17.12.2010 | 22:22
Af hverju ekki fyrr?
"Hefnd fyrir Evrópumálin." Athyglisverð fyrirsögn vegna hjásetu þremenninganna í VG sem setja má spurningarmerki við og velta fyrir sér.
Í fyrirsögninni felst að vegna þess að VG sé á móti aðild að ESB en þingmennirnir þrír hafi á sínum tíma neyðst til að samþykkja umsóknarferlið, sem leiðir af tilgreindri umsókn í stjórnarsáttmála, hafi þótt tilefni til þess að láta þetta atriði ráða við atkvæðagreiðslu um allt annað mál sem nokkurs konar "hefnd".
Ég á erfitt með að ímynda mér að svona sé í pottinn búið, - á erfitt með að trúa því að ábyrgir alþingismenn hugsi svona.
Förum aðeins yfir ferlið. Í stjórnarsáttmála stjórnarinnar voru tvö atriði sem þremenningarnir tilgreina meðal höfuðástæðna þess að þeir grípa til þess einstæða ráðs að styðja ekki fjárlagafrumvarp eigin ríkisstjórnar, - frumvarp sem samkvæmt lögum, hefðum og eðli máls hefur algera sérstöðu hjá hverri ríkisstjórn.
Tvær vinstri stjórnir sprungu á sínum tíma út af því að augljóst var að ekki var samstaða var fjárlagafrumvörp, í árslok 1958 og svo aftur haustið 1979.
Þessi tvö atriði sem nú eru tilgreind eru annars vegar sú stefna að halda sig innan ramma AGS og hinsvegar umsókn um aðild að ESB.
Bæði þessi mál voru á dagskrá í upphafi núverandi ríkisstjórnarsamstarfs eins og stjórnarsáttmálinn bar merki um.
En þá vaknar spurningin af hverju þremenningarnir sátu ekki hjá strax þegar stjórnin var mynduð úr því að slík grundvallaratriði voru þeim ekki að skapi.
Hvers vegna ákváðu þau að bíða og sjá hvernig mál þróuðust og ákváðu nú að skerast úr leik?
Það er rétt hjá Lilju Mósesdóttur að eitt af því sem stuðlaði að skertu valdi Alþingis og veikluðu lýðræði í aðdraganda Hrunsins var hið svonefnda foringjaræði og ofríki framkvæmdavaldsins gegn löggjafarvaldinu.
En af frásögn hennar af skammvinnri setu hennar í starfshópi vegna fjárlagafrumvarpsins er svo að sjá að aðrir í þeim hópi hafi verið nokkuð samstíga í að vera henni ósammála.
Lilja túlkar það sem afleiðingu af "foringjaræði" og vænir þar með aðra í hópnum um þýlyndi við forystufólk stjórnarflokkanna.
En var það svo? Það er erfitt að standa utan við þann hóp og reyna að svara því.
Starfshópurinn sýnist einmitt hafa sýnt viðleitni foringjanna til þess að þingið tæki vaxandi þátt í gerð fjárlaganna og þegar Lilja segir sig síðan úr hópnum finnst sumum að hún eigi erfitt með að kvarta yfir því að hafa ekki verið boðið að vera með í ráðum.
Hennar svar er að hópurinn hafi ekki viljað láta vinna útreikninga á þeirri útfærslu, sem hún vldi bjóða upp á, og við höfum ekki heyrt svör frá hópnum, hvers vegna svona fór.
Ef við tökum handboltaleik sem hliðstæðu, létu þremenningarnir greinilega til leiðast á sínum tíma að spila í liði á leikvelli Alþingis þar sem skipt var í tvö lið, stjórn og stjórnarandstöðu, og samþykkt var fyrirfram ákveðin leikaðferð með ákveðinn leikstjórnanda.
Það sem gerðist í gær jafngilti því að vegna óánægju með leikaðferiðina væri hætt að spila inni á vellinum og sest á bekk á hliðarlínunni og spilað á hvorugt markið í trausti þess að eftir sem áður væri liðsheildin inni á nógu sterk til þess að halda í við mótherjana.
Gefa um það yfirlýsingar að þegar þeim líkaði við spilamennskuna kæmu þau inn á og myndu sjá til þess að lið þeirra kæmist hjá ósigri.
Lilja vísar til þroskans hjá nágrannaþjóðunum sem geta haft minnihlutastjórnir sem komast að samkomulagi við nógu marga úr meirihlutanum til þess að geta komið fram málum.
Rétt er það að þetta getur gengið upp og væri æskilegast að það væri alltaf þannig, en það getur líka farið á þann veg sem er til dæmis í Ísrael, þar sem örfáir þingmenn á jaðrinum geta haft áhrif á stjórnarstefnuna langt umfram hlutfallslegt fylgi sitt.
Það hefur áður gerst að stjórnameirihluti hefur orðið valtur hér á landi vegna sérálits stjórnarþingmanns. Það gerðist í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens þegar Guðrúnu Helgadóttur greindi á við stjórnina i svonefndu Gervasoni-máli, en Gervasoni þessi var landflótta útlendingur hér á landi.
Stjórnin slapp fyrir horn enda hefði orðið fáheyrt ef stjórn hefði sprungið út af slíku máli.
Fimm sjálfstæðisþingmenn ákváðu í upphafi ferils Nýsköpunarstjórnarinnar haustið 1944 að styðja ekki þá stjórn. Hún hafði þó nægan meirihluta og þegar frá leið komu þessir þingmenn inn í myndina.
Kannski hefði verið betra að þremenningarnir í VG hefðu staðið þannig að málum.
Í stjórnmálum eins og svo víðar í lífinu, standa menn oft frammi fyrir tveimur kostum.
Þingmenn núverandi stjórnarflokka vita að kostirnir eru skýrir, einn nokkuð augljós, en þrír aðrir kostir hugsanlegar afleiðingar af því að velja ekki kost 1.
1. Núverandi stjórn sitji áfram. Annars í meginatriðum um eftirfarandi kosti að ræða:
2. Ný stjórn verði mynduð og óhjákvæmilegt að Sjálfstæðisflokkurinn eigi aðild að henni. Stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks myndi strax fá nafnið Nýja Hrunstjórnin. Styrkur VG sem heildar hefur veiklast og gerir stjórnarmyndum með þeim flokki erfiðari en ella, auk þess sem slík stjórn yrði að vera þriggja flokka stjórn. Þjóðstjórn er varla í spilunum því að vantraust almennings gagnvart Alþingi sem heild er mikið.
3. Stjórnarkreppa og mynduð utanþingsstjórn. Fæli í sér uppgjöf Alþingis sem þingið getur illa látið á sig sannast ofan á það sem gengið hefur á undanfarin ár.
4. Stjórnarkreppa og kosningar. Mikið óvissuspil og alltaf erfitt fyrir sitjandi stjórn sem á í erfiðleikum.
Þegar þingmenn stjórnarflokkanna líta á þessa kosti er hætt við að mikið þurfi til, til þess að þeir leggi í að láta núverandi stjórn falla.
Þetta virðist stefna í að valið verði kostur 1 og ákveðið áhættuspil sem felst í því að með því að veikla stjórnarmeirihlutann er hættan á stjórnarslitum aukin.
Á hinn bóginn myndi sá stjórnarmeirihluti sem samþykkti þó fjárlögin taka mikla áhættu með því að sundrast frekar en orðið er og láta stjórnina falla.
Ástandið býður upp á áhættuspil sem vandasamt er að spila og óvissuþættirnir virðast einfaldlega of margir og stórir til þess að í bili verði stjórnarslit, hvað sem síðar verður.
Hefnd fyrir Evrópumálin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.