17.12.2010 | 22:46
Af hverju fóru ekki fleiri Þrengslin í dag ?
TF-FRÚ stendur enn á túni rétt við Hvolsvöll hjá Jóni Loga bónda. Mér leist ekkert á veðrið og þótt hún sé ágætlega bundin ákvað ég upp úr hádeginu í dag að skjótast austur til að vera nálægur ef þetta ætlaði að verða mun verra en spáð var.
Flaparnir á vélinni eru stilltir þannig að þeir frjósi ekki fastir við vænginn ef frystir eftir rigningu, en í svona stillingu fá vængirnir meiri lyftikraft en ella, en það getur munað um slíkt ef bálhvasst er.
Flugvélar eru nú hannaðar til þess að lyftast þegar loftstraumur leikur hratt um þær.
Ég tók með mér varahluti, sem mér voru gefnir í Súkkujeppa sem er bilaður við Selfoss til að skutla þeim austur í leiðinni.
Ég fór Þrengslin og yfir Óseyrarbrú en ekki um Hveragerði. Ástæðan var einföld: Veðrið er miklu skaplegra og hættuminna í Þrengslunum og niðri við ströndina en undir Ingólfsfjalli í hvassri norðanátt og þetta munar aðeins tíu mínútum í akstri.
Nánast engin umferð var á þessari leið og það sagði mér að fólk virðist alveg tilbúið til að hætta eigum sínum og taka áhættu á meiðslum fyrir 10 mínútna töf. Jafnvel aðeins nokkurra mínútna töf, því að það getur verið tafsamt að aka þar sem fárviðri geysar.
Í mínu tilfelli var töfin þegar upp var staðíð engin því að þegar ég kom austur var orðið ljóst, sem ég hafði reyndar reiknað með, þótt ég hefði varann á, að FRÚ-in stóð á skaplegasta svæðinu á Suðurlandi, miðað við vindáttina.
Ég fór því aðeins á Ljónsstaði sunnan Selfoss þar sem Súkkan er og síðan til baka og sparaði nokkrar mínútur við það.
Og nú spyr ég: Af hverju fóru ekki fleiri Þrengslin í dag? Í útvarpi var síbylja um að byljótt væri undir fjöllum. Þurfti að þylja líka upp nöfn fjallanna?
Tveir bílar fuku út af vegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þrengsil og fram hjá Eyrarbakka. Þá hefðiru losnað við það að fara undir Ingólfsfjall. Þess vegna upp Gaulverjabæjarveginn og beint í hlað Ljónstaða.
Njörður Helgason, 17.12.2010 kl. 23:06
Já, að sjálfsögðu. Hefði átt að útskýra þetta nánar.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 00:21
Á Nýfundnalandi er ökumönnum ekki gefinn kostur á að aka bara hvaða veg sem er, þegar veður gerast válynd og umferð þá annaðhvort stöðvuð alveg um verstu svæðin eða henni beint annað, þar sem betur hentar, ef hægt er. Íslendingar eru einstakt fyrirbæri í akstri ökutækja við slæm skilyrði. Hér ekur barasta allur staflinn beint inn í vonlausar aðstæður, á meðan gatan eða vegurinn við hliðina er greiðfær og ekki eins slæmur. Hellisheiðin getur verið varasöm, meðan Þrengslin eru greiðfær og öfugt, en eins og maurar, elta flestir bílinn á undan, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Þeir eru jú annaðhvort á leiðinni austur fyrir fjall, eða "suður"
Halldór Egill Guðnason, 18.12.2010 kl. 01:40
Hver man ekki eftir traffíkinni í Heklugosinu 2000. Á meðan heimamenn í Rangárþingi hreyfðu sig helst ekki, fylltist allt af blikkbeljum sem um allt stóðu fastar, og var mildi að engan sakaði.
Í gær voru nokkuð sprækir sviptivindar, alveg niður á Selfoss. En austar allt að Markarfljóti, - jafnvel lengra, - mun skárra.
FRÚin hreyfðist ekki um tommu.
Jón Logi (IP-tala skráð) 18.12.2010 kl. 10:18
ÉG bý einmitt í Þorlákshöfn og ek Þrengslin á hverjum degi til vinnu og stundum oftar. Veðrið er yfirleitt mun betra þar en á Hellisheiðinni og eins undir Ingólfsfjalli. Ef hægt er að tala um erfiða kafla að vetri til í veðurfarslegu tilliti þá er það við Sandskeið og Litlu Kaffistofuna sem veðrið er hvað verst. Það festir yfirleitt snjó svo heitið geti á Þregslavegi vegna þess hversu kúpt yfirborðið er. Það gerir það hins vegar að verkum að í mikilli hálku hræðist fólk að aka hann og hefur tilhneygingu til að aka á honum miðjum. En þetta er fín leið!
Sigurlaug B. Gröndal, 18.12.2010 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.