13.12.2010 | 20:36
Hvað um refinn fyrir landnám ?
"Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?" spurði Snorri goði á Alþingi árið 1000 eftir að ásatrúarmenn höfðu sagt að goðin væru reið með því að láta hraun stefna ofan af Hellisheiði í átt að Hjalla í Ölfusi þar sem einn hinna hálfkristnu bjó.
Nú fórna margir höndum yfir því að vegna minnkandi veiða á ref sé hann farinn að færa út kvíarnar og hafi meira að segjua komið inn í Reykjavík í nokkur ár.
Skiljanleg er andúð sauðfjárbænda á refnum ef hann gerist nærgöngull við fé. Hins vegar er varla mikil ástæða til þess að óttast að vegna minnkandi veiða á refnum muni hann ógna dýra- og fuglalífi.
Sé svo, má spyrja: "Hvernig hélt dýra- og fuglalíf velli fyrir landnám, þegar enginn var maðurinn til þess að halda refnum í skefjum?"
Ekki étur hann gróður í görðum eins og ört fjölgandi kanínur gera. Og ekki er hann jafn skæður gagnvart fuglalífi og minkurinn.
Sagt er að það verði að fara í veiðiherferð til Hornstranda til að bjarga fuglalífinu þar og koma í veg fyrir útstreymi refs úr friðlandinu suður til annarra landshluta.
Þegar ættgöfugasti landnámsmaðurinn, Geirmundur heljarskinni, nam land á Hornströndum, hefur það varla gerst ef refurinn, sem þá hafði verið óáreittur um aldir, hefur verið búinn að eyðileggja þar fuglalífið.
Staðkunnugir menn segja að fuglalífi hafi hrakað mjög í friðlandinu eftir að hætt var að veiða ref þar og kenna refnum um stórfækkandi fugl í fuglabjörgunum.
Það er reyndar alveg nýtt ef refurinn á allt í einu auðvelt með að fara niður brött björg, því að hann er meira að segja hægfara undan venjulegum brekkum. Og hvers vegna fór hann þá ekki eyðandi lífi um björgin áður en Geirmundur heljarskinn kom að landi?
Ég held að skýringin á fækkun fugls í fuglabjörgunum sé hin sama á Hornströndum og í kringum allt land, sem sé sú að um sé að kenna skort á æti, einkum sandsíli.
Áð minnsta kosti verður refnum kennt um stórfækkun lunda í Vestmannaeyjum.
Oftast leitar náttúran sjálf jafnvægis milli tegunda ef hún er óáreitt af mönnum.
En ef menn eru svona ógurlega hræddir við refinn mætti kannski hugsa til þess að bjóða upp á veiðar á honum að breskum sið og græða á því líkt og fenginn er gróði af hreindýraveiðum.
Refurinn er kominn til Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vistkerfi landsins eru meira og minna röskuð.
Eitt er það sem forvitnilegt væri að rannsaka: bæði minkur og refur hafa svipuð lífsmynstur, hvoru tveggja helga sér óðul, veiðisvæði sem eru varin með kjafti og klóm ef önnur dýr voga sér inn fyrir merkingarnar.
Þegar minkurinn slapp úr loðdýrabúunum, var refur veiddur miskunnarlaust um allt land. Voru þær veiðar til þess að opna landið og nánast bjóða minkinn velkominn í veiðilendur rebba?
Nú er töluverður stærðarmunur á ref og mink og er minkurinn erfiðari þar sem hann er minni og á auðveldar með að forða sér þegar hann skynjar hættuna. Hvernig er þegar veiðilendur/óðul minka og refa skarast?
Margt hefur verið rannsakað af Páli Hersteinssyni en sjálfsagt er sitt hvað sem ekki er alveg ljóst. Minkurinn hefur mun auðveldara að koma sér fyrir á nýjum stöðum. Þannig hefir verið rannsakað á vegum Náttúrurfræðistofu Vesturlands í Stykkishólmi að minkurinn hefur haslað sér völl í grjótinu sitt hvoru megin við nýju brúna sem þverar Kolgrafarfjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Fuglalíf hefur breyst vegna þessa.
Þarna er ekki vitað að refur hafi verið að staðaldri þó einstök „hlaupadýr“ kunni að fara víða.
En eigum við ekki að taka refinn í sátt? Sjálfur er eg með dálitla spildu norðarlega í Mosfellsbæ og er þar gamalt refagreni skammt frá. Hef stundum gaman af að kalla vingjarnlega til hans og bið hann að gæta spildunnar fyrir rollunum en þar hefi eg verið að rækta ýmsar trjátegundir sem rollunum þykir gómsætar. Svona er nú það. Bóndinn hatar refinn vegna þess að rebba finnst lambakjöt gott. Mér finnst gott að vita af refnum passa upp á að rollur geri sig ekki nærgöngular við safaríkar trjáplönturnar.
Kannski bændur ættu að hætta að reka sauðfé á fjöll og heiðar en halda sauðfé fremur í beitarlöndum í grennd við bæi. Það er einnig mikill sparnaður að þurfa ekki vikum saman að eltast við eftirlegukindur frtam undir jól á varasömum afréttum í misvondum veðrum.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 13.12.2010 kl. 20:53
Rafmagnslínur,bílar og girðingar er eitthvað sem var ekki fyrir landnám. Tekur svona milljón fugla á ári hér á landi. Þannig að mönnum ber skylda að halda honum í skefjum til að vega upp á móti þessum skaða á fuglalífinu af manna völdum. Svo mætti bæta minknum á lista þess skaða sem menn valda og margt fleira.
Sveinn (IP-tala skráð) 13.12.2010 kl. 22:13
Hér skrifar nú gamall "refur" sem talsvert hefur þurft að tuskast við vargfugl og gera sínar ráðstafanir gagnvart ferfættum ófénaði. Ég skal gefa ykkur smá pistil, sem kannski mætir gagnrýni, nú eða (vonandi) gagnast sem innsýn í það flókna kerfi sem samspil rándýra og þeirra fórnarlamba er.
Ekki fyrir of viðkvæma.
Byrjum á einföldu dæmi, - refum og kanínum. Það er í "statískri veröld" þar sem ekki koma aðrar tegundir inn í. Grundvöllurinn er að fjölgunarhraðinn er misjafn, kanínurnar líða ekki svelti, en það gerir refurinn þar sem hann lifir á kanínum. Skoða grafið hérna:
http://www.scipy.org/Cookbook/LoktaVolterraTutorial?action=AttachFile&do=get&target=rabbits_and_foxes_1v2.png
Þetta færi þegar í þrívídd ef tekið væri tillit til árferðis, og svo í ótrúlega margar áttir ef aðrar dýrategundir bætast í jöfnuna, þ.m.t. maðurinn.
Grunnurinn er þó sá að rándýr í ætisleit nær að fjölga sér að þeim mörkum sem hægt er. Við friðun hækka þessi mörk. Við eftirgjöf gildir reglan að ef þú réttir litlaputta þá er étinn handleggurinn.
Rebbi kallinn kannar sín svæði og er frekar mannafælinn, og aldeilis hundfælinn, og sjálfsagt bændafælinn. Það er mjög eðlilegt að hann færi sín mörk nær byggð ef ekki er á hann sótt, annað hvort vegna hundleysis, mannfæðar, auðvelds ætis, eða dáðleysis í refadrápi.
Hið sama gildir um Hrafna, Máva, og Minka. Og Nota Bene, ætið er það sama að mestu, en Rebbi hefur það þó fram yfir að geta tekið miðsumarslamb og drepið, - takist það ekki drepst kannski lambið, eða kemur hryllilega útleikið í byggð við smölun. (Hálft andlitið étið af).
Minkurinn sker sig úr með drápsæði sínu. Refur í hænsnahúsi tekur eitthvað og læðist á brott. Minkurinn drepur allt sem hann nær í, - étur lítið eitt, enda ekki stærri en köttur.
Soltnir mávar og einnig hrafnar eiga það og til að leggjast á fénað ef æti er of lítið. Þeir eru fljótari til en nokkurt loftferðareftirlit ef það kemur til að skepna lendi í afveltu, eða eigi tafsaman burð eða köstun.
Bændur landsins eiga af þessu sára reynslu, og ber þá að meta hana. Því miður er ég einn í þeim hópi sem þurfti að eiga við vargfugl, og svo kollegar mínir sem ýmist áttu við mink eða ref.
Við upplifðum sitt á hvað, - Folöld og lömb sem misstu augun í fuglskjaft í fæðingu, afveltufé sem var vambétið hvar það lá, lömb af fjalli sem komu með hálfan hausinn heim, hænsnakofar þar sem allur fénaður lá dauður, og svo stórfelldur fellir á mófugli og vaðfugli vegna minka og vargfugls.
Með aðgerðum er hægt að færa þessi "landamæri" frá sér, frekar en að leyfa þeim að færa sig að sér þar til rebbi fer að gæða sér á heimiliskettinum á meðan mávurinn drullar á heimilisbílinn (í millitíðinni tyggur minkurinn kaplana við alternatorinn)
Ég fór nú þannig að, að ég skaut vargfugl í hundraðavís og upprætti hreiður. Ég losnaði við vandann, en grannar mínir einhverjir lentu verr í og fengu m.a. salmonellu vandamál o.þ.h. þar sem það er gjarnan fylgifiskur. Kunningjar minn með sauðfé skutu ref eins og í náðist bara til að "halda línunni". Það fylgja því andvökur ef tófan er að gagga utan við lambhúsin.
Svo eru til fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og að leyfa búshundinum að ganga við opið. Hann merkir sitt svæði, og tófan aktar það. Góðir sveitahundar drepa líka mink. Bæði Refir og Minkar dragast að t.d. hænsnum (Ómar hefur nú sungið um þetta), en laus hundur er þeirra besti verndari. (Það má ekki hafa lausa hunda, hverskonar mismunun er þetta á "Canis" ættinni???")
Sem sagt, málið er ekki einfalt, og erfitt að lesa sér til um það, jafnvel erfiðara að upplifa það. En í prinsippinu gildir þrennt:
1. Þegar vargfénaður færist nær byggð og bóli, þá er hann í yfirfjölda miðað við æti.
2. Mannskepnan getur auðveldlega haldið sinni línu með þetta, kjósi hún svo.
3. Náttúran er sínum breytingum undirorpin. Ekki eru þó allar frjálsar náttúrubreytingar (jafnvel með manna hjálp) til bóta.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.12.2010 kl. 01:19
Ég vill benda á, hvort sem þér líkar það betur eða verr Ómar, þá erum við hluti af þessari náttúru og höfum sama rétt og rebbi til að veiða í henni. Ef við ætlum að leyfa náttúrunni að ná einhverju "jafnvægi" án okkar þá verður nú lítið sem gefur tilefni til þess að hafa hér búsetu.
Við höfum tekið frá land til að byggja, (virkjanir, vegakerfi, brýr og hafnir og þar með spillt mikilvægu vistkerfi sem þrífst á þeim stöðum
Við höfum tekið land frá náttúrunni til að rækta dýr - sem þýðir minni fæðu fyrir villt dýr og minna land fyrir þau til að athafna sig.
Við veiðum fisk - sem þýðir minni fæðu fyrir dýrin í sjónum.
Ef menn ætla út í einhverja náttúrujafnvægis rökhugsun þá verða menn að fara alla leið með það. Það þýðir ekki alltaf að tala um það sem hentar þeim best hverju sinni en láta afganginn bíða í einhverjum endalausum populisma alltaf hreint.
Þrátt fyrir að menn hafi herjað á ref frá landnámi þá lifir hann enn, og er jafnvel að fjölga sér. Ef ekki hefur tekist að gera út af við hana hingað til, hvað í ósköpunum gefur tilefni til þess að láta refinn í friði. Það verður varla gert út af við hann úr þessu er það?
Valgeir , 14.12.2010 kl. 21:08
Það er hárrétt hjá Ómari, hvernig hélst þetta allt í jafnvægi áður en mannskepnan nam land hér ? Þessu hefur engium "refahataranum" tekist að svara. Náttúran sér auðvitað best um sitt jafnvægi sjálf. Það er bara afskiftasemi mannsins sem raskar því. Því minni afskipti, því betra.
HjaltiStef (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.