þúsunda króna auk þess sem hann fékk reikning frá lögreglunni fyrir að leggja bifreiðinni ólöglega ;)
Kæri Ómar, ég styð þig fullkomnlega í þessu, ásamt svo mörgum öðrum málefnum sem þú tekur þér fyrir hendur.
Kveðja Raggi
Raggi (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 16:36
Sæll Ómar
Hér í Noregi eru menn sektaðir, ef svo mikið sem eitt dekk snertir hvítu línuna á milli bílastæðanna
Anton Þór Harðarson, 11.12.2010 kl. 17:03
Þú ert maðurinn!
Kristján Klausen (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 18:19
Sæll vertu Ómar. Ólíkt flestum ruddum þá hef ég tamið mér þá aðferð, hvort sem ég er á stórum eða smáum bíl að taka mér eina mínútu í viðbót þegar ég er að leggja í stæði og laga bílinn aðeins til, jafnvel þegar ég hef verið seinn í skólann.
Við sama skóla tók ég meira að segja upp á því að "sekta" fólk og skilja eftir miða á rúðum bíla þar sem betur hefði mátt fara.
Fái ég einhvern tímann draumabíl minn, sem er af ágætri stærðargráðu, ætla ég að setja fordæmi á bílastæðum og sýna þeim hvernig þetta er gert.
Þú ert að gera góðan hlut. Vertu óhræddur og haltu því áfram!
Trausti Geir Jonasson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 18:29
Ég tók það fram, Bjarne, að ég fylgdist með út um glugga hvort ökumaðurinn á bílnum kæmi.
Eitt er það sem engum virðist dettta í hug þegar bílar leggja alveg að hvítu línunni, og það er að bakka inn í stæðið ef það getur orðið til þess að skapa rými til að fara út úr bílstjórasætinu.
Raunar er besta aðferðin til að nýta stæðin vel sú að öðrum hverjum bíl sé bakkað inn í stæðin þannig að dyrnar hægra megin liggi þétt saman en meira rými sé hinum megin.
Að ekki sé nú minnst á það að ef fólk á möguleika á að bakka bílnum inn í stæðið, á það alveg frítt spil þegar það fer út úr því aftur, en venjulega er miklu erfiðara að bakka út út stæði og út í umferðina, sem sést misvel, heldur en að bakka inn í stæðið.
Ég sé þetta aldrei gert hér í Reykjavík en hef séð Akureyringa gera þetta.
Ómar Ragnarsson, 11.12.2010 kl. 19:56
Mig langar svo innilega til þess að hvetja alla ökumenn til að stunda þann sið sem Ómar gjörir. Sjálfur ek ég stórum bíl á stórum dekkjum með aukaljós að framan og tengdamömmubox. Aldrei skil ég bílinn eftir með hvítu línuna undir bílnum. Ég hinsvegar legg mig í líma um að valda þeim sem slíkt gjöra óþægindum. Gott dæmi var um daginn frór ég í Nóatún í Grafarholti, þar var 4 bílum lagt skakt í stæði þannig að framhjól vinstra stóð öndverðu við hvítu línua. Yst við hópinn var laust stæði og fatlaða stæði við hliðina. Ég vandaði mig mikið við að leggja án þess að skemma bílinn við hliðina og allsekki með dekkin á hvítu línunni. Nóg til að teppa þann sem næstur var. Þegar ég kom út var bílstjóri bílsins við hliðna á mér brjálaður út í mig. Ég benti á hvítu línuna og spurði hvort hún hefði verið máluð á malbikið til að viðkomandi gæti notað hana sem viðmið um miðju bifreiðar eða siglingarmerki. Mér heyrist enn í dag viku seinna bölvið og ragnið bergmála í Úlfarsfellinu frá viðkomandi dynja á mér sem og þá. Þeir sem leggja þannig að þeir taki tvö stæði ætti að draga burt og sekta um há upphæð.
Kristófer Ásmundsson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 21:01
Sæll Ómar.
Mér finnst að fleiri mættu taka þig fyrirmyndar varðandi bílastæðamál, bæði hvað varðar stæði fyrir fatlaða og einnig þetta að taka tvö stæði. Ég ek sjálf um á Kia Carnival sem er frekar stór bíll, enda sjö manna, til að koma fjölskyldunni fyrir. Þetta er mjög góður bíll en það er galli með hann að það er mjög stór beygjuradíusinn á honum. Ég vil hins vegar frekar gefa mér tíma til að laga bílinn þannig að hann passi í eitt stæði þó að stundum komi fyrir að einhverjir sem eru að flýta sér mikið gerist heldur óþolinmóðir.
Og varðandi bílastæðamál fatlaðra. Ég bý fyrir norðan og fer í verslanir á Akureyri. Við Glerártorg eru nokkuð mörg bílastæði og þar af nokkur sem eru fyrir fatlaða og eru þau ágætlega staðsett. Það er hins vegar svo merkilegt að það er nánast alltaf sem búið er að leggja utan við þau, það er að það er búið að leggja nær versuninni heldur en stæðin fyrir fatlaða eru og oft á tíðum er ekki hægt að komast að með hjólastól til að komast í bíla sem eru réttilega lagt í þar til gerð stæði. Þá er í raun verið að leggja utan við bílastæðin og allt til að þurfa ekki að labba of langt. Svo eru mjög margir sem leggja svo alveg næst versluninni, og þá hálfir upp á gangstétt. Í fyrravetur sá ég samt versta dæmi um þetta sem ég hef vitað til. Það var búið að leggja upp við verslunina og einnig var bíl lagt utan við fatlaðra stæðið þannig að ekki var mikið pláss á milli, reyndar það lítið að það var sjúkrabíll sem greinilega hafði verið að sækja einhver þar sem ég sá þá koma út með börur, sem ekki komst á milli og varð að bakka í burtu, en það tafði þá auðvitað.
Gerða (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 23:47
Ég minnist þess sem ungir móðir með barnavagn, búsett í miðbænum að oft var bílum lagt hálfir uppá gangstéttum eða jafnvel þvert á þær. Þá þurfti maður að taka sveig út á götu eða troðast milli bíla og girðingar til að komast áfram með barnavagninn. Ég verð að viðurkenna það að margir bílarnir voru illa rispaðir eftir „framhjáhald" barnavagnsins.
Ég er alin upp í miðbænum og rifja upp að sem unglingur var mér sérstaklega í nöp við bíla sem var lagt upp á gangstétt og hef oftar en einu sinni stytt mér leið yfir húddið á bílum sem urðu á vegi mínum þar sem ég gekk eftir gangstéttum bæjarins.
En það var þá og er ég fyrir löngu hætt þeirri iðju, en seint myndi mér detta til hugar að leggja bíl á þennan máta .)
Þurí Hjartar (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 00:05
Sæll Ómar,
frábært framtak hjá þér að vanda.
Ég held að á meðan bílastæðaverðir og lögregla sekta ekki þegar lagt er ólöglega með þessum hætti þá mun þetta ekkert skána. Flest önnur lönd sekta miskunnarlaust eigendur bifreiða sem eru með dekk á hvítu línunni, gæti verið góð tekjulind fyrir ríkissjóð í nokkra mánuði á meðan fólk er að læra að leggja.
Það er mér minnistætt tilvik sem gerðist í Svíþjóð fyrir mörgum árum síðan; Bílstjóri lagði bílnum sínum að vetri til á nánast tómt ísilagt bílaplan fyrir utan verslunarmiðstöð. Það var ekki nokkur leið að sjá hvítu línunnar sem aðgreindu bílastæðin. Þegar eigandi bílsins kom aftur sá hann að það var búið að sekta hann. Hann varð foxillur, tók skóflu og braut upp ísinn niður að malbiki. Viti menn, eitt dekkið reyndist vera að hluta á hvítu línunni og hann þurfti að sættast á að borga sektina. Hvernig bílastæðavörðurinn vissi að bílnum var lagt ólöglega var eiganda bílsins hulin ráðgáta. Líklegast var bílastæðavörðurinn búinn að mæla út bílastæðið og reikna út afstöðu einstakra stæða og þannig komist að þeirri niðurstöðu að bílnum væri lagt ólöglega.
Með bestu kveðjum,
Finnur
Finnur Þorgeirsson, 12.12.2010 kl. 03:05
Við Hagkaup í Garðabæ er það nánast regla að stórjeppum er lagt á gangstéttina við hlið bílastæða fatlaðra framan við anddyri verslunarinnar. Þá skiptir ekki máli hvort pláss er á bíðastæðinu eður ei. Ég vogaði mér í liðinni viku að spyrja konu sem var að fara inn í ofurjeppann sinn á gangstéttinni , hvort hún væri slæm í fótunum. Ískalt augnaráð og þrúgandi þögn var svar hennar. Sumir sem leggja þarna eru ekki slæmir í fótunum. Þeir eru slæmir í höfðinu.
Verslun ,sem er vönd að virðingu sinni eins og Hagkaup í Garðabæ örugglega er, vill að þessi mál séu í lagi. Það er einfalt að öryggisverðir frá Securitas hafi auga með þessu.
Þegar með tveggja daga millibili bíl frá blómaheildsölunni Samasem hafði ítrekað verið lagt í stæði fatlaðra talaði ég við forstjóra Haga ,sem reka Hagkaup. Hann tók máli mínu vel. (Pólska (?) konan sem ók bíl Samasems gerði það ekki) Nú er bílum Samasems lagt á gangstéttina við hlið stæðanna fyrir fatlaða. Þar eru menn bæði slæmir í fótunum og höfðinu. Er ekki sér aðgengi fyrir bíla,sem koma með vörur í verslunina ? Hefði haldið það.
Höldum þessu áfram. Ég á myndasafn í tölvunni af bílum sem lagt er í stæði fatlaðra eða í leggja undir sig tvö eða þrjú stæði. Þar kennir ýmissa grasa.
Eiður Svanberg Guðnason, 12.12.2010 kl. 05:23
Jón Pétur Líndal, ég varð frekar pirruð yfir þínu kommenti, þvílíkt karlrembuviðhorf! Ég vil bara benda þér á að fá að skoða skýrslur tryggingarfélaganna um hverjir valda slysum og sjá hvort þú sért jafn ákveðinn í að konur séu lélegri bílstjórar! Í sumum tilfellum eru konurnar reyndar lélegri bílstjórar af þeirri einföldu ástæðu að karlarnir þeirra vilja ekki leyfa þeim að keyra bílinn þegar þau eru saman í bíl (eða oft vilja þær það ekki af e-ju óöryggi) og þess vegna hafa þær minni reynslu og kannski þar með lélegri bílstjórar.
Í mínu sambandi er nokkuð mikið jafnrétti á því hver keyrir bílinn og ég veit að ég er mjög góður bílstjóri, sennilega mun betri en flestir karlar í umferðinni...
Og varðandi þessa bílastæðamál, Ómar ég er sammála þér og veit að fólk á ekki að leggja í 2 stæði. Aftur á móti skil ég það að vissu leyti (tek það fram að ég hef samt aldrei gert það). Ég hef einu sinni átt fínan dýran bíl og all nokkra gamla ódýra bíla. Það er ótrúlega algengt að fólk sýni ekki þá tilllitsemi þegar það opnar bíla sína að passa sig á næstu bílum, heldur skellur hurðinni utan í næsta bíl. Ég grét næstum oft þegar ég fór í verslun, því ég fékk nýja skellu á bílinn minn í örugglega annarri hverri ferð þegar ég var á fína bílnum og hugsaði um alla þúsund kallana sem þetta lækkaði bílinn minn í verði. Ég var bara farin að leggja á stæðunum sem voru lengst frá búðunum, því þar var fæstum bílum lagt og því oft enginn bíll við hliðina. Það er auðvitað mun betri lausn en að taka 2 stæði. En manni var meira sama á gömlu ódýru bílunum. Íslendingar þurfa að vera tillitsamari yfirleitt í umferðinni, bæði með því að leggja betur í stæði OG með því að bera virðingu fyrir bílum annarra.
Heiðrún Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 08:36
Þetta er ekki þitt mál Ómar, láttu lögguna um þetta. Þessu eiga þeir að sinna, en ekki ráðast á krakka sem eru að bjarga sér í kreppunni og eru að ná sér í bíómyndir, á netinu.
Kvikindisháttur þarna á Akureyri.
bubbi (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 09:00
Heiðrún: án þess að ætla að taka undir með þeirri kenningu um að konur séu verri bílstjórar, þá hafa rannsóknir sýnt fram á að þeir valdi hlutfallslega fleiri slysum, ekki flestum, enda er það líkt og þú segir Heiðrún oft sem karlar keyra ef um er að ræða par. Persónulega finnst mér þetta asnalegt að tala um þetta enda einstaklingarnir misjafnir eins og þeir eru margir.
er annars sammála þér varðandi bílastæðin og virðingu fyrir bílum annara.
Mér blöskrar að lesa skrif hérna þar sem manneskja lýsir því yfir að hún hafa gert í því að rispa bíla hjá fólki. Hvað er að, það er sama þótt þetta lið hafi lagt á vitlausum stað, mér þykir það mikið verra þegar vitleysingar taka upp á því að skemma eigur annara, það ber vott um einhverja brenglun hjá þeim, ég hef fengið þá löngun að sparka í bíl sem pirrar mig, en ég held aftur af mér líkt og fólk ætti að gera.
finnst það mikið sniðugra að setja miða hjá fólki, þá kemuru skilaboðunum til þeirra án þess að vera með leiðindi sjálfur.
að sama skapi lýst mér ekkert á þá hugmynd að sekta fólk fyrir að vera á línuni, hvað ef þú ert að leggja og bílum er lagt(líkt og gerist) þannig að þú getir ekki annað en lagt yfir línuna, er það réttlætanlegt að þú fáir sekt fyrir það, þetta gerist og dómharka hjá fóli má ekki vera slík að það taki ekki tillit til þess, þessar sögur um að þegar fólkið kom og bílum hafi verið lagt báðum megin vitlaust og þegar þau koma út eru bílarnir horfnir geta vel verið sannar enda mörg slík dæmi.
Óli (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 09:30
Ómar, Ómar, Ómar.
Það þarf nú ekkert að skrökva upp á þig karl minn. Þetta er þörf umræða og eitthvað sem við getum öll tekið til okkar. Ég á bíl með stóran beygjuradíus og ég bý fyrir norðan. Þess vegna geri ég eins og fleiri hafa lýst hér að ofan, ég bakka miskunnar laust í stæði þar sem þess er kostur eða legg bara fjær og geng. (Þér að segja, bara okkar á milli, þá má ég alveg við hreyfingunni). Hitt er annað sem mætti prófa, hjá öllum verslunum með sjálfsvirðingu starfa "kerrudýr" sem safna saman kerrunum eftir okkur letingjana sem nennum ekki aftur inn með þær. Fyllum vasana hjá þessu duglega fólki af stórum litríkum miðum sem þau svo setja á framrúðuna hjá skussunum. Eða nýtum öryggisgæsluna til þessa.
Fyrir nokkrum árum síðan var bílastæðavörður á Akureyri sem var kallaður "miðbæjarskelfirinn". Hann var maður samviskusamur, og fólk fékk ekki að komast upp með einhverjar "stéttarlagningar" hjá honum. Oftsinnis sá maður að hann hafði sett sektarmiða á lögreglubíla bæjarins þegar þeim var lagt ólöglega eða ef að stöðumælirinn var fallinn. Þetta gekk svo langt að lögreglan á Akureyri sendi fallegt og glansandi embættisbréf á Akureyrarbæ og bauð stöðumælaverðinum að koma á námskeið til að læra að þekkja lögreglubifreiðar. Svarið var bara það sem við var að búast: "Sjálfsagt mál, bara ef að ég má hafa með mér stöðumæli og kenna þeim að þekkja og nota hann".
Þú minnir svolítið á þennan karl, Ómar. Báðir eruð þið að gera rétt og báðir eigið þið mína virðingu fyrir.
Ekki hætta að gera það sem þér finnst rétt, og láttu engan beygja þig af leið nema að hann geti sýnt þér fram á villu þíns vegar, með góðum rökum.
Ásgeir
Ásgeir (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 09:48
Óli: Þú segir ,,að sama skapi lýst mér ekkert á þá hugmynd að sekta fólk fyrir að vera á línunni, hvað ef þú ert að leggja og bílum er lagt (líkt og gerist) þannig að þú getir ekki annað en lagt yfir línuna, er það réttlætanlegt að þú fáir sekt fyrir það,..''
Hvað áttu við með að ,,þú getir ekki annað en lagt yfir línuna''? Er bíllinn þinn of stór?, þá á hann ekki heima á umræddu bílastæði, eða er málið að annar bíll að þvinga þinum bíl að leggja vitlaust, en þá er einmitt ástæða til að sekta hinn bílinn til að stemma stigum við ónákvæma lagningu.
Finnur Þorgeirsson, 12.12.2010 kl. 10:09
Þörf og góð umræða. Athafnaleysi lögreglu kallar á aðgerðir almennings. Ég hef leyft mér að gera athugasemdir við fólk, sem leggur í stæði fatlaðra eða tekur tvö stæði, og fengið svívirðingar að launum. Ég hef líka reynt að aka barnavagni eftir gagnstéttum og skil vel þá freistingu að láta þá gjalda fyrir sem neða fólk með ungbörn af gangstéttum og út í umferð bílanna með þann dýrmæta farm. Þeir, sem af frekju og eigingirni gera það eiga það skilið að fá þess háttar "sektarmiða" í lakkið sitt. Annað skilja þeir ekki.
Bjarni (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 10:37
Finnur: ef þú læsir það sem ég skrifaði þá ættir þú að átta þig á því að ég er að tala um að bílar séu lagðir illa þannig að þú neyðist til að leggja álíka illa, þegar stöðumælavörður eða lögregluþjónn kemur svo þá veit hann ekkert hvort maður neyddist til að leggja svona eða hver lagði svo illa í upphafi, þykir þér réttlátt að sá aðili sem komi og geti ekki annað en lagt "illa" á milli tveggja bíla sem báðir eru yfir línum fái sekt?
Bjarni: "Athafnaleysi lögreglu kallar á aðgerðir almennings." athugasemdir eru kannski réttlætanlegar en "sektarmiði" í lakkið er það ekki. hvar eigum við að byrja og hvar að enda. á fólk ekki líka að slá þá sem illa leggja, hvað með að berja þá þannig að þeir nái nú örugglega skilaboðunum. Svo getum við farið láta verkin tala í stað lögreglu í fleiri málum, hleypum bílum ekki framúr okkur þegar þeir ætla að stunda framúrakstur og fleira slíkt.
er ekki nóg að koma með athugasemdir til fólks, við eigum ekki að gera okkur að sjálfskipuðum lögregluþjónum og veita fólki áminningar sem það skilur, það getur endað illa.
Óli (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 12:11
Þú átt hrós skilið fyrir framtakið Ómar.
Hinsvegar skulum við ekki gleyma að kannske geta mál átt sér lengri sögu en bara að bílnum er lagt "skakt". Mögulega voru bílarnir svona skakkir sem voru í stæðunum fyrir og engin leið að leggja öðruvísi, sjálfur hef ég lent margsinnis í þeim aðstæðum. Ekki endilega gott að refsa þeim sem eiga litla sök á vandamálinu.
Hinsvegar er það alltof algengt að sjá bíla lagt gjörsamlega útí hött, með tvö stæði o.s.f.v.
Hinsvegar vil ég biðja fólk að fara varlega með sleggjudóma gagnvart fólki sem ekur um á stærri bílum en nissan micru, ef ég tel saman þá bíla sem ég hef séð leggja alveg fáránlega er stærsti hluti þeirra fólksbílar í meðalstærð, fremur en jeppar á ofvöxnum dekkjum. Flestir jeppamenn eru nefninlega meðvitaðir um sífellda fordóma gagnvart sínum bílum og reyna að leggja siðsamlega. Auðvitað eru þó svartir sauðir og er mér minnistætt atvik fyrir utan kringluna þegar stórum pallbíl var ítrekað lagt í stæði fyrir skjólstæðinga þroskahjálpar og einnig á gangstéttum. Það er eintómur ruddaskapur.
Einnig er mér minnistætt atvik sem gerðist fyrir nokkrum árum, þar sem ökumaður slyddujeppa lagði í stæði fyrir fatlaða hér í Reykjavík. Ég ákvað að hringja í lögregluna og benda henni á þetta, en þeir vildu sem minnst vita af þessu máli og enduðu á að skella á mig!
kkv, Samúel Úlfr.
Samúel Úlfur Þór, 12.12.2010 kl. 18:55
Það er útilokað að nokkur bíll hafi staðið þannig á efri myndinni að ekki hafi verið hægt að leggja gráa bílnum nær jaðri bílastæðisins.
Í Bandaríkjunum eru ekki bara sektir á staðnum fyrir að leggja svona heldur bíllinn fjarlægður á kostnað eiganda.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2010 kl. 21:12
Það er augljóst hvaða afleiðingar það hefði ef öllum leyfðist að leggja bílum sínum í tvö stæði í einu til þess að koma í veg fyrir að hurðum annarra bíla sé skellt á fína bílinn.
Margoft hef ég séð lagt svona í stæði svo langt frá næsta bíl, að ekki hefur verið nein hætta á að hurð yrði skellt á bílinn og rýmið miklu meira en þurfti til að komast út.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2010 kl. 21:17
Heiðrún, ég játa mig sekan, ég er karlremba. Það er enginn gallalaus og þetta er einn af mörgum mínum göllum. En það er samt ekkert illa meint. Það hafa margir, bæði karlar og konur, notið góðs af þessum galla mínum, þar sem ég hef fyrirgefið ótal pirrandi atvik í umferðinni með þessum hugsunarhætti og haldið ró minni og glaðlyndi. Þó ég hafi eins og margir aðrir oft ekki getað lagt í stæði út af bruðli sumra sem leggja þvers og kruss yfir 2 stæði þá hugsa ég bara mínar jákvæðu karlrembuhugsanir og fyrirgef þetta, nema í þetta eina skipti þegar gatan sem ég átti leið um var algjörlega lokuð. Í það skipti dugði fyrirgefandi karlremban mér ekki.
En ef ég ætti að koma með betra ráð til að taka á þessu vandamáli get ég svo sem bent á aðferð sem er notuð sums staðar erlendis. Hún er sú að sveitarfélögin gera út bíl með 2 mönnum sem aka um og taka myndir af stöðvunarbrotum af öllu tagi. Á myndunum kemur fram dagsetning, staðsetning, tími, bílnúmerið sést og hvernig bílnum er lagt. Svo fá menn bara senda rukkun fyrir stöðvunarbrotinu. Með þessari aðferð er hægt að beita miklu aðhaldi. Menn keyra um og ná hellingi af stöðvunarbrotum á þennan hátt. Ég hef séð þetta í framkvæmd á Spáni og er sagt að þetta skili þar góðum árangri. En ég er ekki mjög refsiglaður maður á þessu sviði, þannig að mín vegna er þetta ekki nauðsynlegt. En þetta er samt aðferð sem virkar vel þar sem hún er notuð.
Jón Pétur Líndal, 12.12.2010 kl. 21:34
Ómar: Ég er alveg sammála þér með efri myndina. Enda var ég ekki að vísa í þessi tvö dæmi heldur meira almennt.
kkv, Samúel Úlfr
Samúel Úlfur Þór, 13.12.2010 kl. 00:06
Ég er reyndar á þeirri skoðun að stæðin séu einfaldlega of lítil.... Alveg sama hversu vel maður leggur og náunginn við hliðina á manni, þá þarf maður alltaf að troða sér út úr bílnum. Það mætti halda að þeir sem setji þessa staðla varðandi stærð bílastæða séu ekkert að huga um hvort að fólk geti opnað hurðina án þess að rekast í næsta bíl.
Mín næsta fjárfesting verður klárlega bíll þar sem hurðin opnast upp...frekar en út...þ.e. þegar kreppan er búin :-)
Jón (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 14:38
Ég var á vakt í dag upp í Spöng í Grafarvogi. Þar kemur maður á stórum og miklum hlandbrúsa (landcruiser) og leggur skrjóðnum á stéttina fyrir framan búðina. Ég stekk út og bendi honum á að þetta sé ekki bílastæði. Þá fæ ég bara kjaft og skammir og ég skuli ekki skipta mér af því sem mér kemur ekkert við. Ég sagði við hann að annað hvort myndi hann færa bílinn eða ég myndi hringja á lögguna. Hann neitaði að færa bílinn og var ekki sáttur þegar löggan var kominn að sekta hann þegar hann kom svo út aftur. Ég benti honum á að taka hjólastólinn með í næstu búðarferð fyrst hann ætti svona erfitt með gang
Öryggisvörðurinn (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 20:24
Mig langar að benda ykkur á bílastæðin við Elkó/krónuna í Smáranum. Þeir eigendur fengu það í gegn að þrengja og stytta bílastæðin þannig að venjulegur fólksbíll lendir í vandræðum við það eitt að reyna að leggja venjulega vegna þrengsla. Eins lendir sá í vnadræðum sem ætlar að bakka út úr stæðinu vegna þess hversu stutt það, en hann er þá komin beint í bílinn fyrir aftan á næsta stæði. Allt var þetta samþykkt af einhverjum embættismanninum til þess eins að hægt væri að auglýsa mun fleiri bílastæði í boði en í raun ætti að vera. Hvernig stendur á þessu...????? Ég held að fólk þurfi að skoða þetta líka. Þegar svona verslunarkjarnar gera bílastæðin svo þröng, er þá nokkuð undarlegt að fólk taki tvö stæði svo það sé ekki með hurðar og rispufar eftir næsta bíl þegar fólk þarf að "TROÐA" sér inn í bílinn vegna þess hversu stæðið er þröngt. Mér finnst að fólk ætti að kynna sér þetta áður en það kemur með svona sleggjudóma um að fólk sé að leggja svona að einskærri illkvittni. Staðreyndin er sú að búið er á mörgum stöðum að minnka bílastæðin þannig t.d. að venjulegur amersíkur fólksbíll, þá er ég ekki að tal um jeppa, lendir í algjörum vandræðum við það eitt að leggja í slíkt stæði. Væri ekki nær að fara eftir gömlu reglugerðinni um stærð bílastæða, því ekki erum við öll komin á smábíla ennþá.
Kveðja. Sigurður
Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.