Léleg þjóðbraut.

Kannski finnst einhverjum það skondin frétt að leggja skuli hraðbraut milli Moskvu og St. Pétursborgar eins og nú er rætt um.

Moskva er fjölmennasta borg meginlands Evrópu með meira en 10 milljónir íbúa og St. Pétursborg er næststærsta borg Rússlands með meira en 5 milljónir íbúa. Mætti því ætla að milli þessara tveggja borga, sem hafa samtals 50 sinnum fleiri íbúa en allt Ísland, hefði fyrir löngu verið búið að leggja betri braut en milli Hveragerðis og Selfoss. . 

En það er nú eitthvað annað. Eitt af því, sem kom mér mest á óvart þegar ég fékk mér bílaleigubíl í Moskvu fyrir nokkrum árum og ók meiri hluta leiðarinnar þaðan til St. Pétursborgar, var hve ömurlega lélegur þessi vegur var og er, aðeins ein akrein í hvora átt og á köflum grófur og illa farinn. 

Allar áætlanir mínar um að vera snöggur að fara frá Moskvu til Demyansk ruku út í veður og vind.

Þetta var alls um 900 kílómetra akstur fram og til baka og hér heima hefði verið lítið mál að klára það á einum degi.

En ferðalagið tók 20 klukkustundir eða næstum tvöfalt lengri tíma en samsvarandi ferðalag á Íslandi. 

Þetta er svosem ekkert einsdæmi í öðrum löndum. Þegar ekið er frá Osló til Gautaborgar er E6 vegurinn aðeins ein akrein í hvora átt lengi vel þegar ekið er í suður frá Osló. 

Það er ekki fyrr en komið er suður fyrir Svínasundsbrúna sem leiðin kemst að staðaldri í efsta gæðaflokk. 

Lélegt vegakerfi Rússlands hefur ekki haft tóma ókosti. Í innrás Þjóðverja 1941 var það ein meginástæðan fyrir vandræðunum, sem Þjóðverjar lentu í við að koma vistum og hergögnum til herja sinna að ekki sé minnst á vandræðin sem sköpuðust í haustrigningunum þegar farartæki þeirra festust í for og eðju á "vegunum." 

Og kreppan forðaði okkur Íslendingum frá innrás Þjóðverja vegna þess að engir flugvellir voru í landinu og þeir stóðu í þeirri trú að ekki væri hægt að koma hingað flugflota strax á fyrsta degi til þess að ná yfrirráðum í lofti sem gerði þeim kleift að halda bresks flotanum frá landinu. 

 


mbl.is Gefa grænt ljós á umdeilda hraðbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ohhhh...20/7 eru bara tæpir 3 Ómar. Blessaður líttu yfir textann og kalkúlerínguna, þarna er eitthvað skakkt.

Og svo eigum við alltaf eftir að heyrast betur varðandi Demiansk...með öðru.

JónLogi (IP-tala skráð) 14.12.2010 kl. 20:55

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aldeilis óskiljanleg innsláttarvilla, Jón Logi! Laga hana strax og þakka þér kærlega fyrir.

Ómar Ragnarsson, 14.12.2010 kl. 22:12

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

smá leiðrétting.. E6 er 4 akreyna braut frá Oslo til Svínasunds.. og áfram nær alla leið til Gautaborgar, en svíar eru að byggja við E6 enn sem komið er :)

Óskar Þorkelsson, 14.12.2010 kl. 23:46

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ók þessa leið síðast milli fyrir aðeins tveimur árum og þá var E6 ennþá aðeins með tvær akreirnar fyrir fólksbíla fyrsta kaflann til suðurs frá borginni en ein akrein var eingöngu ætluð strætisvögnum og leigubílum.

Á þessum kafla liggur vegurinn lengst af utan í miklum bratta með mörg hús mjög nærri veginum og það má eitthvað mikið hafa gerst á þessum stutta tíma til að þetta hafi breyst. 

Ómar Ragnarsson, 15.12.2010 kl. 00:09

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þeir opnuðu nýja E6 fyrir 2 árum :) þú hefur bara rétt misst af því.. komnar 2 bomstöðvar 20 kr í hvora á leiðinni frá Moss til svínasunds..  Gamli e6 er orðin innansveitarvegur

Óskar Þorkelsson, 15.12.2010 kl. 00:13

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ahh þú ert að tala um kaflann sem er inni í Oslo milli miðbæjarins og nordstrand og inn á mosseveien.. hann er enn í smíðum en komin göng frá operunni og undir bergið fyrir ofan ulvöyja pg Malmöyja.. þessi kafli verður tilbúin í lok 2012

Óskar Þorkelsson, 15.12.2010 kl. 00:15

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

http://www.nrk.no/nyheter/distrikt/ostfold/1.6523930

annars er kaflinn sem ég nefni hér að ofan partur af e18

Óskar Þorkelsson, 15.12.2010 kl. 00:29

8 identicon

Það mest áhugaverða í þessum pistli hjá þér er þetta með Þjóðverjana og erfiðleikana sem þeir lentu í í Rússlandi. Þetta er ein ástæðan fyrir því að Eisenhower, þegar hann varð forseti, setti af stað vinnu í að byggja Interstate Highway System þvers og kurs yfir öll Bandaríkin. Gamli hershöfðinginn áttaði sig á mikilvægi þess að geta flutt hergögn og vistir á auðveldan hátt og með miklum hraða um miklar vegalengdir. Afleiðing þessa mikla og góða vegakerfis voru stóraukin viðskipti milli ríkja og Bandaríkin urðu í raun einn stór markaður í stað margra minni áður. Þessi samgöngubót varð því ákveðinn prímus mótor í hagkerfi Bandaríkjanna.

http://en.wikipedia.org/wiki/Interstate_Highway_System

En hvar fékk Eisenhower hugmyndina? Líklega frá Adolf gamla:

http://www.time.com/time/magazine/article/0,9171,788965,00.html

En Ómar, veist þú hvernig það var með Kanann og Ísland. Mér skilst að eitt af því sem Kaninn bauðst til að gera á Íslandi var að byggja öflugan veg allt í kringum landið, American style highway, en það vera einhverra hluta afþakkkað. Annað hvort vegna vinstri stjórnar eða einhverrar pólitíkur. Þekkir þú þessa sögu?

Annað stórslys sem hefur orðið í samgöngusögu Íslands er að hægri stjórn Jóns Þorlákssonar fór frá og í staðinn kom stjórn Tryggva Þórhallsonar með Jónas frá Hriflu. Jón Þorláksson, verkfræðingurinn sem varð forsætisráðherra, var með áætlanir um að byggja járnbrautarlest frá Reykjavík austur á Selfoss, í stærsta landbúnaðarhéraðið. Eftir þá framkvæmd hefði áreiðanlega verið haldið áfram með uppbyggingu járnbrautarkerfis á Íslandi, lengra austur, á vesturland og alla leið norður og austur. Hugsaðu þér þvílíkar stórstígar framfarir hefðu orðið á Íslandi með þessu ef við hefðum getað tengt byggðina betur saman og framleiðendur við markaði strax þarna árin fyrir 1930!

Jonni (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 09:55

9 identicon

Þekki þessa leið ekki, en þið getið farið inn á http://maps.google.com og skrunað niður á veginn, t.d. við Svinasund. Það er líka skemmtilegt að nota Google Street View, þ.e að draga gula karlinn sem er efst á stikunni sem maður notar til aðdráttar (Zoom) og setja hann niður t.d. á brúna yfir Svínasund. Þá er hægt að nota músina til að snú sér í hring. Þessi brú virðist nýleg en ofar sést gömul en falleg brú.

Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 11:34

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þjóðverjar komu sér upp afburða járnbrautakerfi fyrir 1914 til þess að geta flutt sem stærst herlið á sem skemmstum tíma milli vestur- og austurvígstöðvanna.

Hitler lét síðan gera ekki síðra hraðbrautakerfi fyrir 1939 í sama tilgangi.

Ómar Ragnarsson, 15.12.2010 kl. 14:35

11 identicon

Við það má bæta nokkru.

- Járnbrautarkerfið var ekki nothæft til sóknar austur um, vegna mismunandi sporvíddar. Sama gilti reyndar um Spán, - gæluverkefni Hitlers um að taka Gíbraltar landmegin frá gat einungis gengið upp með samstarfi við Spánverja, - sem ekki varð þrátt fyrir tilraunir í þá áttina.

- Ein af aðal tengingunum austur um (junction) var í Dresden.

- Hraðbrautirnar voru snilldin ein og á heimsmælikvarða. Gerðu leifturstríðið yfir Niðurlönd mun hægara.

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 13:38

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sögu „hraðbrauta“ má líklega rekja aftur til Rómverja, jafnvel enn aftar í tímann.

Nútíma hraðbrautir var byrjað að byggja 1924 og það var á norður Ítalíu undir stjórn ítalska verkfræðingsins Puricelli. Var sú hraðbraut milli Mílanó (Mailand) og Lombardisku vatnanna vestan við Verona á norður Ítalíu.

Fljótlega eftir valdatöku nasista var tekin ákvörðun um byggingu hraðbrauta (Autobahn) í Þýskalandi. Var dr. dip.ing. Fritz Todt yfirmaður þýsku Vegagerðarinnar sem hélt utan um þessi gríðarlegu verkefni sem áttu mikinn þátt í að grynnks á áhrifum kerppunnar í Þýskalandi.

Tengdafaðir minn starfaði sem verkamaður við gerð hraðbrautar en var fljótlega tekinn úr þeirri erfiðu vinnu þar sem hann hafði stundað nám í tónlist. Hann kvað þetta hafa verið gríðarleg áhrif til hins betra, loksins hafði fólk fengið einhverja von um betra líf með launaðri vinnu en hann var fæddur og uppalinn í smáþorpi í fremur fátæku landbúnaðarhéraði.

Um sögu hraðbrauta má t.d. finna umtalsmikinn fróðleik á heimasíðunni: http://www.autobahngeschichte.de

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.12.2010 kl. 13:39

13 identicon

Svo fyndið sem það er, þá hefur margur maðurinn skrönglast um Rómverska vegi og svo hraðbrautir þriðja ríkisisns án þess að hafa hugmynd um það. Todt kallinn varð reyndar frægur seinna meir fyrir sínar organíseringar með vinnuþræla, en það er efni í aðra færslu.

Sporvíddin og svo brautarvíddin er svo efni í heila bók. Rómverjar stöðluðu sínar brautir m.v. algenga öxulvídd á 2ja hesta kerrum, og hefur það skapalón lafað til nútímans svona nokkurn veginn. 2 hrossrassar á breidd ákváðu t.a.m. vegbreidd upp á burð, og seinna var þessu framfært í spor járnbrauta. Öxulmál sumsé.

Annars ætlaði ég að færa aths á þetta frá Ómari:

"Og kreppan forðaði okkur Íslendingum frá innrás Þjóðverja vegna þess að engir flugvellir voru í landinu og þeir stóðu í þeirri trú að ekki væri hægt að koma hingað flugflota strax á fyrsta degi til þess að ná yfrirráðum í lofti sem gerði þeim kleift að halda bresks flotanum frá landinu. "

Þjóðverjum tókst með flugstyrk sínum ekki einu sinni að halda Breska flotanum frá við Dunquerque, og var það allt niður í 5 mínútna flug fyrir Luftwaffe, al-óáreitt, pakkað af Rússabensíni og velfóðrað af sjálftökubirgðum frá Frökkum.

Leyfi mér því að vera frekar ósammála....

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 17:35

14 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er tvennt ólíkt að sigra her úr lofti eða lenda flutningaflugvélum fullum af hermönnum Jón Logi ;)

Óskar Þorkelsson, 16.12.2010 kl. 18:24

15 identicon

Það er eitt að lúskra niður innikróaðan her úr lofti. Sennilega var Dunquerque eitthvað besta dæmið um það hversu örðugt það var. Örstutt flug og lítt um loftvarnir, en dæmið sem töluverðu breytti var það að andstæðingurinn hafði flugher.

Það er líka eitt að lenda flutningavélum fullum af hermönnum. Það var sýnt í Hollandi 1940, og svo eftirminnilega á Krít aðeins seinna, - með allnokkri blóðtöku þó. Síðar víða um heim, ýmist með því að lenda, eða bara láta kallana hoppa, eða bæði. Normandy, Arnhem....

Svo er enn eitt að forða liði í burtu, - Demiansk, Túnis, Stalingrad......en ekki var það þó allt með glæstum árangri. Flutningsgeta Þjóðverja í lofti rýrnaði strax illilega 1940 í Hollandi, fór illa á Krít, Stalingrad og Túnis áttu samleið í tíma, og svo illa fór fyrir öxulveldunum í Túnis 1942-1943 að Þjóðverjar fluttu fluglið (orrustuvélar, steypiflugvélar og sérstaklega flutningavélar) frá innikróuðu liði sínu í Stalingrad til þess að flytja lið frá Túnis til Sikileyjar. Fengu þar margir vota gröf á Miðjarðarhafi, og stríðsfangar Bandamanna urðu þó á fjórða hundrað þúsund.

Enn og enn eitt er svo að halda uppi birgðum fyrir her í aksjón. Að gera það úr lofti krefst mikils, og frægustu dæmi sögunnar eru 2, - Stalingrad og Arnhem.

Í Stalingrad var flutningsgetan einfaldlega engan veginn nóg, og innikróað lið Þjóðverja leið skort á öllum sviðum.

Í Arnhem var flutningsgetan alveg nóg hjá Bandamönnum, en þótt Kóngur vilji sigla, þá mun byr ætíð ráða, - erfitt skýjafar gerði aðflutning á birgðum (svo og stuðning annan úr lofti) all örðugan.

Það eitt að lenda liðinu er aldrei nóg.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.12.2010 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband